8.12.2009 | 21:33
Kári Liljendal á jólatónleikum 2009
Langt síðan ég hef skrifað eitthvað hér, en ætla að vista hér smá minningu frá jólatónleikum Tónlistarskóla Eyjafjarðar sem voru í dag. Kári minn var þar að spila og spilaði fyrst eitt lag ásamt Sigurði Árnasyni skólabróður sínum og Marcin kennara. Síðan spilaði hann annað lag ásamt Marcin. Þetta voru hinir bestu tónleikar að vanda og dásamlega gaman að hlusta á strákana.
Kári og Marcin að stilla saman strengina fyrir tónleikana.
Kári Liljendal og Sigurður Árnason spila lagið "Are you gonna be my girl"
Kári Liljendal spilar lagið "American idiot"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nú er næstum liðið ár frá hruni bankanna og ekkert raunhæft eða vitrænt hefur verið gert til að rétta af stöðu heimila eða venjulegra fyrirtækja í landinu. Skjaldborgin blessuð, hvar er hún?
Í stað þess að ganga hreint til verks og fara í almennar aðgerðir til leiðréttingar skulda eru stjórnvöld tilviljanakennt að grípa inní atburðarrásina með yfirtökum og stórfelldri niðurfellingu skulda hjá stórum fyrirtækjum sem sum hver áttu sér enga von jafnvel fyrir hrunið. Þetta er mjög alvarleg staða fyrir heiðvirt og vel rekin fyrirtæki sem þurfa nú sum hver að berjast í samkeppni við þessi fyrirtæki sem hafa nú fengið samkeppnisforskot vegna niðurfellingar skulda og haga sér á markaði eins og ekkert hafi nokkurn tíman gerst. Ég ætla ekki að nefna nein ákveðin fyrirtæki hér en þekki mörg dæmi þar sem þessi staða er uppi.
Það á að hjálpa þeim sem verst standa segir Árni Páll sem að mínu viti virðist ekki gera sér nokkra grein fyrir stöðunni almennt eða hvernig eigi að bregðast við þessum aðstæðum þannig að líklegt sé að við förum að vinna okkur upp úr öldudalnum.
Almenn leiðrétting skulda er ennþá að mínu mati eina raunhæfa fyrsta skrefið. Einföld og fljótvirk aðferð sem kostar ekkert eins og sýnt hefur verið frammá. Kostar ekkert af því að með því væri verið að auka virði skuldasafnanna þar sem fleiri yrðu færir um að standa í skilum og greiða sínar skuldir. Réttlætismál einnig þar sem nýju bankarnir keyptu kröfurnar á fyrirtæki og heimilin með miklum afföllum, jafnvel yfir 50%. Að almennri leiðréttingu lokinni má taka til við að skoða stöðu einstakra fyrirtækja og heimila og kanna hvað hægt er að gera til viðbótar.
Það er einnig frekar sorglegt að margar aðrar aðgerðir sem verið er að grípa til eins og skattahækkanir, auknar álögur á matvæli með s.k. sykurskatti vinna þveröfugt við það sem þarf að ná fram. Þessar aðgerðir eru allar til þess fallnar að minnka ráðstöfunartekjur fólks og minnka neyslu sem sem herðir kreppuna og veldur því að ríkið fær minni skatttekjur til ráðstöfunar. Réttara hefði verið að létta af álögum við slíkar aðstæður, lækka skatta, og auðvelda fólki og fyrirtækjum að auka umsvif og neyslu á ný sem með hægri uppsveiflu yrði fljótt að færa ríkinu meiri tekjur. Slíkt yrði driffjöður til vaxtar.
Þá þarf vaxtastig að lækka enn frekar til að einhver þori að fjárfesta í atvinnulífinu og peningarnir sem nú hlaðast upp í nýju bönkunum hafi eitthvað að gera, en séu ekki atvinnulaust fjármagn eins og nú stefnir allt í. Komist ekki á eftirspurn eftir lánsfé munu nýju bankarnir ekki eiga möguleika á að spjara sig því þeir þurfa jú að borga fyrir það fé sem safnast upp en skilar engum arði.
Köllum eftir aðgerðum strax, þetta gengur bara einfaldlega ekki lengur. Það er of seint í rassinn gripið að tala t.d. um mikilvægi matvælaöryggis þjóðarinnar og hollustu og hreinleika íslenskra matvæla þegar búið verður að veikja landbúnaðinn svo mikið að hann nái ekki að halda þeirri stærð og hagkvæmni sem búið var að byggja upp. Eins og staðan er nú eru miklar líkur á að allt að 30-40% bænda gætu farið í þrot og það er einfaldlega meir en greinin sem slík þolir. Sjávarútvegurinn er einnig í verulegri hættu, þrátt fyrir að útflutningstekjur séu góðar um þessar mundir sökum gengisþróunarinnar. Hann er í hættu vegna ofurskuldsetningar og nýtingarréttur auðlindarinnar gæti því farið úr höndum okkar í einni svipan ef gjaldþrotahrina færi um greinina. Hverjir myndu halda á þeim kröfum þar sem 2 af nýju bönkunum eru líklega á leið í hendur kröfuhafa sem að stórum hluta eru erlendir aðilar.
Almennar, gagnsæjar aðgerðir er það sem þarf að koma nú þegar þannig að atvinnulífið sjálft og fólkið í landinu geti unnið okkur sem þjóð útúr kreppuástandinu, því það verður aldrei gert í þingsölum hvort eð er. Þar er hinsvegar hlutverk manna að skapa þau skilyrði að atvinnulífið og fólkið geti tekist á við þetta verkefni á raunhæfan hátt.
Ekki meira í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2009 | 01:40
Peningar og vald í stað vopna heimstyrjaldanna. Er Evrópusambandið kannski ekkert annað en nútíma hernaður?
En að sækja um aðild nú er hinsvegar, óháð öllum kostum og göllum, alveg arfa vitlaust í mínum huga. Vitlaust vegna þess að samningsstaða okkar gæti ekki verið verri en hún er einmitt nú. Vitlaust vegna þess að við eigum hvorki að eyða tíma eða peningum í slíkt nú þegar við þurfum á öllu okkar að halda til að hlúa að atvinnulífinu og fjölskyldum í landinu. Við höfum einfaldlega ekki efni á svona leikaraskap á sama tíma og atvinnulífið og fólkið í landinu rær lífróður út úr kreppunni. Þannig fannst mér sorglegt að fylgjast með atkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina á Alþingi og sjá fjölmarga þingmenn greiða atkvæði gegn eigin sannfæringu og málflutningi eða gegn stefnu síns flokks. Sorglegt að sjá að þetta snérist fyrst og fremst um smástríð í pólitíkinni. Kannski mest spurninuna um hvort stjórnin félli eða ekki ? Var kannski einhverjum einnig orðið meira virði nýfengið vald og embætti en eigin skoðanir og sannfæring. Á sama tíma og þetta gengur yfir er birt skoðanakönnun sem segir 78% þjóðarinnar andvíga aðildarumsókn nú.
Já það má spyrja margra slíkra spurninga nú og það gerum við efalaust mörg sem stöndum í þeim sporum að halda hjólum atvinnulífsins gangandi þessa dagana án þess að verða þess vör að stjórnvöld standi sína vakt við að búa atvinnulífinu og fólkinu í landinu þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að ekki fari illa.
En nóg um það því ég ætlaði að skrifa um allt annað hér. Nefnilega þetta. Getur það verið að Evrópubandalagið snúist fyrst og fremst um peninga og völd? og sé í raun ekkert annað en nútíma hernaður án vopna. Hernaður þar sem gömlu heimsvaldasinnarnir sem máttu leggja upp laupana í heimstyrjöldunum eru nú að keppast við að ná þeim völdum, en bara með öðrum hætti. Þessi styrjjöld er þannig kannski ekkert mikið frábrugðin öðrum, hún snýst um að tryggja sér mat, ná valdi yfir auðlyndum sem geta verið lykillinn að velsæld og völdum til lengri framtíðar. Í þessu samhengi er því fróðlegt að velta fyrir sér hvers vegna Ísland ætti að ganga í bandalagið eða hvers vegna bandalagið ætti að hafa áhuga á Íslandi. Sjálfur er ég þess viss að Ísland er vænlegu biti því fá lönd í heiminum búa yfit jafn miklum auðlindum og landið okkar þar sem vatn og orkugjafar gætu vegið þyngst. Í dag skipta fiskimiðin einnig miklu og eru sem gull í augum margra, ekki síst Breta.
Það er einnig gaman að velta vöngum yfir lýðræði og skipulagi sambandsins, því þar er vissulega gert ráð fyrir að allir hafi áhrif. En úbs! já ... humm hver yrðu áhrif okkar fámennu þjóðar? Þau yrðu nánast engin. Við gætum að sjálfsögðu beytt rödd okkar en hún viktar lítið ef hagsmunir þeirra stóru eru aðrir og kosningar yrðu í líkingu við þær sem við sáum á okkar háttvirta Alþingi nú. Þannig held ég að jafnvel þó við setjum ströng skilyrði við inngöngu um auðlyndirnar og fengjum samþykkt sérstök ákvæði um landbúnað og sjávarútveg þá myndi það stoða lítt þegar frá liði og við færum að taka þar þátt í atkvæðagreiðslum framtíðarinnar um breytingar á t.d. stjórnun fiskveiða eða stjórnun og nýtingu auðlinda.
Við skulum allavega flýta okkur hægt í þessu því þetta mun aldrei snúast um það hvort Íslandi verði veitt aðild, þetta mun alltaf snúast um það hvort við viljum fara þarna inn. Við erum vænn biti og áhugaverður sem margar Evrópuþjóðir þyrstir í að gleypa.
Bara smá hugleiðingar fyrir svefninn :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2009 | 23:21
Augnablik dögunar
Staldraði við á leið til vinnu í morgun við lítinn manngerðan drullupoll við uppfyllingarnar við lenginguna á Akureyrarflugvelli. Fegurðin er þar og þegar maður er tilbúinn að njóta hennar. Ekki það að skemmtilegra hefði verið að leifa mýrlendinu að njóta sín frekar en að malbika stóran hluta þess, en það er líka mikil fegurð í þeirri tilhugsun að geta lyft sér héðan og flogið til framandi staða á vit ævintýra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.3.2009 | 23:20
Ég hélt fyrst að það væri kominn 1. apríl
Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum þegar ég sá þá frétt að Samkeppniseftirlitið hefði úrskurðað að Bændasamtökin hefðu brotið gegn samkeppnislögum með því að tala um að sátt þyrfti að nást í samfélaginu um hærra afurðaverð til bænda ef greinin ætti að lifa af.
Það kann vel að vera að hægt sé að komast að þessari niðurstöðu beint útfrá lagabókstafnum, en þá held ég að öllum megi ljóst vera að farið er að túlka samkeppnislög og heimildir samkeppniseftirlitsins með allt öðrum hætti en lagt var upp með þegar þau voru samin. Bændasamtökin eru fyrrst og fremst hagsmunasamtök bænda, sem launþega, ekki ólíkt stéttarfélögum annarra vinnandi stétta í landinu sem berjast fyrir rétti sínum. Þessi túlkun og niðurstaða samkeppnisyfirvalda er mér því með öllu óskiljanleg.
Sé þetta niðurstaðan er jafn ljóst að t.d. kennarasambandið hefur brotið gróflega af sér og það ítrekað með því að lýsa því yfir að laun kennara verði að hækka.
Hér velur samkeppniseftirlitið að líta á bóndann sem fyrirtæki í skilningi laganna og hagsmunasamtök þeirra sem samtök fyrirtækja sem lúti samkeppnislögum. Æ já hvað er hægt að segja annað en æi já. Þetta er auðvitað úr takti við allt sem heilbrigð skinsemi segir okkur og þjónar heldur engum tilgangi og allra síst neytendum sem lögin eiga að vernda.
Allt öðru máli gegnir um hlutverk samkeppnisyfirvalda þegar kemur að því að vakta vinnubrögð þeirra fyrirtækja sem afsetja vörur bænda og eru sá aðili sem tekur þátt í endanlegri ákvörðun um verðlagningu hvort heldur það er innan opinberrar verðlagningar eða við verlagningu þeirra vara sem ekki lúta ákvörðun verðlagsnefndar. Þar á samkeppniseftirlitið að standa vörð rétt eins og í öðrum atvinnugreinum og viðskiptum.
Hér eiga stjórnvöld að grípa inní áður en málið fer svo langt að Bændasamtökin þurfi að berjast fyrir rétti sínum fyrir dómstólum. Landbúnaðurinn þarf á öllum sínum kröftum að halda til annara verka nú við að tryggja matvælaframleiðslu landsins neytendum og landinu til hagsbóta.
Bændasamtökin telja að ekki sé um brot að ræða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 7.3.2009 kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2009 | 11:50
Hafa þessir 1200 milljarðar einhverntíma verið til?
Það er vissulega rétt hjá Steingrími að við slíka skuldaniðurfærslu yrði erfitt að gæta fulls jafnræðis meðal fyrirtækja og einstaklinga, en ég tel þó að þetta sé ekki eins flókið mál og það er gert hér.
Þegar talað er um 20% niðurfærslu skulda, eins og tillögur Framsóknarflokksins gera ráð fyrir, er aðeins verið að tala um að færa skuldir landsmanna niður um hluta af því sem þessar sömu skuldir hafa aukist um vegna bankahrunsins og óstöðugleikans í fjármálaumhverfinu.
Það er því mikil einföldun á málinu að segja að þetta muni kosta 1200 milljarða, því þá peninga hefur ríkið aldrei átt. Annars vegar erum við að tala um erlendar skuldir sem hafa vaxið gríðarlega vegna falls krónunnar og hins vegar innlendar skuldir sem hafa vaxið vegna mikils verðbólguskots.
Þegar nýju bankarnir urðu til keyptu þeir kröfur á einstaklinga og fyrirtæki af þrotabúum gömlu bankanna en yfirtóku ekki erlendar skuldir þeirra vegna sömu skuldara. Frá þessum tímapunkti hafa þessi sömu lán þó verið reiknuð í erlendum gjaldmiðlum og vöxtur þeirra vegna frekara falls krónunnar því skapað nýtt eigin fé í nýju bönkunum (hjá ríkinu). Hér kann þó að vera að gengistryggð skuldabréf liggi að baki sem greiðsla, en um slíkt hefur hvergi verið upplýst. Alla vega er þekkt að þessar skuldbindingar voru teknar yfir með miklum afföllum og hafa verið nefndar tölur allt upp í 50% í því samhengi, þannig að ég gef mér að innan þess ramma sé fullkomið svigrúm fyrir slíka aðgerð, að færa skuldirnar niður um 20%.
Sama gildir um verðtryggðu lánin, þau hafa vaxið á stuttum tíma vegna óðaverðbólgu og framleitt sinn hluta af þessum 1200 milljörðum sem nú er rætt um að kosti að taka á vandanum.
Það er líklega tímabært einnig að lífeyrissjóðirnir, Íbúðalánasjóður og ríki fari að gera sér grein fyrir að þessir peningar eru fyrir löngu tapaðir og verða ekki eingöngu sóttir í vasa einstaklinga og fyrirtækja.
Varðandi það að ná að tryggja jafnræði eins og ég gat um í upphafi, þá held ég einnig að það sé ekki óyfirstíganlegt heldur þar sem við erum einungis að tala um að færa niður skuldir um hluta af því sem þær hafa aukist á skömmum tíma vegna þessara hamfara í samfélaginu. Við slíka aðgerð myndu skuldir allra skuldara lækka um sama hlutfall af þeirri upphæð sem þær hafa vaxið og menn stæðu því jafnir eftir. Varðandi þá sem lítið eða ekkert skulda gildir því það sama, því þeir hafa ekki fengið á sig þessar auknu birgðar skuldaaukningarinnar.
Veit þetta er vandasamt verk, en ég tel að þetta megi þó ekki afgreiða útaf borðinu með slíkum tölum eins og hér er gert. Sú staða blasir við að heimilin í landinu og stór hluti fyrirtækja munu ekki ráða við þá stöðu sem nú er uppi og verði ekkert að gert mun það kosta ríki og okkur þegnana margfalda þá tölu sem sett er fram með þessum 1200 milljörðum.
Hvet því ráðamenn til að skoða þetta ofan í kjölinn :)
Hólmgeir Karlsson
Höfundur er framkvæmdastjóri í atvinnurekstri
og með framhaldsmenntun í alþjóðaviðskiptum og stjórnun
20% niðurfærsla 1.200 milljarðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.2.2009 | 20:50
Að sinna börnunum og barninu í sér í leiðinni hleður batteríin
Átti frábæran dag í dag þar sem ég tók mér frí úr vinnunni til að sinna litlu söngfuglunun Karli mínum og félögum sem höfðu að venju valið mig sem bílstjóra og aðstoðarmann á Öskudaginn. Aðkomustrákarnir voru mættir til mín uppúr sjö í morgun til að taka daginn snemma. Ótrúlega gaman að sinna þessum hóp þar sem þeir eru svo hressir og svo syngja þeir sig inní hjörtu allra með vel æfðu og kröftugu söngprógrammi. Tók engar myndir að þessu sinni en notast við eina af þeim frá í fyrra þegar við fórum saman um allar trissur í nammileit.
Að þessu sinni voru þeir þrír í sönghóp: Karl, Jakob Atli og Fjölnir. Fjórða manninn frá í fyrra, hann Gunnar, vantaði þar sem hann er fluttur suður. Þeir töluðu um að þeir hefðu átt að bjóða honum norður til að vera með.
Hjá mér hefur verið mikið að gera í vinnu að undanförnu, þannig að þetta var kærkomið tækifæri til að láta sig hverfa einn dag og verða einn af strákunum um stund. Það er svo notarleg tilfinning og um leið og maður brýtur sig útúr amstri dagsins þá fer maður að hugsa öðruvísi og hugsa um allt annað. Ekkert kreppuvæl kemst að á svona degi.
Ég átti reyndar gullstund snemma í morgun, því ég vaknaði fyrir allar aldir eins og kjáni og gat ekki sofnað. Þar sem ég átti svona góðan dag framundan varð það til að ég fór bara á fætur þó klukkan væri ekki nema 5 og fór að sinna ýmsu fyrir sjálfan mig sem maður gerir ekki alla daga. Skrifaði m.a. bréf til fjarlægs vinar sem er mér mjög kær en hef ekki heyrt af lengi.
Myndin af mér hér til hægri lýsir best deginum mínum í dag.
Takk strákapjakkar fyrir góðan dag :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.2.2009 | 22:23
"Is it true" .. Algjörlega frábært
Langt síðan ég hef verið svona spenntur yfir símakosningu í Söngvakeppni sjónvarpsins, en vá besta lagið vann. Algjörlega frábært lag í snilldarflutningi Jóhönnu Guðrúnar Jónsdóttur. Fallegt lag í fallegum búning. Til hamingju Ísland :)
Smellti að sjálfsögðu nokkrum myndum af þessari hrífandi stund
Annars fannst mér keppnin í ár öll hin skemmtilegasta og þátttakendum og þáttastjórnendum til mikils sóma. Létt yfirbragð og uppátæki þeirra "Jónsdætra" hefur gert þetta að einum skemmtilegustu júróvission vikum í mörg ár. Ekki bara vegna þess hve þær eru sætar og skemmtilegar heldur ekki síður vegna alls þess góða og jákvæða sem þeim hefur tekist að kalla fram í öllu því fólki sem þær hafa mætt við gerð þáttanna.
Reyndar fannst mér mjög mörg virkilega góð lög í keppninni í ár, svo góða að við gætum bara boðið Evrovision að sleppa aðalkeppninni og deila lögunum okkar út meðal mestu vinaþjóðanna. Þannig gæti Jogvan fengið að keppa fyrir Færeyjar með sitt fallega lag "I think the world of you" og t.d Hreindís Ylfa sungið "Vornótt" fyrir Norðmenn (yndislegt lag), Ingó sungið "Undir regnboga" fyrir Dani og já ætli við yrðum svo ekki að spandera einu fallegu lagi á Breta líka og þá kæmi fyrst í hugann "Lygin ein" eða "Easy to fool". Æ kannski smá grín í nafnavalinu, en lögin eru bæði flott og vel flutt.
Takk fyrir skemmtunina :)
Lagið Is it true til Moskvu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.2.2009 | 00:37
Another brick in the wall
We don't need no education, we don't need no thought's control .....
.... just another brick in the wall
Ekki veit ég alveg hvers vegna þessi fægi texti fór um huga minn þegar ég settist niður og fór að hugleiða stöðuna í þjóðfélaginu í dag!?
Var það vegna hegðunar stjórnmálamanna?
Var það vegna hegðunar mótmælenda?
Var það vegna hegðunar forsetafrúar?
Var það vegna þess að tveir af nýju bönkunum eru tæknilega gjaldþrota á ný, en enginn vill segja okkur það?
Var það vegna þess að ekkert er verið að gera annað en að tala um að slá skjaldborg um heimilin og fyrirtækin í landinu?
eða var það kannski vegna þess að hvorki ég né aðrir getum látið bjóða okkur þessa vitleysu mínútu lengur? JÁ þar liggur svarið.
Það vantaði ekki bjartsýnina þegar ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum. Hún ætlaði að einbeita sér að fáum mikilvægum verkum og hafði fyrirfram tryggt sér stuðning til þess hjá nýju framsókn. Mér leist bara nokkuð vel á þetta í upphafi og taldi að nú yrði tekið á því sem gera þarf. Ekki það að ég vildi þó gjarnan treysta Geir og hans hópi til þeirra verka, en það var ekki valkostur lengur þar sem algjör glundroði ríkti innan Samfylkingarinnar og Sjálfstæðismenn voru ekki tilbúnir að gera þær breytingar í sínu liði sem þurfti til að skapa vinnufrið.
Einhver söng "þetta er vont, en það venst" ... en nú er málum ekki einu sinni svo vel farið, því ástandið er "vont og það versnar".
Flest það sem við upplifum nú er komið útí kosningabaráttu, pólitískt uppgjör og persónuofsóknir. Á það jafnt við um mótmælendur sem þingmenn. Árangurinn er því enginn.
Ég hef í huganum stutt mótmælendur í baráttu þeirra fyrir réttlæti og betra siðferði við stjórnun landsins, en sumir þeirra hafa nú fyrir löngu gengið fram af mér. Má þar fyrstan nefna Bubba Morthens sem jarmaði í eiginhagsmunaskini fyrir framan Seðlabankann í vikunni. Þetta þótti mér vont því ég hef mætur á Bubba og dýrka mörg af fallegu lögunum hans.
Það sjá sjálfsagt flestir að réttast væri fyrir Davíð Oddson að yfirgefa Seðlabankann sjálfviljugur þar sem hann á líklega ekki traust þjóðarinnar. En þvílík framkoma við einn mann eins og komið hefur verið fram við Davíð að undanförnu er og verður engum til sóma. Jóhanna okkar nýi forsætisráðherra , sem ég batt miklar vonir við, fer eins klaufalega og kjánalega að þessu eins og hugsast gat og er sennilega búin að tapa flestum þeim spilum sem hún hafði á hendi til að láta gott af sér leiða. Hvað varð um sjálfstæði Seðlabankans, sem Jóhanna sjálf hafði barist fyrir, svo tækifærissinnar í pólitík gætu ekki ráðskast með þá stofnun. Henni hefði verið nær að fara faglegu leiðina og vinna að breytingum á stjórnskipulagi bankans ef hún ætlaði að ná einhverjum árangri.
Mín skoðun er hins vegar sú að ekki hefði átt að hrófla við Seðlabankanum við þessar aðstæður og fátt ef nokkuð sem bendir til að hann og stjórnendur hans hafi átt einhverja sök á þessu öllu. Davíð er vissulega umdeild persóna, en hvers konar framkoma er þetta eiginlega við hina bankastjórana sem ekkert hafa gert annað en vinna vinnuna sína.
Því í ósköpunum fer fólk ekki að gera það sem allir vita að þarf að gera:
Koma efnahag nýju bankanna á hreint og veita þeim í framhaldinu alvöru umboð til að fara að vinna að endurreisn heimila og fyrirtækja með skuldbreytingu lána og öðrum þeim aðgerðum sem hægt er að grípa til. Það er ekki nóg að tala um að leiðrétta skuldbindingar erlendra lána á það gengi sem nýju bankarnir tóku við þeim á. Það er heldur ekki nóg að tala um að færa niður hluta af verðtryggingunni á innlendum lánum til samræmis. Og það er ekki nóg að tala um að lækka vexti.
Halló ... ÞAÐ ÞARF AÐ GERA EITTHVAÐ AF ÞESSU ... í stað þess að rífast um nokkra hvali á Alþingi eða hver má vera þingforseti ....
Ég hlakka til kosninga þegar hægt verður að kjósa á ný og vonandi verður áframhald á því að ný andlit líti dagsins ljós sem ætla að fara í þann slag af fullri alvöru til að taka til hendinni.
Þá verður allavega komið vor :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2009 | 23:36
Emil í Kattholti
Á fimmtudaginn var sá ég eina skemmtilegustu leiksýningu sem ég hef séð lengi. Þetta var á árshátíð miðstigs Hrafnagilsskóla. Krakkarnir höfðu sett upp heilan söngleik með atriðum úr ævintýrum Emils í Kattholti. Þetta var hreinasta snilld sem ég þarf að festa nokkur orð um hér á blogginu mínu. Það sem gerði uppsetningu þeirra sérstaklega skemmtilega var að margir voru um hvert hlutverk, þannig að í lokin þegar leikarar voru klappaðir upp mættu ótal margir Emilar allir eins klæddir og heill hópur af litlum Idum í rauðum kjólum.
Ekki nóg með að þau kæmust meistaralega frá nærri 40 mínútna söngleik því þetta allt toppuðu þau með að hafa eigin hljómsveit sem spilaði undir og náði að skapa mikla stemmingu í salnum.
Karl minn var í hljómsveitinni góðu og spilaði að sjálfsögðu á gítar (í miðið á myndinni).
Ég tók reyndar allt leikritið upp á vídeó, en á alveg eftir að vinna úr því þannig að ég get ekki birt það hér. Ég hef heldur ekkert samið við leikhópinn um birtingarétt sem gæti orðið býsna dýr ef mið er tekið af þeim glæsilegu viðtökum sem þau fengu frá troðfullu tónlistahúsinu þar sem árshátíðin var haldin.
Ég ætla samt að gefa hér smá dæmi, lítið vídeóskot sem ég tók þegar þau voru að hita upp fyrir leiksýninguna.
Ég á kannski eftir að setja hér eitthvað meir af myndum og vídeóbrotum síðar.
En takk fyrir snilldar skemmtun krakkar :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)