Besta plata sem ég hef hlustað á lengi

EllenPlatan "Einhverstaðar einhverntíman aftur" með Ellen Kristjánsdóttur er tvímælalaust einhver besta plata sem ég hef hlustað á lengi.

Lagið hans KK "When I think of angels" er bara snilld í hennar flutningi á þessari plötu. Sannast kannski best hér hve tilfinningarnar verða sannar í laginu þegar þau systkinin sameinast í óð til systur sinnar.

Ég hef ekki hlustað á útvarp í bílnum síðan ég eignaðist plötuna, því nú hljómar hún á fullu bæði til og frá vinnu og gefur ótrúlega slökun og jafnvægi.

Ef ég á að nefna eitthvert lag sem ég tel jafn gott og jafn heildstætt þá er það lag Eric Clapton "Tears in heaven"sem samið er og flutt með sama tilfinningaþrunga.


Völvuspá Drottninganna

Vegna kærleiksríkrar beiðni uppáhalds mákonu minnar og uppáhalds frænku færi ég bloggheima í sanninn um hvað nýja árið mun bera í skauti sér fyrir þær stöllur. Læt hér fylgja beiðni þeirra sem snart mig inn að hjartarótum. Að fá svona blíða beiðni frá þessum fallegu, blíðu og skinsömu elskum:

Já sæll vinur!  “Er minn ekki búinn að drulla hressilega upp á bak núna?” 
Við sitjum hér tvær harmi slegnar og sár svekktar yfir því að lesa hér hina ótrúlegustu spádóma um hina og þessa en ekki er minnst einu orði á okkur drottningarnar. Hvernig væri að slá upp nokkrum fögrum framtíðarorðum um okkur þó við séum ekki viðurkenndir bloggvinir :o)
Uppáhalds mágkona og uppáhalds frænka (IP-tala skráð) 3.1.2008 kl. 21:08


Völvuspá Dúnnu sætu og Röggu gellu fyrir árið 2008

Mynd035Dúnna sæta, uppáhalds mákona. Það verður engin lognmolla yfir árinu hjá þér frekar en á því sem var að líða. Völva greinir strax ferðalög, einhverjar enn frekari framkvæmdir og endalausar hreingerningaherferðir. Kemur eins og ábending um að silfurhúðin sé eitthvað farin að þynnast á drottningarhnífapörunum. Hvað hér er átt við er völvu ekki alveg ljóst en einhver breyting verður þó um páskana þegar bóndinn segir að hér sé komið nóg og kaupir einnotaplasthnífapör og allar græjur handa kellu. Hann er eitthvað farinn að óttast að henni verði þrotinn allur kraftur fyrir einhverja mikla veislu síðla hausts, líklega um miðjan nóvember. Bóndi hennar birtist völvu sem sterkur, en þó ofurlítið þreyttur og eins og sé einhver grámi yfir höfðinu á honum, en það rjátlast allt af þegar kall skellir sér í litun rétt fyrir þessi miklu tímamót.

Mikið sterkt ljós, eins og regnbogi, fylgir þeim og er engu líkara en parið gangi í hjónaband á árinu. Árið verður í það minnsta afar gleðiríkt og mikill kærleikur innan fjölskyldunnar. Börnin spjara sig vel, þó svo parið birtist völvu einhvernvegin eins og á hlaupum alla daga. Mikið verður líka að gera hjá drottningunni í vinnu á árinu, því þegar hausta tekur söðlar hún eitthvað um og virðist taka að sér meiri ábyrgð við einhvern stóran skóla. Ferðalögin koma hér upp aftur og virðist stefnan vera tekin út á árinu og einnig birtast styttri ferðir innanlands sem verða afar góðar og gefandi. Skrítið að völvu finnst drottningin þó eitthvað þreytt við upphaf þessara ferða, en kemur jafnan úthvíld og glæsileg heim aftur.


Mynd036
Ragga uppáhalds frænka. Árið þitt fer frekar rólega af stað og kemur til völvu eins og þú sért eitthvað að fóta þig á eigin tilfinningum og hvert þú ætlar þér. Þrátt fyrir þetta er mikill metnaður og drifkraftur og allt er drifið áfram sem þarf að gera til að halda áætlun, sem er þó ekki að fullu ákveðið hver er.

Eitthvað virðist ástin gera vart við sig á árinu en þó eins og þú takir ekki alveg eftir henni í fyrstu. Völva sér þó hendur snertast og einhver kærleiksbönd verða til. Eitt kemur sem völva er ekki alveg að átta sig á en það birtist eins og þú sért æ ofan í æ að passa einhver drottningarbörn, sem þér eru afar kær, en taka þó tíma og tefja þig eitthvað á eigin vegferð. Þetta er þó ekkert til að hafa áhyggjur af því þegar sól skín hæst er eins og þú vitir allt um þína óförnu slóða og greikkar sporið með bros á vör. Þá verða einverjir stórir sigrar að baki í vinnu eða námi og stefnan þegar tekin á nýja og stærri áfanga.

Einhverjar hugmyndir um eigin atvinnurekstur eða heilsuboðskap munu banka uppá hjá þér á árinu og gott ef drottningin er ekki eitthvað flækt í þau áform einnig.
Þetta ár verður á heildina litið ár mikillar uppbyggingar, þroska, og stórra áfanga í starfi og ekki minnst hvað eigin vitund og sjálfsmynd varðar. Völvu finnst einnig eins og þú munir hefja eitthvert lista eða tónlistarnám er hausta tekur.

Ykkar einlægur mágur og frændi Wink LoL InLove Heart....

 

 


Gleðilegt nýtt ár

flugeldarNýja árið gengið í garð og eins og það gamla hafi aldrei verið til, eða hvað? Það er allavega komið uppí hillu hjá mér og síjaðar verða úr því nokkrar góðar minningar þegar við á og gagnast við að takast á við það nýja.

Nýja árið leggst ótrúlega vel í mig því eitthvað segir mér að allt sem maður hefur verið að basla við árið 2007 komi bara svona með hægðinni og af sjálfum sér á þessu nýja. Svo lítur þetta svo dæmalaust vel út með spá bloggvölvunnar, því ég hef ekki við að fylgjast með hlutum gerast í dag á fyrsta degi ársins sem voru aðeins spádómar í gær.

Gef hér smá dæmi: Jóna hrærir í bloggsíðunni sinni fram og til baka, skiptir um myndir og útlit svo maður hefur ekki við að fylgjast með.....  , Lísa búin að taka niður jólahúfuna, .. og það sem er kannski fréttnæmast, Ólafur Ragnar tilkynnti að hann gæfi kost á sér í vor. Hefur greinilega orðið hvert við að sjá spádóminn um vangaveltur prakkarans um að hugsa í átt til Bessastaða.


Völva bloggvina árið 2008

Völvuspá bloggvina árið 2008 

Þar sem ég var að enda við að lesa Völvuspá Vikunnar, sem bregst ekki frekar en fyrri daginn, laust því ofan í kollinn á mér að það vantaði alveg völvu á bloggið. Var eins og talað væri við mig beint af orkubraut alheimsins og ég beinlínis beðinn um að skila á bloggið ofurlítilli völvuspá bloggvina minna. Ég var rétt kominn í sturtu þegar þessi ljómun birtist mér og eins og sturtan fylltist bláleitu ljósi og hvítu á víxl. Ég sá hundinn "Vidda á hlaupum" hlaupa á sig í samskiptum sínum við húsfreyjuna og Bretann eitthvað boginn í baki .....  svo það var ekki um neitt að ræða, ég skrúfaði fyrir vatnið í snatri og hellti mér í þetta, hálf blautur og hálf-nakinn við lyklaborðið. Gott að ég er ekki búinn að láta það eftir strákunum mínum að fá vebcam á bloggtölvuna.

jonaa_235605

Fyrstu vikur ársins er eins og eitthvert undarlegt ský fylgi Jónu og eins og hún sé örlítið ráðvillt í eigin bloggheimi sem og í daglega lífinu, en þetta er aðeins tímabundið því fyrir Páska hefur hún fundið orkuna sína svo um munar og lætur að sér kveða í ritheimum. Gæti verið farin að hugleiða það alvarlega að gefa út bók og mun þegar líður á árið jafnvel draga úr vinnu til að geta sinnt þessu betur. Sá einhverfi heldur áfram að vera einhverfur, en einhvernvegin birtist hann bloggvölvunni á þann hátt að heldur dragi saman með honum og öðrum fjölskyldumeðlimum, það er honum mun fara mikið fram árinu. Gelgjan fremur einhver skammarstrik á árinu en þegar frá líður verður það henni til framdráttar og mun hún í framhaldinu njóta meiri virðingar á heimilinu. Hundurinn Viddi fer á ystu nöf, en verður fyrirgefið eins og Gelgjunni. Bretinn mun njóta sannmælis á árinu, en á þó frekar á brattan að sækja fyrstu vikur ársins meðan skýið fylgir húsfreyjunni. Fyrir mitt ár munum við sjá blogg pistla frá einhverri hamingjusömustu fjölskyldu þessa lands.

jola_prakkarinn

Árið 2008 verður ár umbreytinga í lífi prakkarans. Eftir að hafa experimenterað örlítið meira með viðbrögð bloggheima við "jaðarskoðunum" samfélagsins fyrstu vikurnar mun hann tvíeflast í skrifum á stórkostlegum pistlum um lífið og tilveruna. Jólahúfuna mun hann taka ofan mjög snemma árs og framvegis skrifa allt sem hann lætur frá sér í eigin nafni. Hann mun eignast allnokkra nýja bolggvini á árinu og við enda þess veit hann ekki hvað hann á til bragðs að taka sökum velgengni og hlýju í hans garð í bloggheimum. Hann verður einn af fáum bloggvinum sem orðaður verður við Bessastaði þegar vora tekur, en lætur þó ekki tilleiðast að bjóða sig fram. Atvinnulega verður árið prakkaranum gjöfult og völvan sér eitt ef ekki tvö stór verkefni tengd sköpun í kvikmyndagerð á árinu. Eins og leikhús eða jafnvel sjónvarp komi þar við sögu einnig. Þá mun prakkarinn svara stóru spurningunni um "hið stóra samhengi" innra með sér, en ákveður þó að bloggheimar séu ekki fullkomlega tilbúnir að hlíða á hið stórbrotna en um leið einfalda svar. Einhverjir fjármunir munu vilja sækja prakkarann heim á árinu, en óljóst er völvunni með öllu hvaðan þeir koma. Þá mun veðurfarið leika prakkarann mjög svipað og aðra landsmenn, en náttúruöflin verða honum afar hliðholl.

omar_hausmynd

Frekar dauft verður yfir skrifum þessa velþenkjandi, fluggáfaða og faglega manns framan af ári og eins og hann hafi misst athygli bloggheima á einhvern hátt. Kemur til völvunnar eins og hann hafi kannski gert umhverfishjólfarið full djúpt í ádeilu sinni á virkjanir og þá sérstaklega norðan heiða. Það er eins og umhverfistónninn hljómi ekki eins sterkt framan af ári hjá þjóðarsálinni og gleymist í ótta fjöldans sem tapar nú meiru og meiru í verðbréfafallinu, sem er aðeins rétt byrjað. Fyrir mitt ár verða þó algjör umskipti hjá Ómari og tengist það jarðhræringum sem hafa stór áhrif á stórvirkjanir og þá mun hans stjarna skína skærar en nokkru sinni og fólk flykkjast um bloggið hans, skoðanir og lífsýn. Ómar verður sæmdur einhverri merkilegri orðu eða nafnbót áður en árið rennur á enda. Völvan sér þó ekki hvað það er nákvæmlega.

photo_137

Kleópatra mun vinna einhverja stóra sigra á árinu og mikil velgengni og ljós fylgja henni hvert fótmál. Hún mun áfram vinna á matsölustaðnum í Hafnarfirðinum, en þegar líða tekur á árið er eins og hún uppgötvi að þetta sé samt aðeins tímabundið og eitthvað allt annað og miklu meira sé henni ætlað. Skólinn kemur meir upp í huga hennar og ekki kæmi það völvunni á óvart að kella væri sest á skólabekk þegar vetur konungur gengur í garð. Kleópatra mun heilla bloggvini sína meir en nokkru sinni með skrifum sínum og vinnu við að fræða fólk um afleiðingar vímuefna. Hér erum við að tala um stórvirki og gjöf til ungu kynslóðarinnar sem hún sjálf (Kleó) gerir sér ekki grein fyrir hve mikils virði er fyrr en eftir langan tíma. Ástina finnur hún innra með sér á árinu og er þá viss að slíkar tilfinningar eiga rétt á sér og eru komnar til að vera. Eini skugginn sem völvan greinir er ofurlítill öfundartónn Skessunnar sem fellur nokkuð í skugga af velgengni dótturinnar í bloggheimi. Það verður þó ekki langvinnt og verður horfið með öllu fyrir næstu jól.

magna_302056

Magna birtist völvunni sem nokkuð dul og hljóð fyrstu mánuðina, en þar er hún einungis að búa sig undir breytta tíma og mikla velgengni bæði í vinnu og einkalífi. Árið byrjar hún vel þar sem hún finnur jólaskrautið sitt fljótlega eftir að aðrir taka sitt niður. Vinnusemi og metnaður einkenna þessa hæfileikaríku konu allt árið, en völvan yrði þó ekki hissa þó einhverjar breytingar yrðu á vinnustaðnum. Hér er þó klárlega um jákvæðar breytingar að ræða, gæti verið flutningur í starfi eða kauphækkun eða umbun fyrir vel unnin störf. Ferðalög og gleði koma einnig upp tengt þessari konu sem er eins og að hefja lífsgöngu sína á nýjan leik á einhvern hátt. Þá mun kella setja auglýsingamet tengt einhverju af fyrstu blöðum Vikunnar á árinu. Bloggið hennar verður þó eitthvað losaralegt um Páskaleitið en þar er hún bara að taka til í eigin hugarheimi og nánasta umhverfi og kemur tvíefld til baka um Jónsmessu með nýtt útlit og nýjan ritstíl á blogginu sem tekið verður eftir. Völvan skynjar hér aftur ferðalag á árinu sem verður gleðiríkt og upphaf að einhverju nýju og miklu í lífi Mögnu. Magnað ár.

author_icon_8496

Árið byrjar strax af eldmóði hjá þessum hæfileikaríka bloggklerk, sem mun á undraverðan hátt leiða bloggheima í gegnum kristnitöku á ný á sinn hlýja og kærleiksríka, en um leið gamansama hátt. Svavar mun verða leiðandi í miklum umræðum um samstarf kirkju og skóla sem lýkur með eins konar þjóðarsátt áður en árið er liðið. Sátt þar sem trúin og kærleiksboðskapurinn fá ákveðna uppreisn æru og meiri virðing mun ríkja í samfélaginu milli trúaðra og trúleysingja. Þetta árið verður þó grunnt á kímni klerksins í bloggheimum og á það bara eftir að fleyta honum enn lengra í átt til trausts og virðingar í bloggheimum jafnt sem mannheimum. Völvan skynjar einnig að klerkur muni bjóða undirrituðum á kaffihús fljótt á nýju ári til að rifja upp gömul og góð kynni frá kaffihúsaspjalli á gömlu teríunni á Akureyri. Einn óvildarmann mun þó þessi ágæti klerkur eignast á árinu, en það stendur stutt við því sá hinn sami mun iðrast og sjá að sér áður en skaði hlýst af.

aaaaaaaa_388928

Árið 2008 verður ár ákvarðana, framkvæmda og sköpunar hjá þessari fallegu og hæfileikaríku konu. Þrátt fyrir að velgengni í starfi umlykji konuna, mun gæta ákveðins söknuðar hjá RÚV þulunni fyrrverandi, þar sem Sviðsljóss skrifin verða fljótt vanabundin og vélræn og hefta þannig sköpunargleði og útgeislunarþrá hennar. Fyrr en nokkur á von á munu verða stórar breytingar á högum hennar þar sem hún hellir sér í eigin sköpun og framleiðslu af miklum eldmóði eins og henni einni er lagið. Spámaður.is mun líta dagslins ljós á nýjum forsendum sem engan hefði órað fyrir og verður allt í einu að fyrirtæki sem bara rúllar áfram eins og snjóbolti. Hér er verið að tala um útrás af einhverju tagi sem tengist netmiðlun efnis og leiðsagnar á einhvern hátt. Stór en ákveðin skref verða stigin á árinu sem fylgja jákvætt peningaflæði og lífsgleði. Nám eða skólaseta af einhverju tagi koma hér upp einnig, en ekki er völvu ljóst hvenær eða hvað það er.

mg_4190_113593

Þetta ár verður á einhvern hátt svolítið sérstakt hjá Júlla. Eins og hann tapi einhverju af orkunni og eldmóðinum, en vinni samt sína stærstu sigra á árinu sem endar ótrúlega vel. Eins og verði einhver uppgjöf eða eftirgjöf fyrri hluta árs í hans stóra áhugamálasamfélagi þar sem menning og matur úr héraði og ferðamennska eiga í hlut. Fiskidagurinn verður þó glæsilegri en nokkru sinni fyrr, en einhver uppstokkun eða breytingar eru þó í farvatninu, sem kannski er frekar tengt öðrum samstarfsaðilum, eins og Handverkshátíðinni á Hrafnagili sem verður í hálfgerðu uppnámi allt fram að deginum stóra. Þetta er þó eitthvað í ryki fyrir völvunni sem sér þó að Júlli sjálfur blómstrar sem aldrei fyrr þegar hann áttar sig á að hann getur ekki teymt óþekku sauðina í hjörðinni og sér að best sé leifa þeim bara að vera á fjalli. Eitthvað stórt er í undirbúningi sem tekur orku hans. Völvan þorir varla að segja bók, en finnst það þó ekki ósennilegt. Hér gæti verið eitthvað leikhústengt eða hreinlega að maðurinn gifti sig sé hann ekki löngu búinn að því. Birtist völvunni sem fallegt ljós sem gjarnan tengist giftingu eða barnsburði. Er kallinn kannski bara að verða afi, hvað veit völvan svo sem um það!?

gurr

Þessi merka kona er völvunni algjör ráðgáta, en þegar árið er skoðað koma fram 1000 til 1500 bloggfærslur, myndir af köttum, vonbiðlum á svölum einhverskonar, og býsnin öll af myndum af ríka og fína fólkinu. Völvan skynjar þó miklar breytingar hjá þessum orkubolta þar sem eitthvað verður slegið af á blogginu um tíma en svo birtist ný tegund af bloggritun á bloggi hennar sem eitthvað tengist spádómum eða leiðsögn til bloggheima. Kattarskömmin mun áfram helga sér rúm prinsessunnar á Skaganum og hrafninn verða tíðari gestur á svölunum fyrri hluta árs. Konan mun upplifa miklar breytingar á vinnustaðnum á árinu en kemur sjálf útúr því sterkari en nokkru sinni og mun blómstra á ritvellinum á einhvern hátt, líklega sem ritstjóri einhvers af blöðunum eða þá einhverskonar umsjónarmaður eða þemaskrifari hjá stóru tímariti. Heilsan verður góð nema í huga hennar um tíma meðan hún er að taka velgenginni sem eðlilegri og réttlátri umbun. Svei mér ef kattarskammirnar ná ekki að fjölga sér á árinu eða þá að einhver nýr íbúi fær landvistarleifi í Himnaríki fyrir miðsumarsnætur.

hjarta

Magga fer inní árið með frið í hjarta og leggur sig fram sem aldrei fyrr. Skólinn verður bara vinna og útkoman glæsilegri en hana hefur nokkurn tíma dreymt um. Völvan skynjar einnig atvinnutilboð sem birtist nokkru áður en skóla lýkur, en er ekki viss um hvort Magga taki því þar sem hún verður komin með sjálfstraustið í hæstu hæðir miðað við það sem verið hefur. Sköpun og meiri sköpun er það sem birtist og einhver list, sennilega auglýsingar frekar en málverk birtast hér sem ekki verður aðeins dáðst að heldur keypt og notuð. Löngun til frekari mennta gerir vart við sig áður en skólanum er lokið þar sem Magga er í raun löngu búin með skólann, en á bara efir að vinna þessi verkefni sem öll eru eins og fyrirfram sköpuð, en kalla bara á tíma og meiri tíma til að verða að veruleika. Smá bakslag (og þá meinar völvan bakverk) gerir vart við sig í enda mars mánaðar, en það er ekkert til að hafa áhyggjur af þar sem þar er bara verið að hnippa í og segja að búið sé að leggja meir en nóg í hlutina, því það verði ekki þess virði að reyna að fá meir en 10 í sumum fögunum í skólanum. Fjölskyldulífið blómstrar með vorinu hjá þessari kærleiksríku manneskju, sem þá fer óheft á vit ævintýranna.

picture3_376713

Völvu rekur næstum í roga stans er reynt er að tengjast inná þessa manneskju, því það er eins og allt sé baðað einhverju ljósi og árið framundan sé fullt af opnum dyrum sem val er um að ganga í gegnum. Völvan greinir stóra kærleikshurð, eins og hallarinngang, síðan er einhver atvinnuhurð og menntahurð þarna einnig. Þetta er þó eitthvað óljóst fyrir völvu, en greinilegt að árið verður ár tækifæra og uppbyggingar fyrir þessa heillandi og fallegu bloggveru. Líkt og prakkarinn þá mun Lísa vera hún sjálf og taka niður jólahúfuna snemma árs. Völva getur ekkert skýrt þetta frekar, en hér er bara velgengni, ást og kærleikur upp um alla veggi og einhverjir atvinnusigrar eða sjálfsmyndar sigrar einnig. Eina neikvæða sem völva skynjar hér er að Lísa verður pínu hrædd er jarðhræringar ganga yfir suðurhluta landsins snemma árs, líklega strax í janúar. En hér er ekkert að óttast, bara smá vakning um mikilfengleika náttúruaflanna.

 

Nú er orka bloggvölvunnar að fjara út og því verður þessi pistill ekki lengri þó nokkrir af bloggvinunum hafi ekki komið upp. Biður Völvan viðkomandi innilega fyrirgefningar á því og lofar að gera tilraun síðar verði eftir því óskað. Þá sem upp komu í orku völvunnar biður völvan einnig fyrirgefningar fyrirfram ef einhverjum kynni ekki að líka það sem sagt er eða ekki er sagt.

Bestu kveðjur frá bloggvölvunni 2008


Róleg og góð jól

Já jólin hafa verið róleg og góð hjá okkur feðgum í sveitinni. Á jóladag lýsti Kári því þannig:

"Pabbi mér fannst jólin svo skemmtileg og góð í gær. Ég var bara svo svakalega glaður þegar ég vaknaði. Það voru engin leiðindi í mér"

þetta sagði mér allt sem segja þurfti og svo héldu bara jólin áfram :)

Picture 028Við fengum náttúrlega fullt af gjöfum og borðuðum góðan mat og erum svo búnir að liggja í leti milli þess sem við förum í heimsóknir til annarra eða njótum þess að fá aðra í heimsókn.

Sjálfur fékk ég ótrúlega flottar gjafir frá strákunum sem þeir höfðu búið til sjálfir, málverk frá Karli og flugvél frá Kára.

Picture 030

Picture 071

Málverkið hafði Karl málað í myndmennt í skólanum og Kári hafði nýtt smíðatímana til að láta flugvélina verða að veruleika.

Picture 074

Hefði ekki getað fengið betri jólagjafir þó ég hefði skrifað jólagjafalista eða bréf til sveinka með öllum leyndarmálunum mínum :)

 

 

 

 

 

Picture 039  Picture 041

Picture 042  Picture 048

Picture 047

 

 

 

 

 

Það var á mörkunum að við gætum sagt að það væri jólasnjór, en það kom smá sýnishorn á aðfangadag, en svo kom þessi fallegi jólasnjór á jóladag eins og eftir pöntun til að gera jólaskrautið okkar í garðinum ævintýralegra og fallegra.

Læt fylgja smá myndaseríu úr garðinum okkar.

Bros í bloggheima :)


Jólakveðja 2 til bloggheima

Jólakveðja á bloggi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólakveðja á bloggi-2

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hólmgeir, Kári Liljendal og Karl Liljendal


Jólakveðja til bloggvina

 


Hvað eru jólin og hvað gerir þau sérstök

Ég fór að láta hugann reika í kvöld um þessar spurningar:

Hvað eru jólin okkur hverju og einu? og Hvað gerir þau sérstök?

jólÞá er ég ekkert að velta mér sérstaklega uppúr uppruna þeirra og hvernig þau urðu til, heldur hvernig við nýtum þau til að finna frið og kærleika með okkur sjálfum og þeim sem okkur standa næst.

jól2Jólin eru tímamót, stund og staður, sem við hlökkum til því þá vilja allir gleðja og gefa. Við erum líka uppfull af spenningi eftir að upplifa þessa stund og fá pakka, já sjá hvernig aðrir vilja gleðja okkur. Barnið í okkur kemur fram því það eitt þekkir þessa eftirvæntingu, gleði og spennu sem fylgir jólunum.

Við eigum að leifa okkur að finna þessa gleði og spennu, jafnvel þó við séum ekki nein börn lengur. Gera eitthvað til að endurvekja gömlu góðu tilfinningarnar. Þar kemur líka inn hvað hefðir og ákveðnir siðir tengdir jólunum skipta okkur miklu. Við viljum hafa jóltréð okkar svona, borða þennan mat, gera þetta og gera hitt áður en jólin koma, hlusta á ákveðna tónlist og fara í jólafötin okkar og jólaskapið á sama hátt og við erum vön.

Minningar um jólin frá bernskunni geta verið gulls ígildi og eftirvæntingin engu síðri, tilhlökkunin og spennan ..... alveg þar til bjöllurnar hringja og allt springur út. Það sem ég hef þó fundið og finnst svo mikilvægt er að við megum samt ekki búa til of miklar væntingar um jólin sem síðan er ekki hægt að uppfylla. Þess í stað er svo mikilvægt, sérstaklega fyrir börnin okkar og barnið í okkur sjálfum, að leifa hverjum jólum koma með sína gleði. Við þurfum að vera í formi fyrir jólin þegar þau ganga í garð, glöð og afslöppuð í stað þess að vera útkeyrð og kortabrunnin.

Mínar bestu bernskuminningar um jólin og þær sem ég held alltaf í ákveðnu traustataki og bregðast mér aldrei:

Þegar ég var strákur í sveitinni teymdi pabbi okkur bræðurnar alltaf með sér í fjós á aðfangadagskvöld. Kvöldverkin í fjósinu voru alltaf sérstök og yfir þeim var einhver sú mesta helgiathöfn sem ég upplifði, því þá fann ég að jólin voru komin og þau yrðu góð líka þetta árið. Þetta kvöld fengu kýrnar alltaf sérstakt hey, jólaheyið, sem við færðum þeim hverri og einni og með fylgdi klapp og smá kjass og jólakveðja. Þetta hafði pabbi undirbúið í margar vikur á undan, því hann var löngu búinn að segja okkur hvar jólaheyið var í hlöðunni og það mátti ekki snerta fyrr en þetta kvöld. Þetta var eiginlega alveg snilld hjá "gamla manninum" því með þessari stuttu athöfn setti hann jólin í okkur alla, braut upp mestu æsingsspennuna, og kom inn með glaða þakkláta stráka beint inní jólin. Það sem við bræður gerðum okkur ekki grein fyrir þá var að hann bjargaði náttúrulega mömmu alveg við síðasta undirbúninginn í eldhúsinu, því einhvernveginn var það alltaf þannig að það var eins og jólaborðið birtist meðan á þessu stóð og mamma líka alltíeinu orðin svo fín og líka tilbúin að detta inní jólin með okkur.

Þó sagt sé að fortíðin sé saga og við eigum að lifa í núinu með framtíðina sem gjöf, þá eru góðar minningar svo mikilvægar oft til að hjálpa okkur að upplifa ný ævintýri sem verða að slíkum minningum og byggja upp kærleikann okkar og næra.

Ég reyni þvi að gera slíka hluti fyrir mína pjakka einnig, sem tengir þá við góðar hugsanir og athafnir þannig að við förum með réttu hugarfari inní jólin og getum leyft okkur að fá smá æðiskast í pökkunum, leik og gleði á eftir með góðri samvisku og tímaleysi.

Bros í bloggheima :)

 


Jólin nálgast - tónleikar og laufabrauð

Það styttist til jóla og við feðgar erum farnir að baða allt í jólaljósum úti í rökkrinu hér í sveitinni. Það er svo notalegt þegar mesta myrkrið lúrir yfir og hjálpar til við að halda skammdeginu frá hugum okkar. Í gær tókum við þátt í "stórfjölskyldu" laufabrauðsgerð, sem er ómissandi þáttur í aðdraganda jólanna. Við verðum einir um jólin og ætlum að hafa þau yndisleg eins og venjulega, stresslaus og heimakær :)

Í dag var svo stór stund hjá okkur því strákarnir voru að spila á Jólatónleikum tónlistarskólans. Í þetta sinn spiluðu þeir saman sem þeir hafa ekki gert áður á skólatónleikunum. Þeir voru alveg frábærir á tónleikunum og enginn stressaður nema pabbinn, sem um tíma átti fullt í fangi með að halda videó camerunni stöðugri ... :)  .. en deili hér með ykkur upplifun minni frá tónleikunum.

 


Karl Liljendal (Knopfler) og Kári Liljendal tónskáld

Það er ekki alltaf hljótt og lognmolla á mínu heimili þessa dagana, því strákarnir keppast við að æfa á gítarana. Kári hefur verið að semja lag í rafmagnsgítarinn og Karl er búinn að setja sér það markmið að verða betri gítarleikari en Mark Knopfler :) Ég tók smá vídeó í kvöld til að festa upplifunina og gera að skráðri minningu ....

Hér er verið að æfa Money for nothing sólóið með Mark Knopfler

 

Lagið hans Kára - Escape

 

Og svo að endingu "Back in black" í flutningi Karls.

 

Svo voru litlu gítarleikararnir ekki ánægðir fyrr en þeir voru búnir að fá pabba til að spila nýjasta lagið sitt, eða drögin að því sem eru að fæðast ..  og Kári gerði smá vídeó með kallinum, he he .. sem endar með smá KK töktum ..

Annars er bara allt gott af okkur að frétta þó lítið sé bloggað.

Bros í bloggheima :)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband