Lísi eftir framtíðarstefnumörkun varðandi landbúnað og matvælaöryggi þjóðarinnar

Margt hefur orðið til þess síðustu daga og vikur að mér er nokkuð brugðið hvað varðar málflutning ráðamanna um landbúnað og ekki síður úrvinnslu þeirra afurða og sölu. Annan daginn tala menn hástemmt um matvælaöryggi og mikilvægi þess fyrir hverja þjóð að geta tryggt þegnum sínum holla og heilnæma fæðu á hverjum tíma, en næsta dag snýst allt um hömlulausan innflutning sem á að vera neytendum til góða og koma fram í lægra vöruverði.

Það er kannski ekki að öllu leiti rétt af mér að skrifa þetta sem athugasemdir við frétt um yfirlýsingar ráðherra um nýja matvælalöggjöf sem er út af fyrir sig ekki slæmt fyrirbæri, en þetta með innflutning á hráa kjötinu er þó hluti af þeirri þróun sem við eigum ekki að leifa okkur.

Lítum á nokkrar yfirlýsingar síðustu daga sem rata beint í fjölmiðla sem stór mál sem eiga að gleðja okkur neytendur og þegna þessa samfélags:

- Ingibjörg Sólrún ætlar að leyfa tollfrjálsan innflutning á kjúklingum og svínakjöti nokkuð sem allir vita sem til þekkja að mun geta leitt til hruns í þeim greinum sem hún leifir sér einnig að kalla iðnað. Landbúnað ætlar hún eftir sem áður að styðja, eða hvað?

- Landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að fella niður fóðurtolla af tilbúnu fóðri til landbúnaðar, sem fram að þessu hefur verið 3,90 á hvert kg. Okkur er ætlað að trúa að þetta sé gert til að lækka verð á landbúnaðarvörum. Þetta hljómar allt voðalega vel, en staðreyndin er því miður allt önnur. Þetta kemur einfaldlega ekki til með að hafa nein áhrif til lækkunar því nánast ekkert af því fóðri sem íslenskir bændur nota ber slíka tolla. Hér er eingöngu verið að gera tilraun til að koma á innflutningi á slíkum vörum í samkeppni við innlenda gæðaframleiðslu sem er í dag hluti af okkar keðju sem tryggir að við framleiðum holl og heilnæm matvæli.

- Landbúnaðarráðherra boðar að flytja megi inn hrátt kjöt. Hvað er nú orðið af vörnum okkar gagnvart þeim fjölmörgu og alvarlegu sjúkdómum sem eru óþekktir hér og jafnframt hluti af okkar sérstöðu við matvælavinnslu? Hvar er stefna okkar gagnvart framleiðslu með notkun hormóna og erfðabreyttra matvæla?

Pressan er gífurleg frá smásöluversluninni í landinu sem notar hvert tækifæri til að höggva í þessa mynd og fá heimildir til að flytja inn landbúnaðarvörur til að koma sér í þá stöðu að geta enn frekar kreist innlenda framleiðendur í verðum og þjónustu og skammtað hillupláss eftir geðþótta. Í viðtali við Finn Árnason forstjóra Haga hér fyrir nokkrum dögum þar sem fréttamaður var að yfirheyra hann um yfirlýsingar þeirra um fyrirsjáanlegar hækkanir á innfluttum vörum vegna gengisþróunar og mikilla hækkana erlendis náði hann að enda viðtalið með yfirlýsingum um nauðsyn þess að leifa frjálsan innflutning á svína og alifuglakjöti. Fréttamaður gerði engar athugasemdir við þetta. Ég leifi mér hins vegar að spyrja hvert samhengi þessara mála geti verið. Hér er bara verið að blekkja neytendur og gefa falska von um lækkað matarverð.

Aðalatriði málsins er í mínum huga að stjórnvöld verða að fara að koma sér saman um framtíðarstefnumörkun í málefnum landbúnaðar þar sem tekið er á öllum þeim þáttum sem skipta okkur máli sem þjóð; holl matvæli, möguleikar ferðamennsku til að dafna, atvinnu fólks, umsjón og gæslu landsins, og síðast en ekki síst matvælaöryggi þjóðarinnar. Allar siðmenntaðar þjóðir í nágrenni við okkur hafa markað slíka stefnu og fylgja henni eftir og eru því ekki að hlaupa í allar áttir eftir skammtímasjónarmiðum sem grafa undan þeirri sýn.

Landbúnaður á Íslandi er mikilvæg en lítil og viðkvæm grein sem þolir ekki að búa við slíka óvissu á öllum tímum. Þannig eru yfirlýsingar um frjálsan innflutning á svína og alifuglakjöti slík ógn við þær greinar landbúnaðar hér að yfirgnæfandi líkur eru á að með slíkri árás gengi eigið fé þeirra greina fljótt til þurrðar og þær leggðust af á skömmum tíma. Aðalástæða þess er sú að hagkvæmni þessara greina sem loks hafa náð nokkru jafnvægi er algjörlega háð því að þær nái að nýta okkar litla markað og nái þannig stærðarhagkvæmni og arðsemi sem heldur í þeim lífi.

Ef slíkar greinar leggjast af þá er of seint að fara að huga að hollustu og heilnæmi þeirrar vöru sem þá flæddi inní landið. Þá er t.d. of seint að spyrja hvort þeir kjúklingar séu aldir á erfðabreyttu fóðri og komi frá svæðum sem skapa hættu á að alvarlegir sjúkdómar berist til landsins.

Varðandi landbúnaðinn í heild er alveg það sama uppá teningnum, hvort heldur við eru að tala um mjólkurframleiðsluna, kjötframleiðsluna eða grænmetisræktun, okkar litli markaður þolir ekki óheftan innflutning á niðurgreiddum vörum af heimsmarkaði sem oft á tíðum eru líka bara ódýrari þar sem verið er að "dumpa" vörum á markaði vegna offramboðs eða til að vinna nýja markaði með undirboðum.

Það fer ekki saman að ætla Íslenskum landbúnaði að tryggja okkur matvælaöryggi ásamt því að vörur séu heilnæmar og höggva sífellt í hann með yfirlýsingum og ógn um óheftan innflutning þar sem flestir sem til þekkja vita að slíkt getur aldrei endað nema á einn veg, veikingu innlendrar framleiðslu og á endanum dýrari vörum sem engan vegin stæðust samkeppni í framtíðinni.

En má landbúnaðurinn ekki bara fara, hverfa? spyrja sumir og halda því jafnvel um leið fram að hann sé ein af stærstu orsökum þess að hér er dýrt að lifa. Það er verið að moka nokkrum miljörðum í þessa grein árlega í styrki, er það ekki? Það er í sjálfu sér allt í lagi að velta þessu fyrir sér á þennan hátt, en fyrir mér er svarið afskaplega einfalt, við höfum ekkert efni á því að leggja landbúnaðinn í rúst því þegar dæmið er allt skoðað þá ætti öllum að verða ljóst að þessi atvinnugrein er þjóðinni bæði þörf og hagkvæm.

Til að sjá þetta betur fyrir okkur er ágætt að velta fyrir sér hvaða afleiðingar það hefði fyrir samfélagið ef landbúnaðurinn hyrfi, bara svona "hviss ,.. BANG" ...

1) Matvælaöryggi. Því er tiltölulega fljót svarað, það væri ekkert. Við værum einfaldlega matarlaus þjóð á þrengingartímum og algjörlega uppá aðra komin.

2) Byggðir landsins, matarmenning og ferðaþjónusta. Ef landbúnaðarins nyti ekki við væru fæst svæði landsins í byggð utan stærstu þéttbýlisstaðanna og möguleikar ferðaþjónustunnar, sem er ört vaxandi grein, yrðu harla litlir. Bændur væru ekki lengur til staðar til að annast landið og tryggja þá ásýnd þess sem nauðsynleg er til að spennandi væri að ferðast um það og vænta mætti þess að einhverja þjónustu væri að hafa vítt og breytt um landið.

Hér komum við kannski að kjarna málsins. Hvað erum við að styrkja þegar við styrkjum landbúnaðinn af almanna fé eins og reyndar flestar aðrar þjóðir gera einnig. Erum við að styrkja bændur?, erum við að niðurgreiða landbúnaðarvörur til neytenda? eða erum við að greiða þessari atvinnugrein hæfilega þóknun fyrir að halda landinu okkar í byggð?. Hér vantar tilfinnanlega útreikning á samfélagslegum áhrifum greinarinnar til að svara þessum spurningum með vitrænum rökum.

3) Gífurlegur fjöldi starfa myndi glatast. Ég hef ekki á reiðum höndum nú hversu margir starfa við landbúnað í dag og hve mörg störf hann skapar í afleiddum greinum og þjónustu, en þau telja mörg þúsund. Bara til að gefa smá mynd þá eru mjólkurbændur landsins rúmlega 700 fjölskyldur og hafa útreikningar margra landa sýnt að gera megi ráð fyrir að ekki minna en 3 til 4 fjölskyldur til viðbótar við hverja í mjólkurframleiðslunni hafi atvinnu af úrvinnslu og þjónustu við greinina og þá mest í stærstu þéttbýlisstöðunum. Þann vanda má auðvitað leysa með nokkrum álverum til viðbótar ef það er framtíðarsýnin sem við höfum og viljum fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Þetta sem ég hef hér drepið á er aðeins brot af því sem þarf að taka til skoðunar þegar mörkuð er alvöru langtímastefna fyrir Íslenskan landbúnað, stefna um matvælaöryggi okkar þjóðar og stefna varðandi framtíðaruppbyggingu byggðar og ferðaþjónustu í landinu.

Í stað þess að vinna þessa vinnu til enda, kynna hana almenningi á þann hátt að heildstæður skilningur náist á mikilvægi þessa fyrir okkar samfélag eru við sífellt að hlaupa eftir einhverjum upphrópunum, hvort heldur það er að fá ódýrari kjúkling núna eða margbrengluð umræða um hátt matvælaverð á Íslandi.

Matvælaverðið er nefnilega alveg kapítuli út af fyrir sig sem ég gæti skrifað langa grein um en ætla hér bara að stikla á stóru. Hátt matvælaverð er ekki Íslenskum landbúnaði að kenna. Hér erum við einfaldlega með hágæðavörur sem oftar en ekki eru bornar saman við vörur af allt öðrum gæðum. Auk þess eru flestar Íslenskar landbúnaðarvörur ekkert tiltakanlega dýrar heldur, við erum bara búin að telja okkur trú um þetta. Eftir það sem við köllum stórhækkun á mjólk nú um daginn er nú staðreyndin sú að þrátt fyrir það er hvergi í nágrannalöndunum að finna mjólk á jafn lágu verði og hér, eða um 100 kr hver lítri. Staðreyndin er sú að þessi hollustuvara er hræódýr og nægir bara að bera hana saman við næringarlausa gosdrykki sem eru margfalt dýrari, en eru þó ekkert annað en vatn, litarefni, bragðefni og sykur eða gerfisæta.

Það sem er einnig mikilvægt að hafa í huga er að matarkarfan sem öll umræðan er um vegur ekkert sérlega mikið í heildarneyslu landans. Mjólkurvörurnar í heild, svo dæmi sé tekið vega rétt rúm 2% (2,07) af neysluverðsvísitölunni nú í mars og matar- og drykkjarvörur í heild 12,27% . Til samanburðar við mjólkurvörupakkann þá vegur símaþjónusta 2,44% í vísitölunni, sykur súkkulaði og sælgæti 1,21%, áfengi og tóbak 2,76%, lyf lækningavörur og heilbrigðisþjónusta 3,39% svo ekki sé minnst á stóru liðina eins og húsnæði, rekstur bíls og fleira þar sem alvöru tölurnar er að finna.

Þetta verðum við einnig að hafa í huga þegar við berum okkur saman við verðlag í öðrum löndum. Við verðum að bera saman lífskjör og hve stór hluti tekna fer til einstakra þátta. Ég hef áður gert samanburð hér á blogginu á verði matar hér og á Spáni, en okkur er oft tíðrætt um hve ódýr matur sé á slíkum slóðum. Staðreyndin er hinsvegar sú að fyrir þá sem búa og vinna á Spáni er matur dýrari en hér hjá okkur þó svo hann kosti færri krónur. Matarinnkaupin vega einfaldlega mun þyngra þar en hér hjá okkur í heildar neyslukörfunni.

Verð að láta staðar numið hér með þessar hugleiðingar þar sem þetta er orðið svo langt að enginn nennir að lesa í gegnum þetta.

Bros og kveðjur í bloggheima :)


mbl.is Landbúnaðarráðherra boðar tímamótabreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hólmgeir. Nei skrif þín voru ekki of löng, ég þakka þér fyrir þau og vona að sem flestir lesi þau. Ég hef tjáð mig og mína reynslu hér á öðrum bloggsíðum og læt hérmeð fylgja smábrot af því. Við verðum að vera á verði!

"Ég bjó í evrópu árum saman og var með blómabúð þegar evran og evrulögin komu, með opnum landamærum. Það hækkaði ALLT í verði yfir nótt. Ég lokaði búðinni. Gat ekki selt blóm á fáránlegu verði. Phohh, það eru þykkar bækur fullar af evrópulögum, sem fáir hafa lesið, nema lögfræðingarnir sem eru að drukkna í málaferlum.. Það er allt að fara úr böndum í landamærafrelsinu í evrópu. Hér líka...Engin stjórn á smigli og svikum,,, og það eru bændur í milljónatali, um alla evrópu. Þeir nota allir hormóna og fúkkalif í stórum stíl. Annars vaxa dýrin of hægt. Rísikó á afföllum minka. Samt kom Jacobs-veikin í beljurnar (fékk ógeð á nautakjöti) og nokkrir dóu.. Nokkru síðar kom svínapest hér og þar, og nokkrir dóu (fékk ógeð á svínakjöti), síðan kom fuglaflensan (bæbæ kjúklingar) og verst af öllu er rotið-kjöt-skandallinn sem virðist engann endi taka. Heilu gámarnir af útrunnu kjöti sem er smiglað úr landi,,, inn í annað land! Ísland???  NEITAKK! ojbara. Þökkum fyrir íslenska framleiðslu og þau gæði sem við höfum. Ef við göngum í evrópuráðið verðum við bara að smáþorpi í stórum grautarpotti. Viljum við það? Viljum við innflutt kjöt með vatnsbragði sem hverfur á steikarpönnunni??  " Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur!

Ég var í þýskalandi í febrúar. Bensín, mjólkurvörur, kjöt og fiskur var allt dýrara en hér, og margfalt rýrara af gæðum. Það er hægt að versla í ALDI súpermörkuðum fyrir minni pening, en pöööh, þeir selja bara rusl. Þegar ég bjó þar borgaði ég fimm sinnum meir í rafmagn og hita en ég geri hér. Það munar um annað eins. Ég spyr mig bara á hverju  eru verðkannanir gerðar, þegar okkur er sagt að ísland sé dýrast í heimi? Það átti kanski við áður en evran var innleidd, en ekki lengur.

anna (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 16:11

2 identicon

p.s. Gleymdi smá innskoti.

Íslendingar hafa ekki samanburðinn nema að þeir hafi búið erlendis. Síðan ég flutti heim í hitteðfyrra hef ég notið þess að borða eingöngu íslenskar afurðir, og þær eru ódýrari en samskonar gæði sem fást bara í bio-búðum erlendis, og íslenskar afurðir eru lostæti! Áfram bændur!  og takk fyrir matinn :)

anna (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 16:51

3 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk fyrir innlitið Anna og þín jákvæðu viðhorf í garð landbúnaðarins og innlendrar matvælavinnslu.

Hólmgeir Karlsson, 7.4.2008 kl. 20:35

4 Smámynd: Margrét Ingibjörg Lindquist

það er augljóslega mikið að gera hjá þér ... farinn að sakna þín hér á blogginu...

Margrét Ingibjörg Lindquist, 26.4.2008 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband