Efnahagsástandið - viljum við eymd og upplausn eða bjartsýni og uppbyggingu

Í mínum huga eigum við sem þjóð algjörlega val milli þess að hér fái kreppa og stjórnleysi að ná tökum og þess að líta raunsætt á hlutina, fyllast bjartsýni og snúum vörn í sókn. Varðandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans þá er einnig margt sem bendir til þess að helgin núna geti ráðið úrslitum um það hvorn veginn við veljum að feta, því fjármálasérfræðingar félaga á borð við Merril Lynch og fleiri virðast hafa með greiningum og umfjöllun búið jarðveginn undir að íslensku fjármálaumhverfi verði endanlega steypt um koll við opnun markaða á mánudag. Trúverðugleiki stærsta bankans okkar, Kaupþings, var allnokkur við lokun fyrir helgi, en annað gæti orðið upp á teningnum á mánudaginn hafi ekkert stórt gerst í millitíðinni.

Við getum spurt stórra spurninga eins og af hverju er svona komið og hvað er til ráða. Af umræðu fjölmiðla undanfarna daga þá hefur þjóðin og helstu ráðamenn hennar dregið sig i nokkra dilka allt eftir því hvort menn telja að ríkið hafi rænt auðmenn Glitni eða ekki og hvort ástæða þessa alls sé aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar, óstjórn efnahagsmála, eða bara tilkomið vegna atburða á alþjóðamarkaði sem við höfum dregist inní og ekki geta varið okkur fyrir sökum smæðar okkar efnahagskerfis í samanburði við umfanga íslensku bankanna.

Til að vita hvaða leið við eigum að fara er nauðsynlegt að við skilgreinum vel hvaða árangri, hvaða stöðu við þurfum að ná til að rétta af íslenskt fjármálaumhverfi og skapa atvinnulífinu (hinni raunverulegu verðmætasköpun) og heimilum landsins eðlilegt rekstrarumhverfi á ný. Einnig er mikilvægt að við gerum okkur nokkuð ljósa grein fyrir því af hverju svona er komið fyrir okkur sem samfélagi og efnahagsheild. Ég ætla því að skipta þessum hugleiðingum mínum í þrjá hluta hér á eftir:

1) Af hverju fór sem fór? og átti þetta að koma mönnum svona í opna skjöldu?
Langstærsta ástæða þess að íslenska fjármálakerfið er komið í þessa kreppu er hraður vöxtur þeirra í alþjóðlegu fjármálaumhverfi og oft á tíðum mjög glannalegur vöxtur langt umfram þá stærð og stöðu sem íslenskt efnahagslíf getur staðið bak og varið þegar á móti blæs. Þetta hefði kannski getað gengið áfram, en þá með einskærri heppni miklu fremur en að bankarnir væru að fara skinsamlega leið. Heppnin hefði verið fólgin í því að ekki kæmi niðursveifla á alþjóðamarkaði. Þetta á einnig við um stórar skuldsettar fjárfestingar íslendinga á alþjóðlegum mörkuðum sem ofan á allt annað eru að stórum hluta fjármagnaðar af útrásarfyrirtækjum bankanna.

Þessi gríðarlega þensla bankanna hefur orðið til þess að öll eðlileg hagstjórnartæki virka ekki á Íslandi. Þannig hefur m.a. sýnt sig að hátt vaxtastig Seðlabankans er ekki að hafa nein áhrif til að hemja verðbólguna. Á sama hátt er bankinn og stjórnvöld mjög illa í stakk búin að geta haft nokkur alvöru áhrif á verðgildi krónunnar, gengið, sem ræðst nú nær einvörðungu af spákaupmennsku og tiltrú alþjóðamarkaðarins á fjármálakerfi okkar en er ekki að endurspegla virði innlendrar verðmætasköpunar atvinnulífsins, vöruskipta við önnur lönd og eftirspurnar, kaupgetu íslenskra heimila. Núverandi verðbólga á Íslandi hefur þannig ekkert með þessa þætti að gera og því hefði Seðlabankinn átt að vera búinn að lækka vexti niður í eðlilegt vaxtastig fyrir löngu síðan.

Fyrir þá/þau okkar sem hafa velt fyrir sér alþjóðaviðskiptum af einhverri alvöru þá hefur ekkert gest nú sem ekki hefði mátt búast við og reyna að bregðast við. Um þetta er meira að segja hægt að lesa um í fjölda kennslubóka og greina sem voru skrifaðar áður en þessi niðursveifla hófst. Búið var að vara við flestu ef ekki öllu af því sem nú hefur gerst. Ég ætla hér ekki að fara nákvæmlega í það en en nærtækasta dæmið er auðvitað lausafjárvandi Glitnis banka sem stjórnendur segja vel rekinn og stöndugan banka allt fram í "næstum því andlátið". Á mannamáli er lausafjárkreppa bankans ekkert annað en glæfraleg útlán til langs tíma langt umfram þá stærð sem bankinn og bakhjarlar hans ráða við þar sem endurfjármögnun er aðeins tryggð til skamms tíma. Þetta eru engin ný sannindi, því þetta er bara grundvallar regla við slíkan rekstur að menn taki ekki meir áhættu tengda endurfjármögnun en viðkomandi stofnun ræður við ef þrenging verður á lánsfjármarkaði.

Það sem undrar mig hvað mest í þessu öllu er hversu þetta ástand Glitnis virðist hafa komið mönnum algerlega í opna skjöldu, en ljósasta dæmi þess er fyrirhugaður hluthafafundur Stoða þar sem leggja átti til að Baugur yrði hluti Stoða. Af því má ljóst vera að stærsti eigandi bankans gerði sér enga grein fyrir alvarleikanum í stöðunni. Hver er svo staða hinna stóru bankanna, er hún trygg eins og forsvarsmenn þeirra tjá okkur. Mitt svar er NEI, síður en svo. Ég ætla að vera svo ákveðinn í skoðunum mínum að ég tel að hvorki Kaupþing né Landsbankinn eigi möguleika á að spjara sig að öðru óbreyttu og jafnframt að algjörlega óraunhæft má teljast að ríkið geti komið þeim til bjargar líkt og búið er að bjarga Glitni fyrir fyrsta hornið. Eini munurinn á þeim og svo Glitni er að þeir virðast hafa tryggt sér endurfjármögnun til lengri tíma og svo sú staðreynd að þeim hefur tekist að byggja fjármögnun sína að miklu meira leiti á sparifjárreikningum á erlendum mörkuðum. Sú staða getur hins vegar breyst hratt og gæti jafnvel snúist í martröð strax eftir helgi þegar markaðir opnast ef atburðirnir kringum Glitni verða til þess að almenn trú glatast á þá og fólk og fyrirtæki færu að forða sparifé sínu frá þeim í skyndingu, eins og umræðan er orðin á mörgum alþjóðlegum fjármálavefjum. Sumir hafa gengið svo langt að segja að ef ríkisstjórn Íslands og Seðlabanki hafi ekki gert eitthvað róttækt fyrir opnun markaða á mánudag þá gæti vatnað svo undan Kaupþing að ekki yrði aftur snúið á þeim bæ.

2) Hvaða markmiðum þarf að stefna að
Hér þarf að ná stöðugleika á fjármálamörkuðum, tryggja eðlilegan gjaldeyrisforða, ná eðlilegu vaxtastigi og slá á verðbólgu allt í senn til að stoðir samfélagsins, atvinnulífið, geti farið að vinna á eðlilegum forsendum á ný og rekstrargrundvöllur verði fyrir venjulegar fjölskyldur á ný.

Þetta kann að virka frekar stórt og óraunhæft en engu að síður er þetta það sem þarf að gerast og það fljótt til að atvinnulífið leggist ekki í rúst og fjölskyldur landsins fari í þrot hver af annarri.


3) Hvernig verður vandinn leystur og það skjótt
Til að leysa vandann er mér ljóst að fara þarf í aðgerðir sem geta reynst mörgum sársaukafullar, aðgerðum sem verða til þess að margir, og þá sérstaklega þeir sem fjárfest hafa stórt í væntingum um mikinn skyndigróða, munu verða af mjög miklu eða jafnvel fara í þrot. Mestu skiptir þó að atvinnulífinu verði bjargað úr þeirri úlfakreppu sem þessir sömu aðilar hafa komið því í. Eins og staðan er í dag, með evru gengi yfir 150 er ljóst að kostnaðarhækkunum vegna erlendra aðfanga verður aldrei komið í gegnum virðiskeðjuna án stórra áfalla. Má sem dæmi nefna að innlend matvælaframleiðsla og landbúnaður eru nánast dauðadæmd með þessu áframhaldi nema til komi gríðarlegar verðhækkanir sem um leið yrði eldsneyti á áframhaldandi verðbólgu og samdráttareinkenni innanlands myndu í kjölfarið magnast.

Fyrsta skref aðgerða verður að snúa að bankakerfinu.

Ég vona svo innilega að samstaða og samvinna ríkisstjórnar, Seðlabanka, fulltrúa atvinnulífsins, lífeyrissjóða og annarra stórra hagsmunaaðila í samfélaginu beri árangur um helgina því tíminn er naumur. Þar sem ljóst má vera að ríkissjóður Íslands er ekki megnugur að verða bakhjarl alls bankakerfisins horfir dæmið þannig við mér að eina raunhæfa lausnin sé að skera utan af fjármálakerfinu á þann hátt að ríkið geti bakkað uppi það sem eftir stendur og í framhaldinu farið að beita eðlilegum hagstjórnartækjum til að ná festu og jafnvægi innanlands.

Til að ná þessu væri sennilega raunhæfast að selja Kaupþing í heilu lagi og selja einnig stóran hluta af erlendri fjármálastarfsemi Landsbankans fyrir samruna hans við Glitni í einn banka sem yrði að meirihluta í eigu ríkisins. Ef ekki tekst að skera bankakerfið hrátt niður á þennan hátt þá verða menn að vera tilbúnir að velja og hafna hvað á að fara á hausinn og hvað ekki. Ljótt að segja það, en árangursríkast væri trúlega að rétta Kaupþingi þá ekki hjálparhönd og láta þann risa hverfa í kjölsog alþjóðlegu kreppunnar þegar endurfjármögnunar kassinn verður tómur þar.

Það banka/fjármálakerfi sem eftir stendur þarf í það minnsta að vera af þeirri stærð að efnahagskerfið okkar geti varið það til framtíðar þannig að það geti þjónað okkar hagsmunum sem þjóðar, jafnt á þrengingartímum sem uppgangstímum.

Lækka vexti umtalsvert
Í framhaldinu þarf að lækka vexti umtalsvert, og þá er ég ekki að tala um 1 eða 2 % stig, nei ég er að tala um að helminga vexti eða jafnvel meira. Með því móti færu hjól atvinnulífsins að snúast liðugar á ný og fjölskyldufólki yrði bjargað frá þroti vegna óhóflegrar vaxtabirgði. Um leið og ég segi þetta þá veit ég að þetta eru aðgerðir sem kynda ættu undir verðbólgu, en ég er þess full viss að það yrði ekki raunin því núverandi verðbólga og vaxtastig eru ekki að endurspegla stöðuna i samfélaginu á nokkurn hátt, eins og ég gat um hér að ofan.

Ef við náum svo langt að taka þessi tvö skref sem ég hef nefnt þá kemur að eflingu atvinnulífsins með fókus á gjaldeyrisskapandi framleiðslu til að ná jöfnuði, hæfilegri innspýtingu opinberra framkvæmda til að auka hagvöxt meðan við komum öllu í eðlilegt horf á ný. Ætla ekki að skrifa meir um slíkt nú en geri það ef til vill síðar.

Já og að endingu - takk - ef einhver sér þessa línu hér neðst eftir að hafa lesið alla langlokuna mína sem upphaflega átti að vera smá hugleiðing á laugardegi.

Mikilvægast af öllu .... "TÖLUM OKKUR EKKI NIÐUR Í SKÍTINN SEM ÞJÓÐ" því það eru örugglega nógu margir aðrir tilbúnir til þess núna á erlendum fjármálamörkuðum,.. og ekki vegna þess að þeim sömu sé eitthvað illa við okkur, nei síður en svo .. Þeir sömu eru bara að því til að bjarga eigin skinni eða hagnast á óförum okkar Íslendinga.

Bros og kveðjur í bloggheima ;)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Sæll og takk fyrir þetta Valgeir :)

Já það er ljóst að þetta er alþjóðleg kreppa og okkar íslensku útrásarmönnum verður ekki kennt um hana sem slíka. Hins vegar er þetta alltaf spurning um hvernig menn meta og stýra áhættu í viðskiptum til að vera sem best búnir undir andstremi á mörkuðum.

Sá sem á hlý föt og notar þau verður síður kallt þegar skindilega snjóar, en á móti kemur að sá er kannski örlítið seinni af stað að morgni .... en kemur þó ekki kaldur heim :)

Hólmgeir Karlsson, 5.10.2008 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband