Hafa þessir 1200 milljarðar einhverntíma verið til?

Það er vissulega rétt hjá Steingrími að við slíka skuldaniðurfærslu yrði erfitt að gæta fulls jafnræðis meðal fyrirtækja og einstaklinga, en ég tel þó að þetta sé ekki eins flókið mál og það er gert hér.

Þegar talað er um 20% niðurfærslu skulda, eins og tillögur Framsóknarflokksins gera ráð fyrir, er aðeins verið að tala um að færa skuldir landsmanna niður um hluta af því sem þessar sömu skuldir hafa aukist um vegna bankahrunsins og óstöðugleikans í fjármálaumhverfinu.

Það er því mikil einföldun á málinu að segja að þetta muni kosta 1200 milljarða, því þá peninga hefur ríkið aldrei átt. Annars vegar erum við að tala um erlendar skuldir sem hafa vaxið gríðarlega vegna falls krónunnar og hins vegar innlendar skuldir sem hafa vaxið vegna mikils verðbólguskots.

Þegar nýju bankarnir urðu til keyptu þeir kröfur á einstaklinga og fyrirtæki af þrotabúum gömlu bankanna en yfirtóku ekki erlendar skuldir þeirra vegna sömu skuldara. Frá þessum tímapunkti hafa þessi sömu lán þó verið reiknuð í erlendum gjaldmiðlum og vöxtur þeirra vegna frekara falls krónunnar því skapað nýtt eigin fé í nýju bönkunum (hjá ríkinu). Hér kann þó að vera að gengistryggð skuldabréf liggi að baki sem greiðsla, en um slíkt hefur hvergi verið upplýst. Alla vega er þekkt að þessar skuldbindingar voru teknar yfir með miklum afföllum og hafa verið nefndar tölur allt upp í 50% í því samhengi, þannig að ég gef mér að innan þess ramma sé fullkomið svigrúm fyrir slíka aðgerð, að færa skuldirnar niður um 20%.

Sama gildir um verðtryggðu lánin, þau hafa vaxið á stuttum tíma vegna óðaverðbólgu og framleitt sinn hluta af þessum 1200 milljörðum sem nú er rætt um að kosti að taka á vandanum.

Það er líklega tímabært einnig að lífeyrissjóðirnir, Íbúðalánasjóður og ríki fari að gera sér grein fyrir að þessir peningar eru fyrir löngu tapaðir og verða ekki eingöngu sóttir í vasa einstaklinga og fyrirtækja.

Varðandi það að ná að tryggja jafnræði eins og ég gat um í upphafi, þá held ég einnig að það sé ekki óyfirstíganlegt heldur þar sem við erum einungis að tala um að færa niður skuldir um hluta af því sem þær hafa aukist á skömmum tíma vegna þessara hamfara í samfélaginu. Við slíka aðgerð myndu skuldir allra skuldara lækka um sama hlutfall af þeirri upphæð sem þær hafa vaxið og menn stæðu því jafnir eftir. Varðandi þá sem lítið eða ekkert skulda gildir því það sama, því þeir hafa ekki fengið á sig þessar auknu birgðar skuldaaukningarinnar.

Veit þetta er vandasamt verk, en ég tel að þetta megi þó ekki afgreiða útaf borðinu með slíkum tölum eins og hér er gert. Sú staða blasir við að heimilin í landinu og stór hluti fyrirtækja munu ekki ráða við þá stöðu sem nú er uppi og verði ekkert að gert mun það kosta ríki og okkur þegnana margfalda þá tölu sem sett er fram með þessum 1200 milljörðum.

Hvet því ráðamenn til að skoða þetta ofan í kjölinn :)

Hólmgeir Karlsson
Höfundur er framkvæmdastjóri í atvinnurekstri
og með framhaldsmenntun í alþjóðaviðskiptum og stjórnun


mbl.is 20% niðurfærsla 1.200 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Mikið er ég sammála þér.

En einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að réttur "fjármagnseigenda" sé og verði alltaf mikið rétthærri en okkar skuldara. Fjármagnseigendur taka aldrei neina áhættu en við þessir venjulegu skuldarar með húsnæðislán, yfirdrátt og bílalán - tökum alla áhættu. Þeir sem eru hvað duglegastir í að soga út peninga úr bankakerfinu ( taka lán ) svokallaðir fjárglæframenn þurfa ekkert að borga og leggja ekki fram neinar ábyrgðir. Svo þetta endar á því að ef allt á ekki að fara á hausinn hérna ( það er ríkið ) þá þurfum við þessir venjulegir skuldarar að borga og blæða.

Rúnar Haukur Ingimarsson, 1.3.2009 kl. 12:31

2 identicon

Auðvitað hafa þessir peningar ekki verið til. Fólk sem hefur borgað heiðarlega af sínum húsnæðislánum t.d. í 3-4 ár sér að lánið hefur ekki lækkað til samræmis við afborganir heldur hækkað umtalsvert. Það er verið að "búa til" skuldir ... og einstaklingar borga brúsann. Ég er því miður töluófróður maður um peninga en tel mig vita um margt. Ósanngirnin í verðtryggingu og hvernig sú staða er núna er mikil, það er brjálæði að kaupa og stækkandi fjölskylda hefur takmarkaða möguleika.

Því þætti mér gott að fá úr því algjörlega skorið hvort þetta sé raunin eða hvort hægt sé að skera eitthað niður skuldirnar...

kærar kveðjur, Hólmgeir.

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 12:32

3 identicon

þessir peningar hafa bara verið til á pappírum, aldrei verið til sem cash   þetta er bara langavitleysa allt saman en börnin okkar eiga að borga ... meira helvítis ruglið

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 17:58

4 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk fyrir innlitið öll. Gott að vita að ég er ekki einn um þessa skoðun :)
Já það er rétt Kleópatra, mikið af þessum peningum sem sköpuðu útrásina voru bara til á pappírum og ekki allt fallegt í kringum það hvernig umhverfinu og markaðnum var talin trú um að þetta væri allt gott og blessað. Þeir eiga því ekki mikla samúð hjá mér þeir sem blésu út bankakerfið, blóðmjólkuðu það í eigin þágu, og settu svo allt á hliðina þegar hið rétta fór að koma í ljós.

Hólmgeir Karlsson, 1.3.2009 kl. 19:12

5 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Ég minni á viðtal á Stöð 2 við Hannes Hólmstein, hugmyndafræðing Bubba kóngs, þegar hann talaði um það að þegar menn áttuðu sig á fiski í sjó og settu kvóta þá "urðu til" peningar og fleiri aðferðir voru brúkaðar til að peningar urðu til (úr engu) og svo talaði hann líka um dautt fé, steindautt fé, til dæmis í lífeyrissjóunum, sem myndi lifna við í höndunum á snillingunum í útrásinni.

Þetta er hugmyndafræðingur syrrverandi fomanns stjórnar Seðlabankans.

Sverrir Páll Erlendsson, 1.3.2009 kl. 23:31

6 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Sæll Sverrir

Já mikið rétt með kvótann. Menn bjuggu til pening úr honum með því að telja hann sem eign og veðsetja svo í botn. Það voru því miður margar aðrar aðferðir við að búa til "sýndarvirði" sem voru miklu verri en þessi. Sem dæmi má nefna skuldsettar yfirtökur á félögum, sem síðan eru við samruna við önnur metin á ný til hærra virðis. Með þessu hefur verið búið til virði sem síðan er skuldsett á ný með lántökum úr bönkum sem sömu aðilar tóku ákv. um að láta lána viðk. félögum. Sama hefur átt við um hlutabréfasölu þar sem búnar hafa verið til væntingar með þessu um virði og hlutabréfaverð sem aldrei var stoð fyrir. Almenningur í mörgum tilvikum plataður af "færustu sérfæðingum" til að kaupa hluti í þessu og svo fjárfestu auðvitað sömu bankarnir í þessum félögum eigenda sinna og hafa síðan lagt mikið á sig við að halda hlutabréfaverðinu uppi þar sem það hefur verið vaxandi hluti af virði bankanna sjálfra (gengi á markaði).

Vel að setja þetta svona fram hér, en sú mynd sem ég dreg hér fram verður öllu ljótari ef maður raðar fyrirtækjanöfnum, tölum, persónum og leikendum inní þetta :(   ... þá verður til þetta sem við höfum heyrt svo oft að undanförnu "Helvítis Fokking Fokk" ....

Hólmgeir Karlsson, 2.3.2009 kl. 11:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband