Ræktum garðinn okkar

Erum við stór þjóð í litlu landi eða lítil þjóð í stóru landi?

Held það fari alveg eftir hugarfarinu okkar. Landið okkar er stórt ef við gætum að því sérstaklega, landrými mikið, fegurðin einskær og auðlindirnar allar til staðar sem gera landið að sannkölluðu framtíðarlandi útfrá möguleikunum til að lifa og starfa í sátt við náttúruna. Endalausir möguleikar til framleiðslu heilnæmra matvæla um leið og hér eru allar aðstæður til að njóta náttúru og umhverfis án þess að ganga á raunverulegar innistæður komandi kynslóða.

Við eru líka stór þjóð þessi litli hópur sem byggir landið. Stór af því að við höfum dug og áræði til að prófa hluti, læra og eignast reynslu, þjóð sem á sögu sem er einstök, og þjóð sem gefst aldrei upp þó á móti blási. Við erum þjóð sem hefur lært að búa við eilífa ógn náttúruaflanna, þjóð sem hefur brotist úr örbyrgð og ánauð til velsældar og sjálfstæðis. Þjóð sem hefur haft dug og þor til að standa með öðrum þjóðum í baráttu fyrir réttlæti og frelsi frá gömlu sjálfskipuðu heimsvaldaþjóðunum. Við erum þjóð sem hefur tekist að byggja upp góða ímynd meðal þjóða heims, ímynd sem er sönn og miklu stærri en landið okkar og þjóðin til samans. En nú hefur ímynd okkar skyndilega beðið mikinn hnekki. Svo stóran að ætla mætti að við værum á byrjunarreit nú, eða hvað?

Í dag keppast aðrar þjóðir við að gera gys að okkur og lítillækka okkur, rétt eins og börn sem eru að byrja að taka út þroskann, börn sem eru að kanna mörkin. "Times segir Ísland hafa orðið fyrir enn einni auðmýkingunni í dag" ... "Ísland er gjaldþrota" segja Bretar ... og svo mætti lengi telja. Blöðin, útvarp, fréttavefir og aðrir miðlar eru fullir af neikvæðum fréttum og sleggjudómum um landið okkar og okkur sem þjóð. Fréttum sem rýra okkur sjálfstrausti, sjálfsmynd og viljanum til að gera vel.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og er enn að lesa megi karakter þjóðar út úr viðbrögðum hennar og atferli gegn öðrum þjóðum, rétt eins og ummæli hvers manns í garð annars segja miklu meir um hans eigin stöðu, hugarfar og sýn, fremur en þess sem mælt er um. Þetta er ekkert nýtt í alþjóðlegu samhengi. Hversu lengi höfum við ekki þurft að fylgjast með hroka og kúgun risaþjóða eins og Bandaríkjanna í garð þeirra sem minni eru falið bak við sjálfskipað hlutverkið að vernda frið, eða gamla heimsveldisins Englands, sem nú kemur fram eins og ofvirkur krakki í Matador sem rífur öll spjöldin sem ekki hentar að fá uppí hendurnar.

Tökum ekki þátt í þessum leik kæru landar, einbeitum okkur að því að rækta garðinn okkar og látum öðrum eftir að moka sama sandinum í skóinn sinn. Þegar ég segi þetta er ég ekki að segja að við eigum ekki að verjast ásökunum og þeim órétti sem við teljum okkur hafa verið beitt, nei síður en svo. Við eigum að sjálfsögðu að leita réttar okkar, t.d. gangvart Breskum ráðamönnum vegna þeirrar ódrengilegu vinnubragða sem beitt hefur verið gegn okkur, en gerum það bara ekki með því að fara niður á sama plan, látum ekki ná okkur í sandkassann stóra. Við skulum einfaldlega fara í hljóði meðan mesti stormurinn geisar en nýta tímann til að virkja þá þekkingu og krafta sem til eru til að ná okkar stöðu á ný sem stolt þjóð í stóru landi sem tekið er eftir og virðing er borin fyrir.

Landið okkar og þjóð eru nú eins og hvert annað gott vörumerki sem orðið hefur fyrir miklum álitshnekki. Hvernig vinnum við því ímynd og traust á ný. Um þetta gæti ég skrifað langan pistil, en þetta er vinna sem ég tel að fara þurfi í af mikilli festu. Rétt eins og þegar við byggjum upp vörumerki þá þurfum við að vera mjög meðvituð um hverju við tengjumst, hverju er stýrt í umræðu, hvaða vinnubrögð við leifum okkur að nota, og hvert við leiðum sviðsljósið sem eltir okkur.

Ég mæli með alvöru stefnumótunarvinnu fyrir "Nýtt Ísland" og vel útfærðu "markaðsplani" til að byggja upp ímynd okkar og traust á ný eftir að við höfum í hljóði fyrir umheiminum farið í gegnum bakgarðinn okkar og fundið samhljóm þjóðarinnar á ný, fundið kraftinn sem gerir okkur að þjóð og viljann til að búa til betra Ísland en það sem við áttum fyrir fjármálakreppu, því þar liggja stór tækifæri. Land þar sem samheldni, gleði, ást og hamingja eiga veglegan sess hjá þjóð sem af metnaði hlúir að grunn stoðum atvinnulífsins og samfélagsins.

Fyrir mér hefur þjóðin ekki gert neitt rangt, þó svo að einn geiri hennar hafi farið nokkuð útaf sporinu, já og því miður þannig að græðgi fárra varð að stóru falli margra og rassskell fyrir okkur öll. Ég gæti best lýst því svo að fjármálageirinn féll í sömu gryfju og íþróttamaðurinn sem laumaðist til að nota vaxtarhormón þó hann vissi í laun að það væri ekki rétt og kæmi honum sjálfum í koll að lokum. Var þetta slæmt? Já þetta var slæmt, en þetta eru þó í mínum huga smámunir miðað við þau raunverulegu vaxtarhormón sem aðrar þjóðir hafa nýtt eins og t.d. Bandaríkjamenn sem laumað hafa þeim í dýr með þeim afleiðingum að "hamborgararassa" þjóðin lýður fyrir með heilsu sinni. Kínverjar sem eitrað hafa fyrir þúsundum barna með "platpróteinum" af peningagræðginni einni saman, þjóðir sem eyða heilum borgum og leggja samfélög í rúst til að ná stjórn yfir auðlindum og þjóðir sem ræna fólk frelsi og þjóðir sem eitrað hafa vatnsból vísvitandi til að leggja bæði dýr og menn að velli.

Nei kæru bloggvinir, sem þjóð höfum allavega engan meitt eða lítillægt þó við höfum verið þátttakendur í græðgikasti sem kemur illa við fjárhag mjög margra. Money is just money and not the only reason that "makes the world go around"

Bless í bili og bloggknús :)

 


mbl.is Segja Ísland hafi orðið fyrir auðmýkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Heyr heyr gódur pistill

Vonum bara ad rádamenn okkar séu ekki med neina undirgefni og standi med sínu og sínum...

Eigdu góda helgi.

kvedja frá Jyderup

Gudrún Hauksdótttir, 18.10.2008 kl. 06:58

2 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk fyrir það:) og eigðu góða helgi í Jyderup

Hólmgeir Karlsson, 18.10.2008 kl. 13:34

3 Smámynd: Emma Agneta Björgvinsdóttir

stefnumótunarvinnu einmitt, og það er svo mikið til í því að vera ekki að drulla yfir aðra eins og þú sagðir það gerir ekkert nema skaða ímynd okkar enn frekar. Flottur pistill.

Emma Agneta Björgvinsdóttir, 19.10.2008 kl. 11:33

4 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk kærlega Emma :) .. Við eigum alla möguleika sem þjóð að ná fyrri virðingu okkar og stöðu á ný með heiðarlegum og faglegum vinnubrögðum. Þrátt fyrir allt sem yfir gengur þá er ég líka sannfærður um að við getum eignast miklu heilbrigðara og betra samfélag þó svo ferðin þangað verði mörgum fjárhagslega erfið. Sjálfur er ég að berjast í atvinnulífinu sem við getum flokkað með grunnstoðunum og ég get alveg sagt það fullum hálsi að "óhófleg" þensla og "ofurtrú" á fjármálageirann og útrásargoðin hefur staðið grunnatvinnuvegunum í landinu verulega fyrir þrifum. Sérstaklega þar sem vald þessara sömu aðila yfir markaðsaðstæðum innanlands hefur verið mjög óeðlilegt ...

Hólmgeir Karlsson, 19.10.2008 kl. 14:56

5 identicon

Sæll Hólmgeir og takk fyrir að deila þessu með okkur hinum. Ég held að þetta ástand sem nú varir verði til þess að við bæði sem þjóð og einstaklingar hugsum okkar gang og skoðum það vel hvað það er sem virkilega skipti okkur máli. Hvernig þjóðfélagi viljum við búa í? Ég held að nú komi LOKSINS tími nýrra gilda og það er löngu kominn tími á ný gildi í þessu blessaða þjóðfélagi okkar. Hvernig væri að innleiða aftur traust, sanna vináttu, virðingu til handa öðrum, okkur sjálfum og umhverfinu okkar? Góðu gildin s.s. gleði, vinátta og hjálpsemi hafa lútið lægra haldi undanfarin ár fyrir peningahyggjunni. Það þarf bara hver að rækta sinn garð þá kemur þetta :-). Kv. Ág.

Ágústa (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 12:24

6 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Sæl Ágústa og takk fyrir innlitið og jákvæðu viðbrögðin. Ég er ekki í vafa um að við eigum eftir að eignast betra samfélag eftir þetta þegar fólk verður farið að átta sig og vinna úr sínum málum. Auðvitað er gremjulegast hve margt "venjulegt saklaust fólk" dregst inní þetta og tapar miklum fjármunum, jafnvel lífeyri og sparnaði sem bundinn er í peningabréfum og slíku. Ég hef minni samúð með þeim sem hafa veðsett eigur sínar með erlendum lánum með gróðaglampa í augum og til að púa sér til einhvern glamor lífstíl. Hef þó nokkra samúð þar því í mörgum tilvikum voru það bankarnir sem ráðlögðu og leiddu fólk út í slíkt. ENGA samúð hef ég hins vegar með útrásarvíkingunum svokölluðu sem fóru þessa vegferð í krafti þess vald sem skjótfenginn (og oft illa fenginn) gróði veitti þeim. Valds sem var svo mikið að hvorki stjórnvöld eða Seðlabanki höfðu neitt í þá að segja. Samfélagið bauð heldur ekki uppá að ráðamenn eða sérfróðir væru að vara við eða finna að þessu mikla ævintýri og þar eigum við öll nokkra sök. If you ask me? .. þá á að kanna allar leiðir til að ÞJÓÐNÝTA eigur þessa hóps og veita þeim fjármunum í endurfjármögnun Íslenskra heimila og hins raunverulega atvinnulífs sem er undirstaða samfélagsins.

En nóg um það og ég bið að heilsa Ara :)

Hólmgeir Karlsson, 25.10.2008 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband