1.5.2008 | 01:03
Stjórnendur MS valda enganveginn hlutverki sínu
"Bloggfréttatilkynning miðvikudaginn 30. apríl 2008"
Í stað þess að nýta samrunakraft fyrirtækjanna hefur fjármunum verið sólundað með röngum fjárfestingum, illa ígrunduðum ákvörðunum og mannaráðningum á sama tíma og markvisst þróunarstarf og markaðssókn hefur vikið eða fallið í skuggann af innri átökum æðstu stjórnenda og ráðaleysi. Staðan sem við blasir er stórfelldur taprekstur sem fyrst og fremst tengist illa skipulögðum ferlum, röngum fjárfestingum og yfirmönnun í yfirstjórn fyrirtækisins á suðvestur horninu ásamt því að óþörfum einingum er ekki komið úr rekstri. Ég hef fylgst vel með þessu ferli, af hliðarlínunni, allt frá því ég skildi við iðnaðinn er Norðurmjólk lauk sinni göngu og varð hluti af MS.
Margt hefur mér blöskrað tengt ákvörðunum sem ég hef þó látið hjá líða að skrifa um eða tjá mig um opinberlega enda upptekinn af störfum mínum nú á öðrum vettvangi. Í dag tók þó steininn úr götunni er ég heyrði af anga hagræðingaraðgerða sem náðu til mjólkurvinnslunnar á Akureyri með þeim hætti að einum allra hæfasta mjólkuriðnaðarmanni okkar, Oddgeri Sigurjónssyni, var sagt upp störfum af tilefnislausu undir yfirskrift hagræðingar í kjölfar samruna fyrirtækjanna. Fyrir utan þá staðreynd að mjólkurvinnslan á Akureyri, áður Norðurmjólk, er eina einigin í samsteypunni sem er að skila framúrskarandi rekstrarárangri þrátt fyrir stórtap á samsteypunni, þá er Oddgeir sá aðili þar nú sem hefur mesta reynslu og framúrskarandi og víðtæka þekkingu og hæfni sem enginn annar á staðnum státar af að öðru góðu fólki ólöstuðu. Einstaklingur sem er fyrirtækinu gríðarlega verðmætur og á stóran þátt í að fyrirtækið er að ná þeim árangri sem raun ber vitni.
Árangurinn á Akureyri er engin tilviljun því þar hefur mjólkurvinnsla verið rekin um árabil með arðsemi, framúrskarandi gæði og markaðssókn að leiðarljósi og sú eining því að skila góðri afkomu nú þar sem menn hafa aðlagað sig að breyttum markaðsaðstæðum hverju sinni.
Undirrót vanda MS í dag er mislukkað samrunaferli Mjólkurbús Flóamanna, MBF, og Mjólkursamsölunnar í Reykjavík sem gerðist fyrir samrunann stóra. Úr þeim samruna var aldrei unnið og m.a. búið að eyða gríðarlegum fjármunum í hönnun mannvirkja á Selfossi sem síðan var hætt við að ráðast í þar sem menn hurfu frá því að leggja af mjólkurvinnslu í Reykjavík. Stórum fjármunum var einnig eytt í byggingu sérhæfs vörubílaverkstæðis á Selfossi sem nú er ljóst að aldrei verið nýtt af samsteypunni, enda af þeim toga að ógerningur er að reikna arðsemi í þá framkvæmd. Hagræðingaraðgerðir tengdar mjólkurvinnslu, pökkun og dreifingu á suðurhorninu sem áttu að skila hundruðum miljóna hafa engar náð fram að ganga. Í dag situr félagið þess í stað uppi með hálfnýtta fasteign Osta- og smjörsölunnar og stendur frammi fyrir verulegum fjárfestingum í húsnæði MS á Bitruhálsi þar sem hætt var við að flytja mjólkurpökkun til Selfoss. Hagræðingaraðgerðir tengdar öðrum mjólkurbúum hafa einnig verið mjög ómarkvissar og flestar runnið út í sandinn og sitja menn nú uppi með stórfellt tap á einingum. Sem dæmi þá situr mjólkurbúið á Blönduósi eftir með vörusamsetningu og rekstur sem engan veginn getur gengið upp, algjörlega misheppnaðar aðgerðir tengdar mjólkurvinnslu á Egilsstöðum, sem allar voru dregnar til baka svo eitthvað sé nefnt. Ekkert hefur verið klárað af því sem átti að skila hagræðingu í kjölfar sameiningar og nú þegar kreppir að og stjórn fyrirtækisins kallar ákveðið á aðgerðir er enn einu sinni gripið til flausturkenndra aðgerða sem í tilfelli vinnslunnar á Akureyri, sem varð ástæða til skrifa minna, geta ekki skilað sér í öðru en enn frekari veikingu fyrirtækisins.
Fólk var slegið á Akureyri í dag yfir þessum furðulegu tíðindum og þungt hljóð í fólki sem ég heyrði frá í mjólkurvinnslunni, enda enginn sem skildi upp né niður í þessum ákvörðunum. Þetta eru váleg tíðindi á sama tíma og vegið er að þessari grein með þeirri ógn og veikingu á samkeppnisstöðu sem óhjákvæmilega hlýst af auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarvörum sem boðuð er af yfirvöldum. Nú er tími til kominn að bændur fari að átta sig og taki á sig rögg áður en illa fer fyrir þessum verðmæta og mikilvæga rekstri, því stéttin sem slík mun eiga nóg með að verjast harðnandi samkeppni á opnum alþjóðamarkaði með matvörur sem við erum smám saman að verða þátttakendur í.
Mér er brugðið bændanna vegna sem og vegna okkar neytenda.
Athugasemdir
Já samruni/sameining/hagærðing eða hvað menn vilja kalla marga gjörninga í fyrirtækjaumhverfinu síðustu misseri er ansi oft mislukkaðrr. Það er ekki alltaf best að tengja okkur meira og meira við póstnúmerin á höfuðborgarsvæðinu og ansi fá Akureyrsk fyrirtæki að verða eftir, hin eru bara útibú að sunnan.
Þekki ekki alveg til gamla vinnustaðarinns míns í dag en þekki Ogga bara af góðu er þess nýjasti hagærðingargjörningur ekki bara eitt skerf í að gera "samlagið" að vinnustað með stjórnun að sunnan og fleiri fáránlegar ákvarðanir sem koma til af kúnnáttuleysi excelsnillinga sem eru ekki búnir að fatta allar villurnar í excel 2007
Rúnar Haukur Ingimarsson, 1.5.2008 kl. 10:15
Sæll Rúnar og takk fyrir innlitið. Eins og Excel er mikið snilldar tól þá er eins og þú nefnir til margir "excelsnillingar" svona "copy format" en ekki "copy formula" snillingar sem reikna til baka frá einhverri óskaniðurstöðu sem lýtur vel út í PP showi. Í þessu tilviki vil ég þó ekki gera excel þann óleik að kenna honum um.
Bestu kveðjur
Hólmgeir Karlsson, 1.5.2008 kl. 10:48
Verð að viðurkenna að ég skil þetta illa. Mín reynsla af samruna reyndist ekki vel, en ég vann hjá fyrirtæki sem svo sameinaðist öðru og það leystist svo upp. Ekki gott mál og ákveðin saga og mórall sem töpuðust. Einnig þoli ég ekki þetta útibús-dæmi sem Reykjavík og vinir virðast ætla að reka út frá höfuðborgarsvæðinu. Eins og til dæmis sú skemmtilega staðreynd að framleiðsla hér á Akureyri á ákveðinni vöru er send suður til lagers sem svo sendir aftur norður. Það skal enginn reyna að segja mér að þetta sé hagræðing!
Ljótt að heyra þegar flottu og traustu fólki er sagt upp fyrirvaralaust ...
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 13:03
Undarleg er sú hugmynd að ætla það einu fyrirtæki til framdráttar að losa það við sitt helsta hæfileikafólk.
Svavar Alfreð Jónsson, 1.5.2008 kl. 13:12
Sæll Hólmgeir.
Þetta eru vondar fréttir og umfram allt undarlegar. Það virðast allir koma af fjöllum með þessa óvæntu og ósanngjörnu uppsögn. Mér finnst vanta nánari skýringar á þessu....og þær hljóta að koma...eða hvað ? Hvað er það sem veldur því að traustum, reynslumiklum og margverðalunum fyrirliða er sagt fyrirvarlaust upp störfum. Hvaða áhrif hefur þetta á norðlenska ostagerð ? Yfirmenn hljóta að skulda skýringar....á því að þeir losi sig jafnt og þétt við frábært og hæfileikaríkt starfsfólk. Mig grunar að síðasta orðið hafi ekki verið sagt í þessu máli.
En við verðum að vona það besta og senda góðar óskir til allra sem að málinu koma.
Júlíus Garðar Júlíusson, 1.5.2008 kl. 13:33
Sælir Doddi, Svavar og Júlli og takk fyrir viðbrögðin.
Já í þessu tilviki skulda stjórnendur svo sannarlega skýringar. Ég er nú sennilega nokkuð óyggjandi sá sem þekki manna best til mannauðs þessa fyrirtækis og mikilvægis hans fyrir daglegan rekstur og árangur og möguleika til áframhaldandi vaxtar og þróunar og þá um leið arðsemi til langs tíma.
Þessi aðgerð er svo algjörlega úr takti við alla skynsemi er lýtur að framtíð og rekstri þessa frábæra fyrirtækis. Já það er von að þú spyrjir Júlli, "hvaða áhrif hefur þetta á norðlenska ostager"? ég ætla ekki að svar því hér, en það sem er mergurinn málsins er að verið er að tálga í hægum skrefum af fyrirtækinu þess mikilvægustu þekkingu sem er undirstaða þess að fyrirtækið nái árangri.
Þetta er það ljótasta sem ég hef upplifað af öllu þessu ferli frá upphafi þess og þessu máli er HVERGI NÆRRI LOKIÐ, svo mikið er víst.
Fyrir mér verður þetta ekki leiðrétt fyrr en æðstu stjórnendum MS hefur verið skipt út fyrir fólk sem skilur meginþætti slíks rekstrar og kann að vinna með mannauð í eins viðkvæmu ferli og samrunaferli er. Í þeim hópi er líka hægt að fækka svo um munar án þess að það komi niður á félaginu, því eins og staðan er nú er búið að byggja upp tvöfalda yfirstjórn á fyrirtækið þar sem samvinnufélagið Auðhumla sem nú á og rekur MS er með heilan stjórnendapakka við það eitt að eiga samskipti við æðstu stjórnendur MS og eigendur þess.
Læt hér staðar numið í bili.
Hólmgeir Karlsson, 1.5.2008 kl. 14:02
Stuðningur frá mér
Heiða Þórðar, 1.5.2008 kl. 15:50
Ég verð að segja það að þetta er einhver vitlausasta ákvörun sem þetta MUUUU-dæmi gat tekið. Oggi er og hefur verið meðal snjöllustu mönnum í íslenskum mjólkuriðnaði og án krafta hans verður þessi sami iðnaður verulega fátækari. Verulega miklu fátækari.
Reyndar er þessi samrunasaga mjólkurrisanna á Íslandi undarlegur gjörningur, eins og Hólmgeir þekkir og lýsir að nokkru hér. Og undarlegast er ef til vill að samkeppnisséníið frá Höllustöðum og hans fólk skuli ekki hafa haft neitt við þá ráðstöðfun að athuga að sameina nærfellt alla mjólkurvinnslu landsins í einum risa. Á sama tíma eru þeir að skipta sér af því hvort þetta bókaforðlag eða hitt má gefa út hina bókina eða þessa, eins og ekki sé nóg af bókaútgefendum á Íslandi og banna SBA-Norðurleið að kaupa Kynnisferðir, enda þótt nóg sé af allstórum rútufyrirækjum víða um land. En hver er samkeppnin við MS?
Og að segja upp hæfasta mjólkuriðnaðarmanni landsins, margföldum ostameistara á alþjóðavísu, svo eitthvað sé talið. Þetta er fásinna. Nema þeir séu bara að byrja að flytja allt heila klabbið suður til sín.
Sverrir Páll Erlendsson, 1.5.2008 kl. 16:12
Einkennilegt. Hin raunverulegu verðmæti eru bersýnilega hulin viðskiptajöfrum nútímans. Það á ábyggilega eftir að koma þeim í koll.
Helgi Már Barðason, 1.5.2008 kl. 16:31
Er ekki að koma í ljós að hér verðu sú vinnsla sem verið hefur, stjórnendum sagt að mestu upp og öllu stjórnað að sunnan. Gæti alveg komið að því eftir nokkur ár að það bætist við mjólkurbílar í umferðina milli Akureyrar og Reykjavíkur. Þá fara þeir "drekkhlaðnir" af mjólk suður til fullvinnslu og tómir til baka og mjólkuriðnaður heyri sögunni til á Akureyri. Vona að þetta sé bara svartsýnisröfl en hvað á maður að halda ?
Manni dettur líka Brim í hug í þessu sambandi - þarf fækkar jafnt og þétt í yfirstjórn í bænum og allt að flytjast í burt.
Rúnar Haukur Ingimarsson, 1.5.2008 kl. 17:57
Takk Heiða og knús á þig :)
Gaman að sjá þig hér Sverrir Páll og þakka innleggið. Ég veit þú þekkir til, ostaelskandinn sjálfur. Þetta með "samkeppnisséníið" þá er nú reyndar ekki við hann að sakast varðandi þennan samuna, því Samkeppnisyfirvöld höfðu ekkert um hann að segja þar sem hann var varinn af ákvæði í Búvörulögum sem eru sérlög og ganga lengra en Samkeppnislög. Það að leyfa þennan samruna en meina síðan SBA að bæta við sig nokkrum bílum er auðvitað jafnvitlaust fyrir því.
Gott að vita af þér þarna, því nú þarf fólk að standa saman og verja þá auðlegð sem felst í þekkingunni á bak við okkar ágætu íslensku matvörur.
Takk Helgi og Rúnar fyrir ykkar innlegg. Já Helgi hér vantar eitthvað mikið uppá að menn séu að meta þekkingu og reynslu og sjái að það eru einmitt þeir þættir öðrum fremur sem gefa fyrirtækjum sem þessu möguleikann á að sigra í samkeppni.
Hólmgeir Karlsson, 1.5.2008 kl. 21:18
Takk Valgerir og bestu kveðjur til þín :)
Hólmgeir Karlsson, 1.5.2008 kl. 21:38
Hólmgeir. Ég ætla ekki að þykjast skilja þetta upp í topp. En það er alveg ljóst að víða er pottur brotinn í þessum efnum. Mér finnst bara flott hjá þér að koma með þetta svona út og standa opinberlega með Oddgeiri og gagnrýna í leiðinni fyrirtækið. Það þarf meira af þessu.
Jóna Á. Gísladóttir, 2.5.2008 kl. 11:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.