Nú er næstum liðið ár frá hruni bankanna og ekkert raunhæft eða vitrænt hefur verið gert til að rétta af stöðu heimila eða venjulegra fyrirtækja í landinu. Skjaldborgin blessuð, hvar er hún?
Í stað þess að ganga hreint til verks og fara í almennar aðgerðir til leiðréttingar skulda eru stjórnvöld tilviljanakennt að grípa inní atburðarrásina með yfirtökum og stórfelldri niðurfellingu skulda hjá stórum fyrirtækjum sem sum hver áttu sér enga von jafnvel fyrir hrunið. Þetta er mjög alvarleg staða fyrir heiðvirt og vel rekin fyrirtæki sem þurfa nú sum hver að berjast í samkeppni við þessi fyrirtæki sem hafa nú fengið samkeppnisforskot vegna niðurfellingar skulda og haga sér á markaði eins og ekkert hafi nokkurn tíman gerst. Ég ætla ekki að nefna nein ákveðin fyrirtæki hér en þekki mörg dæmi þar sem þessi staða er uppi.
Það á að hjálpa þeim sem verst standa segir Árni Páll sem að mínu viti virðist ekki gera sér nokkra grein fyrir stöðunni almennt eða hvernig eigi að bregðast við þessum aðstæðum þannig að líklegt sé að við förum að vinna okkur upp úr öldudalnum.
Almenn leiðrétting skulda er ennþá að mínu mati eina raunhæfa fyrsta skrefið. Einföld og fljótvirk aðferð sem kostar ekkert eins og sýnt hefur verið frammá. Kostar ekkert af því að með því væri verið að auka virði skuldasafnanna þar sem fleiri yrðu færir um að standa í skilum og greiða sínar skuldir. Réttlætismál einnig þar sem nýju bankarnir keyptu kröfurnar á fyrirtæki og heimilin með miklum afföllum, jafnvel yfir 50%. Að almennri leiðréttingu lokinni má taka til við að skoða stöðu einstakra fyrirtækja og heimila og kanna hvað hægt er að gera til viðbótar.
Það er einnig frekar sorglegt að margar aðrar aðgerðir sem verið er að grípa til eins og skattahækkanir, auknar álögur á matvæli með s.k. sykurskatti vinna þveröfugt við það sem þarf að ná fram. Þessar aðgerðir eru allar til þess fallnar að minnka ráðstöfunartekjur fólks og minnka neyslu sem sem herðir kreppuna og veldur því að ríkið fær minni skatttekjur til ráðstöfunar. Réttara hefði verið að létta af álögum við slíkar aðstæður, lækka skatta, og auðvelda fólki og fyrirtækjum að auka umsvif og neyslu á ný sem með hægri uppsveiflu yrði fljótt að færa ríkinu meiri tekjur. Slíkt yrði driffjöður til vaxtar.
Þá þarf vaxtastig að lækka enn frekar til að einhver þori að fjárfesta í atvinnulífinu og peningarnir sem nú hlaðast upp í nýju bönkunum hafi eitthvað að gera, en séu ekki atvinnulaust fjármagn eins og nú stefnir allt í. Komist ekki á eftirspurn eftir lánsfé munu nýju bankarnir ekki eiga möguleika á að spjara sig því þeir þurfa jú að borga fyrir það fé sem safnast upp en skilar engum arði.
Köllum eftir aðgerðum strax, þetta gengur bara einfaldlega ekki lengur. Það er of seint í rassinn gripið að tala t.d. um mikilvægi matvælaöryggis þjóðarinnar og hollustu og hreinleika íslenskra matvæla þegar búið verður að veikja landbúnaðinn svo mikið að hann nái ekki að halda þeirri stærð og hagkvæmni sem búið var að byggja upp. Eins og staðan er nú eru miklar líkur á að allt að 30-40% bænda gætu farið í þrot og það er einfaldlega meir en greinin sem slík þolir. Sjávarútvegurinn er einnig í verulegri hættu, þrátt fyrir að útflutningstekjur séu góðar um þessar mundir sökum gengisþróunarinnar. Hann er í hættu vegna ofurskuldsetningar og nýtingarréttur auðlindarinnar gæti því farið úr höndum okkar í einni svipan ef gjaldþrotahrina færi um greinina. Hverjir myndu halda á þeim kröfum þar sem 2 af nýju bönkunum eru líklega á leið í hendur kröfuhafa sem að stórum hluta eru erlendir aðilar.
Almennar, gagnsæjar aðgerðir er það sem þarf að koma nú þegar þannig að atvinnulífið sjálft og fólkið í landinu geti unnið okkur sem þjóð útúr kreppuástandinu, því það verður aldrei gert í þingsölum hvort eð er. Þar er hinsvegar hlutverk manna að skapa þau skilyrði að atvinnulífið og fólkið geti tekist á við þetta verkefni á raunhæfan hátt.
Ekki meira í bili.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.