9.9.2007 | 22:27
Kárahnjúkar og Kristján Jóhannsson um helgina
Þetta er búin að vera býsna viðburðarrík helgi hjá mér, því á laugardag fór ég í ferð með Landsbankanum að skoða Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði. Í dag endaði ég svo á tónleikum með Kristjáni Jóhannssyni í Íþróttahöllinni á Akureyri.
Tónleikarnir með Kristjáni voru í einu orði sagt frábærir. Svolítið rólegir framan af en seinni hlutinn var svo alveg frábær, enda var stemmingin góð í troðfullu húsinu. Tveir aðrir söngvarar komu fram með Kristjáni þau Sofia Mitropoulos sópran og Corrado Cappitta bariton. Sérstaklega fannst mér gaman að hlusta á Corrado sem hafði einstaka sviðsframkomu.
Að söngvurunum ólöstuðum var svo Sinfóníuhljómsveit Norðurlands snillingar þessara tónleika í mínum huga.
Ég skemmti mér konunglega sem var miklu meir en ég átti von á því yfirleitt heillast ég lítið af þessum hluta músíkheimsins þó ég sé mikil mússíkæta :)
Kárahnjúkar og álverið
Flaug snemma á laugardagsmorguninn til Egilsstaða, en þaðan var svo ekið á Reyðarfjörð að skoða álverið og síðan stöðvarhús og stífluna við Kárahnjúka. Á leiðinni austur tók fokkerinn lágflugs rúnt yfir svæðið þannig að maður náði að sjá svæðið vel úr lofti.
Sjálfur hef ég ekki komið þarna síðan rétt eftir að framkvæmdir hófust þegar enn var verið að vinna niður í gilinu og utan í hnjúknum. Það var því nokkuð tilkomumikið að upplifa þetta nú og sjá með eigin augum að þetta hafi verið framkvæmanlegt.
Stærðirnar í þessu eru hreint ótrúlega og líkjast ekki neinu sem áður hefur verið framkvæmt hér á landi. Óháð því hvað mér og öðrum kann að finnast um umhverfisþáttinn í þessu þá eru þessi mannvirki hrífandi útfrá tækni og framleiðslu hugsun. Myndin hér til vinstri er tekin af stíflugarðinum niður í gilið. Lónið var orðið nánast fullt og þegar við komum á staðinn var verið að hægja á fyllingunni með því að hafa botnlokann opinn. Þar mátti sjá hvílíkir kraftar eru á ferð þar sem vatnið sprautaðist út og niður í gilið. Þegar lónið verður orðið fullt og vatnið fer að renna um yfirfallið og þaðan niður í gilið er reiknað með að vatnsmagnið verið eins og tvær þjórsár og fossinn tvöfalt hærri en Gullfoss.
<< Hér sér inn yfir lónið af stíflugarðinum.
Fórum einnig og skoðuðum stöðvarhúsið sem er grafið inn í fjallið skammt frá Skriðuklaustri. Ef ég man það rétt þá eru göngin inn að stöðvarhúsinu um 1 km á lengd og vélasalurinn um 100 metra langur. Fallhæðin niður í gegnum fjallið að túrbínunum er um 500 metrar og því eins gott að allt sé rétt út reiknað í svona dæmi.
Stöðvarhúsið sjálft minnti einna helst á verslunarmiðstöð eða tónleikasal að koma inní.
Það var svo ekki síður tilkomumikið að virða fyrir sér framkvæmdirnar á Reyðarfirði, því álverið sem þar er að verða tilbúið er ótrúlega flott hönnuð verksmiðja og verður líklega fullkomnasta álver til þessa í heiminum. Kerskálarnir sem liggja samsíða eru kílómetri á lengd og þarna er gert ráð fyrir að nýta um þriðjung allrar innlendrar orku.
Einkum tvennt vakti ánægju hjá mér við að skoða þessi mannvirki og athafnasvæði álversins.
Ber þar fyrst að nefna fyrirtækið Bectel sem virðist einstakt í sinni röð hvað aðbúnað og öryggi starfsmanna varðar. Nokkuð sem er ansi ólíkt því sem hefur verið reyndin við mannvirkjagerðina við Kárahnjúka. Þarna sá maður og heyrði um vinnubrögð sem ég er fullviss að eru langtum fremri en við höfum séð hjá íslenskum stórverktökum.
Hitt var svo að sjá hve mikið er í raun lagt í útlitshönnun þessara stóru mannvirkja og staðsetningu sem tekur mið af því að þau falli í landslagið.
Enda þessa minnispunkta mína með smá myndbandi sem ég tók á "vasavélina" af vatnsflaumnum frá botnloka Kárahnjúkastíflunnar. Hljóðin segja sína sögu um kraftana sem þar eru að verki :)
Athugasemdir
Takk fyrir innlitið Magna :) Já það var alveg meirhátta að fá svona lágflug yfir allt svæðið. Fokkerinn flaug meðfram lóninu á báðar hliðar og síðan yfir fljótsheiðina niður á Hérað þar sem inngangurinn í stöðvarhúsið er þannig að maður sá svo vel samhengið í þessu úr lofti.
Hólmgeir Karlsson, 12.9.2007 kl. 00:00
Það er ekki sama hvort maður er Jón eða Séra Jóna....hehhehehe...
Smá öfund í gangi...hehehe.. nei nei... þetta hefur verið skemmtileg ferð.. og þú hefur notið hannar...
Ritknús...
Margrét Ingibjörg Lindquist, 12.9.2007 kl. 20:24
Já Magga ég naut ferðarinnar því mér finnst svo ótrúlega gaman að stúdera svona framkvæmdir,... hafði þó smá samviskubit yfir að þetta væri allt saman fjármagnað með færslugjöldum og of háum vaxtamun bankanns .. líka veislan um kvöldið á Egilsstöðum þar sem EKKERT var til sparað áður en flogið var aftur heim ...
Hólmgeir Karlsson, 12.9.2007 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.