Færsluflokkur: Bloggar
27.8.2007 | 21:56
Skólinn byrjaður og allt felllur í sinn farveg á ný
Þá er það víst að gerast einu sinni en að sumarið er að verða búið, ekki það að það hafi hlaupið neitt frá okkur feðgum að þessu sinni. Það virðist bara alltaf svo stutt þegar það er liðið.
Skólinn var settur í dag hjá strákunum og alvaran tekur svo við á morgun. Búið að fara í gegnum árlega pakkann með innkaupalistum, ný íþróttaföt, sundföt og allt það ...
Einhvernvegin er það þó bara gott að skólinn er að byrja, því þá fellur allt í svo mikla reglu á ný eftir ævintýri sumarsins og frelsi. Það besta er að "ormana" var farið að hlakka til að byrja á ný og það er "nottlega" bara frábært.
Segi ekki að það væri ekki gott að hafa "góða mömmu" í hópnum til að sjá um "pakkann", allavega annað slagið ... Held ég sé samt kominn í gegnum tékklistann að venju og ekkert eftir nema smyrja nestið í fyrramálið .....
Bros í bloggheima ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.8.2007 | 23:01
Ljóð og lag í stað ferðasögu .....
Þegar ég ætlaði að fara að blogga örlitla ferðasögu um viku ferð okkar feðganna til Svíþjóðar áttaði ég mig á því að teknar höfðu verið tæplega 250 myndir í ferðinni af ævintýrum sem tekur mánuð að endursegja. Ég ákvað því að slá þessu aðeins á frest. Kannski skrifa ég bara um þetta kaflaskipt og tek einn dag í einu, he he ...
Þess í stað ákvað ég að vera pínu djarfur og setja á bloggið mitt lag og ljóð sem kom til mín nær fullskapað eitt kvöld og lýsir vel því hvað þessir "ormar" eru að gera mikið fyrir mig og gefa mér mikið. Þar sem ég er hvorki skáld né tónlistarmaður, aðeins fiktari af lífi og sál, bið ég ykkur kæru bloggvinir að taka viljann fyrir verkið ...
They Treate me like the Prince of Wales
They treate me like the prince of Wales
they treate me like a God,
but sometimes they treate me like Ive done something bad.
I want to know, I want to feel
their fairs and sacrifies,
but I will never live their lives like mine
My love for them, my care for them
is bigger than a part,
and always like the sunny side of my heart.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.8.2007 | 23:33
Nauðgaralyfið enn í umferð ....
Get ekki látið hjá líða að verða við beiðni Heiðu bloggvinkonu og geri hér mitt til að benda á þann ófögnuð sem fylgir því að þetta lyf skuli vera í umferð. Varðandi lyfið sjálft og umfjöllun um það vísa ég í bloggið hennar Heiðu, sjá hér ...
En það er annars ótrúlegt hvað menn í þessum annarlegu hugleiðingum geta látið sér detta í hug og það sem verra er þá er að finna í öllum stéttum og þjóðfélagsstigum. Ég var á ferðalagi í Svíþjóð síðustu vikuna og þar virtist vera nóg af slíkum ófögnuði eins og við höfum lesið um hér heima á Íslandi.
Þar prýddi forsíðu eins af "DV" legu blöðunum þessi fyrirsögn "TV-Läkarens patient .... Jeg var för drogad för att skrika" ...
Hvort blaðið var að segja satt eða hvort þetta var soralegt sölutrikk eins og við þekkjum svo vel frá okkar Íslenska DV meðan það var uppá sitt besta veit ég ekki, en skelfilegt er allavega hvernig hluti samfélagsins er búinn að tína því sem vert er að lifa fyrir.
Styðjum Heiðu í baráttu hennar fyrir betri heim ....
P.s. kæru bloggvinir, takk fyrir "hjartnæm" komment" meðan ég var víðsfjarri bloggheimum, en alla vikuna var ég fjarri tölvum og allri slíkri tækni. Var yndisleg ferð sem ég á kannski eftir að blogga um .... en ég er sem sagt kominn heim heill og glaður .....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.8.2007 | 14:18
Vellukkað Króksmót
Kári minn var að keppa með 5. fl. KA á Króksmóti um helgina síðustu. Ég var liðsstjóri fyrir liðið hans þannig að við fórum bara allir feðgarnir saman og gerðum úr þessu smá ferðalag í leiðinni. Ólíkt verslunarannahelginni á Akureyri þá komu miklu fleiri en nokkurn tíma áður, tvöföldun frá mótinu í fyrra og keppendur yfir 1000. Allt fór vel fram og gekk vel, en 3000 óseldu hamborgarar Akureyringa frá verslunamannahelginni hefðu þó getað gengið út á Króknum, því það eina sem skyggði á þetta flotta mót var að matur var af skornum skammti og þurfti að leita að mat ofan í síðustu munnana á laugardagskvöldið, en samt ekkert til að gráta yfir því allt reddaðist þetta með dug heimamanna.
Eins og alltaf þá var ótrúlega gaman að vera með svona hóp heila helgi, en liðstjórinn er í hlutverki pabba og mömmu, sálfræðingsins og líka agameistarans sem reynir að byggja þá upp í hvern leik hvort sem það er eftir sætan sigur eða niðurlægjandi tap.
Okkur vegnaði vel því liðið náði með einbeitingunni að landa 3. sæti á mótinu í sínum flokki og Kári minn náði að yfirstíga sínar stærstu hindranir á þessu móti, því hann átti markið sem kom þeim í 2:1 í lokaslagnum um 3. sætið. Sætur sigur fyrir hann því hann hefur oft vantað herslumuninn á að trúa að hann gæti klárað þetta.
Liðið: (Efri röð f.v.) Jóhann, Ólafur, Gauti, Tómas, Kári og einn þjálfarinn.
(Neðri röð f.v.) Gunnar, Ísak, Guðmundur og Hreiðar.
Úrslit leikja: 3-1 KA-Kormákur, 3-0 KA-Tindastóll, 3-1 KA-Smári, 1-1 KA-KAc3,
2-0 KA-Þór, 1-4 KA-Fram/Hvöt og 2-1 KA-KAc3
Og hér hampa kapparnir bikarnum glaðir og ánægðir eftir erfiða og skemmtilega daga á Sauðárkrók.
Gist var í íþróttahúsi grunnskólans á staðnum og var þar mikið fjör þangað til allir féllu í fasta svefn örmagna efir erfiði dagsins ...
Að mótinu loknu tókum við síðan afslöppun í hjólhýsinu okkar því okkur lá ekkert á heim, en heim komum við seinni partinn í gær.
Það var ósköp notalegt þegar við vorum aftur orðnir einir feðgarnir að hvíla sig vel, gott að borða og svo horfðum við á eina góða mynd fyrir svefninn.
"Frábær ferð og frábærir fótboltastrákar að eiga við"
Á morgun erum við svo að skella okkur í flug til Köben frá Akureyri á leið okkar í viku ferðina til Svíþjóðar ..... þannig að það verður lítið bloggað næstu vikuna.
Bros í bloggheima ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.8.2007 | 02:27
Lífsreynslusaga - bílslysið
Ég hef oft hugleitt áður að koma einhverju á blað um þá lífsreynslu sem ég varð fyrir þegar við feðgarnir lentum í alvarlegu bílslysi. Ekki það að mig er alveg hætt að dreyma þetta eða upplifa leiftrin með myndbrotum í vöku eins og var nær daglegt brauð í langan tíma á eftir.
Þetta var ósköp venjulegur morgun í apríl fyrir rúmum 8 árum. Ég var að fara með strákana mína, þá 2ja og 4ra ára í leikskólann á leið minni til vinnu. Móðir þeirra og sambýliskona mín þáverandi var ný farin að heiman til vinnu einnig. Ég man þetta enn eins og það hafi gerst í gær. Þetta var ósköp friðsæll morgun, nokkurt frost og snjór úti, en ósköp stillt og fallegt veður. Við vorum ekkert að flýta okkur þennan morgun, allir glaðir og hressir. Þegar við vorum að koma okkur fyrir í bílnum rifjuðum við upp ævintýri Jóa mjóa, geimverunnar sem lenti á jörðinni, og kunni ekkert á öryggisbelti eða umferðina. Við vorum ekki eins og Jói mjói því við vissum alveg hvað við áttum að gera. Ég man hvert augnablik af því enn því sjaldan hafði ég gengið eins tryggilega frá barnabílstólunum og öryggisbeltum þeirra beggja eins og þennan morgun, enda búnir að rifja upp megnið af ævintýrum Jóa meðan á þessu stóð. Það var eins og eitthvað lægi í loftinu, en ég gerði mér enga grein fyrir hvað það var. Fyrir mér var það bara gleði yfir brosunum og hlátrinum sem ég mætti áður en við héldum af stað.
Við vorum ekki búnir að keyra langt þegar fegurðin og kyrrðin rann af þessum morgni og það svo skyndilega að ég hef ekkert upplifað sem er svo tímalaust og skyndilegt að það gerist bara áður en nokkuð hefði átt að geta gerst, 2 til 3 sek liðu með atvikum sem þó virtust heil eilífð, bang, einn ógnar hvellur og ég vissi ekki meir þá stundina. Við vorum að nálgast blindhæð á veginum þegar skyndilega birtist bíll á ógnarhraða á móti okkur. Í því er bílstjórinn kemur yfir hæðina missir hann stjórn á bílnum og kemur æðandi á móti okkur á okkar vegarhelming og stefnir nær og nær. Ég reyni að hægja á mér og hugsaði, ég verð að komast útaf, burt, forða okkur, og eitt andartak hélt ég að það tækist, búmm, ein stika í kantinum hvarf undir bílinn okkar,.. en þetta var útilokað bíllinn var nánast í andlitinu á mér og á þvílíkum hraða. Það síðasta sem ég man og hugsaði um leið og ég heyrði sjálfan mig öskra á hinn ökumanninn,.. ég má ekki láta hann lenda inní hliðina á bílnum mínum því þá er úti um strákinn minn sem sat fyrir aftan mig.. það síðasta sem ég gerði var að ég reyndi að rétta minn bíl af og beygði á móti hinum aftur .. tíminn var úti, ég fann ekki beint höggið sem þó var gríðarlegt en bara einhvern óendanlegan hávaða eins og eitthvað hefði sprungið inní í höfðinu á mér og ég sá bara myndir sem voru eins og vídeó í slovmotion, engar tilfinningar, enginn sársauki og svo var bara ekkert meir.
Það næsta sem ég veit af mér er hvar ég reyni að berjast um að losa mig, ég varð að losa mig, hvar eru strákarnir mínir, ég heyrði ekkert í þeim, sá þá ekki því ég gat mig fyrst hvergi hreyft nema hendurnar sem virtust eins og loðnar og vildu ekkert hlíða mér. Það var bara eitt allsherjar suð í hausnum á mér og eins og ég væri í rafsviði. Hnén á mér voru uppundir höku og stýrishjólið í bílnum rétt framan við nefið á mér, það var allt í mauki allstaðar og allt í glerbrotum. Ég reyndi með einhverjum fálmkenndum hreyfingum að sópa frá mér glerbrotunum, gleraugun mín, síminn minn það var ekkert þar sem það átti að vera.
Ég barðist um við að reyna að losa mig, ég varð að komast út, ég varð að finna strákana mína það komst ekkert annað að. Ég gerði mér enga grein fyrir því á þessu augnabliki hvort ég væri mikið slasaður, eins og ég hugsaði ekki einu sinni um það.
Á endanum tókst mér að losa fæturna og brölta til þannig að ég kom þeim yfir í farþegasætið því ég varð að reyna að komast út þeim megin því mín megin var engin hurð til að opna, bara eitthvert klesst hrúgald. Ég hafði svo takmarkaða stjórn á útlimunum, allt var bara dofið, en á endanum tókst mér að sparka upp hurðinni farþegamegin og ná að smokra mér út, en þegar ég náði því tók ekki betra við því ég gat ekki staðið, ég bara valt eitthvað frá bílnum, en fór strax að reyna að brölta á fætur, því nú greyp skelfingin mig meir en áður. Ég heyrði ekkert í strákunum og skelfilegustu hugsanir virtust eiga greiða leið inní annars dofinn kollinn á mér. Það var eins og heil eilífð tíminn sem leið meðan ég reyndi að koma mér á fætur og brölta að bílnum aftur. Ég datt kylliflatur þrisvar áður en mér tókst að standa upp við bílinn og opna afturhurðina.
Meðan á þessu gekk varð ég var við bílstjórann úr hinum bílnum, sem hljóp um hljóðandi með einhvern hlut af bílnum mínum í fanginu og það eina sem ég man er að ég heyrði hann hrópa eins og hann ætti lífið að leysa, fyrirgefðu, fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að gera þetta. Annað en þetta náði ég ekki að festa hugann við hann, því það var eins og hann væri af annarri plánetu, hann var ekki hluti af því sem ég var að upplifa eða berjast við. Nei ég varð að bjarga strákunum mínum ....
Í þann mund er ég náði að opna hurðina, var eins og ég fengi einhvern hluta af heyrninni aftur, því ég heyrði skaðræðisöskur. Já þeir voru að gráta, þeir beinlínis stóðu á öndinni af ekka og gráti. Ég hef samt aldrei heyrt eins falleg hljóð, því á sama augnabliki greindi ég ólík hljóð þeirra beggja, þeir voru lifandi og ég varð að ná þeim út, strax. Á næstu augnablikum náði ég að finna að þeir voru allavega ekki stórslasaðir, bara dauðskelkaðir af hræðslu. Ég náði að losa þá báða úr beltunum og koma þeim út og frá bílnum. Guð hvað mér leið vel eins og mér var nú að byrja að líða illa í öllum skrokknum, því það var eins og ég væri allur að stífna upp, eins og vöðvarnir væru að brenna.
Ég settist með þá niður í snjóinn spöl frá bílnum og bara hélt utan um þá og reyndi að róa þá og segja þeim að þetta yrði allt í lagi. Ég man að ég reyndi að raula fyrir þá "dvel ég í draumahöll og dagana lofa ..." sem ég hafði sungið fyrir þá kvöldið áður með gítarinn í fanginu. Ég bara sat þarna og gat ekki meir, vissi ekkert hvað tímanum hafði liðið og ekki hafði ég símann til að hringja á hjálp því hann hafði alveg gufað upp. Ég var heldur ekkert alveg viss um hvar ég var, nema bara að ég gerði mér grein fyrir því að ég var talsvert frá veginum sem ég, gleraugnalaus, sá í þoku fyrir ofan okkur.
Það var því notaleg tilfinning þegar ég sá bíl koma og ungan mann úr sveitinni koma hlaupandi til okkar til að vitja um okkur. Eftir að stumra yfir okkur smá stund og ganga úr skugga um ástand okkar hringdi hann strax á hjálp og kom síðan með bílinn sinn, sem var pickup jeppi útfyrir veginn í nálægð við okkur. Hann kom okkur síðan inní hlýjuna í bílnum, mér í bílstjórasætið og strákunum við hliðina á mér. Ég var nú alltí einu farinn að hugsa um eitthvað sem engu skipti á svona augnabliki, ég bað hann að lána mér símann sinn svo ég gæti hringt í vinnuna til að látið vita af mér. Mér hefur síða verið sagt frá því símtali sem þótti nokkuð skondið. Ég kynnti mig og sagði að ég hefði orði fyrir smá óhappi og yrði eitthvað seinn í vinnuna.
Í þann mund er lögreglan og sjúkralið komu á vettvang var ég farinn að finna verulega fyrir skrokknum á mér, mig verkjaði allstaðar og ég gat varla hreyft höfuðið. Það sá þó ekkert á mér utan þess að buxurnar mínar voru rifnar á vinstra hnénu og hnéð svolítið tætt og blóðugt, en ekkert stórvægilegt. En jæja nú kom kafli sem ég gleymi seint og varð til þess að ég náði að skellihlæja við þessar annars óþægilegu aðstæður. Tveir lögreglumenn koma í humátt að bílnum þar sem við kúrðum, ég við stýrið og strákarnir að hjúfra sig við hliðin á mér og orðnir ótrúlega rólegir. Annar lögreglumanna, ungur sláni, rífur upp bílstjórahurðina hjá mér og horfir á okkur hvössum augum. Þrumar svo yfir mér, hvað ertu með drengina frammí og enginn í belti. Ég kom ekki upp neinu orði, ég bara hló og horfði á hann í einhverri undran ... Ég þurfti sem betur fer ekki að eiga frekari orðastað við hann því nú var hinn lögregluþjónninn kominn og tók um öxlina á þeim fyrri og ýtti honum hæversklega frá um leið og hann benti á flakið af bílnum okkar og sagði "æ ætli þetta sé ekki bíllinn þeirra þarna sjáðu".
Hvað er að tarna frændi minn segir hann svo næst, því þarna var þá enginn annar á ferð en hann Geir frændi minn með hlýju röddina sína. Mikið ósköp var það notalegt, því á þeirri stund fannst mér eins og okkur væri algerlega borgið.
Síðan tóku sjúkraflutningamennirnir við, sem vissu greinilega hvað þeir áttu að gera og segja við okkur. Þeir smokruðu á mig hálskraga og komu fyrir stuðning við hrygginn á mér áður en þeir tóku til við að smokra mér útúr bílnum og á sjúkrabörur sem síðan urðu ferðamátinn minn á sjúkrahúsið. Þeir virtust líka hugsa fyrir öllu um leið, reyndu að ná sambandi við mömmu strákanna svo hún frétti nú ekki af þessu einhverstaðar eða lenti í því að taka á móti okkur á sjúkrahúsinu, því þar var hún að vinna. Það náðist þó ekki í hana og þeir hringdu þá í Randa bróðir minn og báðu hann að koma og vera okkur til halds og traust er þeir kæmu með okkur á spítalann.
Strákarnir virtust ótrúlega hressir og ekkert sem amaði að þeim nema hræðslan sem engan vegin var búin að segja skilið við þá. Þeir komu með í sjúkrabílinn og þar fengu þeir strax áfallahjálp sem gagn var að því Siggi á sjúkrabílnum vissi alveg hvernig átti að tala við svona snáða og ekki skemmdi nú fyrir sjúkrabílabangsinn sem þeir fengu til eignar og átti að hjálpa þeim að passa pabba á leiðinni. Ferðin á spítalann var ótrúlega ljúf, ég bara lá þarna allur reyrður niður og horfði á andlitin á Sigga og strákunum mínum sem sátu yfir mér og Kári eldri strákurinn hélt í aðra höndina á mér alla leiðina. Þeir voru líka farnir að brosa og hlæja pínu að Sigga sem gerði þetta að ævintýraferð.
Ég ætla ekkert að fjölyrða nú um þann tíma sem tók við á sjúkrahúsinu með deyfisprautum og rannsóknum og nóttum sem ég gat ekki sofið meir en 2 til 3 tíma í einu án þess að brölta á fætur og liðka mig. Það sem stendur uppúr nú er þakklæti fyrir hvað við vorum þó heppnir í þessu óláni.
Ég verð þó að viðurkenna að stærsta sjokkið fékk ég nokkrum dögum síðar þegar ég fór og fékk að sjá bílinn minn. Við áreksturinn hafði framhornið bílstjóramegin hreinlega skafist af bílnum, framhjólið með hjólastellinu og öllu tilheyrandi hafði orðið eftir uppá veginum. Ég hafði trúlega verið á 70 - 80 km hraða þegar við skullum saman, en hraðinn á hinum bílnum var aldrei staðfestur í skýrslu en hann hafði þó greinilega verið á seinna hundraðinu þegar við lentum saman því bíllinn minn hafði kastast, án þess að snerta jörð, 15 metra út fyrir veg og um 10 metra til baka miðað við okkar akstursstefnu og hafði snúist í loftinu meir en hálfhring við höggið. Þegar ég stóð við brakið skildi ég vel af hverju ég hafði átt í þessum átökum við að losa mig. Bílstjórasætið náði ekki helming af eðlilegri breidd og bilið milli framsætanna var horfið, því svo mikið hafði bíllinn gengið saman. Mælaborðið og stýrið höfðu gengið langt aftur og upp og ég skildi nú fyrst hvernig hnéð á mér hafði verið klemmt þar á milli og sá hversvegna buxurnar mínar höfðu rifnað og hnéð á mér blóðgast, þar sem sá út í gegnum þunnt járnbrakið sem eftir var af hurðapóstinum þar sem hornið hafði skafist af bílnum. Það sem hafði líka bjargað mér, fyrir utan hvað ég er smávaxinn og nettur, var að þakið fyrir ofan mig hafði gengið upp í V þannig að frítt pláss var fyrir höfuðið. En það má guð vita að, þó fullfrískur væri, þá hefði ég aldrei getað komið mér aftur niður í þetta pláss sem ég hafði verið svo kirfilega klemmdur í. Það tók líka á að handfjatla bílstól yngri sonarins, VÍS stólinn af bestu gerð, sem hafði mölbrotnað við átökin þegar beltið reyrðist um hann. En hann hafði gert sitt gagn eins og annar öryggisbúnaður í þetta skiptið.
Strákarnir mínir voru ótrúlega fljótir að ná sér eftir þetta þó þörfin hafi lengi verið mikil fyrir að ræða þetta allt fram og til baka. Karl var svo ungur að hann man minna eftir þessu í dag en Kári, aðallega það góða úr sjúkrabílaferðinni, hann Sigga á sjúkrabílnum sem var svo góður að passa pabba og svo bangsann góða sem enn er til og nýtur virðingar. Kári hinsvegar hefur sagt mér að hann muni mest eftir því þegar þeir voru að hágráta og pabbi bara var kjur frammí bílnum og gat ekkert gert. Sjálfur veit ég ekki hve langur tími hefur líðið, en ljóst er þó að ég var meðvitundarlaus einhvern tíma og nálægt hálftíma leið frá því áreksturinn varð þar til bjargvætturinn á pickupnum kom á vettvang. Kári hefur líka sagt mér að hann muni eftir stóra kraganum um hálsinn á mér og hvernig hann hélt í höndina á mér alla leiðina til að passa mig.
Eins og ég gat um í upphafi hef ég alltaf ætlað að festa þetta á blað en sagan rifjaðist upp fyrir mér í kvöld eftir að ég bað strákana mína um að fá að fresta kvöldmatnum smá meðan ég færi í heitt bað, en það er oft bjargvættur minn nú 8 árum síðar til að liðka á mér hálsinn, hnakkann og herðarnar sem enn vilja frjósa eins og einhver haldi um mann kverkataki og ætli bara ekki að sleppa. Þá er gott að leggjast í sjóðheitt bað með nefið eitt uppfyrir vatnsborðið og láta hitann sjá um að liðka skrokkinn.
Í dag finn ég samt aldrei annað en þakklæti fyrir hve vel við í raun sluppum frá þessum hildarleik sem bara ruddist inní líf okkar svo skyndilega þennan fallega og friðsæla morgun þegar við gerðum allt eins rétt og hægt er að gera í umferðinni. Ég neita því ekki að sú hugsun hefur oft leitað á mig, hvað ef ég hefði ekki eytt öllum þessum tíma í að ganga vel frá öryggisbeltunum þeirra þennan morgun og við ekki verið að rifja upp lærdóminn hans Jóa mjóa. Hefðum við þá kannski allir farið yfir móðuna miklu, eða hefðum við kannski bara sloppið við þetta allt saman því við hefðum verið komnir yfir blindhæðina. Einhvernvegin finnst mér samt að við höfum ekki átt möguleika á að sleppa frá þessum örlögum okkar og natnin við beltin hafi því vegið þyngra.
Það sem situr eftir hjá mér sem huggun og laun fyrir allar kvalirnar sem ég hef liðið í skrokknum er að ég held að ég hafi verið miklu betri pabbi eftir en áður, því allar götur síðan hefur hver stund sem ég hef átt með þessum "strákahvolpum" mínum verið dýrmæt og ég í hjarta mínu sætt mig við það að ég fengi aldrei að vita hversu lengi við fengjum að vera hér hver fyrir annan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
3.8.2007 | 21:45
Afkomuviðvörun frá Stóra kletts virkjun
Aðstandendur Stóra kletts virkjunar hafa ákveðið að gefa út afkomuviðvörun þar sem framkvæmdum miðar ekki fullkomlega samkvæmt áætlun. Jarðvegsframkvæmdir hafa reynst mun umfangsmeiri en í fyrstu var talið sökum þess að rjúfa þarf hörð berglög til að koma fyrir burðarvirki stíflunnar. Hér er þó ekki um óyfirstíganlega hluti að ræða og ekki talið hafa áhrif á gengisþróunina sem er í fullu samræmi við spár framkvæmdaaðilanna hér fyrir skemmstu, en þeir eru taldir hafa fyrst komið fram með raunhæfa spádóma um gengisfall krónunnar og titring á mörkuðum (sjá hér).
Rafhönnun virkjunarinnar stendur nú sem hæst meðan tafir eru á framkvæmdum við stíflugarðinn.
Rafallinn er kominn í hús en smíði vatnstúrbínunnar er í undirbúningi.
Rafallinn er framleiddur af Mitsubishi verksmiðjunum, nánar tiltekið altenator úr 1991 módel af Subaru Justy.
Þá hefur einn ágætur starfsmaður N1's á Akureyri tekið að sér að úvega hentugan Amper mæli (straummæli) svo hægt sé að fylgjast með aflframleiðslu virkjunarinnar.
Það eina sem hönnuðir eiga eftir að leysa er að ná réttum snúningshraða á rafalinn frá vatnstúrbínunni. Ljóst er að rafallinn þarf að snúast nokkru hraðar en snúninginn sem hægt verður að ná vatnstúrbínunni á með vatnsaflinu.
Teórían er þó orðin klár hjá hönnuðunum, því þetta er jú allt þekkt frá reiðhjólunum. Þetta er bara spurning um að finna réttar stærðir á reimskífur til að hlutirnir gangi upp.
Þar sem útreikningarnir vefjast aðeins fyrir hafa hönnuðir ekki ákveðið að fullu hvort einu reiðhjólanna verði slátrað í tilraunaskini eða hvort tilraunirnar verði gerðar á virkjunarstað.
Hönnun virkjunarinnar hefur þegar vakið nokkra athygli því starfsmaður rafvélaverkstæðis á Akureyri hefur gefið nokkur góð ráð og hefur óskað eftir að fá að fylgjast með framkvæmdum. Hann hefur m.a. tjáð hönnuðum að nauðsynlegt sé að ná 2000 rpm hraða á rafalinn til að hann vinni nógu létt fyrir vatnið. Náist þetta ekki hefur hann boðist til að breyta innbyggðri spennujöfnun rafalsins þannig að ná megi fullu afli við lægri snúning.
Fréttir verða fluttar af framkvæmdum jafnóðum og mikilvægum áföngum er náð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.8.2007 | 23:18
Að efast um eigin getu eða fela hæfileika!?
Ég fór að velta því fyrir mér í kvöld af hverju svo margir efast um eigið ágæti og fela jafnvel suma af sínum mestu hæfileikum af ótta við að þeir passi ekki þeirri sjálfsmynd sem viðkomandi er að reyna að draga upp af sjálfum sér til að falla sem best inní einhverja "mynd" eða til að "ganga í augun á einhverri/einhverjum". Sjálfur er ég sannfærður um að við erum best þegar við "erum við sjálf" og geyslum okkar orku og hæfileikum sem veita okkur mesta vellíðan og ró fyrir okkur sjálf.
Málið er að ég er nebblega samt svona "efari" líka ,...... and taka a note now my best bloggerfriends :)
Hver þekkir ekki að t.d. "framkvæmdastjóri" (eins og ég) á að uppfylla ákveðin skilyrði,.. svona bíl, svona föt, svona háttalag o.s.frv. Þetta passar mér ekkert voðalega vel því það að vera í forsvari er allt annað fyrir mér, það snýst um að leiða saman gott fólk til góðra verka, hvetja, nýta þekkingu, skapa, frjó hugsun, beita sanngirni og náungakærleik (þó ekki á skítseiðin sem eru líka í business ... he, he). Búningarnir eru oft skel, vörn sem virka fínt í fyrstu en koma samt alltaf upp um innihaldið fyrr eða síðar ef það er ekki það sem vænst er ...
En nú að efninu .... ég þori alveg að viðurkenna fyrir hverjum sem er að ég hef gaman af hinu og þessu, einsog "húsmóðurhlutverkinu" eða að ærslast á hjólinu mínu, eða stjana við dekurrófurnar bílana mína, en þegar kemur að andlegum málum og kærleika þá er maður kannski ekkert að flagga því meir en maður þarf...
Þannig var að í kvöld er ég búinn að eyða drjúgum tíma í draumabloggið mitt við að ráða drauma og leiðbeina öðrum. Einhverra hluta vegna stofnaði ég þetta blogg draumar.blog.is nafnlaust og hef verið að fikta við það reglulega síðan. En af hverju nafnlaust, jú ég verð að viðurkenna að ég hélt að með því móti væri það trúverðugra, því það passaði kannski ekki þeirri mynd (ímynd) sem fólk hefði fengið af mér .... svona er maður nú skrítinn, he he ... (eða hvað finnst ykkur???)
Innst inni veit ég vel að ég hef fengið ákveðna gjöf gagnvart andlegum málum og þar eru draumar innifaldir. Ég efast ekkert um það sem ég hef verið að gera undir dulnefni því leiðsögnin sem ég fæ við þá iðju er mjög skýr.... en ég hef efast um að "ég" með nafni geti gert þetta, HUMM
Ástæða þess að ég ákvað að skrifa þetta er annar af draumunum sem ég var að ráða í kvöld með kertaljósið á lyklaborðinu (sjá hér).... Það er stundum svo auðvelt að ráðleggja öðrum og leiðbeina en gleyma sjálfum sér á meðan.. he he ...
Bros og knús til bloggvina :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.7.2007 | 22:21
Jebb við hrepptum annað sætið
Í dag var bæjarkeppni hestamannafélagsins Funa í sveitinni. Við fórum náttúrulega á staðinn til að skemmta okkur í góða veðrinu. Við vorum, eins og aðrir góðir þegnar, búnir að styrkja keppnina með því að láta bæinn okkar taka þátt .... og viti menn ... Jibbý, hæ, hæ og hó þetta varð spennandi því hesturinn sem keppti fyrir okkur lenti í öðru sæti.
Þetta hefur verið annars hinn besti dagur, en snemma í morgun hringdu allar vekjaraklukkur heimilisins, gemsar og tölvuúr því virkjunarmennirnir ætluðu ekki að láta daginn hlaupa frá sér.
Uppúr átta í morgun var allt komi á fulla ferð á stíflusvæðinu. Læt hér nokkrar myndir segja söguna.
Unnið við að koma fyrir burðarstólpum stíflugarðsins ....
Stund milli stríða.... gott lindarvatnið á svona degi. Hér til hægri má svo sjá hvar búið er að koma fyrir bátabryggju í fyrirhugaðri lónshæð.
Á heimleið að afloknu verki ....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.7.2007 | 18:41
Krónan veiktist um 0,53% eftir að tilkynnt var um virkjanaframkvæmdirnar
Framkvæmdaaðilar við Stóra klett neita því ekki að veiking krónunnar í dag sé í beinu samhengi við fréttir af framkvæmdunum. Greiningardeildir spá því að með þessari framkvæmd sé verið að hverfa frá stóriðjustefnunni og ímynd vistvænna smávirkjana taki við. Þetta muni hafa áhrif strax á tiltrú á krónuna og slá hratt á þensluna sem skapast hefur af opinberum stórframkvæmdum.
Því er jafnvel spáð að markaðir muni gera greinarmun á virkjunum eftir stærð og eðli og búast megi við að hærra verð fáist fyrir rafmagn frá Stóra kletts virkjuninni en stærri virkjunum á borð við Kárahnjúka og Nesjavelli sem muni mega vænta verðfalls í kjölfarið. Þetta telja framkvæmdaaðilar mjög jákvæða þróun og harma það ekki þó fréttir af vinnu þeirra á virkjunarstað verði til að hrista upp í ofhituðu hagkerfinu. Þeir telja jafnframt að þetta sé bara byrjunin á falli krónunnar og búast megi við hræðslu á mörkuðum næstu daga. Líkleg niðurstaða er að gengisvísitalan gæti farið yfir 120 innan fárra daga segja þeir að lokum.
Fréttina frá í dag má nálgast hér: http://hk.blog.is/blog/hk/entry/272225/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2007 | 17:03
Virkjunarframkvæmdir hafnar án umhverfismats
Í dag hófust umfangsmiklar jarðvegsframkvæmdir við gerð stíflumannvirkis virkjunarinnar neðan Stóra kletts. Framkvæmdaaðilar voru glaðbeittir og var mikill kraftur settur í verkið frá fyrstu stund. Þeir tjáðu bloggritara að til álita hefði komið að óska umhverfismats á framkvæmdunum, en féllu þó frá því eftir að hafa lesið um það á vef umhverfisstofnunar hve flókið það ferli væri og tímafrekt.
Ýtarleg grein hefur verið gerð fyrir þessum virkjanaáformum áður hér á bloggsíðunni og gætti þá nokkurrar undrunar og gagnrýni í garð framkvæmdaaðila. Þeir hafa þó ekki látið það á sig fá og telja að um vissan misskilning hafi verið að ræða af hálfu verndarsinna og að þeir hafi þar farið nokkuð geyst af stað í gagnrýni sinni. Telja þeir jafnframt að hér sé um þjóðhagslega hagkvæma einingu að ræða sem muni skila ávöxtun mjög hratt og áhrif á umhverfi verði fremur jákvæð en neikvæð. Þessu til stuðnings nefna þeir að búast megi við að fuglalíf eflist á svæðinu með tilkomu stíflunnar.
Hér má finna tengdar greinar um virkjanaáformin:
http://hk.blog.is/blog/hk/entry/194590/
http://hk.blog.is/blog/hk/entry/196603/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)