Færsluflokkur: Bloggar
26.1.2009 | 23:25
Ástandið grafalvarlegt
Já ég get ekki sagt annað en að ástandið sé grafalvarlegt nú. Ekki það að ég sé ekki eftir ríkisstjórn sjálfstæðis og samfylkingar, nei síður en svo. Sú stjórn átti fátt eftir í stöðunni þar sem samfylkingin hefur nú sýnt það svart á hvítu síðustu daga og vikur að þar fer ekki flokkur með sameiginlega sýn. Það er reyndar margt sem sjálfstæðismenn áttu og þurftu að gera einnig ef þetta átti að eiga möguleik á að ganga fram að kosningum. Sjálfstæðismenn hefðu átt af eigin frumkvæði að skipta inná nýjum mönnum fyrst ekki náðist um það samkomulag með samfylkingunni.
Hvað tekur nú við? Það er stóra spurningin sem brennur á þeim sem standa í forsvari fyrir atvinnulífinu í landinu og öllum þeim sem reka heimili. Kemur nú bið fram að kosningum þar sem enginn þorir að gera neitt af ótta við að það skaði væntanlega framgöngu í kosningum. Hvorki heimilin í landinu eða atvinnulífið þola þá bið lengur. Nú þarf að taka á því sem allir vita að taka þarf á. Vexti þarf að lækka strax og nýju bankarnir þurfa að fara að vinna í takt við það sem stjórnvaldi hefur boðað, í stað þess að vera í hlutlausu þar sem hver vísar á annan meðan keppst er við að tryggja aukin veð hjá skuldurum fyrir lánum sem bólgnuðu út bankahruninu.
Það sorglegasta við þetta ferli nú er að flest það sem gerst hefur síðustu daga ber þess merki að kosningabaráttan er þegar hafin. Viðskiptaráðherra segir af sér korter fyrir stjórnarslit og segist freista þess að endurnýja umboð sitt við kosningar. Hefði verið öllu trúverðugra ef það hefði gerst fyrir nokkrum vikum og hefði þá hugsanlega orðið hluti af stærra ferli þar sem stjórnmálamenn hefðu tekið ábyrga afstöðu og fleirum hefði verið skipt inná leikvöllinn í stað þeirra sem áttu að standa vaktina gagnvart fjármálageiranum. Þar hefði fjármálaráðherrann átt að stíga fyrstur fram.
Eini flokkurinn sem virkilega hefur tekið stakkaskiptum er gamli vinur minn framsóknarflokkurinn, enda hefur ekki staðið á viðbrögðum þjóðarinnar í skoðanakönnunum. Á sama tíma hrynur fylgi samfylkingarinnar sem hæst hefur haft að undanförnu, svona fyrir utan Steingrím J. í VG. Æ já þetta er eiginlega nokkuð skondið allt saman. Hver hefði trúað því fyrir skömmu síðan að framsókn myndi mælast stærri en samfylking í skoðanakönnun nú. Þetta er þó í raun ekkert furðulegt því það sem gerðist á flokksþingi þeirra var ekkert hálfkák og Sigmundur nýr formaður hefur komið fram við þjóðina í kjölfarið á trúverðugan og heiðarlegan hátt.
Hvað sem verður þá vona ég allavega að flokksþing sjálfstæðismanna og samfylkingarmanna skili alvöru breytingum á þeim flokkum báðum svo hægt verði að taka þá alvarlega í vor í aðdraganda kosninganna. Þar vonast ég til að sjá sjálfstæðismenn taka sína eigin afstöðu gagnvar hugsanlegri aðild að ESB en láti ekki samfylkinguna skipa sér þar fyrir verkum. VG sem er öflugri flokkur en nokkru sinni fyrr á alla möguleika á að gera góða hluti, sérstaklega af Steingrímur blessaður hætti að hrópa og kalla og færi að koma fram með einhverjar lausnir eða hugmyndir að því hvernig hann vildi sjálfur taka á ástandinu. Vel færi einnig á því að hann gæfi Katrínu og öðru góðu fólki meira svigrúm til að sýna hvað í flokknum býr.
En gott og vel best að fara ekki dýpra í þetta nú og sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér!
Hver veit nema að undur og stórmerki gerist, enda forsetinn okkar kominn af stað með að "smíða stjórnarsáttmála" sjálfur eða hvað !?
Bros í bloggheima :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2009 | 23:30
Flassað í myrkri
Það er fátt skemmtilegra en að fara með myndavélina og stóra flassið út
í myrkrið og mynda þögnina og kyrrðina sem þar er.
Hér er smá sýnishorn frá kvöldinu í kvöld.
Góða nótt í bloggheima :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
11.1.2009 | 22:15
Kominn snjór og frost í sveitinni
Já það er víst kominn snjór og frost í sveitinni eftir ómunablíðu síðustu daga og vikur. Undanfarið hefur verið alveg autt og nokkrar hitagráður, en í gærkvöldi fór að snjóa og kólnaði verulega.
Litla tréð og gamli bærinn sem ég horfi svo oft á útum bakdyrnar hafa tekið á sig alls konar kynjamyndir að undanförnu, hver annarri fallegri.
Annars er bara gott að frétta héðan. Jólin gengu yfir á látlausan og skemmtilegan hátt. Mikið hlegið, spilað og borðað og allir tiltölulega sáttir við þau.
Vinnan og skólinn eru svo komin í gang aftur, sem er bara gott því með þeim kemur festan og reglan sem allir þrá eftir hátíðarnar.
Hjá mér í vinnunni er búið að vera mikið að gera og reyndar sigrar bæði stórir og smáir þrátt fyrir kreppuna blessaða sem vissulega setur mark sitt enn á allt athafnalíf, jafnvel þau fyrirtæki sem lítið eða ekkert höfðu með hana að gera.
Mér tókst líka að selja gamla jeppann minn sem er búinn að standa á bílasölu frá því löngu fyrir kreppu. Mikill léttir að þurfa ekki að borga af honum lengur, enda litla lánið sem eftir var á honum orðið jafnt virði bílsins og að borga af því eins og að borga af Bömmer eða Game Ower við eðlilegar aðstæður.
Nýja árið leggst á margan hátt bara vel í mig, ég er einhvernvegin svo viss um að með því komi góðir hlutir og atburðir, þrátt fyrir að mikið eigi eftir að ganga á í samfélaginu við uppgjör atburða síðasta árs. Vissulega verður margt á brattann, en það verður uppávið og það er gott.
Hver veit nema ég verði eitthvað duglegri við bloggið mitt en undanfarna mánuði !?
Bros í bloggheima
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2008 | 00:31
Tilbúnir fyrir komu jólanna
Jólin geta bara komið NÚNA
Já búið að kaupa allar jólagjafirnar og búa um þær
Jólaskapið komið, samt smá megabið eftir, humm ...
Búið að skúra, nei eða jú kannski, held alveg nóg, allavega skiptir ekki máli ..
Matur, já já ... hangikjöt í kæliskápnum og eitthvað meira, það er samt ekki alveg málið, en samt gott að borða ....
Pabbi er soldið mikið í vinnunni, var t.d. í Skagafirði í allan dag og ætlar eitthvað að gaufa á morgun, en það er allt í kei ... við bara græjum jólin á meðan
Pakkar, já já alveg góður slatti :)
Kallað úr eldhúsinu: "strákar þið megið ekki fikta í blogginu mínu, þaeralvegbannað..."
já auddað pabbi, vi'rum bara að skoða veðrið ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.12.2008 | 23:09
Minning um góðan dreng
Vinur minn og vinnufélagi til fjölda ára, Oddur Heiðar Jónsson, verður borinn til grafar á morgun. Mig langar að minnast hans Odds hér í nokkrum orðum. Fréttin um andlát hans kom svo mikið á óvart og eins og reiðarslag þar sem Oddur var ekki nema rétt orðinn 50 ára og aldrei kennt sér meins eða kvartað yfir neinu sem lífið hafði mætt honum með.
Það var að morgni til að komið er til mín á skrifstofuna og ég spurður hvort einhver Oddur vinni í mjólkursamlaginu, en þar vann ég allt til fyrir tæpum tveimur árum síðan. Já segi ég.... Hann er víst dáinn er þá sagt, já flutningabílstjóri sem kom hér áðan sagði við stúlkurnar hérna niðri .. "mikið er gott að sjá ykkur hér því ég var á öðrum stað rétt áðan og þar greip ég í tómt þegar ég kom í afgreiðsluna þar".
Ég reyndi í fyrstu að íta þessu frá mér, þetta gæti einfaldlega ekki verið satt, þetta væri bara einhver misskilningur. Ég sá Odd fyrir mér með glettnina í augunum segja okkur eina skemmtilega sögu af Þresti í afgreiðslunni, gera svo smá grín að Billa sem var svo utanviðsig að hann fór strax að hlæja án þess að vita að hverju og leit svo stuttu seinna á Sillu og Hönnu Dögg og spurði: Hvað var hann Oddur annars að segja. Já ég gat ekki annað en upplifað í huganum þennan hóp sem Oddur var svo órjúfanlegur hluti af. Við tilhugsunina var eins og eitthvað hefði komið fyrir hópinn, ekki að einn úr honum gæti verið horfinn.
Ég ætla ekki að skrifa hér neinar hetjusögur af honum Oddi eða lista upp afrekssögu því það var ekki það sem gerði Odd að þeirri persónu og þeim vin sem hann var. Oddur var umfram allt hægur og ljúfur drengur sem gott var að umgangast og eiga að vin, sannur og trúr sínu og sínum. Odds verður minnst sem sterks persónuleika og vinar sem gaf af sér miklu meir en hann hefði nokkurn tíman trúað eða viljað viðurkenna sjálfur.
Ég bið Guð að vera með þér kæri vinur og þakka af einlægni það sem þú hefur gefið mér og kennt á lífsleiðinni. Fjölskyldu þinni, samstarfsfélögum og vinum votta ég samúð mína og ber fram þá ósk mína að sorgin verði ekki langvinn, en gleðin sem þú sjálfur skapaðir með nærveru þinni nái yfirhöndinni á ný og minning þín lifi eins og þú hefur sjálfur skapað hana með persónu þinni.
Þinn vinur og samstarfsmaður
Hólmgeir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.12.2008 | 23:04
Óður til augnabliksins
Augnablikið á sér enga fortíð, það er núna.
Augnablikið er eins og upphaf lífs, án sögu en getur samt haft áhrif á framtíðina með því að gefa af sér önnur augnablik sem vert er að taka eftir og njóta.
Augnablikið er eins og að ákveða að skrifa bók, en þú veist ekki um hvað því þá er það liðið.
Augnablikið er koss þess er kyssir.
Augnablikið getur verið trunta ef þú teppir huga þinn.
Augnablikið er eins og afskorið blóm.
Augnablikið er sæla þess er nýtur.
HK haustið 2007
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2008 | 22:52
Hápunkturinn í erli dagsins -
Verð að viðurkenna að vinnan hefur tekið sinn toll að undanförnu því það er engin launung að það að standa í forsvari fyrir rekstri þessa dagana sem ekki má bregðast fyrir nokkra muni reynir meir á en oft áður. Þess vegna er maður ekki alltaf eins upplagður eftir vinnu og þegar búið er að þeytast milli staða til að ná öllu sem máli skiptir, hvort sem það eru endalausar keyrslur fram og til baka milli fótboltaleikja, föndurkvölda eða tónleika með strákana. Tíminn sem eftir er fyrir mann sjálfan er oft ekki annað en heitt freyðibaðið þegar aðrir eru sofnaðir.
Ég brá þó út af því í dag og fór þreyttur og slæptur á Amtsbókasafnið til að hlusta á hana Jónu bloggvinkonu lesa úr bókinni sinni "Sá einhverfi og við hin". Náði því meðan sá yngri var á fótboltaæfingu.
Ég sé ekki eftir því, því það var ótrúlega gaman og gefandi að sjá og heyra þessa hrífandi konu kynna bókina sína og lesa úr henni nokkra kafla. Þó ég hafi margsinnis skipst á skoðunum við hana Jónu á blogginu og lengi litið á hana sem fjölskylduvin þá kom mér skemmtileg á óvart að sjá hve mikla orku og útgeislun hún hefur og hvernig henni hefur tekist að sættast við mótlætið sem gefandi lífsreynslu. Ég segi bara eins og ég hef áður sagt á blogginu mínu, hún er hetja og ekkert minna.
Viðurkenni það einnig fúslega að ég táraðist í tvígang meðan ég hlýddi á lesturinn, mest þó við lýsingarnar á því þegar sá einhverfi sat á fundi með Guði er þeir voru að velja honum foreldra og honum tókst að telja gamla manninn á að þau Jóna og Bretinn væru þau réttu .... og að ... og ... nei má ekki segja meir. Þetta þurfa allir að lesa.
Mikið óskaplega var líka gaman að fá að hitta bloggvininn þessa stuttu stund og sannreyna að töfrarnir sem hún hefur skapað kringum frásagnirnar á blogginu sínu eru ekkert sýndarveruleikafeik, Jóna is for real :)
Ég mæli eindregið með að allir sem hafa tækifæri til lesi bókina hennar og best auðvitað að allir gæfu einhverjum hana í jólagjöf.
Bros í bloggheima og takk fyrir daginn :)
p.s. já og svo á auðvitað hann Doddi bloggari heiður skilið fyrir að koma þessu á.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.12.2008 | 03:35
Akureyri by night
Var að vafra um í næturhúminu með myndavélina mína.
Þvílík kyrrð og ró sem er yfir bænum ef maður hlustar eftir þögninni og finnur friðinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.12.2008 | 00:16
Góður dagur í mörgum skilningi
Þá er ég ekki bara að tala um að krónugreyið okkar drukknaði ekki eins og henni var spáð þegar hún var sett á flot. Nei kerla stóð sig bara eins og hetja í einn dag. Hvað verður svo ætl'ég ekki að spá um því nógu margir eru til þess. Hins vegar kom þetta mér ekkert sérstaklega á óvart þegar horft er til þess að viðskiptin með krónuna voru nær eingöngu á Ísl. millibankamarkaði, og hvað réði þar genginu!?? .. óskhyggja eða samantekin ráð, he he ....
En ég ætlaði alls ekki að vera í neinni kreppuanalýsu því dagurinn í dag og þá sérstaklega í kvöld var alveg yndislegur fyrir mig því strákarni mínir voru að spila á jólatónleikunum sínum. Þeir spiluðu saman lagið "Nothing else matters" með Metallica ásamt kennaranum sínum honum Marcin snilling.
Mússíkin var svo falleg hjá þeim að ég fékk bæði gæsahúð og tár í augun og fannst um tíma eins og Metallica gítarhetjan væri sjálf komin á sviðið.
Í laginu skiptust þeir á að spila flotta sólóið meðan hinn og Marcin sáu um undirspilið. Þetta gerði þetta sérstaklega fallegt þar sem þeir eru með ólíka rafmagnsgítara og hljómarnir teigðu sig milli "humbucker" og "stratocaster" fílingsins.
ALGJÖRT ÆÐI strákar mínir, TAKK ;)
Sjálfur var ég svo stressaður í salnum að þegar ég ætlaði að taka af þeim vídeó mistókst það allt því ég sat bara í leiðslu og beindi vélinni að þeim, en gleymdi að stilla á "videó", he he ... svo ég uppskar bara þessa einu mynd. En minningin verður bara þeim mun sterkari :) ... Iss þetta er allt í lagi pabbi, við getum alltaf spilað þetta fyrir þig aftur sögðu þeir glaðir í bragði eftir tónleikana.
Og svo það sé nú líka á hreinu þá var fullt af öðrum krökkum þarna sem spiluðu alveg yndislega. Sérstaklega langar mig að nefna Gunnar Örn á Selló, Söru sem spilaði á þverflautu og Þórhildi og Örnu sem báðar spiluðu á fiðlu. Þessir krakkar spiluðu af svo mikilli innlifun og auðheyrt að mússíkin var í þeim. Æ þetta var svo gaman, meira virði en hellingur af alls konar hlutabréfum, styttum, leðursófum, jeppum og þannig dóti :)
Annað gerðist líka í dag sem mér þótti vænt um og skiptir miklu. RÚV hætti við að leggja niður svæðisútsendingarnar á landsbyggðinni. Þarna skipti samtakamátturinn máli, þeirra sem létu vita af því hversu galin hugmynd þetta var frá upphafi. Páll og félagar fá því hrós frá mér í dag fyrir að endurskoða þetta með þessum hætti. Ég var víst búinn að skamma þá nóg í fyrra bloggi. En allt er gott sem endar vel.
Bros í bloggheima og takk fyrir góðan dag :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2008 | 22:14
Váleg tíðindi og illa ígrundaðar ákvarðanir
Já þetta eru váleg tíðindi og þá sérstaklega fyrir landsbyggðina sem á að sjá á bak svæðisbundnum útsendingum á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum. Við þessu þarf að bregðast og það harkalega kæru samborgara hér fyrir norðan sem njótið þjónustu RÚVAK eins og ég.
Ég ætla að leifa mér að hafa svo hátt hér að kalla þetta aðför að landsbyggðinni og ekkert minna. Ég held að Páll og félagar geri sér litla grein fyrir hvaða þýðingu þessar svæðisbundnu útsendingar hafa fyrir landsbyggðasamfélögin fyrst þessi ákvörðun er hluti af hagræðingarpakkanum sem nú er lagður á borðið. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri nauðsyn sem er á því að hagræða í rekstri RÚV við núverandi aðstæður, en þetta er bara engan veginn verjandi að gera.
Svæðisbundnu stöðvarnar gegna veigamiklu hlutverki fyrir þau samfélög sem þær eru reknar í. Alvöru fréttir eru fluttar úr nærsamfélaginu, sem því miður sjaldnast rata inní stóru fréttatímana, tilkynningar og auglýsingatímarnir eru einnig einskonar samskiptatorg þeirra sem eiga viðskipti á nærsvæðinu.
Við þessu þarf að bregðast kæru samborgarar ... OG ÞAÐ STRAX ..
700 milljóna sparnaður hjá RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)