Tímabært að skoða heildarmyndina

Yfirleitt gleðst ég mjög yfir velgengni fyrirtækja. Það á einnig við um Íslensku bankana og ekki síst vegna velgengni tengdri útrás þeirra. En hér er nú samt komið of mikið af því góða og vantar einhverja smá jarðtengingu í atvinnulífið okkar og samfélagið.

BankarnirÁ sama tíma og bankarnir sópa til sín berjast grunnatvinnuvegirnir í landinu fyrir lífi sínu og þar vegur þyngst aukin fjármagnsbyrði. Á sama hátt eru heimilin að sligast undan fjarmagnsbyrgðinni, vegna verðbólgu og hækkandi vaxta. (Hér á þó hver einnig sitt í því fjárfestingaæði sem gripið hefur landann).

Á sama tíma og við horfum uppá þetta þá ætlar allt að ganga af göflunum útaf verðlagi á matvörum í landinu, sem þó eru ekki nema 13,58% af heildarútgjöldum heimilanna. Mjólkurvörur einar og sér sem eru háðar opinberri verðlagningu og hafa nánast ekkert hækkað svo árum skipti standa ekki fyrir nema 2,42% af útgjöldum heimilanna. Það má halda heilu Kastljóssþættina útaf því, en vitið þið hvað!?? ,...  bara færslugjöldin af plastkortunum og þjónustugjöld bankanna eru heil 54% af því sem við eyðum í allar mjólkurvörur í innkaupakörfunni okkar (skv. vístölu neysluverðs jan 2007)

Hver er svo ástæðan og hver er ábyrgur? Ég held að við verðum að segja að ósamstæð vinnubrögð Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar vegi þar þungt. Seðlabankinn hækkar stýrivexti til að hemja verðbólguna, draga úr eftirspurn eftir fjármagni. Það er nefnilega svo skrítið að markaðslögmálin framboð/eftirspurn virka líka á peningana. Ríkið er auðvitað að valda þenslunni með þessum gífurlegu framkvæmdum sem allar eru í gangi á sama tíma og miklu meiri en atvinnulífið nær að jafna út. Í stað þess að vinna í því sem skiptir máli og er að riðla öllu jafnvægi þá slá menn sig til riddara hver af öðrum og ætla að lækka matarverðið í landinu um nokkra aura. F R Á B Æ R T ég segi ekki annað.

Skuldinni er skellt á einkaneysluna, það er að fólkið í landinu sé að eyða of miklu. Það getur verið rétt að einhverju marki, en það er því miður bara ekki mælanlegt í þessu samhengi að öðru leiti en því að fjármagnskostnaður heimilanna hefur margfaldast og skuldir aukist fyrst og fremst vegna verðtryggingar á lánum. Blessuð verðbólgan af opinberum framkvæmdum sem allt í einu er farinn að hækka húsnæðisskuldir venjulegrar fjölskyldu sem nemur hundruðum þúsunda á nokkrum mánuðum.

Það er komið nóg af þessari vitleysu og mál að fara að huga að því sem raunverulega er áhrifavaldar í því að veikja fjármálalega stöðu fólks og atvinnulífið í landinu sem á að vera að búa til peningana.

Kannski er komið rétta tækifærið nú til að afnema verðtrygginguna af öllum lánum, því varla þarf bankakerfið þessa baktryggingu þegar svo vel gengur. Held að fleiri greinar í atvinnulífinu gætu alveg þegið slíka varafallhlíf ef uppá hana væri boðið. Ef til dæmis verð á mjólk hefði verið verðtryggt (bara í örfá ár) eins og peningarnir þá kostaði einn lítri af mjólk svipað og bensínlítrinn kostar í dag.

Til hamingju Ísland :)

 

 


mbl.is Samanlagður hagnaður viðskiptabankanna 163,7 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein og ég er sammála þér.  Þetta okur sem stundað er hérlendis á almenningi er algjörlega ólíðandi ástand.

Sjáðu bara verðsamráðið hjá bönkunum í t.d. kortafærslugjöldum, lánavöxtum og þjónustugjöldum (sama krónutalan).  Það er engin samkeppni í þessum bransa og við neytendur líðum fyrir það.  Okkur vantar tilfinnanlega erlendan aðila sem er tilbúinn að koma inn á þennan markað, væri meira að segja nóg að hafa slíkan aðila á netinu að mínu mati. 

Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 15:02

2 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk Svavar :) .. já það er kannski málið! ... var ekki einn af Ísl. bönkunum að stofna netbanka í Bretlandi sem sópar til sín viðskiptum. Kannski við getum bara notað hann!?

Hólmgeir Karlsson, 30.1.2007 kl. 15:25

3 identicon

já veistu hvað þessi banki heitir?

Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 16:21

4 Smámynd: Hólmgeir Karlsson


nei því miður man ég það ekki, en það hlýtur að mega finna hann á netinu

Hólmgeir Karlsson, 30.1.2007 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband