Lífsreynslusaga - bílslysið

Ég hef oft hugleitt áður að koma einhverju á blað um þá lífsreynslu sem ég varð fyrir þegar við feðgarnir lentum í alvarlegu bílslysi. Ekki það að mig er alveg hætt að dreyma þetta eða upplifa leiftrin með myndbrotum í vöku eins og var nær daglegt brauð í langan tíma á eftir.

Þetta var ósköp venjulegur morgun í apríl fyrir rúmum 8 árum. Ég var að fara með strákana mína, þá 2ja og 4ra ára í leikskólann á leið minni til vinnu. Móðir þeirra og sambýliskona mín þáverandi var ný farin að heiman til vinnu einnig. Ég man þetta enn eins og það hafi gerst í gær. Þetta var ósköp friðsæll morgun, nokkurt frost og snjór úti, en ósköp stillt og fallegt veður. Við vorum ekkert að flýta okkur þennan morgun, allir glaðir og hressir. Þegar við vorum að koma okkur fyrir í bílnum rifjuðum við upp ævintýri Jóa mjóa, geimverunnar sem lenti á jörðinni, og kunni ekkert á öryggisbelti eða umferðina. Við vorum ekki eins og Jói mjói því við vissum alveg hvað við áttum að gera. Ég man hvert augnablik af því enn því sjaldan hafði ég gengið eins tryggilega frá barnabílstólunum og öryggisbeltum þeirra beggja eins og þennan morgun, enda búnir að rifja upp megnið af ævintýrum Jóa meðan á þessu stóð. Það var eins og eitthvað lægi í loftinu, en ég gerði mér enga grein fyrir hvað það var. Fyrir mér var það bara gleði yfir brosunum og hlátrinum sem ég mætti áður en við héldum af stað.

Við vorum ekki búnir að keyra langt þegar fegurðin og kyrrðin rann af þessum morgni og það svo skyndilega að ég hef ekkert upplifað sem er svo tímalaust og skyndilegt að það gerist bara áður en nokkuð hefði átt að geta gerst, 2 til 3 sek liðu með atvikum sem þó virtust heil eilífð, bang, einn ógnar hvellur og ég vissi ekki meir þá stundina. Við vorum að nálgast blindhæð á veginum þegar skyndilega birtist bíll á ógnarhraða á móti okkur. Í því er bílstjórinn kemur yfir hæðina missir hann stjórn á bílnum og kemur æðandi á móti okkur á okkar vegarhelming og stefnir nær og nær. Ég reyni að hægja á mér og hugsaði, ég verð að komast útaf, burt, forða okkur, og eitt andartak hélt ég að það tækist, búmm, ein stika í kantinum hvarf undir bílinn okkar,.. en þetta var útilokað bíllinn var nánast í andlitinu á mér og á þvílíkum hraða. Það síðasta sem ég man og hugsaði um leið og ég heyrði sjálfan mig öskra á hinn ökumanninn,.. ég má ekki láta hann lenda inní hliðina á bílnum mínum því þá er úti um strákinn minn sem sat fyrir aftan mig.. það síðasta sem ég gerði var að ég reyndi að rétta minn bíl af og beygði á móti hinum aftur .. tíminn var úti, ég fann ekki beint höggið sem þó var gríðarlegt en bara einhvern óendanlegan hávaða eins og eitthvað hefði sprungið inní í höfðinu á mér og ég sá bara myndir sem voru eins og vídeó í slovmotion, engar tilfinningar, enginn sársauki og svo var bara ekkert meir.

Árekstur 1999-2

Það næsta sem ég veit af mér er hvar ég reyni að berjast um að losa mig, ég varð að losa mig, hvar eru strákarnir mínir, ég heyrði ekkert í þeim, sá þá ekki því ég gat mig fyrst hvergi hreyft nema hendurnar sem virtust eins og loðnar og vildu ekkert hlíða mér. Það var bara eitt allsherjar suð í hausnum á mér og eins og ég væri í rafsviði. Hnén á mér voru uppundir höku og stýrishjólið í bílnum rétt framan við nefið á mér, það var allt í mauki allstaðar og allt í glerbrotum. Ég reyndi með einhverjum fálmkenndum hreyfingum að sópa frá mér glerbrotunum, gleraugun mín, síminn minn það var ekkert þar sem það átti að vera.

Ég barðist um við að reyna að losa mig, ég varð að komast út, ég varð að finna strákana mína það komst ekkert annað að. Ég gerði mér enga grein fyrir því á þessu augnabliki hvort ég væri mikið slasaður, eins og ég hugsaði ekki einu sinni um það.

Á endanum tókst mér að losa fæturna og brölta til þannig að ég kom þeim yfir í farþegasætið því ég varð að reyna að komast út þeim megin því mín megin var engin hurð til að opna, bara eitthvert klesst hrúgald. Ég hafði svo takmarkaða stjórn á útlimunum, allt var bara dofið, en á endanum tókst mér að sparka upp hurðinni farþegamegin og ná að smokra mér út, en þegar ég náði því tók ekki betra við því ég gat ekki staðið, ég bara valt eitthvað frá bílnum, en fór strax að reyna að brölta á fætur, því nú greyp skelfingin mig meir en áður. Ég heyrði ekkert í strákunum og skelfilegustu hugsanir virtust eiga greiða leið inní annars dofinn kollinn á mér. Það var eins og heil eilífð tíminn sem leið meðan ég reyndi að koma mér á fætur og brölta að bílnum aftur. Ég datt kylliflatur þrisvar áður en mér tókst að standa upp við bílinn og opna afturhurðina.

Meðan á þessu gekk varð ég var við bílstjórann úr hinum bílnum, sem hljóp um hljóðandi með einhvern hlut af bílnum mínum í fanginu og það eina sem ég man er að ég heyrði hann hrópa eins og hann ætti lífið að leysa, fyrirgefðu, fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að gera þetta. Annað en þetta náði ég ekki að festa hugann við hann, því það var eins og hann væri af annarri plánetu, hann var ekki hluti af því sem ég var að upplifa eða berjast við. Nei ég varð að bjarga strákunum mínum ....

Árekstur 1999

Í þann mund er ég náði að opna hurðina, var eins og ég fengi einhvern hluta af heyrninni aftur, því ég heyrði skaðræðisöskur. Já þeir voru að gráta, þeir beinlínis stóðu á öndinni af ekka og gráti. Ég hef samt aldrei heyrt eins falleg hljóð, því á sama augnabliki greindi ég ólík hljóð þeirra beggja, þeir voru lifandi og ég varð að ná þeim út, strax. Á næstu augnablikum náði ég að finna að þeir voru allavega ekki stórslasaðir, bara dauðskelkaðir af hræðslu. Ég náði að losa þá báða úr beltunum og koma þeim út og frá bílnum. Guð hvað mér leið vel eins og mér var nú að byrja að líða illa í öllum skrokknum, því það var eins og ég væri allur að stífna upp, eins og vöðvarnir væru að brenna.

Ég settist með þá niður í snjóinn spöl frá bílnum og bara hélt utan um þá og reyndi að róa þá og segja þeim að þetta yrði allt í lagi. Ég man að ég reyndi að raula fyrir þá "dvel ég í draumahöll og dagana lofa ..." sem ég hafði sungið fyrir þá kvöldið áður með gítarinn í fanginu. Ég bara sat þarna og gat ekki meir, vissi ekkert hvað tímanum hafði liðið og ekki hafði ég símann til að hringja á hjálp því hann hafði alveg gufað upp. Ég var heldur ekkert alveg viss um hvar ég var, nema bara að ég gerði mér grein fyrir því að ég var talsvert frá veginum sem ég, gleraugnalaus, sá í þoku fyrir ofan okkur.

Það var því notaleg tilfinning þegar ég sá bíl koma og ungan mann úr sveitinni koma hlaupandi til okkar til að vitja um okkur. Eftir að stumra yfir okkur smá stund og ganga úr skugga um ástand okkar hringdi hann strax á hjálp og kom síðan með bílinn sinn, sem var pickup jeppi útfyrir veginn í nálægð við okkur. Hann kom okkur síðan inní hlýjuna í bílnum, mér í bílstjórasætið og strákunum við hliðina á mér. Ég var nú alltí einu farinn að hugsa um eitthvað sem engu skipti á svona augnabliki, ég bað hann að lána mér símann sinn svo ég gæti hringt í vinnuna til að látið vita af mér. Mér hefur síða verið sagt frá því símtali sem þótti nokkuð skondið. Ég kynnti mig og sagði að ég hefði orði fyrir smá óhappi og yrði eitthvað seinn í vinnuna.

Í þann mund er lögreglan og sjúkralið komu á vettvang var ég farinn að finna verulega fyrir skrokknum á mér, mig verkjaði allstaðar og ég gat varla hreyft höfuðið. Það sá þó ekkert á mér utan þess að buxurnar mínar voru rifnar á vinstra hnénu og hnéð svolítið tætt og blóðugt, en ekkert stórvægilegt. En jæja nú kom kafli sem ég gleymi seint og varð til þess að ég náði að skellihlæja við þessar annars óþægilegu aðstæður. Tveir lögreglumenn koma í humátt að bílnum þar sem við kúrðum, ég við stýrið og strákarnir að hjúfra sig við hliðin á mér og orðnir ótrúlega rólegir. Annar lögreglumanna, ungur sláni, rífur upp bílstjórahurðina hjá mér og horfir á okkur hvössum augum. Þrumar svo yfir mér, hvað ertu með drengina frammí og enginn í belti. Ég kom ekki upp neinu orði, ég bara hló og horfði á hann í einhverri undran ... Ég þurfti sem betur fer ekki að eiga frekari orðastað við hann því nú var hinn lögregluþjónninn kominn og tók um öxlina á þeim fyrri og ýtti honum hæversklega frá um leið og hann benti á flakið af bílnum okkar og sagði "æ ætli þetta sé ekki bíllinn þeirra þarna sjáðu".

Hvað er að tarna frændi minn segir hann svo næst, því þarna var þá enginn annar á ferð en hann Geir frændi minn með hlýju röddina sína. Mikið ósköp var það notalegt, því á þeirri stund fannst mér eins og okkur væri algerlega borgið.

Síðan tóku sjúkraflutningamennirnir við, sem vissu greinilega hvað þeir áttu að gera og segja við okkur. Þeir smokruðu á mig hálskraga og komu fyrir stuðning við hrygginn á mér áður en þeir tóku til við að smokra mér útúr bílnum og á sjúkrabörur sem síðan urðu ferðamátinn minn á sjúkrahúsið. Þeir virtust líka hugsa fyrir öllu um leið, reyndu að ná sambandi við mömmu strákanna svo hún frétti nú ekki af þessu einhverstaðar eða lenti í því að taka á móti okkur á sjúkrahúsinu, því þar var hún að vinna. Það náðist þó ekki í hana og þeir hringdu þá í Randa bróðir minn og báðu hann að koma og vera okkur til halds og traust er þeir kæmu með okkur á spítalann.

Strákarnir virtust ótrúlega hressir og ekkert sem amaði að þeim nema hræðslan sem engan vegin var búin að segja skilið við þá. Þeir komu með í sjúkrabílinn og þar fengu þeir strax áfallahjálp sem gagn var að því Siggi á sjúkrabílnum vissi alveg hvernig átti að tala við svona snáða og ekki skemmdi nú fyrir sjúkrabílabangsinn sem þeir fengu til eignar og átti að hjálpa þeim að passa pabba á leiðinni. Ferðin á spítalann var ótrúlega ljúf, ég bara lá þarna allur reyrður niður og horfði á andlitin á Sigga og strákunum mínum sem sátu yfir mér og Kári eldri strákurinn hélt í aðra höndina á mér alla leiðina. Þeir voru líka farnir að brosa og hlæja pínu að Sigga sem gerði þetta að ævintýraferð.

Ég ætla ekkert að fjölyrða nú um þann tíma sem tók við á sjúkrahúsinu með deyfisprautum og rannsóknum og nóttum sem ég gat ekki sofið meir en 2 til 3 tíma í einu án þess að brölta á fætur og liðka mig. Það sem stendur uppúr nú er þakklæti fyrir hvað við vorum þó heppnir í þessu óláni.

Ég verð þó að viðurkenna að stærsta sjokkið fékk ég nokkrum dögum síðar þegar ég fór og fékk að sjá bílinn minn. Við áreksturinn hafði framhornið bílstjóramegin hreinlega skafist af bílnum, framhjólið með hjólastellinu og öllu tilheyrandi hafði orðið eftir uppá veginum. Ég hafði trúlega verið á 70 - 80 km hraða þegar við skullum saman, en hraðinn á hinum bílnum var aldrei staðfestur í skýrslu en hann hafði þó greinilega verið á seinna hundraðinu þegar við lentum saman því bíllinn minn hafði kastast, án þess að snerta jörð, 15 metra út fyrir veg og um 10 metra til baka miðað við okkar akstursstefnu og hafði snúist í loftinu meir en hálfhring við höggið. Þegar ég stóð við brakið skildi ég vel af hverju ég hafði átt í þessum átökum við að losa mig. Bílstjórasætið náði ekki helming af eðlilegri breidd og bilið milli framsætanna var horfið, því svo mikið hafði bíllinn gengið saman. Mælaborðið og stýrið höfðu gengið langt aftur og upp og ég skildi nú fyrst hvernig hnéð á mér hafði verið klemmt þar á milli og sá hversvegna buxurnar mínar höfðu rifnað og hnéð á mér blóðgast, þar sem sá út í gegnum þunnt járnbrakið sem eftir var af hurðapóstinum þar sem hornið hafði skafist af bílnum. Það sem hafði líka bjargað mér, fyrir utan hvað ég er smávaxinn og nettur, var að þakið fyrir ofan mig hafði gengið upp í V þannig að frítt pláss var fyrir höfuðið. En það má guð vita að, þó fullfrískur væri, þá hefði ég aldrei getað komið mér aftur niður í þetta pláss sem ég hafði verið svo kirfilega klemmdur í. Það tók líka á að handfjatla bílstól yngri sonarins, VÍS stólinn af bestu gerð, sem hafði mölbrotnað við átökin þegar beltið reyrðist um hann. En hann hafði gert sitt gagn eins og annar öryggisbúnaður í þetta skiptið.

Strákarnir mínir voru ótrúlega fljótir að ná sér eftir þetta þó þörfin hafi lengi verið mikil fyrir að ræða þetta allt fram og til baka. Karl var svo ungur að hann man minna eftir þessu í dag en Kári, aðallega það góða úr sjúkrabílaferðinni, hann Sigga á sjúkrabílnum sem var svo góður að passa pabba og svo bangsann góða sem enn er til og nýtur virðingar. Kári hinsvegar hefur sagt mér að hann muni mest eftir því þegar þeir voru að hágráta og pabbi bara var kjur frammí bílnum og gat ekkert gert. Sjálfur veit ég ekki hve langur tími hefur líðið, en ljóst er þó að ég var meðvitundarlaus einhvern tíma og nálægt hálftíma leið frá því áreksturinn varð þar til bjargvætturinn á pickupnum kom á vettvang. Kári hefur líka sagt mér að hann muni eftir stóra kraganum um hálsinn á mér og hvernig hann hélt í höndina á mér alla leiðina til að passa mig.

Eins og ég gat um í upphafi hef ég alltaf ætlað að festa þetta á blað en sagan rifjaðist upp fyrir mér í kvöld eftir að ég bað strákana mína um að fá að fresta kvöldmatnum smá meðan ég færi í heitt bað, en það er oft bjargvættur minn nú 8 árum síðar til að liðka á mér hálsinn, hnakkann og herðarnar sem enn vilja frjósa eins og einhver haldi um mann kverkataki og ætli bara ekki að sleppa. Þá er gott að leggjast í sjóðheitt bað með nefið eitt uppfyrir vatnsborðið og láta hitann sjá um að liðka skrokkinn.

Í dag finn ég samt aldrei annað en þakklæti fyrir hve vel við í raun sluppum frá þessum hildarleik sem bara ruddist inní líf okkar svo skyndilega þennan fallega og friðsæla morgun þegar við gerðum allt eins rétt og hægt er að gera í umferðinni. Ég neita því ekki að sú hugsun hefur oft leitað á mig, hvað ef ég hefði ekki eytt öllum þessum tíma í að ganga vel frá öryggisbeltunum þeirra þennan morgun og við ekki verið að rifja upp lærdóminn hans Jóa mjóa. Hefðum við þá kannski allir farið yfir móðuna miklu, eða hefðum við kannski bara sloppið við þetta allt saman því við hefðum verið komnir yfir blindhæðina. Einhvernvegin finnst mér samt að við höfum ekki átt möguleika á að sleppa frá þessum örlögum okkar og natnin við beltin hafi því vegið þyngra.

Það sem situr eftir hjá mér sem huggun og laun fyrir allar kvalirnar sem ég hef liðið í skrokknum er að ég held að ég hafi verið miklu betri pabbi eftir en áður, því allar götur síðan hefur hver stund sem ég hef átt með þessum "strákahvolpum" mínum verið dýrmæt og ég í hjarta mínu sætt mig við það að ég fengi aldrei að vita hversu lengi við fengjum að vera hér hver fyrir annan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Það var alveg magnað að lesa þetta !! Og til hamingju með að hafa fengið að halda áfram lífsgöngunni með strákunum þínum.

Hafðu það sem best ! Ég er alveg með hroll !!

Ragnheiður , 5.8.2007 kl. 02:38

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Vá!  Já ég er sammála Hrossinu. Mögnuð frásögn. Og þessi andartök sem við heyrum aldrei um í fréttum, strax eftir svona slys. Angistin og hræðslan. Það er sorglegt að hversu varlega sem við förum er engin trygging.

Jóna Á. Gísladóttir, 5.8.2007 kl. 02:46

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Þetta er eitt af þörfustu bloggunum. Svona lífsreynsla hefur varanleg áhrif. Var einmitt að velta fyrir mér um daginn að vegirnir taka sína "tolla" á ári hverju í mannslífum, heilsu fólks bæði andlegri og líkamlegri. Þessir tollar fá frekar takmarkaða umfjöllun og sumir virðast líta svo á að það sé eitthvað eðlilegt við þá og þetta sé bara svona. En ég tel akstursmenninguna á Íslandi vera frekar hættulega og margt sem er að. Það eru oft furðulegar áhættur sem sumir taka og þarf t.a.m. að taka mikið á með aksturshraða ökumanna, sem er hættulegasti þátturinn. Það eru ákveðin forréttindi að fá að keyra og allt of oft er ekið yfir á rangan vegarhelming eða keyrt á miðlínu osfrv. Allavega, takk fyrir að deila þessari sögu.

Kv.

Ólafur Þórðarson, 5.8.2007 kl. 04:21

4 Smámynd: Fanney Björg Karlsdóttir

Takk fyrir að deila þessari reynslu... heyrist allt of lítið af akkurat þessari hlið umferðaslysa.

Fanney Björg Karlsdóttir, 5.8.2007 kl. 05:29

5 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk fyrir innlitið, þið öll, og góðar kveðjur. Mér fannst tími til kominn að deila þessari sögu og vona að svo sannarlega að hún vekji einhverja til umhugsunar um þá ábyrgð sem fylgir því að vera í umferðinni. Þó ekki væri nema til að fá einn eða eina til að hætta að efast um að bílbeltin og góðir barnabílstólar geta skipt sköpum, þá yrði það til að gleðja mig :) Það eru oft skrítnar hugsanir sem fljúga í gegnum kollinn á mér þegar ég heyri af ljótum umferðarslysum (ofsahraði, gáleysi) og les fréttirnar sem segja okkur oftast lítið eða ekkert um þau áföll sem fólk verður fyrir. Fréttir eins og "líðan ökumanns er eftir atvikum góð" eða "börnin sluppu með minniháttar meiðsl" eru setningar sem greypast í kollin á mér og ég veit að segja bara hálfa söguna af þeim hörmungum sem eru í gangi, svo ekki sé minnst á öll hin atvikin sem bæta við krossi á einhvern vegkantinn.

Aftur takk fyrir innlitið og fariði varlega í umferðinn :):)

Hólmgeir Karlsson, 5.8.2007 kl. 14:06

6 Smámynd: Margrét Ingibjörg Lindquist

Sæll kæri vinur... TAKK FYRIR AÐ DEILA ÞESSU MEÐ OKKUR... og ég er sammála því að þetta er mögnuð frásögn... þótt ég hafi þurft að stoppa inná milli til að hreinsa huga minn því að ég sjálf þekki þetta af eiginni reynslu... og að þurfa að horfa á þann sem maður elskar þjást ... hugur minn er með ykkur feðgum því ég skil syni þína mjög vel... sjálf horfði ég á minn fyrrverandi illa slasaðann og líka verið sú sem var slösuð þannig að ég þekki báðar hliðar... en sem betur fer njótum við þess að lifa lífinu lifandi í dag... nýtum hvern dag til að verða betri manneskjur... og það að lesa bloggið þitt daglega gefur mér gott innslag í það að verða betir manneskja á hverjum degi... Takk fyrir að deila þessu.. og minna mig á það sem ég má þakka fyrir...

Margrét Ingibjörg Lindquist, 5.8.2007 kl. 23:15

7 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk fyrir innlitið báðar tvær Magna og Magga. Vildi að ég gæti boðið rjúkandi nýlagað kaffi hér á blogginu þegar góða gesti ber að garði :)
Það er sorgleg staðreynd hve margir eiga slíka reynslu og þá sem ég reyndi að lýsa hér eða jafnvel miklu verri. Ég hvet ykkur báðar tvær til að skrifa um þær tilfinningar sem þið hafið upplifað, hvort sem þið birtið þær eða ekki. Fyrir mér var þetta ákveðið uppgjör að setja þetta á blað. Það er ekket langt síðan ég stoppaði á þessum stað og settist niður í þessum móum þar sem ég hafði kútrt á einhverri þúfunni með strákana mína í fanginu örmagna. Það var skrítið að upplifa því það var eins og allar tilfinningarnar, hljóðin og liktin væru þarna ennþá.

Með því að skrifa um svona hluti þá björgum við e.t.v. einhverjum frá því að þurfa að lenda í slíku af eigin raun.

Bros og kveðja

Hólmgeir Karlsson, 6.8.2007 kl. 00:55

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þakka þér fyrir þessa áhrifamiklu frásögn kæri vinur.  Það fóru allar tilfinningar á flot við lesturinn.  Merkilegt er að við svona raunir kemur eitthvað gott út úr öllu saman líka og ég er viss um að þakklæti þitt og kærleikur til drengjanna þinna hefur eflst. Ég skynja að þú ert einstakur og kærleiksríkur faðir af öllum þínum skrifum og tekur ekki guðsgjöfunum sem sjálfsögðum hlut. Kannski á þett atvik þátt í því.

Guð blessi þig vinur og litlu pjakkana þína.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.8.2007 kl. 14:00

9 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk Jón fyrir hlýja kveðju og hvatningu :) Met orð þín mikils kæri bloggvinur.

Hólmgeir Karlsson, 6.8.2007 kl. 19:44

10 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk, Hólmgeir, þessi lýsing hrærir upp í manni og minnir á það hvað skiptir máli. Mér  verður hugsað til eins nákomins sem lamaðist fyrir framan mig, börnin mín í öryggisstólum og árekstra og veltu sem ég fékka að sleppa vel úr. Við lesturinn vonaði ég innilega að þið kæmust vel út úr þessu og það var gott að heyra. Vonandi nær sagan þín augum og eyrum sem flestra, þá fjölgar slösuðum minna en ella.

Ívar Pálsson, 9.8.2007 kl. 00:46

11 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Frábærlega vel skrifað.  Ég lifði mig alveg inn í aðstæður.  Takk. 

Anna Einarsdóttir, 11.8.2007 kl. 16:00

12 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Úff...þvílík mildi að ekki fór ver. Þetta var mögnuð lesning og ég er vissum að það hefur gert þér gott á ákveðinn hátt að festa frásögnina á blað og deila með okkur hinum. Svona lífsreynslur skilja eftir ákveðin merki og minna mann á hvað er mikilvægast í lífinu. Gangi ykkur öllum vel...

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 12.8.2007 kl. 21:26

13 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk fyrir fallegar kveðjur Ívar, Anna og Katrín :)

Hólmgeir Karlsson, 14.8.2007 kl. 00:23

14 Smámynd: Margrét M

takk innilega fyrir þessa frásögn  það er allt  of lítið sem heyrist  um þessa hlið á umferðaslysum .þetta er frábærlega vel skrifað.

Margrét M, 16.8.2007 kl. 09:03

15 identicon

Sæll Hólmgeir,

Held að ég hafi aldrei lesið jafneinlæga og hjartnæma bloggfærslu. Svona lesning getur breytt fólki til hins betra. Takk fyrir.

Kveðja,
Ragnar Hólm

Ragnar Hólm Ragnarsson (IP-tala skráð) 18.8.2007 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband