Örlagaríkur dagur að kvöldi kominn

Það verður ekki hjá því komist að maður velti fyrir sér atburðum dagsins og hver eftirköstin munu verða á samfélagið, atvinnulífið og fólkið í landinu okkar. Ég ætti að vera ánægður í dag með langa pistilinn minn um horfur í fjármálaheiminum sem ég skrifaði hér á bloggið á föstudaginn því á daginn hefur komið að ég mat stöðuna nokkuð vel. Ég er þó langt í frá ánægður með það því innst inni vonaði ég eins og sjálfsagt flestir aðrir að þetta væri ekki rétt mat á því sem væri að gerast.

En svona til að fara örlítið yfir atburði dagsins í dag þá vil ég fyrst þakka Geir Haarde fyrir ábyrgð, yfirvegun og skinsemi, þegar hann ákvað að tjá þjóðinni allri í beinni útsendingu frá atburðum helgarinnar og ákvörðunum ríkisvaldsins í dag. Ég hafði um helgina fengið efasemdir um hvort hann væri að valda hlutverkinu, en hann ávann klárlega mitt traust á ný í dag.

Þó svo þessar ákvarðanir hafi verið teknar er þó hvergi nærri komið fram hvað mun gerast í framhaldinu. Stóru bankarnir munu róa lífróður og nánast útilokað að þeir komist allir frá þessum hremmingum og því miður er spilaborgin sem þeir mynda neðstu spilin í mjög stór og getur því hrunið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir ákveðin fyrirtæki og einstaklinga sem þar eiga hagsmuna að gæta. En svona er lífið í heimi fjármálanna. Stóra útrásin og þensla bankanna var einfaldlega orðin of stór og áhættusöm til að litla samfélagið okkar geti réttlætt það að reyna að bakka hana uppi í þessum þrengingum nú. Við skulum bara vona það besta og að þetta skaði sem minnst þá þætti samfélagsins sem raunverulega halda hjólunum gangandi og gera samfélagið að því sem það er.

Eitt er þó sem ég sakna alveg í þessum tillögum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar og ég raunar gleymdi alveg í föstudagspistlinum mínum einnig, en það er gengi krónunnar. Hvernig náum við að rétta það af nógu snemma. Planið er auðvitað að losa um nógu mikið af erlendum fjárfestingum til þess að tryggja gjaldeyrisstreymi inní hagkerfið, en mun það nægja og mun það koma nógu fljótt. Því miður þá held ég að svo verði ekki. Ég velti því upp þeirri spurningu hvort ekki sé nauðsynlegt og raunar óumflýjanlegt að taka upp svokallaða fastgengisstefnu á ný í stað þess að horfa á krónuna í frjálsu falli. Leiðrétting á genginu er lífsnauðsynleg til að hægt sé að slá á þá óðaverðbólgu sem er í landinu, verðbólgu sem ekki er tilkominn vegna neyslu, þenslu eða eftirspurnar í samfélaginu heldur einvörðungu vegna spákaupmennsku. Þvert á móti þá eru sterk einkenni samdráttar í samfélaginu sem bregðast þarf við strax með mikilli lækkun vaxta og innspýtingu fjár til framkvæmda og þá sérstaklega á sviði hins opinbera. Stærsti brimskafl fjármálakreppunnar verður þó líklega að fá að brotna í fjöruborðinu fyrst, en við verðum að vera tilbúin til alvöru aðgerða til að ná virkri hagstjórn á ný og hlúa að atvinnulífinu og þar með fólkinu á ný.

Læt þetta duga sem pistil kvöldsins.

Bros og góða nótt í bloggheima :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk fyrir góðar kveðjur báðir tveir :) Þú mátt nú ekki gleyma því að sofa Valgeir:)Já ég er sammála þér Bjarni að ástæða er til að nefna fleiri en Geir. Má eiginlega segja að það hafi verið aðdáunarvert að fylgjast með hversu málefnaleg umræðan var bæði stjórnarmegin og hjá stjórnarandstöðunni, sem þó hafði vissulega gullið tækifæri til að láta finna fyrir sér. Skinsemi og samheldni ræður för sem er gríðarlega mikilvægt og þakkarvert.

Hólmgeir Karlsson, 6.10.2008 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband