Hvað eru jólin og hvað gerir þau sérstök

Ég fór að láta hugann reika í kvöld um þessar spurningar:

Hvað eru jólin okkur hverju og einu? og Hvað gerir þau sérstök?

jólÞá er ég ekkert að velta mér sérstaklega uppúr uppruna þeirra og hvernig þau urðu til, heldur hvernig við nýtum þau til að finna frið og kærleika með okkur sjálfum og þeim sem okkur standa næst.

jól2Jólin eru tímamót, stund og staður, sem við hlökkum til því þá vilja allir gleðja og gefa. Við erum líka uppfull af spenningi eftir að upplifa þessa stund og fá pakka, já sjá hvernig aðrir vilja gleðja okkur. Barnið í okkur kemur fram því það eitt þekkir þessa eftirvæntingu, gleði og spennu sem fylgir jólunum.

Við eigum að leifa okkur að finna þessa gleði og spennu, jafnvel þó við séum ekki nein börn lengur. Gera eitthvað til að endurvekja gömlu góðu tilfinningarnar. Þar kemur líka inn hvað hefðir og ákveðnir siðir tengdir jólunum skipta okkur miklu. Við viljum hafa jóltréð okkar svona, borða þennan mat, gera þetta og gera hitt áður en jólin koma, hlusta á ákveðna tónlist og fara í jólafötin okkar og jólaskapið á sama hátt og við erum vön.

Minningar um jólin frá bernskunni geta verið gulls ígildi og eftirvæntingin engu síðri, tilhlökkunin og spennan ..... alveg þar til bjöllurnar hringja og allt springur út. Það sem ég hef þó fundið og finnst svo mikilvægt er að við megum samt ekki búa til of miklar væntingar um jólin sem síðan er ekki hægt að uppfylla. Þess í stað er svo mikilvægt, sérstaklega fyrir börnin okkar og barnið í okkur sjálfum, að leifa hverjum jólum koma með sína gleði. Við þurfum að vera í formi fyrir jólin þegar þau ganga í garð, glöð og afslöppuð í stað þess að vera útkeyrð og kortabrunnin.

Mínar bestu bernskuminningar um jólin og þær sem ég held alltaf í ákveðnu traustataki og bregðast mér aldrei:

Þegar ég var strákur í sveitinni teymdi pabbi okkur bræðurnar alltaf með sér í fjós á aðfangadagskvöld. Kvöldverkin í fjósinu voru alltaf sérstök og yfir þeim var einhver sú mesta helgiathöfn sem ég upplifði, því þá fann ég að jólin voru komin og þau yrðu góð líka þetta árið. Þetta kvöld fengu kýrnar alltaf sérstakt hey, jólaheyið, sem við færðum þeim hverri og einni og með fylgdi klapp og smá kjass og jólakveðja. Þetta hafði pabbi undirbúið í margar vikur á undan, því hann var löngu búinn að segja okkur hvar jólaheyið var í hlöðunni og það mátti ekki snerta fyrr en þetta kvöld. Þetta var eiginlega alveg snilld hjá "gamla manninum" því með þessari stuttu athöfn setti hann jólin í okkur alla, braut upp mestu æsingsspennuna, og kom inn með glaða þakkláta stráka beint inní jólin. Það sem við bræður gerðum okkur ekki grein fyrir þá var að hann bjargaði náttúrulega mömmu alveg við síðasta undirbúninginn í eldhúsinu, því einhvernveginn var það alltaf þannig að það var eins og jólaborðið birtist meðan á þessu stóð og mamma líka alltíeinu orðin svo fín og líka tilbúin að detta inní jólin með okkur.

Þó sagt sé að fortíðin sé saga og við eigum að lifa í núinu með framtíðina sem gjöf, þá eru góðar minningar svo mikilvægar oft til að hjálpa okkur að upplifa ný ævintýri sem verða að slíkum minningum og byggja upp kærleikann okkar og næra.

Ég reyni þvi að gera slíka hluti fyrir mína pjakka einnig, sem tengir þá við góðar hugsanir og athafnir þannig að við förum með réttu hugarfari inní jólin og getum leyft okkur að fá smá æðiskast í pökkunum, leik og gleði á eftir með góðri samvisku og tímaleysi.

Bros í bloggheima :)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hó Hólmgeir. En hvað var gaman að lesa þessa minningu, hef einmitt heyrt þetta svipað frá litla bróður þínum :) sé alveg mömmu ykkar fyrir mér með allt tilbúið :) æji þau eru bara svo yndisleg!! En mér er spurn af hverju hafa þú og þínir synir þessi líka rosalega tónlistargen.. fóru þau öll til ykkar.. hehe allavega virðast þau vanta í einn sem við þekkjum :) En þá aldrei að vita nema að Valdór og Arnar verði svo heppnir

Kærar jólakveðjur til ykkar í sveitina. Kíktu á okkur næst þegar þú "skreppur" í borgina.

Knús frá mér og mínum.

Guðbjörg V. (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 19:16

2 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk fyrir innlitið og kveðju Guðbjörg. Veit ekki um þetta með tónlistargenin, ég hef allavega ekki ráðið neinu um það :)
Já ég þarf að kíkja á ykkur þegar ég kem í borgina, hef bara ekkert verið á ferðinni uppá síðkastið.
Bestu kveðjur til allra

Hólmgeir Karlsson, 14.12.2007 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband