6.3.2009 | 23:20
Ég hélt fyrst að það væri kominn 1. apríl
Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum þegar ég sá þá frétt að Samkeppniseftirlitið hefði úrskurðað að Bændasamtökin hefðu brotið gegn samkeppnislögum með því að tala um að sátt þyrfti að nást í samfélaginu um hærra afurðaverð til bænda ef greinin ætti að lifa af.
Það kann vel að vera að hægt sé að komast að þessari niðurstöðu beint útfrá lagabókstafnum, en þá held ég að öllum megi ljóst vera að farið er að túlka samkeppnislög og heimildir samkeppniseftirlitsins með allt öðrum hætti en lagt var upp með þegar þau voru samin. Bændasamtökin eru fyrrst og fremst hagsmunasamtök bænda, sem launþega, ekki ólíkt stéttarfélögum annarra vinnandi stétta í landinu sem berjast fyrir rétti sínum. Þessi túlkun og niðurstaða samkeppnisyfirvalda er mér því með öllu óskiljanleg.
Sé þetta niðurstaðan er jafn ljóst að t.d. kennarasambandið hefur brotið gróflega af sér og það ítrekað með því að lýsa því yfir að laun kennara verði að hækka.
Hér velur samkeppniseftirlitið að líta á bóndann sem fyrirtæki í skilningi laganna og hagsmunasamtök þeirra sem samtök fyrirtækja sem lúti samkeppnislögum. Æ já hvað er hægt að segja annað en æi já. Þetta er auðvitað úr takti við allt sem heilbrigð skinsemi segir okkur og þjónar heldur engum tilgangi og allra síst neytendum sem lögin eiga að vernda.
Allt öðru máli gegnir um hlutverk samkeppnisyfirvalda þegar kemur að því að vakta vinnubrögð þeirra fyrirtækja sem afsetja vörur bænda og eru sá aðili sem tekur þátt í endanlegri ákvörðun um verðlagningu hvort heldur það er innan opinberrar verðlagningar eða við verlagningu þeirra vara sem ekki lúta ákvörðun verðlagsnefndar. Þar á samkeppniseftirlitið að standa vörð rétt eins og í öðrum atvinnugreinum og viðskiptum.
Hér eiga stjórnvöld að grípa inní áður en málið fer svo langt að Bændasamtökin þurfi að berjast fyrir rétti sínum fyrir dómstólum. Landbúnaðurinn þarf á öllum sínum kröftum að halda til annara verka nú við að tryggja matvælaframleiðslu landsins neytendum og landinu til hagsbóta.
Bændasamtökin telja að ekki sé um brot að ræða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.