Færsluflokkur: Bloggar

Stjórnendur MS valda enganveginn hlutverki sínu

"Bloggfréttatilkynning miðvikudaginn 30. apríl 2008"

Einum allra hæfasta mjólkuriðnaðarmanni okkar, Oddgeiri Sigurjónssyni ostameistara á Akureyri,  var sagt upp störfum í dag af tilefnislausu í skjóli flausturkenndra hagræðingaraðgerða innan MS segir Hólmgeir Karlsson fyrrverandi forstöðumaður þróunar- og markaðssviðs Norðurmjólkur og áður framkvæmdastjóri Mjólkursamlags KEA. Samrunaferlið allt frá því að Mjólkursamsalan, Osta og Smjörsalan og Norðurmjólk sameinuðust undir merkjum MS í ársbyrjun 2007 er ein sorgarsaga fyrir íslenska bændur sem jafnframt eru eigendur fyrirtækisins.

Í stað þess að nýta samrunakraft fyrirtækjanna hefur fjármunum verið sólundað með röngum fjárfestingum, illa ígrunduðum ákvörðunum og mannaráðningum á sama tíma og markvisst þróunarstarf og markaðssókn hefur vikið eða fallið í skuggann af innri átökum æðstu stjórnenda og ráðaleysi. Staðan sem við blasir er stórfelldur taprekstur sem fyrst og fremst tengist illa skipulögðum ferlum, röngum fjárfestingum og yfirmönnun í yfirstjórn fyrirtækisins á suðvestur horninu ásamt því að óþörfum einingum er ekki komið úr rekstri.
 Ég hef fylgst vel með þessu ferli, af hliðarlínunni, allt frá því ég skildi við iðnaðinn er Norðurmjólk lauk sinni göngu og varð hluti af MS.

Margt hefur mér blöskrað tengt ákvörðunum sem ég hef þó látið hjá líða að skrifa um eða tjá mig um opinberlega enda upptekinn af störfum mínum nú á öðrum vettvangi. Í dag tók þó steininn úr götunni er ég heyrði af anga hagræðingaraðgerða sem náðu til mjólkurvinnslunnar á Akureyri með þeim hætti að einum allra hæfasta mjólkuriðnaðarmanni okkar, Oddgeri Sigurjónssyni, var sagt upp störfum af tilefnislausu undir yfirskrift hagræðingar í kjölfar samruna fyrirtækjanna. Fyrir utan þá staðreynd að mjólkurvinnslan á Akureyri, áður Norðurmjólk, er eina einigin í samsteypunni sem er að skila framúrskarandi rekstrarárangri þrátt fyrir stórtap á samsteypunni, þá er Oddgeir sá aðili þar nú sem hefur mesta reynslu og framúrskarandi og víðtæka þekkingu og hæfni sem enginn annar á staðnum státar af að öðru góðu fólki ólöstuðu. Einstaklingur sem er fyrirtækinu gríðarlega verðmætur og á stóran þátt í að fyrirtækið er að ná þeim árangri sem raun ber vitni.

Árangurinn á Akureyri er engin tilviljun því þar hefur mjólkurvinnsla verið rekin um árabil með arðsemi, framúrskarandi gæði og markaðssókn að leiðarljósi og sú eining því að skila góðri afkomu nú þar sem menn hafa aðlagað sig að breyttum markaðsaðstæðum hverju sinni.

Undirrót vanda MS í dag er mislukkað samrunaferli Mjólkurbús Flóamanna, MBF, og Mjólkursamsölunnar í Reykjavík sem gerðist fyrir samrunann stóra. Úr þeim samruna var aldrei unnið og m.a. búið að eyða gríðarlegum fjármunum í hönnun mannvirkja á Selfossi sem síðan var hætt við að ráðast í þar sem menn hurfu frá því að leggja af mjólkurvinnslu í Reykjavík. Stórum fjármunum var einnig eytt í byggingu sérhæfs vörubílaverkstæðis á Selfossi sem nú er ljóst að aldrei verið nýtt af samsteypunni, enda af þeim toga að ógerningur er að reikna arðsemi í þá framkvæmd. Hagræðingaraðgerðir tengdar mjólkurvinnslu, pökkun og dreifingu á suðurhorninu sem áttu að skila hundruðum miljóna hafa engar náð fram að ganga. Í dag situr félagið þess í stað uppi með hálfnýtta fasteign Osta- og smjörsölunnar og stendur frammi fyrir verulegum fjárfestingum í húsnæði MS á Bitruhálsi þar sem hætt var við að flytja mjólkurpökkun til Selfoss. Hagræðingaraðgerðir tengdar öðrum mjólkurbúum hafa einnig verið mjög ómarkvissar og flestar runnið út í sandinn og sitja menn nú uppi með stórfellt tap á einingum. Sem dæmi þá situr mjólkurbúið á  Blönduósi eftir með vörusamsetningu og rekstur sem engan veginn getur gengið upp, algjörlega misheppnaðar aðgerðir tengdar mjólkurvinnslu á Egilsstöðum, sem allar voru dregnar til baka svo eitthvað sé nefnt. Ekkert hefur verið klárað af því sem átti að skila hagræðingu í kjölfar sameiningar og nú þegar kreppir að og stjórn fyrirtækisins kallar ákveðið á aðgerðir er enn einu sinni gripið til flausturkenndra aðgerða sem í tilfelli vinnslunnar á Akureyri, sem varð ástæða til skrifa minna, geta ekki skilað sér í öðru en enn frekari veikingu fyrirtækisins.

Fólk var slegið á Akureyri í dag yfir þessum furðulegu tíðindum og þungt hljóð í fólki sem ég heyrði frá í mjólkurvinnslunni, enda enginn sem skildi upp né niður í þessum ákvörðunum.
 Þetta eru váleg tíðindi á sama tíma og vegið er að þessari grein með þeirri ógn og veikingu á samkeppnisstöðu sem óhjákvæmilega hlýst af auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarvörum sem boðuð er af yfirvöldum. Nú er tími til kominn að bændur fari að átta sig og taki á sig rögg áður en illa fer fyrir þessum verðmæta og mikilvæga rekstri, því stéttin sem slík mun eiga nóg með að verjast harðnandi samkeppni á opnum alþjóðamarkaði með matvörur sem við erum smám saman að verða þátttakendur í.

Mér er brugðið bændanna vegna sem og vegna okkar neytenda.


Lísi eftir framtíðarstefnumörkun varðandi landbúnað og matvælaöryggi þjóðarinnar

Margt hefur orðið til þess síðustu daga og vikur að mér er nokkuð brugðið hvað varðar málflutning ráðamanna um landbúnað og ekki síður úrvinnslu þeirra afurða og sölu. Annan daginn tala menn hástemmt um matvælaöryggi og mikilvægi þess fyrir hverja þjóð að geta tryggt þegnum sínum holla og heilnæma fæðu á hverjum tíma, en næsta dag snýst allt um hömlulausan innflutning sem á að vera neytendum til góða og koma fram í lægra vöruverði.

Það er kannski ekki að öllu leiti rétt af mér að skrifa þetta sem athugasemdir við frétt um yfirlýsingar ráðherra um nýja matvælalöggjöf sem er út af fyrir sig ekki slæmt fyrirbæri, en þetta með innflutning á hráa kjötinu er þó hluti af þeirri þróun sem við eigum ekki að leifa okkur.

Lítum á nokkrar yfirlýsingar síðustu daga sem rata beint í fjölmiðla sem stór mál sem eiga að gleðja okkur neytendur og þegna þessa samfélags:

- Ingibjörg Sólrún ætlar að leyfa tollfrjálsan innflutning á kjúklingum og svínakjöti nokkuð sem allir vita sem til þekkja að mun geta leitt til hruns í þeim greinum sem hún leifir sér einnig að kalla iðnað. Landbúnað ætlar hún eftir sem áður að styðja, eða hvað?

- Landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að fella niður fóðurtolla af tilbúnu fóðri til landbúnaðar, sem fram að þessu hefur verið 3,90 á hvert kg. Okkur er ætlað að trúa að þetta sé gert til að lækka verð á landbúnaðarvörum. Þetta hljómar allt voðalega vel, en staðreyndin er því miður allt önnur. Þetta kemur einfaldlega ekki til með að hafa nein áhrif til lækkunar því nánast ekkert af því fóðri sem íslenskir bændur nota ber slíka tolla. Hér er eingöngu verið að gera tilraun til að koma á innflutningi á slíkum vörum í samkeppni við innlenda gæðaframleiðslu sem er í dag hluti af okkar keðju sem tryggir að við framleiðum holl og heilnæm matvæli.

- Landbúnaðarráðherra boðar að flytja megi inn hrátt kjöt. Hvað er nú orðið af vörnum okkar gagnvart þeim fjölmörgu og alvarlegu sjúkdómum sem eru óþekktir hér og jafnframt hluti af okkar sérstöðu við matvælavinnslu? Hvar er stefna okkar gagnvart framleiðslu með notkun hormóna og erfðabreyttra matvæla?

Pressan er gífurleg frá smásöluversluninni í landinu sem notar hvert tækifæri til að höggva í þessa mynd og fá heimildir til að flytja inn landbúnaðarvörur til að koma sér í þá stöðu að geta enn frekar kreist innlenda framleiðendur í verðum og þjónustu og skammtað hillupláss eftir geðþótta. Í viðtali við Finn Árnason forstjóra Haga hér fyrir nokkrum dögum þar sem fréttamaður var að yfirheyra hann um yfirlýsingar þeirra um fyrirsjáanlegar hækkanir á innfluttum vörum vegna gengisþróunar og mikilla hækkana erlendis náði hann að enda viðtalið með yfirlýsingum um nauðsyn þess að leifa frjálsan innflutning á svína og alifuglakjöti. Fréttamaður gerði engar athugasemdir við þetta. Ég leifi mér hins vegar að spyrja hvert samhengi þessara mála geti verið. Hér er bara verið að blekkja neytendur og gefa falska von um lækkað matarverð.

Aðalatriði málsins er í mínum huga að stjórnvöld verða að fara að koma sér saman um framtíðarstefnumörkun í málefnum landbúnaðar þar sem tekið er á öllum þeim þáttum sem skipta okkur máli sem þjóð; holl matvæli, möguleikar ferðamennsku til að dafna, atvinnu fólks, umsjón og gæslu landsins, og síðast en ekki síst matvælaöryggi þjóðarinnar. Allar siðmenntaðar þjóðir í nágrenni við okkur hafa markað slíka stefnu og fylgja henni eftir og eru því ekki að hlaupa í allar áttir eftir skammtímasjónarmiðum sem grafa undan þeirri sýn.

Landbúnaður á Íslandi er mikilvæg en lítil og viðkvæm grein sem þolir ekki að búa við slíka óvissu á öllum tímum. Þannig eru yfirlýsingar um frjálsan innflutning á svína og alifuglakjöti slík ógn við þær greinar landbúnaðar hér að yfirgnæfandi líkur eru á að með slíkri árás gengi eigið fé þeirra greina fljótt til þurrðar og þær leggðust af á skömmum tíma. Aðalástæða þess er sú að hagkvæmni þessara greina sem loks hafa náð nokkru jafnvægi er algjörlega háð því að þær nái að nýta okkar litla markað og nái þannig stærðarhagkvæmni og arðsemi sem heldur í þeim lífi.

Ef slíkar greinar leggjast af þá er of seint að fara að huga að hollustu og heilnæmi þeirrar vöru sem þá flæddi inní landið. Þá er t.d. of seint að spyrja hvort þeir kjúklingar séu aldir á erfðabreyttu fóðri og komi frá svæðum sem skapa hættu á að alvarlegir sjúkdómar berist til landsins.

Varðandi landbúnaðinn í heild er alveg það sama uppá teningnum, hvort heldur við eru að tala um mjólkurframleiðsluna, kjötframleiðsluna eða grænmetisræktun, okkar litli markaður þolir ekki óheftan innflutning á niðurgreiddum vörum af heimsmarkaði sem oft á tíðum eru líka bara ódýrari þar sem verið er að "dumpa" vörum á markaði vegna offramboðs eða til að vinna nýja markaði með undirboðum.

Það fer ekki saman að ætla Íslenskum landbúnaði að tryggja okkur matvælaöryggi ásamt því að vörur séu heilnæmar og höggva sífellt í hann með yfirlýsingum og ógn um óheftan innflutning þar sem flestir sem til þekkja vita að slíkt getur aldrei endað nema á einn veg, veikingu innlendrar framleiðslu og á endanum dýrari vörum sem engan vegin stæðust samkeppni í framtíðinni.

En má landbúnaðurinn ekki bara fara, hverfa? spyrja sumir og halda því jafnvel um leið fram að hann sé ein af stærstu orsökum þess að hér er dýrt að lifa. Það er verið að moka nokkrum miljörðum í þessa grein árlega í styrki, er það ekki? Það er í sjálfu sér allt í lagi að velta þessu fyrir sér á þennan hátt, en fyrir mér er svarið afskaplega einfalt, við höfum ekkert efni á því að leggja landbúnaðinn í rúst því þegar dæmið er allt skoðað þá ætti öllum að verða ljóst að þessi atvinnugrein er þjóðinni bæði þörf og hagkvæm.

Til að sjá þetta betur fyrir okkur er ágætt að velta fyrir sér hvaða afleiðingar það hefði fyrir samfélagið ef landbúnaðurinn hyrfi, bara svona "hviss ,.. BANG" ...

1) Matvælaöryggi. Því er tiltölulega fljót svarað, það væri ekkert. Við værum einfaldlega matarlaus þjóð á þrengingartímum og algjörlega uppá aðra komin.

2) Byggðir landsins, matarmenning og ferðaþjónusta. Ef landbúnaðarins nyti ekki við væru fæst svæði landsins í byggð utan stærstu þéttbýlisstaðanna og möguleikar ferðaþjónustunnar, sem er ört vaxandi grein, yrðu harla litlir. Bændur væru ekki lengur til staðar til að annast landið og tryggja þá ásýnd þess sem nauðsynleg er til að spennandi væri að ferðast um það og vænta mætti þess að einhverja þjónustu væri að hafa vítt og breytt um landið.

Hér komum við kannski að kjarna málsins. Hvað erum við að styrkja þegar við styrkjum landbúnaðinn af almanna fé eins og reyndar flestar aðrar þjóðir gera einnig. Erum við að styrkja bændur?, erum við að niðurgreiða landbúnaðarvörur til neytenda? eða erum við að greiða þessari atvinnugrein hæfilega þóknun fyrir að halda landinu okkar í byggð?. Hér vantar tilfinnanlega útreikning á samfélagslegum áhrifum greinarinnar til að svara þessum spurningum með vitrænum rökum.

3) Gífurlegur fjöldi starfa myndi glatast. Ég hef ekki á reiðum höndum nú hversu margir starfa við landbúnað í dag og hve mörg störf hann skapar í afleiddum greinum og þjónustu, en þau telja mörg þúsund. Bara til að gefa smá mynd þá eru mjólkurbændur landsins rúmlega 700 fjölskyldur og hafa útreikningar margra landa sýnt að gera megi ráð fyrir að ekki minna en 3 til 4 fjölskyldur til viðbótar við hverja í mjólkurframleiðslunni hafi atvinnu af úrvinnslu og þjónustu við greinina og þá mest í stærstu þéttbýlisstöðunum. Þann vanda má auðvitað leysa með nokkrum álverum til viðbótar ef það er framtíðarsýnin sem við höfum og viljum fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Þetta sem ég hef hér drepið á er aðeins brot af því sem þarf að taka til skoðunar þegar mörkuð er alvöru langtímastefna fyrir Íslenskan landbúnað, stefna um matvælaöryggi okkar þjóðar og stefna varðandi framtíðaruppbyggingu byggðar og ferðaþjónustu í landinu.

Í stað þess að vinna þessa vinnu til enda, kynna hana almenningi á þann hátt að heildstæður skilningur náist á mikilvægi þessa fyrir okkar samfélag eru við sífellt að hlaupa eftir einhverjum upphrópunum, hvort heldur það er að fá ódýrari kjúkling núna eða margbrengluð umræða um hátt matvælaverð á Íslandi.

Matvælaverðið er nefnilega alveg kapítuli út af fyrir sig sem ég gæti skrifað langa grein um en ætla hér bara að stikla á stóru. Hátt matvælaverð er ekki Íslenskum landbúnaði að kenna. Hér erum við einfaldlega með hágæðavörur sem oftar en ekki eru bornar saman við vörur af allt öðrum gæðum. Auk þess eru flestar Íslenskar landbúnaðarvörur ekkert tiltakanlega dýrar heldur, við erum bara búin að telja okkur trú um þetta. Eftir það sem við köllum stórhækkun á mjólk nú um daginn er nú staðreyndin sú að þrátt fyrir það er hvergi í nágrannalöndunum að finna mjólk á jafn lágu verði og hér, eða um 100 kr hver lítri. Staðreyndin er sú að þessi hollustuvara er hræódýr og nægir bara að bera hana saman við næringarlausa gosdrykki sem eru margfalt dýrari, en eru þó ekkert annað en vatn, litarefni, bragðefni og sykur eða gerfisæta.

Það sem er einnig mikilvægt að hafa í huga er að matarkarfan sem öll umræðan er um vegur ekkert sérlega mikið í heildarneyslu landans. Mjólkurvörurnar í heild, svo dæmi sé tekið vega rétt rúm 2% (2,07) af neysluverðsvísitölunni nú í mars og matar- og drykkjarvörur í heild 12,27% . Til samanburðar við mjólkurvörupakkann þá vegur símaþjónusta 2,44% í vísitölunni, sykur súkkulaði og sælgæti 1,21%, áfengi og tóbak 2,76%, lyf lækningavörur og heilbrigðisþjónusta 3,39% svo ekki sé minnst á stóru liðina eins og húsnæði, rekstur bíls og fleira þar sem alvöru tölurnar er að finna.

Þetta verðum við einnig að hafa í huga þegar við berum okkur saman við verðlag í öðrum löndum. Við verðum að bera saman lífskjör og hve stór hluti tekna fer til einstakra þátta. Ég hef áður gert samanburð hér á blogginu á verði matar hér og á Spáni, en okkur er oft tíðrætt um hve ódýr matur sé á slíkum slóðum. Staðreyndin er hinsvegar sú að fyrir þá sem búa og vinna á Spáni er matur dýrari en hér hjá okkur þó svo hann kosti færri krónur. Matarinnkaupin vega einfaldlega mun þyngra þar en hér hjá okkur í heildar neyslukörfunni.

Verð að láta staðar numið hér með þessar hugleiðingar þar sem þetta er orðið svo langt að enginn nennir að lesa í gegnum þetta.

Bros og kveðjur í bloggheima :)


mbl.is Landbúnaðarráðherra boðar tímamótabreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðtrúa sauður - og hljóp 1. apríl með stæl

Já ég hljóp 1. apríl alveg með stæl í dag. Er eitthvað svo grandalaus að ég fatta þetta engan veginn fyrr en ég rek mig á. Ég hlustaði á viðtalið við Björn Bjarna með aðdáun og sá fyrir mér allar vélbyssurnar og hjálmana og dótið frá seinna stríðinu. Hvarflaði reyndar að mér þó að Björn hefði alltaf vitað af þessu, en bara haldið þessu fyrir sig. Hinsvegar þegar kom að blöðunum og tvö þeirra voru með stórfréttir af Birni Inga fór að renna upp fyrir mér ljós hvaða dagur væri.

Svo hrekkti ég einn vin minn, hann Jóhann Ólaf, sem er að hanna og setja upp fyrir mig fréttabréf fyrir fyrirtækið. Hann sendi mér í morgun stoltur og hróðugur haus og útlit af blaðinu, sem var reyndar mjög flott .....   en ég hringdi í hann litlu síðar, þungur í röddinni, og tilkynnti honum að ég væri hættur við þetta helvxxxx fréttabréf og hann gæti bara pakkað þessu öllu saman og fengi ekkert greitt fyrir .... Þögn,... "má ég hringja í þig á eftir ég er í öðrum síma" heyrðist lágri röddu .. En svo leiðréttist þetta allt saman mjög fljótt :)

Jæja svo á heimliðinni í dag eftir að fara með eldri á fótboltaæfingu segja strákarnir við mig .. "pabbi við erum búnir að taka póstinn fyrir þig, gerðum það þegar við komum úr skólanum" (sveitapóstkassinn við veginn) ...  en þegar heim kom var auðvitað enginn póstur og ég fékk að heyra milli hláturskviðanna að það væri 1. apríl ....  úff og ég sem hélt'ann væri búinn.

Dagurinn var líka svona 'reyna á þolrifin' dagur því í dag tóku vöruflutningabílstjórar uppá því að mótmæla eins og kollegar þeirra í Reykjavík. Þar sem ég hafði fullan skilning á málstaðnum beit ég á jaxlinn og brosti til þeirra og vinkaði líka þar sem ég var læstur í umferðinni í meir en hálftíma þegar ég ætlaði að sækja Kára minn til að koma honum á fótboltaæfingu. En gvöð hvað mig langaði samt að öskra og ulla á þá og keyra yfir umferðareyjuna eins og einn sem ég sá til og virtist vera að tapa sér úr stressi, he he ....  komum auðvitað allt of seint á æfinguna, en hvað gerði það svo sem til því Kári brosti bara og sagði að bensínið væri orðið allt of dýrt, líka fyrir okkur sem keyrðum í skólann, í vinnu, á íþróttaæfingar og allt hitt alla daga.

Í öllu þessu dýrtíðarumræðudownsyndrómi minnist ég þess að lengi var svo að verð á 1 lítra af mjólk og 1 lítra af bensíni fylgdist að. Nú er allt næstum brjálað yfir 14 kr hækkun á mjólk sem hefur nánast ekkert hækkað í 6 til 8 ár svo nokkru nemi, en bensínið þrátt fyrir þessa hækkun er samt 70 til 80 % dýrara. Því segi ég eins og vörubílstjórarnir, lækkum bensínið svo við höfum efni á að keyra út í búð að kaupa mjólkina.

Punktur og pasta í dag og bros í bloggheima :)

 


Bútur af smásögu .....

Það verður ekki sagt um bloggið mitt að það sé einsleitt, því ég skrifa helst bara um það sem leitar á hugann í það og það sinn. Held þó að síðasta færslan mín hafi ekki hitt í mark nema hjá þröngum hóp lesenda :) ...  en hvað um það. Ég hef stundum leitt hugann að því að skrifa sögu sem stundum sækir á huga minn, ekki endilega til að gefa hana út og verða frægur og ríkur, kannski bara frekar til að hún væri skrifuð, því þetta er svona saga sem ekki þarf endilega að lesa, heldur bara að skrifa.

 

Leifi hér einum litlum kafla að flakka bloggvinum til fróðleiks:

 

- - - - - - - - - - - - - - -

 

- 12. kafli -

Hann var ákveðinn og styrkur í röddinni en samt alveg rólegur þegar pabbi kom í símann og spurði hvort ekki væri allt í lagi?. Jú jú pabbi það er allt í lagi með mig en ég er bara ekkert að fara núna, ég get ekki farið til þeirra lengur. Ég missti alveg viljandi af skólabílnum og ég fór bara og talaði við Siggu ritara þegar ég var viss um að bíllinn væri farinn og sagði henni að hringja í þig. Ég talaði líka við skólastjórann og hann skilur mig. En Atli bróðir þinn, hvar er hann? Æ hann var farinn í skólabílinn og ég gat ekki látið hann vita. 

Pabbinn vissi á þessu augnabliki að nú yrði hann að standa með drengnum sínum og láta á það reyna alla leið hvort allt yrði vitlaust eða ekki. Hann stóð uppúr stólnum og andvarpaði, lét síðan ritarann vita að hann yrði ekki meira við í dag, þyrfti á mikilvægan fund sem kallað var til í skyndingu. Meðan hann ók úr vinnunni í skólann til að sækja stráksa runnu í gegnum huga hans öll augnablikin sem hann hafði barist við samvisku sína og langað að segja “hingað og ekki lengra”, þessi mannstauli, hugsaði hann,  kemur ekki nálægt drengnum mínum framar.

Hann setti sætahitarann á til að fá velgju í hrygginn svo hann næði betur að losa um streituna sem gerði vart við sig við þessar hugsanir. “Pabbi ég get ekki farið til mömmu, ég get ekki lifað þar” ....   “pabbi kallinn sem er hjá mömmu segir svo margt ljótt og svo er hann alltaf að skamma okkur fyrir eitthvað sem við gerum ekki” ..  “hann segir svo margt ljótt sem er ekki satt, en svo hættir heilinn í manni að vita hvað er rétt”  ...”hann segir að þú sért glæpamaður og hættulegur” ....  "hann segir að skólinn okkar sé lélegur og við lærum ekki neitt"...  Setningarnar ómuðu í kollinum á honum og komu eins og á færibandi. Allir fimmtudagsmorgnarnir aðra hvora viku, þegar skiptin voru, vitjuðu hugans einnig. Þegar drengurinn lítill kastaði sér í gólfið og fór að hágráta fullklæddur og með skólatöskuna á bakinu og sagðist ekki getað farið í skólann, sér væri alls staðar illt. Hvað átti hann að gera, neita að senda drenginn til þeirra, nei það var ekki hægt, því á yfirborðinu var allt gott og leit vel út. En drengjunum hans leið hvergi vel nema heima, því þar voru allir vinir og loftið svo gleðilegt eins og þeir sögðu sjálfir.

Það voru fagnaðarfundir í skólanum, feðgarnir föðmuðust í hljóði og horfðust í augu um stund. Það þurfti engin orð tilfinningin var þarna, öryggið og kærleikurinn. Sólin var líka að brjótast gegnum skýin í kuldanum og sló geislum á þögul andlitin sem yfirgáfu skólalóðina þennan dag.

Þetta er góður dagur Jói minn, sagði pabbi, er þeir leiddust í átt að bílnum.

- - - - - - - -  

Knús á ykkur öll kæru bloggvinir :)


Markaðir í rugli!? - Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott

Ég ætla ekki að gera beina úttekt á þróun fjármálamarkaða síðustu vikur né heldur þróunar á hlutabréfamarkaði. Það sem ég ætla hins vegar að beina sjónum að er að þetta er ekki allt eins slæmt og það virðist eða fjölmiðlar hafa valið að gera það. Það versta í þessu öllu er þó að mörkuðunum er mest stjórnað af ótta og gróusögnum um að allt sé að fara í kalda kol. Jafnvel stöndug og vel rekin fyrirtæki eins og t.d. Bakkavör hafa fengið á sig slíkan stimpil þrátt fyrir að þar sé á ferð fyrirtæki sem byggir á stöðugum og ört vaxandi rekstri sem byggir á raunverulegri verðmætasköpun. Á hinn bóginn eru fyrirtæki og það stór fyrirtæki sem eru að "krumpast saman" á markaði þar sem hið rétta er að koma í ljós, lélegur rekstur og/eða arðsemi sem engan vegin hefur staðið undir þeirri verðlagningu sem fyrirtækin hafa fengið á markaði. Þessi verðmæti hafa að mestu verið búin til með væntingum um framtíðargróða sem ýmist byggði á samruna og væntingum um hagræðingu eða þá óraunhæfum vexti í lávaxta- eða jafnvel stöðnuðum markaði.

Allskonar trixum hefur verið beitt til að auka virði fyrirtækja, trixum sem almenningur hvorki skilur eða fær nægar upplýsingar um til að geta metið stöðuna. Menn verðleggja fyrirtæki gjarnan að stórum hluta útfrá EBITDA hagnaði, sem á góðri Íslensku er hagnaður fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og skatta. Við samruna kemur goowill fyrirtækja til tekna en stór hluti samrunakostnaðarins sem felst í fjárbindingunni telst ekki með í slíkum reiknikúnstum. Síðan hefur maður séð alls konar trix til að halda sölutekjum hærri með því t.d. að veita vaxtalaus kjör svo eitthvað sé nefnt, sem auðvitað er kostnaður við vöruna eða þjónustuna en telst ekki þegar Ebitda'n fína er reiknuð.

Það sem verra er er að um fjölmörg af þeim fyrirtækjum sem finnast á Íslenska markaðnum gildir að lítið samhengi er í raunverulegu innra virði, sem byggir að stærstum hluta á frjálsu fjárflæði frá starfsemi fyrirtækjanna, og svo skráðs virðis á markaði. Þannig var t.d. útboðsgengi SPRON aldrei nálægt neinum raunhæfum tölum að mínu viti, 365 hefur aldrei sýnt rekstur sem gæti staðið undir gengi yfir 1 til 2 (miðað við það magn hlutafjár sem er úti) þó svo gengið næði að fara í kringum 7 að mig minnir. (Þetta eru aðeins dæmi og skal tekið fram að þetta er einvörðungu byggt á mínu persónulega mati og skoðunum og birt á mínu persónulega bloggi) ... Öruggara að taka það fram í dag svo maður verði nú ekki kærður fyrir að tala niður gengið enn frekar á þessum annars ágætu fyrirtækjum.

Tími yfirverðlagningar tilbúinna væntinga er liðinn, væntinga sem að mestu hafa byggt á hröðum vexti og yfirtökum sem ekki er lengur hægt að fjármagna með ódýru lánsfé og leika það sem ég leifi mér að kalla gömlu "Kaupþings trikkin" (en fer ekki nánar útí hér), ....

.... en nóg um þetta sem er bara sýnishorn af hildarleiknum og snúum okkur að því góða sem er að gerast um leið í viðskiptaumhverfinu, sem ég tel afar mikilvægt að horfa til:

1) Það jákvæða við þetta allt er að alvöru rekstur og verðmætasköpun mun njóta meiri virðingar í framhaldinu. Fólk fer að gera sér betur grein fyrir hvar verðmætin verða til, í fyrirtækjum sem byggja á heilbrigðum rekstri, en ekki því að græða hver á öðrum við það eitt að kaupa og selja eitthvað sem menn halda að verði til eða verði ekki til.

2) Jafnvel undirstöðugreinar eins og landbúnaður munu einnig fá uppreisn æru. Fólk er farið að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að hver þjóð búi við matvælaöryggi og eigi stöðugan aðgang að eigin mat.

3) Mörg fyrirtæki munu verða afskráð af markaði ef eigendur sjá þess kost og hætt verður að gambla með þau útfrá öðru en því virði sem þau standa fyrir. Þannig mun spákaupmennska hafa minni áhrif á möguleika fyrirtækjanna til heilbrigðs vaxtar og aðgangs að öruggu fjármagni til langs tíma litið.

4) Hlutafélagaformið sem aðal rekstrarform mun verða tekið til gagngerrar endurskoðunar og fólk fer í meira mæli að kalla eftir öðrum rekstrarformum eins og t.d. samvinnufélögum sem standa vörð um hagsmuni félagsmannanna og viðskiptavinanna, en ekki bara einhverra fárra spákaupmennskueigenda sem oft hirða stórfé útúr fyrirtækjunum og hverfa svo að næsta verkefni.

5) Gömlu góðu gildin um samkennd og hjálp og grunngildi samfélagsins munu vaxa meðan "flottræfilsháttur" og "show off" mun víkja.

Það eina raunverulega slæma sem ég sé við þessar hræringar nú er að allt of mikið af venjulegu fólki mun verða verulega fyrir barðinu á þessu þar sem eignir þess gufa upp á örskotsstundu, eignir sem stofnað var til í góðri trú eða blindni auðhyggjunnar.

Kannski er samt engin ástæða til að vorkenna þeim sem hafa t.d. keypt sér:

a) allt of stórt eða dýrt húsnæði, sem nú stendur ekki fyrir lánunum sem á því hvíla, eða

b) stóru lánsfjármögnuðu jeppunum sem kannski eru svona miljónkall eða tvær í mínus ef ætti að skila þeim og afborgunarbirgði búin að hækka um 30 - 40% ...

..... og eiga þess vegna nú minna en ekki neitt. Ég geri það nú samt því ég vil skella skuldinni að nokkuð miklu leiti á þá auðhyggju og frjálsræði sem hefur verið predikuð og fengið að ná athygli allra stærstu fjölmiðla í svo langan tíma. Fólk hefur einfaldlega dregist með í súpuna sem örfáir einstaklingar hafa verið að kokka uppskriftina að og reynist svo með öllu óæt þegar upp er staðið.

Eitt er þó víst að þetta jafnar sig allt og ég hefð þá ákveðnu trú og skoðun að eftir þetta "hreinsunarár 2008" komi meira jafnvægi yfir viðskipti og siðferði okkar í viðskiptum um leið og gildi samfélagsins verði endurskoðuð með jákvæðri útkomu fyrir alla.

Ef einhver hefur enst til að lesa þessa "eftir Páska hugvekju" mína alla leið þá óska ég viðkomandi alls hins besta og þakka lesturinn.

Stórt knús og kossar í bloggheima ;)

 

p.s. bara í lokin af því ég var í raun að gera svolítið grín að EBITDA sérfræðingunum þá er til einn ferlega góður brandari um þetta á ensku, sem er svona:

EBITDA stands for Earnings Before I Tricked the Dumb Auditors


Frostrósir á glugga

Stundum er veröldin bara svo falleg að það er eins og allt standi í stað og allt sé gott og allt annað svo ómerkilegt og lítilfenglegt að það geti aldrei varpað skugga á léttleikann og sæluna sem fylgir því að skinja náttúruna og hennar einstöku listaverk. Þannig var einmitt að vakna í morgun, 10 °C frost og kalt ...  nei nei ...  eftir kuldanum tók enginn því frostrósirnar á bílgluggunum og marrið í snjónum spiluðu svo fallega sinfóníu að í stað þess að ráðast á rúðusköfuna skjálfandi varð ég að hoppa inn aftur og sækja myndavélina.

Picture 010c


 Picture 010b

 

Picture 012b

  Picture 011b

Njótið og bros í bloggheima ;)


Nokkrar myndir

Picture 073c  Picture 015a

Kári minn var að spila á Greifamóti um helgina með KA liðinu sínu. Því miður náði ég ekki að fylgjast með honum þar sem ég var í Reykjavík á föstudag og fram á laugardag. En ég náði leik með honum í morgun og var ekkert gefið eftir í þeim leik sem endaði með jafntefli.

Í dag komu svo í heimsókn á Norðurlandið tveir litlir og kátir frændur þeir Valdór Liljendal og Arnar Liljendal. Ekki vantaði heldur gleðina sem fylgdi þeim, litlu hetjunum. Myndirnar voru teknar hjá Afa og Ömmu í Núpó.

Picture 085b

Picture 101bPicture 103bPicture 106b


Samherjarnir mínir náðu 7. sætinu á Goðamóti

Dagurinn í dag endaði vel hjá Samherjastrákunum því þeir spiluðu úrslitaleikinn sinn um 7. sætið til sigurs. Sætur endir á löngu og ströngu fótboltamóti og voru allir glaðir með sitt í lokin og búnir að gleyma öllum óförum seinnihluta dagsins í gær. Þeir minntu mig bara á landsliðið okkar í handbolta þegar þeir komu til leiks í dag, léttir og ákveðnir í að klára þetta með sóma.

Picture 047

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og nokkara myndir frá úrslitaleiknum í dag sem var við Magna

Picture 008  Picture 002

Picture 019  Picture 016

Picture 020  Picture 025

Picture 032

 

 

 

 

 

 

 

 

Fagnað í lok leiks

Bros í bloggheima :)


Bæði súrt og sætt hjá Samherjum

Helgin hefur bara snúist um fótbolta hjá Karli, yngri stráknum, alla helgina á Goðamóti Þórs og við Kári að sjálfsögðu fylgt honum og liðsmönnunum í Samherjum eftir hvert fótmál. En Karl hefur spilað með Samherjum í sveitinni í vetur meðan Kári æfir á fullu með KA.

IMG_4888

Eins og gerist í besta bolta hefur gengið á með skini og skúrum. Þeir kappar fóru uppúr riðlinum sínum með 2 leiki unna og 2 tapaða.

Áttu sæta sigra gegn Val og Fjarðabyggð, en töpuðu hinsvegar fyrir Þór og Breiðablik-2.

Fyrsta leik í milliriðli áttu þeir síðan við Breiðablik-1 og urðu að lúta í lægra haldið. Breiðabliksliðið var mjög sterkt, en það eina sem skyggði á þann leik var "MJÖG SLÖK" dómgæsla og mikið af grófum og ljótum brotum, sem ungu sveitadrengirnir áttu ekkert svar við. Sögðu bara sárir á svip að svona gróf brot væru ekki einu sinni í Enska boltanum og þar væru líka dómararnir að fylgjast með leiknum.

En þrátt fyrir það er mikil gleði í hópnum og engin uppgjöf fyrir morgundaginn þar sem þeir eiga ennþá von um 7. sætið á mótinu þar sem 5. sætið fór fyrir bí í síðasta leiknum í kvöld.

Hér fylgja nokkrar myndir frá deginum í dag.

IMG_4804  IMG_4805

Pálmi í hörku baráttu við Þórsarana

IMG_4858  IMG_4870

Karl og einn Blikinn                              Jakob og Karl

IMG_4786   IMG_4891 

Flugbolti                                              ... og Þjálfarinn eftir tapið gegn Þór

IMG_4779

Hér er svo liðið með Elíasi Þjálfara

Og myndir af nokkrum leikmannanna ...

IMG_4905  IMG_4908

Fjölnir                                                   Jakob Atli

IMG_4899  IMG_4900

Karl Liljendal                                        Pálmi

IMG_4901  IMG_4904

Ólafur                                                  Þórgnýr

 

Bros og góða nótt í Bloggheima :)

 


Allt í þykjistunni, eða hvað!?

Þetta er búin að vera pínu skrítin helgi. Þetta hefur helst gerst:

1. Ég hef gengið kaupum og sölum alla helgina og er nú eign Lísu bloggvinkonu og er $3.426 virði

2. Ég hef keypt mér tvö gæludýr, tvær bráðfallegar konur

3. Ég hef spilað póker í Texas og tapað tæpum 400 dollurum

4. Ég hef fengið sendan fjöldann allan af blómvöndum og sent aðra

5. Ég held ég sé skotinn í minnsta kosti tveimur konum sem hafa bitist um að eiga mig og ég er alltof blankur til að geta gert eitthvað í málinu. Svo held ég að ég sé mjúkur í hnjánum fyrir að minnsta kosti öðru gæludýrinu mínu.

6. Kallmaður sendi mér demantshring til að innsigla vináttu og gerðist svo bloggvinur minn í framhaldinu. .. og það Akureyringur í þokkabót, he he ..

7. Ég hef komist að því að nafnið mitt er "Damn Sexy" og skorar 141 stig

 ....... og hvar hef ég svo verið um helgina ????   jú fyrir framan tölvuna á kafi í Facebook eftir áskorun frá Mögnu bloggvinkonu.

Þetta er stórundarleg veröld, sem lætur tímann líða án þess að maður taki eftir því, en ég verð að viðurkenna að þetta er ótrúlega gaman líka ;);)

IF YOU DARE ??  try it yourselfe  www.facebook.com

Bloggknús og bros í bloggheima :)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband