Færsluflokkur: Bloggar
14.11.2007 | 00:01
Norðurljósin dansa í þögninni
Maður getur alveg gleymt sér í sveitasælunni í myrkrinu eins og núna þegar himinhvolfið er þakið óteljandi stjörnum og norðurljósin dansa um himininn eins og þau séu að leika sér. Maður verður bæði lítill og hljóður þegar maður horfir á þessi undur veraldar.
Þetta er eitt af mörgu sem ég met svo mikils við að búa utan við borgarljósin, eins og er samt gott að heimsækja borgarsamfélagið reglulega :)
Það stendur líka til hjá mér núna, því um helgina næstu á að leggjast í víking með öllu starfsfólkinu úr fyrirtækinu og fara í borgarferð í höfuðborgina og taka jólahlaðborð og sjóið á Broadway á laugardagskvöldið. Sá hópur verður ábyggilega eins og norðurljós það kvöldið, he he .. :)
Annars er ég bara svona rétt að ná mér á strik eftir skólann, svona að byrja að átta mig á því að ég get farið að gera eitthvað annað á kvöldin en lesa :)
Hér er eins og norðurljósin ætli að vefja sig utan um Kerlingarfjallið ofan við bæinn hjá mér.
Vonandi sést þetta bara á blogginu
Bros í bloggheima :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.11.2007 | 22:14
ENTER í síðasta sinn :)
Já ég var að ýta á Enter takkann í síðasta sinn á síðustu skólaönninni minni við Liverpool og næstum þrjú ár síðan ég byrjaði á þessu. UNBELIVEBLE, how time flies ... Og þá er bara mastersritgerðin eftir. En allt of snemmt að hafa áhyggjur af henni, því nú ætla ég að vera í fríi frá þessu fram að jólum,.... já ég sagði JÓLUM :)
Langar mest að hrópa HÚRRA .. því það er svo gott að koma útúr svona vinnukremjutímabili, þó þetta hafi verið ótrúlega gaman og gefandi.
Veit samt ekki alveg hvernig ég að að halda uppá þetta svona núna, rauk áðan fram og setti í eina þvottavél,... fór svo og horfði á sofandi strákana mína og hvíslaði að ég væri búinn með síðasta verkefnið og við gætum gert hvað sem er eftir skóla og vinnu næstu daga ....
Kannski fæ ég líka bara kaupæði og fer að kaupa jólagjafirnar og kaupi mér svo bara hitt og þetta líka til að ná mér niður, he he ...
Eitt augnablik var ég að hugsa um að fara og fá mér einn bjór eða tvo ... eða kampavín,... en nei það er ekkert gaman að því svona einn heima í sveitinni.
Mest gaman auðvitað væri að fara út að dansa við draumadís allra draumadísa, en það verður líklega að bíða líka því ég er ekkert viss um hvar hún er eða þá hvort hún vildi eitthvað dansa núna :)
Ups,... ég er allavega kominn í bloggheima á ný hvað sem verður :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
28.10.2007 | 01:00
Hvað eru lífsgæði? - afturhvarf til náttúrunnar er það svarið!?
Já margir spyrja sig efalaust í dag í hverju raunveruleg lífsgæði felist. Er það að vinna allan sólahringinn og stundum við að endurtaka sömu eða sambærilega hluti aftur og aftur, eignast fullt af pening til að eyða svo í að kaupa sér alls konar afþreyingu, tæki og tól sem geta hjálpað okkur að slaka á og skemmta okkur og fullnægja á ofurhraða á þeim skamma tíma sem eftir er í sólahringnum.
Mér datt bara í hug að byrja þessa bloggfærslu á þennan hátt því í þessum orðum felst kannski mikið af hvatanum fyrir því hve mikill áhugi er að verða víða um heim á náttúrulegum uppruna matvæla og annarra þeirra lífsgæða sem við sækjum í til mótvægis við eða hvarfs frá nútíma hraða þjóðfélagi sem er svo upptekið af að láta alla keppast um hylli, færni, tæknistig og hag hvers annars.
Þessi mynd hér er frá litlum Sænskum sveitabæ þar sem búa tvær fjölskyldur sem fluttu af mölinni fyrir nokkrum árum og eiga nú 12 mjólkandi kýr, nokkra hesta og fullt af heilbrigðum börnum. Heima á sveitabænum búa þau til sína eigin osta og selja til veitingahúsa, ferðamanna og annarra sem sækjast í slíka vöru.
Ég var sem sagt að koma úr fyrstu ferð sem tengist samnorræna verkefninu sem ég tek þátt í og ég bloggaði um hér fyrir nokkru "Småskaliga ostproduksjon" http://hk.blog.is/blog/hk/entry/298384/
en verkefnið snýst um að gera slíka framleiðslu öruggari útfrá sjónarmiði um matvælaöryggi. Slík framleiðsla sem á árum áður var mjög venjuleg og hluti af lífi fólks hefur að miklu glatast, en þegar fólk ætlar að taka vinnubrögðin upp á ný þá samræmast þau oft illa þeim kröfum sem nútíma samfélag gerir.
Á tveggja daga fundi í Uppsala í Svíþjóð kom saman um 20 manna hópur frá norðurlöndunum og hófst handa við verkefnið sem hefur sem markmið að gera slíka framleiðslu öruggari, ná saman mikilvægri þekkingu sem hjálpað getur slíkri handverksframleiðslu að ná fótfestu á ný, byggja upp eins konar þekkingarsamfélag milli fólks á norrænum slóðum um slíka framleiðslu og um leið að tryggja varðveislu gamalla aðferða. Hluti hópsins fór einnig í heimsóknir á tvo bóndabæi í Svíþjóð sem eru með eigin ostaframleiðslu. Það fór því lungað úr vikunni í þetta hjá mér og það var svo sem ekkert auðvelt í miðri skólatörninni minni, en allt bjargast þetta þó einhvernvegin :)
Við fórum tvö úr Eyjafirðinum ég og hún Beate Stormo, bóndi og handverkskona í Kristnesi. Ég sem mjólkurfagmaðurinn og Beate sem áhugamaðurinn um slíka framleiðslu, en hún og hennar maður hafa þegar látið til sín taka í ýmsu er tengist gömlu handverki og menningu tengt matargerð.
Fyrir utan smá ævintýri á leiðinni út var ferðin öll hin ánægjulegasta og margt spennandi að sjá og upplifa. Við lögðum upp frá Akureyri á mánudaginn og ætluðum til Uppsala í Svíþjóð um kvöldið. Til að hægt væri að komast alla leið á sama degi flugum við um Kaupmannahöfn og þaðan til Stokkhólms og ætluðum þar í lest til Uppsala og að endingu í rútu á herragarð í nágrenninu þar sem fundurinn átti að vera. Smá seinkun varð á fluginu okkar til Stokkhólms sem varð til þess að þegar við komum á Arlanda voru allar lesta að hætta að ganga og í hátölurunum hljómaði að síðasta lest til Stokkhólms færi eftir 3 mínútur. Hálf ráðvillt hoppuðum við upp í lestina en komumst síðan fljótt að því að Uppsala væri í hina áttina, en hvað um það þetta var síðasta lestin sem var í boði á flugvellinum. Þegar við svo komum til Stokkhólms tók ekki betra við því það var búið að loka lestarstöðinni og ekkert hægt að ferðast meir. Klukkan var farin að ganga tvö og við á röltinu í miðbæ Stokkhólms þar sem ekkert virtist opið nema einn pöbb sem átti að loka kl þrjú. Við tylltum okkur þar um stund og veltum því fyrir okkur hvort við ættum bara að sitja þar og ráfa svo um göturnar þar til lesarnar færu að ganga aftur kl 5 um morguninn. Þó pöbbinn væri ágætur og við í hinu besta ferðaskapi ennþá ákváðum við samt að við yrðum nú líklega frekar rislá daginn eftir ef við gætum ekkert sofið. Því hófst nú leit að hóteli sem á endanum gekk upp og við gátum sofið góða 3 tíma áður en við þustum af stað aftur um morguninn. Það stóð heima við mættum á svæðið á herragarðinum utan við Uppsala 20 mín yfir átta en þar átti dagskráin að hefjast kl hálf níu :) samt svona pínu þreytt ...
Þennan dag heimsóttum við tvo bóndabæi sem framleiða ost úr eigin mjólk. Á fyrri bænum sem við komum til Väddö Gårdsmejeri var framleiddur ostur úr hluta af mjólkinni en sumt fór til "stóra" mjólkursamlagsins. Nokkrar gerðir af ostum voru í boði og á staðnum var einnig lítil ostabúð.
Hér má sjá osta á lagernum.
Kýrnar á bænum voru allar af Sænsku fjallakúakyni "Fjällkor" en þær kýr eru minni en Sænskar ræktunarkýr og mjólka einnig til muna minna. Þetta er gamall náttúrulegur kúastofn sem líkist mjög Íslensku kúnum, fallegar marglitar kýr.
Flestir sem fást við slíka handverksframleiðslu velja fjallakúna þar sem það þykir gefa vörunni sannari uppruna og meiri gæði.
Á seinni bænum hittum við fyrir tvær bóndakonur sem einnig bjuggu með fjallakýr. Þar á bæ var framleiðslan lítil í sniðum, aðeins 10 mjólkurkýr en öll mjólkin notuð til ostagerðar og framleidd um 4 tonn af osti á ári. Stefnan var að fjölga í 12 kýr og láta þar við sitja, því þar á bæ var áherslan lögð á að hafa nógan tíma til að sinna sér og sínum. Herramennirnir á bænum voru líka bara látnir sækja vinnu annað til að fylla í þegar á vantaði.
Mjólkurvinnslan hafði verið innréttuð í endanum á fjósbyggingunni.
Hér má sjá sýnishorn af ostaframleiðslunni á bænum.
Næstu tvo daga tóku svo við fundahöld þar sem tekist var á við að skilgreina verkefnið betur og hefja vinnuna. Mörg sjónarmið komu fram og því augljóst að langt er í land að allir verði sammála um hvað sé nauðsynlegt til að tryggja hreinlæti og rétt vinnubrögð við slíka vinnslu. Í hópnum voru Svíar, Norðmenn, Íslendingar, Hollendingur og Frönsk kona.
Ekki á heldur bara að fjalla um slíka ostagerð í smáum stíl á bóndabæjum heldur á einnig að skoða "Fäboden" í Svíþjóð og "Sætre" í Noregi en þar eru skepnur mjólkaðar á sumrin undir berum himni og ostur framleiddur úr mjólkinni.
Eins og gefur að skilja þá á nútíma regluverk erfitt með að samþykkja slíka framleiðslu jafnvel þó hún eigi sér árhundraða sögu og hefð.
Það var komið haust í Svíþjóð og skítkalt, en ferðin var samt öll hin skemmtilegasta þrátt fyrir það. Eins og svo oft þá situr mest eftir fólkið sem maður hitti á þessu flakki og tengingarnar sem þegar er búið að mynda til að skiptast á fróðleik.
Hvert þetta verkefni leiðir verður svo bara að fá að koma í ljós.
Langaði bara að koma þessu á bloggið mitt áður en ég gleymdi því, en nú verð ég að halda mig við efnið í skólanum mínum sem beið mín með verkefnahrúgu þegar ég kom heim ...
Bros og góðar kveðjur í bloggheima :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.10.2007 | 22:41
KK og krakkarnir fóru alveg á kostum á tónleikum
Þá eru tónleikarnir með KK og krökkunum afstaðnir og ég held að fæstir séu farnir að trúa því enn að fimm nýjar hljómsveitir stigu á stokk með KK eftir að hafa komið saman á námskeiði og æft um helgina undir hans leiðsögn og tónlistarskólakennaranna. Þetta var alveg frábær skemmtun og ég held ég ýki ekki mikið þó ég segi að ansi margir foreldrar hafi tárast í salnum.
Fyrsta hljómsveitin stigin á stokk og KK með á munnhörpunni. Þessi hljómsveit kallaði sig "Blús með Andreu" í höfuðið á hljómborðsleikaranum.
Kári minn var gítarleikari í þessu bandi
Ekki vantaði heldur fólk í salinn, því allir mættu; pabbar og mömmur, afar og ömmur, frændur og frænkur.
Hér er svo Karl minn stiginn á stokk með sínu KK blús bandi sem spilaði 3 frábær lög. KK lifði sig inní sönginn eins og þetta væri húsbandið hans.
Að loknum flutningi sagði hann "þetta er sko alvöru, ekkert Idol plat" við mikinn fögnuð krakkanna.
Þessar myndir eru bara sýnishorn af því sem gerðist og bara af hljómsveitunum sem mínir tóku þátt í. En þar sem ég var hirðljósmyndari alla helgina bæði á æfingum og tónleikunum á ég liðlega 300 myndir til að vinna úr, en þegar eru allir þátttakendur, tónlistarkennarar og KK sjálfur búin að panta eintak af fríum mynddiski sem væntanlega verðu unni næstu daga.
Hér má svo sjá hópinn í lok tónleikanna, en krakkarnir sem tóku þátt voru frá 5. og upp í 10. bekk.
Flottur hópur og stoltur KK með verk helgarinnar.
Tónlistakennararnir eru einnig í öftustu röð og ekkert smá stoltir:)
Og svona að endingu myndir af henni Röggu frænku með strákunum mínum eftir tónleika. En þetta er hún Ragga besta frænka sem kíkir svo oft inná bloggið mitt :)
Yndisleg helgi fyrir alla sem komu nálægt þessu framtaki.
Bros í bloggheima
Bloggar | Breytt 15.10.2007 kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.10.2007 | 00:51
Á blúsnámskeiði með KK
Hinn eini sanni KK hélt tónleika í Laugarborg, tónlistarhúsinu okkar í sveitinni í gærkvöldi. Kempan brást ekki frekar en fyrri daginn og náði upp ótrúlegri stemmingu í salnum og hélt fólki við efnið alla tónleikana.
En það sem var svo ennþá meira gaman var að stór hluti áheyrendanna voru krakkar úr tónlistarskólanum, en 25 þeirra höfðu verið valin til að sitja blúsnámskeið með kappanum alla helgina.
<< hér er Karl minn annar yngsti þáttakandinn með hetjunni.
Þetta fór svo allt af stað í morgun og byrjaði með fyrirlestri KK um blús, en síðan tóku við þrotlausar æfingar og leiðsögn í allan dag sem hann og tónlistarkennararnir sáu um. Búið var að skipta hópnum upp í 5 hljómsveitir sem síðan eiga að halda tónleika í tónlistarhúsinu á morgun og þá ætlar KK sjálfur að spila með hljómsveitunum.
Það var svo sannarlega líf og fjör þegar ég kíkti við stuttu fyrir lok æfinganna í dag.
Hér má sjá bandið sem Karl var að æfa með >>>
Í annarri stofu var Kári minn á fullu að blúsa með öðru nýstofnuðu blúsbandi og þegar ég kom í gættina var eitt af lögunum hans KK á fullum snúning
<<< Kári og bandið hans
Það var ótrúlega gaman að fylgjast með þessu því ekkert af þessum krökkum hefur spilað saman áður, þó öll séu í tónlistarskólanum. Í lok dags var hver af hljómsveitunum 5 komin með 2 eða 3 æfð lög.
Lokaæfingar verða svo í fyrramálið fyrir tónleikana sem verða haldnir seinnipartinn.
Frábært framtak hjá Tónlistarskólanum og KK :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.10.2007 | 22:11
Atburðir dagsins - að kunna að umgangast fólk sem FÓLK
Ég ætla ekki að skrifa langan texta um atburði dagsins, umskiptin í borginni. Það eitt vil ég um þetta segja að ég er afar sáttur við niðurstöðuna eftir það sem á undan er gengið.
Um vinnubrögðin og það sem margir hafa sagt í hita leiksins mætti skrifa heila revíu, en svei mér ef forsætisráðherra sjálfur lagðist ekki manna lægst í ummælum sínum um nýjan meirihluta er hann kallaði hann "ömurlegri útgáfu af R-listanum" í sjónvarpsfréttum í kvöld. Svona segja menn einfaldlega ekki í æðstu ábyrgðarstöðum. Slík ummæli skaða engan nema þann er þau mælir.
Sjálfur hef ég verið hlynntur samstarfi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þar sem ég tel þessa flokka bæta hvorn annan vel upp og skapa eðlilegt frelsi í viðskiptum í samfélagi sem gætir jafnræðis og félagshyggju. Nokkuð sem Sjálfstæðisflokknum einum myndi seint auðnast á sinni einkavæðingar- og sjálfhyggjubraut. Í dag varð bláminn einfaldlega of mikill.
En hvað var það sem gerðist í dag? Jú það sem gerðist var einfaldlega það sem gengur frá allri samvinnu og samböndum af hverju tagi. Sterkari aðilinn sagði að allir væru sáttir ef allir gerðu bara eins og hann einn vildi og hefði ákveðið. Þessi yfirgangur fráfarandi borgarstjóra, einfeldni og hroki í garð samstarfsmannsins Björns Inga Hrafnssonar og raunar um leið hluta hans eigin liðsmanna varð honum að falli og það svo skyndilega að hann var sjálfur bara undrandi á atburðarrásinni.
Það er svo annar kafli að fjalla um atburðarrásina gagnvart orkufyrirtækjunum þar sem einkavæðing á almannafé er orðið eitthvað sem menn telja sig geta gert í bakherbergi og komi engum öðrum við, ekki einu sinni þeim sem hafa verið kosnir til að fara með umboð borgaranna.
Það er því ekki ástæða til að vorkenna Vilhjálmi mikið í þessari stöðu.
Um leið og ég óska nýjum borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, allra heilla vil ég segja að maður dagsins er Björn Ingi Hrafnsson, sem lét sannfæringu sína og hag borgarbúa ráða en ekki valdið.
Hef fulla trú á að þessi nýi meirhluti geti betur en hrakspár mæla fyrir um.
Bros í bloggheimana nýja :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.10.2007 | 22:03
24 stundir .. r u kidding !?
Ætlaði ekkert að blogga núna, enda enginn tími, en VÁ ég gat ekki stillt mig um smá bloggrispu. blaðinu hefur verið breytt í 24 stundir ...
Ég hélt fyrst þegar ég sá þessa forsíðu á netinu að þetta væri einhver nýr kálfur eða auglýsinga pési inní í blaðinu, enda bara í Hagkaupslitunum ..
En ég fann ekki Blaðið,.... og viti menn það datt næstum af mér andlitið þegar ég sá að þetta var "rebranding" á Blaðinu, sem á örugglega að vera stórt markaðstrikk ...
Þið verðið að fyrirgefa, en sem markaðsmanni finnst mér þetta ekki bara fyndið, mér finnst þetta eiginlega bara miklu meira grátlegt eða sorglegt.
blaðið er orðið þekkt, sterkt vörumerki og hönnun þess og litaval ber með sér áreiðanleika og gerir blaðið að trúverðugum en um leið skemmtilegum miðli.
This is what I call deliberate wast of marketing money, doing nothing but silly things
og það í appelsínugulu. Hver haldið þið að taki mark á appelsínugulum fréttum, þetta er bara yndislegt og ég segi ekki meir.
Vinum mínum á blaðinu sendi ég samúðarkveðjur og vona bara að þetta sé svona stundaræði eins og hjá AT&T fjærskiptafyrirtækinu stóra sem mætti ákveðnum mótbyr og tók þá upp annað merki við samruna, en fór við það að hrapa af stjörnuhimninum og gerði þá tilraun til að snúa til baka í AT&T en sennilega of seint.
En þetta er kannski bara eitthvert tískufyrirbrigði núna: N4, N1, A4, 24 stundir
Smáaletrið: Það skal tekið fram að þetta eru mínar persónulegu skoðanir sem ritaðar eru á mitt persónulega blogg sem ekki er markaðssett til þess að hafa áhrif á skoðanir annarra. Öllum er þó frjálst að lesa þetta og skilja eftir viðbrögð sín hér á blogginu mínu, he, he eða he he he .....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
1.10.2007 | 23:27
Skólinn kominn á fullt og minna bloggað
Jæja þá er ég víst kominn á kaf í skólanámið mitt við háskólann í Liverpool á ný og nú á 9. og síðustu önnina (törnina) sem lýkur um miðjan nóvember og þá verður bara eitt stk. mastersritgerð eftir.
Ótrúlegt að hugsa til þess nú að þetta sé svona langt komið, því mér finnst ég bara vera ný byrjaður á þessu ævintýri, en það verða víst orðin þrjú ár í nóvember frá því ég lagði af stað.
Núna er viðfangsefnið "Corporate Strategy" and Crafting and Executing Strategy, the quest for Competitve Advantage, sem er náttúrulega bara skemmtilegt ef maður hefur áhuga á rekstri og stjórnun á annað borð ...
Fyrsta bók sem ég las um mikilvægi þess að hafa stefnu og markmið til að vinna eftir var bókin um hana Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll, bók sem margir hafa vitnað til ....
já og Liverpool er þar engin undantekning því þar þekkja menn líka söguna af vandræðum Lísu þegar hún spurði kattarskömmina til vegar ...
"Would you tell me, please, which way I ought to go from here?"
"That depends a good deal on where you want to get to", said the Cat.
"I dont much care where " said Alice.
"Then it doesn't matter which way you go", said the Cat.
Það verður því líklega lítið bloggað á næstunni því mest af lausum tíma fer í þetta svona utan vinnu og heimilsstarfa ... allavega ..
Bið ykkur að verða ekki sár kæru bloggvinir þó ég verði líka lélegur í kommentunum á næstunni
BROS og KNÚS til ykkar allra :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.9.2007 | 00:00
Drykkjuskapur í flugi getur verið dauðans alvara
Öll vitum við að ekkert vit er að keyra ef áfengi hefur verið haft um hönd, hvað þá að láta okkur detta í hug að fljúga. Það dytti heldur vafalaust engum í hug nema mönnum, eða hvað?
Þessi þröstur í garðinum mínum, sem ég kalla Jónu til aðgreiningar frá öðrum, fékk þó að reyna það hversu hættulegt það er að fá sér neðan í því á flugi.
Hjá þeim er nú sannkölluð "októberfest" þar sem þeir rífa í sig gerjuð berin af reynitrjánum í garðinum og fljúga svo um allt eins og stjórnlausar smáflugvélar.
Svo mikill er hamagangurinn að varasamt getur verið að vera nálægt þeim því þeir fljúga bókstaflega á mann ef maður ekki passar sig.
Þessi kall fékk sér einum of og ....
flugferðin endaði ekki vel. Vinurinn flaug beint á einn gluggann á húsinu og brotlenti svo á pallinum.
Ég hélt fyrst að þetta væri hans síðasta flugferð, en eftir lífgunartilraunir, ofurlitla heilun og læknismeðferð fór hann að bæra á sér aftur.
Það var þó ekki fyrr en eftir um tvo tíma sem vinurinn var búinn að jafna sig nóg og láta renna af sér að hann komst á loft á ný.
Því segi ég "Eftir einn ei aki neinn" og ekki láta ykkur detta í hug að fara að fljúga ..
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.9.2007 | 22:28
Nýtt Líf í hænsnakofanum - 2 hluti
Það var ekki síður gaman fyrir hænsnabændurna að fylgjast með í hænsnakofanum í kvöld því hænumömmu og hænupabba hafði bara gengið vel síðan í gær með ungana sem nú voru orðnir 6 og ennþá eitt egg eftir.
Þeir virtust allir sprellfjörugir og búið var að hreinsa upp kornið og fara í vatnið hvort sem það var nú mamman eða ungarnir sem það gerðu. En þetta leit allavega allt vel út og var hirðunum vel tekið þegar verið var að dedúa við að koma fyrir betri vatnsdall og mat í varpkassanum.
Þó allt væri í ró meðan á þessu stóð var þó hanapabbi fljótur að koma sér fyrir á varðstaðnum og hænumamma að hreiðra um sig í varpkassanum og tína ungana undir vængina í ylinn.
... þannig að eitthvað af "teipinu í djúpinu" á hænumömmu og hanapabba er þó í lagi þrátt fyrir að þau sjálf hafi bara vaknað til lífsins í útungunarvélinni forðum (sbr. fyrri færslu).
Bros og kveðjur í bloggheima :)
Bloggar | Breytt 28.9.2007 kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)