Mister Handy ...

HandyLítið bloggað undanfarið, en allt í góðu þó ég hafi ekki viljað trúa blogginu mínu fyrir öllu sem ég geri eða segi.

Þessi herramaður mætti mér í eldhúsinu í kvöld þegar kvöldmaturinn var í undirbúningi...

... hafði hann skoðun á Álverum, Hafnfirðingum, íslenskum athafnamönnum og síðast en ekki síst skoðun á þjóðsöngnum og spaugstofumönnunum.

Um Hafnfirðingana sagði hann bara,.. "svei mér ef þetta er ekki bara rétt með brandarana",.... he he he ... 

Maðurinn á bakvið Handý birtist svo og reyndi að róa þann litla niður þegar hann var búinn að snúa þjóðsöngnum uppá Reykvíkingana sem voru svo klikkaðir að flytja til Hafnarfjarðar bara til að kjósa á móti einhverju sem má svo gera hvort eð er,...  bara ekki eftir sama "deiluskipulaginu" ..

IMG_3246

         IMG_3247

 


RSK á heiður skilið

Var að gera skattframtalið mitt í kvöld. Hafði að sjálfsögðu sótt um frest af gömlum vana því enn finnst manni eins og þetta sé eitthvert stórverkefni að leysa. En það var öðru nær nú, tók mig innan við klukkustund að ganga frá þessu á vefnum og var þá innifalinn tíminn sem tók að laga sér gott kaffi með þessu og fara rólega og villuprófa framtalið og fá bráðabirgðaútreikning á gjöldum.

RSK

Frábærar viðbætur eru komnar frá því í fyrra, því nú klárar maður húsnæðislánin bæði ný og gömul og með aðstoð heimabankans nær í upplýsingarnar um "allan" fjármagnstekjuskattinn.

Það kom mér skemmtilega á óvart þar sem ég hafði bæði keypt og selt bíl á árinu og fjárfest í húsnæði og endurfjármagnað húsnæðislánin mín að hluta að maður gæti klárað þetta allt á vefnum án þess svo mikið sem að leita að einu einasta pappísrsskjali í skjalasafni heimilisins.

Svo fór ég auðvitað í gegnum villuprófunina sem er rúmlega frábær, því þar fékk ég tvær ábendingar, annars vegar um að ég hefði gleymt að tilgreina staðsetningu íbúðarhúsnæðisins sem ég bý í, en það var ekki forskráð. Senni leiðbeiningin kom mér skemmtilega á óvart, en það var ábending um að ég hefði ekki tilgreint lántökukostnað af nýju láni. Sem sagt ábending til mín um lið sem gæti aukið líkur mínar á að fá einhverjar vaxtabætur. Segið þið svo að skatturinn ætli sé meir en honum ber.

Ég segi því bara, frábært framtak og til hamingju RSK með frábæra og aðgengilega rafræna þjónustu.

Koss og knús í bloggheima Wink


Geta tölur haft boðskap?

Hafið þið einhverntíma orðið fyrir því að ákveðnar tölur séu að poppa upp aftur og aftur, eins og t.d. 349 eða 2147 svo eitthvað sé nefnt. Kannski þannig að þið takið eftir einhverju bílnúmeri sem bara situr í kollinum á ykkur og svo farið þið inní búð og verslið fyrir sömu upphæð eða verðið skyndilega litið á klukkuna sem þá er líka 21:47

Angel NumbersTil eru þeir sem telja að svo sé, að tölur geti flutt okkur boðskap eða skilaboð.

Ég var að blaða í þessari skemmtilegu og heillandi bók "Angel Numbers" sem er eftir einn að mínum uppáhalds andlegu-bóka-höfundum, Doreen Virtue. Doreen er auk þess að fást við andleg mál, hámenntuð í sálfræði og starfar sem slík einnig.

Þessi bók hennar, eins og aðrar sem ég hef lesið og spilin sem hún hefur gefið út, hefur mikinn og djúpan boðskab að bera. Virkilega þess virði að lesa.

En smá dæmi úr þessari "talnabók"

Hvaða boðskap skildi t.d. "óheillatalan" 13 hafa.

Tek að vísu fram að 13 hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og verður örugglega áfram :) ....

En Doreen segir: " Ascend masters ask you to stay postitive and give them any fears or doubts that they can heal and transmute. This number also means the sacred feminine, the godess, and the intuitive side, as there are 13 moon cycles in a year"

Talan 256 bendir til þess að þú viljir koma á breytingum í lífi þínu,...  og 821 bendir til að þrotlaus vinna þín og jákvæður ásetningur muni skila sér,...    og svo mætti áfram telja.

Skemmtileg bók, hvort sem við trúum eða ekki Joyful
 ...

Mæli eindregið með bókunum hennar :) .....  og ekki síður spilunum fyrir þá sem það hentar.


Er börnum hollt að fá að vinna?

Ég hef áður vikið að því að það er okkur öllum mikilvægt að hafa hlutverk, ná árangri og vera metin fyrir það sem við erum og gerum. Með tilkomu EES samninga meiga börn/unglingar ekki vinna fyrir en við 16 ára aldur. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé hluti þess vanda sem við búum við í dag að allt of oft er rótleysi á unglingum þar sem þau fá ekki viðfangsefni við hæfi.

fimmkall

Fyrsta launaða vinnan og 5 krónur í kaup á mánuði

Sjálfur var ég svo heppinn að alast upp í sveit og fá að taka þátt í störfum fullorðna fólksins frá unga aldri. Það var ekki kvöð, heldur spennandi manndómsraun.

Fyrstu launuðu vinnuna fékk ég þegar ég var 6 eða 7 ára. Ég fékk það hlutverk sumarlangt að vera hænsnahirðir. HænsnahirðirinnÉg vaknaði á morgnanna um hálf 8 leitið, hleypti hænunum út og gaf þeim morgunmatinn. Fyrir þetta fékk ég 5 krónur á mánuði og var ekkert smá stoltur af.

Síðan leiddi eitt af öðru og fljótt urðu verkefnin fleiri. Kúasmali varð maður um leið og maður réði við að opna og loka stóra hliðinu á kúahaganum. Kominn með fulla stjórn á dráttarvél 12 ára og farinn að sjá um léttari verkin eins og að herfa eða snúa heyi. Eftir fermingu gat maður og var treyst fyrir að mjólka kýrnar.....  og ég endurtek TREYST FYRIR, það er aðal málið í þessu.

Ég stend mig að þessu sjálfur í dag að ég er ekki að treysta strákunum mínum fyrir alvöru verkefnum, því maður er alltaf að óttast að eitthvað geti komið fyrir. Of lítill til að gera þetta, of lítill til að eiga svona hættulegan hlut, eða bara of lítill til að vita hvort hann sé orðinn nógu stór til að geta þetta eða hitt.

Sjálfur eignaðist ég stóran vasahníf, flugbeittan og STÓRHÆTTULEGAN þegar ég var 8 ára að mig minnir. Afi gaf mér hnífinn og sagði að ég yrði að læra að bjarga mér.

VasahnífurinnMeð þessum hníf var hægt að tálga, skera sundur kaðla og já örugglega drepa mann líka,....  en eini munurinn var sá að hnífar voru ekki notaðir til að drepa menn, menn lærðu að notagildið væri allt annað og það átti að umgangast þá með gát. Auðvitað skar maður sig svona smá hér og þar, en maður skar sig bara almennilega í lófann einu sinni, eftir það kunni maður fullkomlega að umgangast hnífinn.

IMG_3241Hnífarnir urðu líka fleiri og myndin af þeim vekur jafnvel hjá mér hroll nú því í dag minna þeir á mynd úr myndasafni lögreglunnar.. "enn eitt glæpagengið gert upptækt". (Ísland í dag).


Stærsta manndómsraunin

Stærsta hjallann fór ég yfir þegar ég var 11 ára, nokkuð sem ég bý að enn þann dag í dag. Pabbi þurfti að skreppa í kaupstað og ég var heima. Hann bað mig að líta eftir einni kúnni sem var að nálgast burð, en ólíklegt að bæri fyrr en daginn eftir. Það gekk hins vegar ekki eftir því þegar ég kom í fjósið var kýrin lögst og komin í burðarstellingar. Ég sat yfir kúnni nokkurn tíma en gerði mér svo fljótt grein fyrir að eitthvað væri að, því ég hafði oft fylgst með slíku áður. Framfæturnir voru komnir í ljós og kýrin rembdist með miklum stunum, en ekkert gekk. Nú voru góð ráð dýr og ekki hægt að ná í pabba til að hjálpa kúnni. Ég varð að gera það sjálfur því kálfurinn myndi aldrei lifa þar til Pabbi kæmi heim.

Ég reyndi fyrst að toga í kálfinn þegar kýrin rembdist en allt var fast. Það var ekki um annað að gera, ég snaraði mér úr peysunni og bolnum sem ég var í og fór með hægri hendina inn til að leita að höfðinu á kálfinum. Hjartað sló hratt þegar ég fann að höfuðið á kálfinum lá afturmeð skrokknum, því ég vissi að svona gæti kýrin aldrei fætt kálfinn. Vá, já ég var pínu einn í heiminum, en nú var að duga eða drepast, ég varð að bjarga kálfinum. Eftir stimpingar við að ýta kálfinum til baka þannig að ég næði í granirnar á honum til að snúa höfðinu, sem að lokum tókst, varð ég að hjálpa kúnni með því að toga kálfinn út ef þetta ætti að takast, því kýrin sjálf var orðin máttfarin.

Ég man að ég tók á öllu sem ég átti, lá flatur fyrir aftan kúna og spyrnti fótunum í flórbrúnina, og togaði allt hvað ég gat þegar kýrin rembdist. Og að lokum hafðist það, kálfurinn kom og ég endaði með hann ofaná mér liggjandi í flórnum hinum megin. Og já eftir smá stund rak hann upp gaul sem var einsog fegursta mússík í eyrum mér á þessu augnabliki.

kýrNú var bara eitt eftir, að koma kálfinum til kýrinnar svo hún gæti karað hann. Ég gat náttúrulega ekki haldið á kálfinum, lítið stærri en hann sjálfur. En ég náði að velta honum uppá strigapoka og draga hann uppí jötuna til kýrinnar.

Það voru fagnaðarfundir og fyrst sleikti kýrin okkur til skiptis mig og kálfinn, enda ekki vanþörf á því við vorum ámóta slímugir báðir og ég of þreyttur til að koma henni í skilning um að hugsa bara um kálfinn. Já ég bý að þessu enn, ekkert verk er of stórt til að reyna minnsta kosti ekki að leysa það áður en maður gefst upp.

 

En hvað er til ráða, hvað eiga börnin að fá að gera í dag?

Ekki sendum við alla í sveit, enda sveitin orðin allt öðruvísi í dag, allt orðið miklu meira tæknivætt og fá störf eftir sem henta börnum og unglingum. Í samfélaginu er ekki val um neitt annað en nokkra klukkutíma á dag í vinnuskóla í einhverjar vikur á sumri. Vinna sem því miður allt of oft fær gagnrýni fyrir að vera agalítil og einnig tilgangslítil. Hangt er yfir að raka einhverja grasflöt sem krakkarnir vita vel að hægt væri að raka með vél á örskotsstund svo eitthvað sé nefnt.


"Þróunarsetur unglinga" og "Í vinnuna með pabba eða mömmu".

Af hverju nýtum við ekki styrkleika krakkanna, sem eru tölvur og tækni. Krakkarnir sem eru að vaxa úr grasi í dag tilheyra fyrstu kynslóðinni sem hefur tileinkað sér tölvutæknina frá barnæsku og hefur mikla færni og án efa miklu meiri færni í slíku en starfsfólk almennt í atvinnulífinu. Hafa lært að umgangast tölvuna sem eðlilegan og sjálfsagðan hlut og takast því á við flókin verkefni óttalaust.

Stofna mætti eins konar þróunarsetur unglinga, sem tæki að sér verkefni fyrir fyrirtæki og einstaklinga yfir sumarmánuðina og þá skipti ekki máli hvort viðkomandi væri 12 ára eða 16 ára. Viðkomandi gætu ráðið sig til að sinna verkefnum sem væru við hæfi hvers og eins.

Önnur leið sem ég held að gæti verið farsæl er að unglingar fengju tækifæri til að fara í vinnu foreldra sinna eða nákominna og taka þar þátt í einhvern ákveðinn tíma. Þetta hefur verið prófað, en bara sem einn dagur. Sæi þetta fyrir mér í sama anda og fæðingarorlofið, sem hluta af rétti launamannsins að taka börnin með til vinnu einhvern ákveðinn tíma.

Efast ekki um að einhver fussi yfir þessu og segi að þetta sé ekki hægt, hvað á t.d. dóttir skurðlæknisins að gera, á hún kannski bara að æfa sig með gamla sveitahnífnum þínum sem þú varst að gorta af hérna áðan :) ... nei ég býst ekki við því, en kannski væri hún bara búin að tryggja sér vinnu á þróunarsetrinu eða hjá bróður skurðlæknisins, hver veit :)

Þetta er ekki mótuð hugmynd af minni hálfu en ég er þess fullviss að það væri af hinu góða að auka möguleika unglinga til hóflegrar þátttöku í atvinnulífinu og okkar daglegu störfum miklu fyrr en nú er. Það hlýtur að vera mögulegt að lögleiða fleira en vændi til að leysa vanda komandi kynslóða.


Rok og myndaveður

Það er búið að vera endalaust rok í allan dag og ekkert gaman að vera úti. Fór því að dunda mér við að stækka nokkrar myndir sem ég var að taka af krökkum í vikunni sem leið. Þó að öll myndefni séu góð þá er alltaf eitthvað sérstakt við það að mynda börn.

Kannski er það vegna þess hve augnablikin eru alltaf dýrmæt hjá þeim, eins og tíminn standi í stað, og ekkert verið að velta sér uppúr því hvað gerist á morgun. Áhyggjur af framtíðinni einskorðast oft bara við hvað er langt til jóla eða í næsta afmæli.

krakkar 1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Borðstofuborðið mitt í lok dags. Finnst það ferlega flott í þessum búning :) ... og einhvernveginn svona er það býsna oft .....

 

                                                                     

Kiddi Kalli

          Birta

Kiddi Kalli frændi                                                            og Birta Rún frænka

Sara 

 

 

.... og Sara vinkona

 

 

 


Þegar maður hefur lítið að segja við bloggið sitt, þá lætur maður bara myndirnar um það :)


RÚV - fyrstu útsendingarnar á Norðurlandi

Ég man það eins og gerst hefði í gær þegar sjónvarpið kom fyrst hér fyrir norðan, nokkrum árum eftir að útsendingar hófust í borginni. Ég var þá 8 ára snáði og spennan var mikil.

IMG_3170

Á þessum árum var ljósmyndaáhugi minn einnig vaknaður og ég hafði eftir nokkurt suð eignast forláta eldgamla myndavél sem ég fékk að sýsla með. Myndavélin var Altissar og notaði 6 x 6 filmu (tréspólu). Vélin virkaði furðu vel eftir að afi heitinn hafði gert við hana handa mér með því að útbúa annað af keflunum, sem filman lék eftir inni í vélinni þegar trekkt var, úr ónýtri pennafyllingu.

Með þessa vél að vopni hóf ég óbilandi ljósmyndaáhuga minn sem hefur fylgt mér allar götur síðan, með nokkrum hléum þó.

En aftur að RÚV og fyrstu útsendingum þess í sveitinni. Pabbi var búinn að festa kaup á forláta Sierra sjónvarpstæki einum tveim mánuðum áður en útsendingarnar hófust. Þetta var svarthvítt sjónvarp í veglegum viðarkassa, sannkölluð mubla í þá daga.

RÚV 1

Nokkrum vikum áður en eiginlegar útsendingar hófust var send út ein mynd á ákveðnum tíma dags svo nýir sjónvarpsáhugamenn gætu nú stillt og prófað tækin sín. Þetta var ljósmynd af húsinu Sigurhæðum á Akureyri.

Þetta var spennandi, já alveg ótrúlega spennandi. Kvöld eftir kvöld var sest niður til að horfa um stund á þessa mynd á skjánum, í þessu undratæki sem greinilega ætlaði að breyta veröld lítils drengs úr venjulegu sveitalífi í framandi nýöld með heiminn inná stofugólfi, og það án þess svo mikið sem að standa uppúr stólnum.

Ég hugsa stundum til þess í dag, ekki eldri en ég er, hvað það var í raun stórkostlegt að hafa fengið að upplifa þetta, fæðast ekki bara inní ofurtæknivædda peningaveröld okkar dags.

Hvað gerði svo ungur ljósmyndaáhugamaður við þessar aðstæður, jú þetta var auðvitað allt fest á filmu. Tilbúinn daginn sem útsendingarnar hófust með myndavélina nýhlaðna af 6 x 6 tréspólufilmu voru fyrstu augnablik í útsendingum Ríkissjónvarpsins í sveitinni fests á filmu. Vélin stillt á ljósop 16 og með lokunarhraða 1/25 sek sem var nógu hægt til að fanga flöktandi myndina á skjánum.

RÚV 2   RÚV 3

Fyrst eru þessar glæsilegu skjámyndir með merki sjónvarpsins og síðan klukkan á Herðubreið. Þetta var alveg yndislegt og litli ljósmyndarinn var sveittur í lófunum og ætlaði ekki að missa af neinu.

RÚV 4

 

Hér má sjá fyrstu þuluna sem birtist á skjánum, glæsileg kona ekki síður en þulurnar sem verma skjáinn í dag.

Söguritun var kannski ekki það sem var efst í huga unga ljósmyndarans á þessum árum og verð ég því að viðurkenna að ég man ekki nafn þulunnar, frekar en nafn prestsins hér á eftir. En ef einhver rekst hér inn á bloggið mitt sem getur fyllt í þær eyður þætti mér vænt um það.

 

 

 

RÚV 5   RÚV 6

Þetta var sannkölluð helgistund. Allir sátu grafkyrrir í stofunni og mændu á skjáinn sem hafði verið komið fyrir uppá stóru kommóðunni hennar mömmu í stofuhorninu.

RÚV 7

 

 

Síðan var að sjálfsögðu barnaefni á dagskránni. Ég vona að ég muni það rétt að þetta sé hún Rannveig.

 

 

 

 

 

Síðan var lesinn kafli úr bókinni "Suður heiðar" eftir Gunnar M. Magnús og teikningar birtar á skjánum meðan á lestirnum stóð. Veröldin gat ekki orðið meiri og betri, þetta var fullkomið.

RÚV 8   RÚV 9

Læt þetta duga af þessari upprifjun úr barnshuganum sem hefur varðveist eins og eitt af mörgum augnablikum sem aldrei gleymast. Ég hef reynt að segja strákunum mínum frá þessu og þeir hlusta af athygli en eiga samt erfitt með að setja sig í spor þessa unga ljósmyndara, sem er þó bara svo örstutt síðan var svona ungur :)

...   síðan kemur bara flóð af spurningum, eins og "Pabbi var þá ekkert til að horfa á áður en þetta þarna svarthvíta kom á kommóðuna hennar ömmu" ...  "Var hægt að tengja eitthvað við sjónvarpið" ....  hvað meiniði? ...  "æ..i pabbi auðvitað Pleystation eða flakkara" ...  "kommmonn varstu þá bara í bíló eða bangsimon leik allan daginn...." ... "Vá maður og kunnir ekki að gúggla neitt eða redda þér á ensku til að dánlóda öllu sem er eitthvað skemmtilegt ..."  Ókey pabbi við skiljum alveg að þú eigir ennþá dúkkuna þína hana Glóbjörtu og bangsann og fallegu órispuðu bílana sem við fáum stundum að leika með þegar við nennum ekki að nota neitt af dótinu okkar og það er ekkert skemmtilegt á neinni sjónvarpsrásinni og tölvan og pleyi ekki alveg að gera sig ...... 


Aumingja Mjólka, ég fæ tár í augun

Alveg er það merkilegt hvernig Mjólka fær einu sinni enn áheyrn og stórar fyrirsagnir fyrir að vera litla góða fyrirtækið sem ætlar að bjarga neytendum. Nú vill ekki Mjólka frjálsa verðlagningu á mjólkurvörum sem að sjálfsögðu yrði til að auka frelsi í viðskiptum og gefa færi á eðlilegri samkeppni.

Staðreyndir málsins eru þær að opinber verðlagning á mjók, sem verið hefur við líði um árabil, hefur aldrei náð til allra vara mjólkuriðnaðarins. Grunnvörurnar eins og drykkjarmjólk, súrmjólk, skyr, rjómi, brauðostar og viðbit hafa verið undir verðlagsákvæðum. Sérvörur eins og jógúrt, sýrður jómi og sérostar hafa hins vegar verið í frjálsri verðlagningu. Opinbera verðlagningin hefur haldið verði niðri á grunnvörunum og það svo mikið að mjólkuriðnaðurinn hefur þurft að verðleggja margar af þessum sérvörum sínum mun hærra en ella til að lifa af.

Samhliða opinberu verðlagningunni hefur verið (skv. lögum) verðtilfærsla milli þessara vöruflokka til að tryggja afkomu þeirra sem einungis framleiða vörurnar sem heyra undir opinberu verðlagninguna. Þetta hefur leitt til mikillar séræfingar, betri afkomu og lægra verðs á mjólkurvörum. Án verðtilfærslunnar (verkaskiptingar) hefðu við þessar aðstæður allir farið að framleiða einngöngu framlegðarhæstu vörurnar til að hafa afkomu og eingum dottið í hug að sinna því að hafa t.d. drykkjarmjólk á markaði.

Mjólka kemur inná markaðinn við þessar markaðsaðstæður, sem eru vissulega hvorki opnar né aðgengilegar nýjum fyrirtækjum. En hvað gerir Mjólka? Jú Mjólka kemur inná markaðinn og velur sér framlegðarháar vörur og tekur engan þátt í skuldbundinni verðtilfærslu sem er hluti af hinni opinberu verðlagningu og starfsumhverfinu sem mjólkuriðnaðurinn býr við.

Mjólka kemur sem sagt inná markaðinn og ætlar að "mjólka" bestu (framlegðarhæstu) vörurnar.

Mjólka er einmitt fyrirtækið sem hefði átt að berjast fyrir frelsi á markaði til að fá eðlilegt samkeppnisumhverfi, en hver er ástæðan nú. Ég held hún sé afar einföld, Mjólka er hrædd við frjálsa verðlagningu á mjólkurvörum. Óttast að fyrirtækið hafi ekki átt erindi sem erfiði inná þennan markað, eða með öðrum orðum sé ekki líklegt til að geta boðið neytendum lægra verð en nú er.

Í þessarri grein er vikið að ríkisstyrkjum til að rugla lesandann eina ferðina enn. Mjólkuriðnaðurinn nýtur ekki ríkisstyrkja, það eru hinsvegar bændurnir sem það gera við frumframleiðsluna. Mjólka er því "á spenanum", eins og þeir sjálfir komast að orði, þar líka eins og aðrir því mjólka kaupir mjólk af ríkisstyrktum bændum rétt eins og Mjólkursamsalan.

Hættu þessu væli stöðugt í fjölmiðlum Ólafur og farðu að snúa þér að því að reka fyrirtækið þitt á réttum forsendum, eigendum þess og neytendum til hagsbóta.


mbl.is "Mjólkursamsalan ætlar að beita afli gagnvart Mjólku"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgleg tíðindi

Já þetta finnast mér sorgleg tíðindi. Engri íþrótt hafa verið gerð jafn góð skil faglega og Formúlunni í höndum RÚV. Er reyndar þeirrar skoðunar að það sé ekki það eina sem RÚV hefur ekki bara gert betur, heldur miklu betur, en samkeppnisaðilarnir (inn?) ....

Formula 1

Af hverju horfirðu ekki bara á þetta á SÝN og hættir þessu væli ... myndi efalaust einhver spyrja, því þetta á jú að vera í opinni dagskrá. Það er vegna þess að ég er ekki í "markhópi stöðvarinnar", það er að minnsta kosti ekki þeim hluta hans sem telst gróðavænlegt að ná til. Ég bý nefnilega aðeins utan við mestu svifriksmengunina og þar er enga SÝN að hafa frekar en Stöð2. Hef reyndar talið það fremur kost hingað til að ná ekki þessum stöðvum, tel mig ekki fara á mis við mikið.

Kannski felst lausnin bara í því að skella sér í eina eða tvær Formúluferðir á næsta ári og sjá þetta bara "live" ....  það er örugglega sjón (SÝN) í lagi Cool


mbl.is Sýn kaupir sýningarrétt á Formúlu 1 kappakstrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolinmæði er dyggð

Ég veit þetta verður góður dagur í dag,...  var ekki í vafa eftir að ég byrjaði daginn á að lesa stjörnuspána mína í morgun, sem eins og undanfarna daga er svo hvetjandi og yndisleg:

Krabbinn (22.júní - 22.júlí)
Það er einhver sem heldur verndarhendi sinni yfir þér og þú ert frekar en ella meðvituð/meðvitaður um það en mundu að gerast ekki kærulaus. Ekkert virðist koma þér úr jafnvægi og þú ert þolinmóð/ur mjög miðað við stöðu stjörnu þinnar um þessar mundir. Þú ert minnt/ur á að það tekur tíma að breyta góðum áformum í góðar venjur.

Hvort sem við trúum á stjörnuspá eða ekki, eða trúum á eitthvað yfir höfuð, þá er hugarfarið svo mikilvægt og öflugt. Ef okkur langar að upplifa eitthvað eða "ætlum" okkur að upplifa eitthvað gott eru miklu meiri líkur á að við upplifum það, það er bara svo einfallt. Þannig er það líka með allt gott sem við sendum frá okkur það vitjar okkar einhverntíman síðar, Smile .. andi.

Það rifjuðust upp fyrir mér um leið nokkrar gullnar setningar eftir hugsjónamanninn Dalai Lama úr bókinni "Leiðin til lífshamingju"Dalai Lama. Í þessarri bók segir Dalai Lama frá því hvernig sigrast megi á hugarfarsástandi eins og þunglyndi, reiði, afbríði eða bara hversdagslegri geðvonslu. Hann fjallar einnig um mannleg samskipti, heilbrigði, fjölskyldu og vinnu þar sem hann telur innri frið alltaf vera undirstöðuna og öflugasta vopnið. Bók sem féll alveg að mínum vangaveltum og reynslu, en verð að viðurkenna að "kallinn" er miklu flinkari að koma þessu frá sér :):)

Það sem hreif mig mest, þegar ég las þessa bók á sínum tíma var umfjöllun hans um þolinmæðina og óvininn eða mótlætið.

Þannig lítur Dalai Lama á óvininn og mótlætið sem nauðsynlega forsendu þess að við getum þjálfað okkur í þolinmæði. Hugmyndir hans um að okkur beri að virða óvini og mótlætið fyrir þau þroskatækifæri sem það gefur okkur hitta kannski ekki aðveldlega í mark hjá okkur alltaf.

En ég er svo sem ekkert í vafa. Ég væri ekki sá "ég" sem ég er í dag ef ég hefði aldrei haft vindinn í fangið á lífsgöngunni .....  Ég held áfram að sýna því sem ég þrái mest að upplifa kærleika og þolinmæði og tek "skvettunum" sem ég fæ annað slagið sem hluta af því að fara heill alla leið.

Eigiði góðan dag í bloggheimum,.... því nú ætla ég að fara að hlusta á góða mússík, setja í þvóttavélina og skúra ..... That's life Wink


Svefnlyf og nauðgarar ....NO MORE

Ég ætlaði að fara að skrifa eitthvað hugljúft og fallegt á bloggið mitt, en datt eiginlega út eftir að hafa lesið síðustu bloggfærsluna hennar Kleópötru, eins af mínum góðu bloggvinum. Sá lestur bar mig í framhaldi á síðuna hennar Heiðu sem lýsir því hvernig ákveðið svefnlyf hefur verið nýtt af nauðgurum sem hjálpartæki.

Mig langar bara að biðja ykkur sem rekist hér inn að skoða færslurnar þeirra og leggja ykkar á vogarskálarnar til að sporna við þessum óhróðri.

Færsla Kleópötru
http://kleopatra.blog.is/blog/kleopatra/entry/148007/

Færsla Heiðu
http://skessa.blog.is/blog/skessa/entry/147986/

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband