29.4.2007 | 19:47
Ekki benda á mig segir varðstjórinn!?
Æ þetta er nú svolítið skondið. Lögreglan getur ekkert gert því öll tilskilin leyfi eru fyrir hendi. Málið er nú þannig vaxið að það er Sýslumaðurinn, æðsti maður innan lögreglunnar sem veitir leyfið.
Mikil umræða hefur verið hér norðan heiða um sinubruna síðustu ár og full ástæða komin til að menn hætti að benda hver á annan og geri frekar eitthvað í málinu. Ég bý ekki nálægt þessum stað, en um tíma var þykkt reykský yfir stórum hluta fjarðarins og lyktin ekki til að skemmta neinum.
Fjölmargar kvartanir vegna sinubruna í Eyjafirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Verðum við ekki að vona að sýslumaðurinn eða lögreglustjórinn muni eftir þessum kvörtunum næst þegar sótt verður um leyfi?
Nú hef ég ekki gengið um svæðið síðustu dagana en mér sýnist að álft og gæs sé að byrja að setjast upp svo þetta er ekki einasta ástæðulaust heldur beinlínis rangt athæfi.
Valdimar Gunnarsson, 29.4.2007 kl. 20:01
Var það ekki í fyrra sem stóri bruninn var .... og í hitteðfyrra sem stóri stóri bruninn var. Kannski það væri rétt að opna bloggsíðu fyrir þá herramenn um þetta :) ....
Hólmgeir Karlsson, 29.4.2007 kl. 20:09
Þetta er "slembið" samhengi, he he ... ég mun taka hjólið mitt með mér næst þegar ég fer í borgina ...
Hólmgeir Karlsson, 29.4.2007 kl. 20:41
Og þið sem notið strætó skuluð líka muna eftir því, strætó mengar líka. Skulum banna allt nema reiðhjól.
Guðmundur Ólafsson (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 20:42
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar getur auðveldlega beint þeim tilmælum til sýslumanns að veita ekki svona leyfi. Annars er þetta bara tímaskekkja og reglurnar á að afnema. Þær eru frá þeim tíma sem menn voru óupplýstir um skaðsemi sinubruna á land og loft. Þessir brunar eru að mestu aflagðir nema í Eyjafjaðarsveit hérna...þó sá ég einn bruna í Hörgárbyggð í fyrra
Jón Ingi Cæsarsson, 29.4.2007 kl. 20:47
Sæll Jón Ingi :) ég get ekki mælt fyrir hönd sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar lengur, þar sem ég lét af starfi oddvita s.l. vor. En það vill nú þannig til að sveitarstjórnin hafði í minni tíð ítrekað beint þeim tilmælum til Sýslumannsins að endurskoða þessi mál. Ég er þér sammála að þetta er algjör tímaskekkja í okkar samfélagi og veldur miklum óþægindum. Báðir munum við sjálfsagt hátíðahöld á Akureyri þar sem menn sáu varla hvor annan fyrir reyk úr sveitinni minni. Bestu kveðjur og takk fyrir innlitið hér ..
Hólmgeir Karlsson, 29.4.2007 kl. 21:09
Fletti mér og öðrum til skemmtunar og fróðleiks uppá ályktun Sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar um sinubruna árið 2004 er málið var til sérstakrar umfjöllunar. Þá var Sýslumanninum á Akureyri og öðrum aðilum sem hafa með málin að gera gerð ljós afstaða Sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar.
250. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar var haldinn í fundarsal hennar að Syðra-Laugalandi þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 19:30
(Sjá einnig hér)
4. Sinubrennur
Sveitarstjórn samþykkti eftirfarandi ályktun:
"Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar vill af gefnu tilefni lýsa því yfir að hún telur sinubrennur í þéttri byggð eins og víða er í sveitarfélaginu og næsta nágrenni þess engan veginn ásættanlegar. Hún telur að slíkar brennur brjóti í raun alltaf gegn ákvæðum laga nr. 61/1992, um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, sbr. 2. gr. þeirra laga sbr. einnig ákvæði í reglugerð við þau lög þar sem m. a. segir að aldrei megi brenna sinu þar sem almannahætta stafar af. Brennurnar hljóta ávallt að valda þeim, sem reykinn leggur yfir, verulegum óþægindum. Þegar slíkt ástand varir klukkustundum saman má tala um að brennunni fylgi almannahætta. Að margra áliti fara brennur af þessum toga auk þess undantekninga lítið í bága við skynsamlega umhverfisstefnu.
Sveitarstjórn hvetur alla þá sem ábyrgð bera á leyfisveitingu fyrir sinubrennslu að gaumgæfa vel allar leyfisveitingar sérstaklega þar sem aðstæður eru sem að framan er lýst. Hún hvetur jafnframt til þess að sinubrennur verði aldrei leyfðar nema að undangenginni vettvangsskoðun umsagnaraðila."
Sveitarstjóra falið að senda ályktunina til Sýslumannsins á Akureyri, Náttúruverndarnefndar, Héraðsráðunauta, Gróðurverndarnefndar ásamt afriti til Umhverfisráðuneytis og Slökkviliðstjóra.
Hólmgeir Karlsson, 29.4.2007 kl. 21:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.