Ráðaleysi stjórnvalda er að verða okkur dýrkeypt

Ég skrifaði víst í síðustu færslu minni að ég ætlaði ekki að fjalla um kreppuna, en ég get bara ekki látið hjá líða að taka upp nokkur mál sem verða að fá eðlilega og réttláta umfjöllun og meðferð. Viðskiptaráðherra hefur verið tíðrætt um það allt frá fyrsta degi að "allir muni sitja við sama borð" og "að fyllsta jafnræðis verði gætt" ... Ég gef ekki mikið fyrir þessar þunnu klausur í dag, sem hafa frá upphafi verði sagðar af algjöru ábyrgðarleysi og sennilega fáfræði ráðherrans. Það sem ég verð að benda á nú er eftirfarandi:

1) Peningamarkaðssjóðir Landsbankans, Kaupþings og Glitnis

Þessir sjóðir hafa nú verið greiddir út og fengu t.d. þeir sem áttu í peningamarkaðssjóði Landsbankans greitt út 68,8% af virði sjóðanna eins og það var þegar lokað var fyrir viðskipti með sjóðina. Viðskiptaráðherra hefur margsinnis sagt að nýju ríkisbankarnir hafi keypt upp sjóðina á viðskiptalegum grundvelli. Raunin er hins vegar allt önnur, því af sjóðum Landsbankans stóð ekki eftir nema um 30% af virðinu og ríkið því lagt fram mismuninn við útgreiðslu sjóðanna. Þekki ekki hver hlutföllin voru í sjóðum hinna bankanna, en staðreyndin hér er sú að ríkið hefur lagt fram stórar upphæðir af almannafé til að bæta þessa sjóði til að draga úr tapi þeirra sem þar áttu inni fé. Þetta er svo sem allt í lagi út af fyrir sig en þó fátt sem réttlætir að bæta þetta tap frekar en tap annarra sem átt hafa fé í sjóðum annarra fjármálastofnana, sjá lið 2.

2) Spron, MP-fjárfestingabanki, Byr og Íslensk Verðbréf

eru líka með sambærilega peningamarkaðssjóði sem rýrnað hafa verulega í virði við hrun bankanna þriggja. Ríkið hefur ekkert komið að þessum sjóðum til að bæta þeim sem þar eiga sparnaðinn sinn. Til að fá stærðarsamhengi á þetta þá námu sjóðir Landsbanka, Kaupþings og Glitnis 250 milljörðum króna en samanlagðir sjóðir litlu fjármálafyrirtækjanna fjögurra um 20 milljörðum. Hvar er jafnræði viðskiptaráðherra í þessu máli? Á sama hátt mætti spyrja hvers vegna ríkið ákveður að bæta eignirnar í peningamarkaðssjóðum þrotabankanna þriggja  frekar en að bæta séreignarlífeyrissparnað landsmanna í þessum sömu stofnunum. Jafnræði !? Kannski er eina svarið það að ríkisstjórnin hafi ekki séð aðra leið eftir allar þær yfirlýsingar sem höfðu dunið yfir landsmönnum um að þetta væri ekki tapað fé og yrði tryggt að fullu.

3) Lán einstaklinga og fyrirtækja sem nýju ríkisbankarnir yfirtóku, þá sérstaklega í erlendri mynt

Hér er stórt mál á ferð einnig, því nýju ríkisbankarnir yfirtóku engar erlendar skuldir gömlu bankanna. Ríkisbankarnir keyptu hins vega kröfurnar af gömlu bönkunum og skulda ekkert bak við þessi lán í erlendri mynt. Erlendu lánir halda hins vegar áfram að bólgna út vegna áframhaldandi falls krónunnar og eru nú í mörgum tilfellum að nálgast tvöföldun frá því dansinn byrjaði. Þessu til viðbótar þá munu nýju bankarnir hafa keypt kröfurnar með stórum afföllum.

Því segi ég: í stað þess að vera að kyrkja bæði heimilin í landinu og fyrirtæki þá ætti ríkið réttilega að færa þessi lán yfir í íslenska mynt í samhengi við þær upphæðir sem bankarnir í raun greiddu fyrir kröfurnar. Ég get vel ímyndað mér að eðlilegt gengi væri sem dæmi EUR = 110 en ekki yfir 170 eins og nú og hef ég þá ekki tekið tillit til þess að kröfurnar hafi verið keyptar á niðursettu verði. Hvers vegna ætti svo sem ríkið og nýju bankarnir að græða á að reikna þessi lán áfram á erlendu gengi þar sem allra skuldbindingar að baki eru í íslenskum krónum. Hér þarf svör og aðgerðir strax.

 

Læt þetta duga í kvöld þó ég gæti skrifað langan pistil einnig um ranga stefnu í gengismálum og vaxtastefnu sem er úr öllu samhengi við það sem er að gerast.

Bros í bloggheima :)


Einfalt mál, sleppum einu R-i og orð dagsins verður "keppa"

Já eins og fleiri hér á blogginu þá finnst mér orðið nóg komið af krepputali og orðið kreppa einhvern veginn ekki alveg að gera sig sem mest notaða orð dagsins fyrir mér. Mér datt því í hug að bjarga mætti þessu með ofurlitlum niðurskurði. Sleppum bara r-inu og orð dagsins verður því keppa.

Það er líka nákvæmlega það sem við þurfum að gera núna. Við þurfum að keppa að því ná ná jafnvægi á líf okkar og samfélag. Keppa að því að halda atvinnulífinu gangandi, við sem í því stöndum og öll þurfum við að keppa að því að rækta vinahópinn okkar og keppa að því að ná hverju því marki sem við ætlum okkur.

Síðan er mikilvægt að halda áfram með þetta, hvetja aðra, hjálpa eða bara ræða um það sem tekst og er til framfara. Við gætum þannig sent okkar á milli keppikefli sem hvata til næsta manns, rétt eins og gert er með, hvað það nú annar heitir .. , í boðhlaupi.

Ég sendi mitt keppikefli til ykkar kæru bloggvinir og skora á ykkur að taka fyrsta skrefið í átt að auðlegðinni sem felst í vináttu og stuðningi við aðra :) 

En annars af mér, sem er eiginlega alveg hættur að blogga. Jú eiginlega bara allt gott, segi ég hálf skömmustulegur yfir að kreppan er sáralítil áhrif að hafa á mig þessa dagana. Kannski er ég bara að ýta henni frá þar sem ég hef um nóg að hugsa með minn vinnustað og heimilið. Maður stoppar vissulega við þegar eldri drengurinn spyr andaktugur "pabbi er ástæða til að hafa áhyggjur af kreppunni, er landið okkar nokkuð að verða gjaldþrota?". Auðvitað tekur maður á slíku og svarar af bestu vitund. Mitt svar til ungu kynslóðarinnar er klárt NEI, því Ísland á mikil auðæfi í þekkingu, góðu fólki, menningu og náttúru sem hægt er að byggja velsæld á. Við verðum samt ansi skuldsett fyrir blessaða "stuttbuxnadrengina" sem eignuðu sér landið um tíma.

Picture 004En nóg um það og að öðru sem er miklu skemmtilegra. Um helgina fór ég á afmælistónleika Tónlistarskóla Eyjafjarðar sem voru náttúrulega bara frábærir. Að öðrum atriðum ólöstuðum þá var ótrúlega gaman að sjá sviðið í Tónlistarhúsinu Laugarborg fullt af litlum gítarleikurum sem spiluðu saman eitt lítið rokklag, sumir spiluðu staka tóna en aðrir flóknari útfærslur allt eftir aldri og getu.

Picture 005

Mínir tveir spiluðu báðir á rafmagnsgítara og eru þarna aftast til vinstri á sviðinu.

Salurinn var meir en þéttsetinn, því fólk stóð meðfram veggjum og allstaðar þar sem pláss var að finna.

Hér er hann Kári minn eftir spilið, íbygginn að fylgjast með fiðluleik

Eftir tónleikana var svo kaffiboð í Tónlistarskólanum og þar hélt skemmtunin áfram því þar spiluðu krakkarnir og kennarar fyrir gesti og gangandi.

Picture 006

Karl minn var þar og spilaði lag sem hann samdi sjálfur og hefur hlotið mikið lof fyrir. Hér er hann að flytja lagið ásamt Marcin kennaranum sínum. Lagið hafa þeir spilað á samverustund í skólanum og einnig í heimsókn í leikskólann nú í vikunni sem var að líða, en tónlistarskólinn hefur farið um og spilað á mörgum stöðum í tilefni afmælisins.

Í gærkvöldi fór ég svo á aðra skemmtun í sveitinni, revíuna í Freyvangi. Það var mjög gaman enda mikið af góðu fólki þar saman komið. Sat til borðs með mínum góðu vinum Helga og Beate í Kristnesi, sem nú eru búin að eignast 6 kindur líka, mikið fé, og ekkert kreppuvæl í því góða fólki sem veit að lífið er ekki bara hlutabréf, hallir og afleiðusamningar. Dansaði líka heilan helling sem var ótrúlega gott fyrir sálina og fór því sæll að sofa.

Bestu kveðjur í bloggheima :)


Ræktum garðinn okkar

Erum við stór þjóð í litlu landi eða lítil þjóð í stóru landi?

Held það fari alveg eftir hugarfarinu okkar. Landið okkar er stórt ef við gætum að því sérstaklega, landrými mikið, fegurðin einskær og auðlindirnar allar til staðar sem gera landið að sannkölluðu framtíðarlandi útfrá möguleikunum til að lifa og starfa í sátt við náttúruna. Endalausir möguleikar til framleiðslu heilnæmra matvæla um leið og hér eru allar aðstæður til að njóta náttúru og umhverfis án þess að ganga á raunverulegar innistæður komandi kynslóða.

Við eru líka stór þjóð þessi litli hópur sem byggir landið. Stór af því að við höfum dug og áræði til að prófa hluti, læra og eignast reynslu, þjóð sem á sögu sem er einstök, og þjóð sem gefst aldrei upp þó á móti blási. Við erum þjóð sem hefur lært að búa við eilífa ógn náttúruaflanna, þjóð sem hefur brotist úr örbyrgð og ánauð til velsældar og sjálfstæðis. Þjóð sem hefur haft dug og þor til að standa með öðrum þjóðum í baráttu fyrir réttlæti og frelsi frá gömlu sjálfskipuðu heimsvaldaþjóðunum. Við erum þjóð sem hefur tekist að byggja upp góða ímynd meðal þjóða heims, ímynd sem er sönn og miklu stærri en landið okkar og þjóðin til samans. En nú hefur ímynd okkar skyndilega beðið mikinn hnekki. Svo stóran að ætla mætti að við værum á byrjunarreit nú, eða hvað?

Í dag keppast aðrar þjóðir við að gera gys að okkur og lítillækka okkur, rétt eins og börn sem eru að byrja að taka út þroskann, börn sem eru að kanna mörkin. "Times segir Ísland hafa orðið fyrir enn einni auðmýkingunni í dag" ... "Ísland er gjaldþrota" segja Bretar ... og svo mætti lengi telja. Blöðin, útvarp, fréttavefir og aðrir miðlar eru fullir af neikvæðum fréttum og sleggjudómum um landið okkar og okkur sem þjóð. Fréttum sem rýra okkur sjálfstrausti, sjálfsmynd og viljanum til að gera vel.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og er enn að lesa megi karakter þjóðar út úr viðbrögðum hennar og atferli gegn öðrum þjóðum, rétt eins og ummæli hvers manns í garð annars segja miklu meir um hans eigin stöðu, hugarfar og sýn, fremur en þess sem mælt er um. Þetta er ekkert nýtt í alþjóðlegu samhengi. Hversu lengi höfum við ekki þurft að fylgjast með hroka og kúgun risaþjóða eins og Bandaríkjanna í garð þeirra sem minni eru falið bak við sjálfskipað hlutverkið að vernda frið, eða gamla heimsveldisins Englands, sem nú kemur fram eins og ofvirkur krakki í Matador sem rífur öll spjöldin sem ekki hentar að fá uppí hendurnar.

Tökum ekki þátt í þessum leik kæru landar, einbeitum okkur að því að rækta garðinn okkar og látum öðrum eftir að moka sama sandinum í skóinn sinn. Þegar ég segi þetta er ég ekki að segja að við eigum ekki að verjast ásökunum og þeim órétti sem við teljum okkur hafa verið beitt, nei síður en svo. Við eigum að sjálfsögðu að leita réttar okkar, t.d. gangvart Breskum ráðamönnum vegna þeirrar ódrengilegu vinnubragða sem beitt hefur verið gegn okkur, en gerum það bara ekki með því að fara niður á sama plan, látum ekki ná okkur í sandkassann stóra. Við skulum einfaldlega fara í hljóði meðan mesti stormurinn geisar en nýta tímann til að virkja þá þekkingu og krafta sem til eru til að ná okkar stöðu á ný sem stolt þjóð í stóru landi sem tekið er eftir og virðing er borin fyrir.

Landið okkar og þjóð eru nú eins og hvert annað gott vörumerki sem orðið hefur fyrir miklum álitshnekki. Hvernig vinnum við því ímynd og traust á ný. Um þetta gæti ég skrifað langan pistil, en þetta er vinna sem ég tel að fara þurfi í af mikilli festu. Rétt eins og þegar við byggjum upp vörumerki þá þurfum við að vera mjög meðvituð um hverju við tengjumst, hverju er stýrt í umræðu, hvaða vinnubrögð við leifum okkur að nota, og hvert við leiðum sviðsljósið sem eltir okkur.

Ég mæli með alvöru stefnumótunarvinnu fyrir "Nýtt Ísland" og vel útfærðu "markaðsplani" til að byggja upp ímynd okkar og traust á ný eftir að við höfum í hljóði fyrir umheiminum farið í gegnum bakgarðinn okkar og fundið samhljóm þjóðarinnar á ný, fundið kraftinn sem gerir okkur að þjóð og viljann til að búa til betra Ísland en það sem við áttum fyrir fjármálakreppu, því þar liggja stór tækifæri. Land þar sem samheldni, gleði, ást og hamingja eiga veglegan sess hjá þjóð sem af metnaði hlúir að grunn stoðum atvinnulífsins og samfélagsins.

Fyrir mér hefur þjóðin ekki gert neitt rangt, þó svo að einn geiri hennar hafi farið nokkuð útaf sporinu, já og því miður þannig að græðgi fárra varð að stóru falli margra og rassskell fyrir okkur öll. Ég gæti best lýst því svo að fjármálageirinn féll í sömu gryfju og íþróttamaðurinn sem laumaðist til að nota vaxtarhormón þó hann vissi í laun að það væri ekki rétt og kæmi honum sjálfum í koll að lokum. Var þetta slæmt? Já þetta var slæmt, en þetta eru þó í mínum huga smámunir miðað við þau raunverulegu vaxtarhormón sem aðrar þjóðir hafa nýtt eins og t.d. Bandaríkjamenn sem laumað hafa þeim í dýr með þeim afleiðingum að "hamborgararassa" þjóðin lýður fyrir með heilsu sinni. Kínverjar sem eitrað hafa fyrir þúsundum barna með "platpróteinum" af peningagræðginni einni saman, þjóðir sem eyða heilum borgum og leggja samfélög í rúst til að ná stjórn yfir auðlindum og þjóðir sem ræna fólk frelsi og þjóðir sem eitrað hafa vatnsból vísvitandi til að leggja bæði dýr og menn að velli.

Nei kæru bloggvinir, sem þjóð höfum allavega engan meitt eða lítillægt þó við höfum verið þátttakendur í græðgikasti sem kemur illa við fjárhag mjög margra. Money is just money and not the only reason that "makes the world go around"

Bless í bili og bloggknús :)

 


mbl.is Segja Ísland hafi orðið fyrir auðmýkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt smátt gerir eitt stórt - Lausn kreppunnar í sjónmáli

Það er svo skrítið að oft þegar neyðin er mest þá bankar hjálpin uppá svo skyndilega. Þetta gerðist hjá mér í kvöld er ég fékk svo yndislegan tölvupóst sem tjáði mér að ég hefði unnið 1,5 milljónir dollara í Euro Million Lotto.

Dear Winner,

We are pleased to inform you of the result of the just concluded annual
final draws of the Euro million Lotto international programs held in spain
madrid.You are  herefore
been approve to caim the sum of 1,500,000 (One Million Five Hundred Thousand Dollars)

with the information Given : REF No: NL-L/200-26937 BATCH No: 2005MJL-
01 To file for your claim fill the form below and send it to our
payment parastatal:

Contact Person: Donald Asbury
Bank Name:La Caixa Bank Madrid Spain

Eitt andartak hugsaði ég með mér "Vá ég get keypt mér allt sem mig dreymir um" .. já jafnvel hluti sem draga að mér mestu þokkadísir heims og flogið um frjáls á vængjum einkaþotna um ævintýralönd heimsins, syndandi í ástríðum og ævintýraljóma ....

en nei svo áttaði ég mig... Mig langaði bara alls ekki í þessa peninga, allavega ekki nú á þessum hræðilegu tímum fjármálakreppunnar, hverrar afleiðingar við höfum ekki séð nema brot af enn.

Ég svaraði því Euro Lottó til baka á þá leið að ég óskaði eftir að gefa vinninginn minn, en þeir mættu velja hvort þeir sendu hann til Gordon Brown svo hann gæti greitt inná tjónið sem hann olli Kaupþing, bankanum mínum, eða þá sent peninginn beint til Davíðs í Seðlabankanum, svo ég gæti nú kannski fengið keyptan gjaldeyri á morgun þegar ég kem í vinnuna svo ekki reki allt í strand við fóðurframleiðsluna hjá okkur.

Skora á ykkur öll að gera slíkt hið sama ef lánið rekur á fjörur ykkar á þennan hátt, því margt smátt gerir eitt stórt.

Bros í bloggheima


Fæst orð bera minnsta ábyrgð

Þó svo að ég hafi sterkar skoðanir á því sem er að gerast í fjármálaheiminum ætla ég ekkert að skrifa um það núna, því persónulega finnst mér sorglegastur sá hluti sem nú er rétt hafinn, hlutinn þar sem allir reyna að slátra öllum og óttinn einn ræður för. Stór orð falla og menn bregðast við þeim með enn stærri orðum og aðgerðum eins og það eitt sé orðið ástæða hamfaranna,.. seðlabankastjóri á að hafa kostað Kaupþing 4 milljarða með einni setningu... strákarnir mínir höfðu fengið þá visku í grunnskólanum sínum að Rússland hefði bjargað Íslandi frá þjóðargjaldþroti... gamlir vinir okkar eru ekki lengur vinir, en vilja svo kannski vera vinir á ný eftir að rússar sýndu okkur vinahug, þá hópast þeir aftur í kringum okkur eins og hundar að pissa upp við staur .... NEBB ekki meir um það nú.

Eftir að ég kom heim úr vinnunni í dag ákváðum við feðgar að hleypa engu að sem hefði með fjármál að gera. Áttum fyrst kósístund saman í stofunni þar sem við horfðum á barnatímann, þó við séum kannski allir vaxnir uppúr því prógrammi fyrir löngu. Síðan var náttúrulega kvöldmatur án fréttaglamurs frá útvarpi eða sjónvarpi. Svo var bara dissað og æft örlítið á gítarana og að endingu fór pabbinn í að refressa bítlaklippinguna á þeim eldri sem síðasta vers fyrir háttinn.

Hefur ekki liðið svona vel síðan fyrir "kreppu" :)


Davíð Oddson fór á kostum í Kastljósi

447446AÉg hlustaði á Davíð Oddson í Kastljóssþætti kvöldsins, eins og ég vona að sem flestir aðrir hafi gert einnig. Að mínu mati fór Davíð á kostum í því viðtali og dró upp mjög raunsanna mynd af þeim vanda sem þjóðin stóð frammi fyrir og þeim aðgerðum sem farið hefur verið í til að bjarga samfélaginu frá gríðarlegum fjárhagsvanda til langrar framtíðar.

Ég ætla ekki að kryfja þetta neitt frekar í þessu kvöldbloggi mínu, en þeim sem lásu bloggið mitt á laugardag, meðan ég eins og aðrir beið eftir að heyra hvað yrði, má ljóst vera að ég verð ekki í hópi þeirra sem hrópa úr "glerhúsi" og vilja skipta um áhöfn í Seðlabankanum.

Sigmar stóð sig líka vel að mínu mati, eins og hans er von og vísa. Hann náði að leggja fram allar þær helstu spurningar sem hljómað hafa úr samfélaginu og úr röðum bankamannanna, sem margar hverjar hafa verið og eru áleitnar og sumar einnig mjög óvægnar. Við þessum spurningum fengum við skír svör í samhengi sem fáir geta litið framhjá. Þetta snýst um þjóðarhag, en ekki sandkassastríð fárra manna.


Örlagaríkur dagur að kvöldi kominn

Það verður ekki hjá því komist að maður velti fyrir sér atburðum dagsins og hver eftirköstin munu verða á samfélagið, atvinnulífið og fólkið í landinu okkar. Ég ætti að vera ánægður í dag með langa pistilinn minn um horfur í fjármálaheiminum sem ég skrifaði hér á bloggið á föstudaginn því á daginn hefur komið að ég mat stöðuna nokkuð vel. Ég er þó langt í frá ánægður með það því innst inni vonaði ég eins og sjálfsagt flestir aðrir að þetta væri ekki rétt mat á því sem væri að gerast.

En svona til að fara örlítið yfir atburði dagsins í dag þá vil ég fyrst þakka Geir Haarde fyrir ábyrgð, yfirvegun og skinsemi, þegar hann ákvað að tjá þjóðinni allri í beinni útsendingu frá atburðum helgarinnar og ákvörðunum ríkisvaldsins í dag. Ég hafði um helgina fengið efasemdir um hvort hann væri að valda hlutverkinu, en hann ávann klárlega mitt traust á ný í dag.

Þó svo þessar ákvarðanir hafi verið teknar er þó hvergi nærri komið fram hvað mun gerast í framhaldinu. Stóru bankarnir munu róa lífróður og nánast útilokað að þeir komist allir frá þessum hremmingum og því miður er spilaborgin sem þeir mynda neðstu spilin í mjög stór og getur því hrunið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir ákveðin fyrirtæki og einstaklinga sem þar eiga hagsmuna að gæta. En svona er lífið í heimi fjármálanna. Stóra útrásin og þensla bankanna var einfaldlega orðin of stór og áhættusöm til að litla samfélagið okkar geti réttlætt það að reyna að bakka hana uppi í þessum þrengingum nú. Við skulum bara vona það besta og að þetta skaði sem minnst þá þætti samfélagsins sem raunverulega halda hjólunum gangandi og gera samfélagið að því sem það er.

Eitt er þó sem ég sakna alveg í þessum tillögum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar og ég raunar gleymdi alveg í föstudagspistlinum mínum einnig, en það er gengi krónunnar. Hvernig náum við að rétta það af nógu snemma. Planið er auðvitað að losa um nógu mikið af erlendum fjárfestingum til þess að tryggja gjaldeyrisstreymi inní hagkerfið, en mun það nægja og mun það koma nógu fljótt. Því miður þá held ég að svo verði ekki. Ég velti því upp þeirri spurningu hvort ekki sé nauðsynlegt og raunar óumflýjanlegt að taka upp svokallaða fastgengisstefnu á ný í stað þess að horfa á krónuna í frjálsu falli. Leiðrétting á genginu er lífsnauðsynleg til að hægt sé að slá á þá óðaverðbólgu sem er í landinu, verðbólgu sem ekki er tilkominn vegna neyslu, þenslu eða eftirspurnar í samfélaginu heldur einvörðungu vegna spákaupmennsku. Þvert á móti þá eru sterk einkenni samdráttar í samfélaginu sem bregðast þarf við strax með mikilli lækkun vaxta og innspýtingu fjár til framkvæmda og þá sérstaklega á sviði hins opinbera. Stærsti brimskafl fjármálakreppunnar verður þó líklega að fá að brotna í fjöruborðinu fyrst, en við verðum að vera tilbúin til alvöru aðgerða til að ná virkri hagstjórn á ný og hlúa að atvinnulífinu og þar með fólkinu á ný.

Læt þetta duga sem pistil kvöldsins.

Bros og góða nótt í bloggheima :)


Efnahagsástandið - viljum við eymd og upplausn eða bjartsýni og uppbyggingu

Í mínum huga eigum við sem þjóð algjörlega val milli þess að hér fái kreppa og stjórnleysi að ná tökum og þess að líta raunsætt á hlutina, fyllast bjartsýni og snúum vörn í sókn. Varðandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans þá er einnig margt sem bendir til þess að helgin núna geti ráðið úrslitum um það hvorn veginn við veljum að feta, því fjármálasérfræðingar félaga á borð við Merril Lynch og fleiri virðast hafa með greiningum og umfjöllun búið jarðveginn undir að íslensku fjármálaumhverfi verði endanlega steypt um koll við opnun markaða á mánudag. Trúverðugleiki stærsta bankans okkar, Kaupþings, var allnokkur við lokun fyrir helgi, en annað gæti orðið upp á teningnum á mánudaginn hafi ekkert stórt gerst í millitíðinni.

Við getum spurt stórra spurninga eins og af hverju er svona komið og hvað er til ráða. Af umræðu fjölmiðla undanfarna daga þá hefur þjóðin og helstu ráðamenn hennar dregið sig i nokkra dilka allt eftir því hvort menn telja að ríkið hafi rænt auðmenn Glitni eða ekki og hvort ástæða þessa alls sé aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar, óstjórn efnahagsmála, eða bara tilkomið vegna atburða á alþjóðamarkaði sem við höfum dregist inní og ekki geta varið okkur fyrir sökum smæðar okkar efnahagskerfis í samanburði við umfanga íslensku bankanna.

Til að vita hvaða leið við eigum að fara er nauðsynlegt að við skilgreinum vel hvaða árangri, hvaða stöðu við þurfum að ná til að rétta af íslenskt fjármálaumhverfi og skapa atvinnulífinu (hinni raunverulegu verðmætasköpun) og heimilum landsins eðlilegt rekstrarumhverfi á ný. Einnig er mikilvægt að við gerum okkur nokkuð ljósa grein fyrir því af hverju svona er komið fyrir okkur sem samfélagi og efnahagsheild. Ég ætla því að skipta þessum hugleiðingum mínum í þrjá hluta hér á eftir:

1) Af hverju fór sem fór? og átti þetta að koma mönnum svona í opna skjöldu?
Langstærsta ástæða þess að íslenska fjármálakerfið er komið í þessa kreppu er hraður vöxtur þeirra í alþjóðlegu fjármálaumhverfi og oft á tíðum mjög glannalegur vöxtur langt umfram þá stærð og stöðu sem íslenskt efnahagslíf getur staðið bak og varið þegar á móti blæs. Þetta hefði kannski getað gengið áfram, en þá með einskærri heppni miklu fremur en að bankarnir væru að fara skinsamlega leið. Heppnin hefði verið fólgin í því að ekki kæmi niðursveifla á alþjóðamarkaði. Þetta á einnig við um stórar skuldsettar fjárfestingar íslendinga á alþjóðlegum mörkuðum sem ofan á allt annað eru að stórum hluta fjármagnaðar af útrásarfyrirtækjum bankanna.

Þessi gríðarlega þensla bankanna hefur orðið til þess að öll eðlileg hagstjórnartæki virka ekki á Íslandi. Þannig hefur m.a. sýnt sig að hátt vaxtastig Seðlabankans er ekki að hafa nein áhrif til að hemja verðbólguna. Á sama hátt er bankinn og stjórnvöld mjög illa í stakk búin að geta haft nokkur alvöru áhrif á verðgildi krónunnar, gengið, sem ræðst nú nær einvörðungu af spákaupmennsku og tiltrú alþjóðamarkaðarins á fjármálakerfi okkar en er ekki að endurspegla virði innlendrar verðmætasköpunar atvinnulífsins, vöruskipta við önnur lönd og eftirspurnar, kaupgetu íslenskra heimila. Núverandi verðbólga á Íslandi hefur þannig ekkert með þessa þætti að gera og því hefði Seðlabankinn átt að vera búinn að lækka vexti niður í eðlilegt vaxtastig fyrir löngu síðan.

Fyrir þá/þau okkar sem hafa velt fyrir sér alþjóðaviðskiptum af einhverri alvöru þá hefur ekkert gest nú sem ekki hefði mátt búast við og reyna að bregðast við. Um þetta er meira að segja hægt að lesa um í fjölda kennslubóka og greina sem voru skrifaðar áður en þessi niðursveifla hófst. Búið var að vara við flestu ef ekki öllu af því sem nú hefur gerst. Ég ætla hér ekki að fara nákvæmlega í það en en nærtækasta dæmið er auðvitað lausafjárvandi Glitnis banka sem stjórnendur segja vel rekinn og stöndugan banka allt fram í "næstum því andlátið". Á mannamáli er lausafjárkreppa bankans ekkert annað en glæfraleg útlán til langs tíma langt umfram þá stærð sem bankinn og bakhjarlar hans ráða við þar sem endurfjármögnun er aðeins tryggð til skamms tíma. Þetta eru engin ný sannindi, því þetta er bara grundvallar regla við slíkan rekstur að menn taki ekki meir áhættu tengda endurfjármögnun en viðkomandi stofnun ræður við ef þrenging verður á lánsfjármarkaði.

Það sem undrar mig hvað mest í þessu öllu er hversu þetta ástand Glitnis virðist hafa komið mönnum algerlega í opna skjöldu, en ljósasta dæmi þess er fyrirhugaður hluthafafundur Stoða þar sem leggja átti til að Baugur yrði hluti Stoða. Af því má ljóst vera að stærsti eigandi bankans gerði sér enga grein fyrir alvarleikanum í stöðunni. Hver er svo staða hinna stóru bankanna, er hún trygg eins og forsvarsmenn þeirra tjá okkur. Mitt svar er NEI, síður en svo. Ég ætla að vera svo ákveðinn í skoðunum mínum að ég tel að hvorki Kaupþing né Landsbankinn eigi möguleika á að spjara sig að öðru óbreyttu og jafnframt að algjörlega óraunhæft má teljast að ríkið geti komið þeim til bjargar líkt og búið er að bjarga Glitni fyrir fyrsta hornið. Eini munurinn á þeim og svo Glitni er að þeir virðast hafa tryggt sér endurfjármögnun til lengri tíma og svo sú staðreynd að þeim hefur tekist að byggja fjármögnun sína að miklu meira leiti á sparifjárreikningum á erlendum mörkuðum. Sú staða getur hins vegar breyst hratt og gæti jafnvel snúist í martröð strax eftir helgi þegar markaðir opnast ef atburðirnir kringum Glitni verða til þess að almenn trú glatast á þá og fólk og fyrirtæki færu að forða sparifé sínu frá þeim í skyndingu, eins og umræðan er orðin á mörgum alþjóðlegum fjármálavefjum. Sumir hafa gengið svo langt að segja að ef ríkisstjórn Íslands og Seðlabanki hafi ekki gert eitthvað róttækt fyrir opnun markaða á mánudag þá gæti vatnað svo undan Kaupþing að ekki yrði aftur snúið á þeim bæ.

2) Hvaða markmiðum þarf að stefna að
Hér þarf að ná stöðugleika á fjármálamörkuðum, tryggja eðlilegan gjaldeyrisforða, ná eðlilegu vaxtastigi og slá á verðbólgu allt í senn til að stoðir samfélagsins, atvinnulífið, geti farið að vinna á eðlilegum forsendum á ný og rekstrargrundvöllur verði fyrir venjulegar fjölskyldur á ný.

Þetta kann að virka frekar stórt og óraunhæft en engu að síður er þetta það sem þarf að gerast og það fljótt til að atvinnulífið leggist ekki í rúst og fjölskyldur landsins fari í þrot hver af annarri.


3) Hvernig verður vandinn leystur og það skjótt
Til að leysa vandann er mér ljóst að fara þarf í aðgerðir sem geta reynst mörgum sársaukafullar, aðgerðum sem verða til þess að margir, og þá sérstaklega þeir sem fjárfest hafa stórt í væntingum um mikinn skyndigróða, munu verða af mjög miklu eða jafnvel fara í þrot. Mestu skiptir þó að atvinnulífinu verði bjargað úr þeirri úlfakreppu sem þessir sömu aðilar hafa komið því í. Eins og staðan er í dag, með evru gengi yfir 150 er ljóst að kostnaðarhækkunum vegna erlendra aðfanga verður aldrei komið í gegnum virðiskeðjuna án stórra áfalla. Má sem dæmi nefna að innlend matvælaframleiðsla og landbúnaður eru nánast dauðadæmd með þessu áframhaldi nema til komi gríðarlegar verðhækkanir sem um leið yrði eldsneyti á áframhaldandi verðbólgu og samdráttareinkenni innanlands myndu í kjölfarið magnast.

Fyrsta skref aðgerða verður að snúa að bankakerfinu.

Ég vona svo innilega að samstaða og samvinna ríkisstjórnar, Seðlabanka, fulltrúa atvinnulífsins, lífeyrissjóða og annarra stórra hagsmunaaðila í samfélaginu beri árangur um helgina því tíminn er naumur. Þar sem ljóst má vera að ríkissjóður Íslands er ekki megnugur að verða bakhjarl alls bankakerfisins horfir dæmið þannig við mér að eina raunhæfa lausnin sé að skera utan af fjármálakerfinu á þann hátt að ríkið geti bakkað uppi það sem eftir stendur og í framhaldinu farið að beita eðlilegum hagstjórnartækjum til að ná festu og jafnvægi innanlands.

Til að ná þessu væri sennilega raunhæfast að selja Kaupþing í heilu lagi og selja einnig stóran hluta af erlendri fjármálastarfsemi Landsbankans fyrir samruna hans við Glitni í einn banka sem yrði að meirihluta í eigu ríkisins. Ef ekki tekst að skera bankakerfið hrátt niður á þennan hátt þá verða menn að vera tilbúnir að velja og hafna hvað á að fara á hausinn og hvað ekki. Ljótt að segja það, en árangursríkast væri trúlega að rétta Kaupþingi þá ekki hjálparhönd og láta þann risa hverfa í kjölsog alþjóðlegu kreppunnar þegar endurfjármögnunar kassinn verður tómur þar.

Það banka/fjármálakerfi sem eftir stendur þarf í það minnsta að vera af þeirri stærð að efnahagskerfið okkar geti varið það til framtíðar þannig að það geti þjónað okkar hagsmunum sem þjóðar, jafnt á þrengingartímum sem uppgangstímum.

Lækka vexti umtalsvert
Í framhaldinu þarf að lækka vexti umtalsvert, og þá er ég ekki að tala um 1 eða 2 % stig, nei ég er að tala um að helminga vexti eða jafnvel meira. Með því móti færu hjól atvinnulífsins að snúast liðugar á ný og fjölskyldufólki yrði bjargað frá þroti vegna óhóflegrar vaxtabirgði. Um leið og ég segi þetta þá veit ég að þetta eru aðgerðir sem kynda ættu undir verðbólgu, en ég er þess full viss að það yrði ekki raunin því núverandi verðbólga og vaxtastig eru ekki að endurspegla stöðuna i samfélaginu á nokkurn hátt, eins og ég gat um hér að ofan.

Ef við náum svo langt að taka þessi tvö skref sem ég hef nefnt þá kemur að eflingu atvinnulífsins með fókus á gjaldeyrisskapandi framleiðslu til að ná jöfnuði, hæfilegri innspýtingu opinberra framkvæmda til að auka hagvöxt meðan við komum öllu í eðlilegt horf á ný. Ætla ekki að skrifa meir um slíkt nú en geri það ef til vill síðar.

Já og að endingu - takk - ef einhver sér þessa línu hér neðst eftir að hafa lesið alla langlokuna mína sem upphaflega átti að vera smá hugleiðing á laugardegi.

Mikilvægast af öllu .... "TÖLUM OKKUR EKKI NIÐUR Í SKÍTINN SEM ÞJÓÐ" því það eru örugglega nógu margir aðrir tilbúnir til þess núna á erlendum fjármálamörkuðum,.. og ekki vegna þess að þeim sömu sé eitthvað illa við okkur, nei síður en svo .. Þeir sömu eru bara að því til að bjarga eigin skinni eða hagnast á óförum okkar Íslendinga.

Bros og kveðjur í bloggheima ;)


Glæsilegt framtak

Þetta er sannarlega glæsilegt framtak hjá Ólafi. Ég efast ekki um að hér ráða réttlætisvitund og náungakærleikur för. Laun Mjólku eru lika í leiðinni snilldar markaðssetning.

Flott hjá þér Ólafur og til hamingju með þetta :)


mbl.is Fékk styrk til að leysa út vélarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarmynd ársins - takk kæru bloggvinkonur Jóna og Magga

Sumarmynd Fréttablaðsins2

Fyrir utan að hafa auðvitað tekið myndina sjálfur sem vann til 1. verðlauna í keppninni um bestu sumarmynd ársins á ég þetta að STÓRUM hluta þeim Möggu og Jónu bloggvinkonum að þakka, því þær hvöttu mig eindregið til að senda myndina í keppnina eftir að ég hafði birt hana með bloggfærslu hér á síðunni.

Sumarmynd Fréttablaðsins

Það var ótrúlega skemmtilegt símtalið sem ég fékk á föstudaginn frá ritstjóra Ferða á Fréttablaðinu þegar mér var tjáð að myndin mín "Leikið við náttúruna" hefði unnið til fyrstu verðlauna, Já vá hvað það var góð tilfinning ....  ég fékk hraðan hjartslátt og einhver ólýsanleg sælutilfinning hríslaðist um kroppinn ...  Eitt andartak velti ég fyrir mér hvort einhver væri að gera at í mér, en svo varð ég viss er ég dró símtalið örlítið á langinn við þýðu konuröddina sem hafði hringt í mig... Fullt af öðrum fallegum myndum sem ég hef tekið runnu síðan í gegnum kollinn á mér svona til að minna mig á að ég mætti alveg gleðjast ... því kannski væri þetta bara uppskerudagur eftir að hafa verið ástfanginn af ljósmyndavélunum mínum síðan ég var á fermingaraldri.

Til að ná árangri verður maður að leggja sig fram af ástríðu ... og til að vinna til verðlauna verður maður líka að taka þátt. Það síðar nefnda er ég ekkert sérstaklega flinkur við og ég stórefa að ég hefði tekið þátt í þessari keppni ef ekki hefði komið til hvatning frá Möggu og Jónu bloggvinkonum, sjá hér

Takk og stórt knús á ykkur Magga og Jóna :)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband