Er börnum hollt að fá að vinna?

Ég hef áður vikið að því að það er okkur öllum mikilvægt að hafa hlutverk, ná árangri og vera metin fyrir það sem við erum og gerum. Með tilkomu EES samninga meiga börn/unglingar ekki vinna fyrir en við 16 ára aldur. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé hluti þess vanda sem við búum við í dag að allt of oft er rótleysi á unglingum þar sem þau fá ekki viðfangsefni við hæfi.

fimmkall

Fyrsta launaða vinnan og 5 krónur í kaup á mánuði

Sjálfur var ég svo heppinn að alast upp í sveit og fá að taka þátt í störfum fullorðna fólksins frá unga aldri. Það var ekki kvöð, heldur spennandi manndómsraun.

Fyrstu launuðu vinnuna fékk ég þegar ég var 6 eða 7 ára. Ég fékk það hlutverk sumarlangt að vera hænsnahirðir. HænsnahirðirinnÉg vaknaði á morgnanna um hálf 8 leitið, hleypti hænunum út og gaf þeim morgunmatinn. Fyrir þetta fékk ég 5 krónur á mánuði og var ekkert smá stoltur af.

Síðan leiddi eitt af öðru og fljótt urðu verkefnin fleiri. Kúasmali varð maður um leið og maður réði við að opna og loka stóra hliðinu á kúahaganum. Kominn með fulla stjórn á dráttarvél 12 ára og farinn að sjá um léttari verkin eins og að herfa eða snúa heyi. Eftir fermingu gat maður og var treyst fyrir að mjólka kýrnar.....  og ég endurtek TREYST FYRIR, það er aðal málið í þessu.

Ég stend mig að þessu sjálfur í dag að ég er ekki að treysta strákunum mínum fyrir alvöru verkefnum, því maður er alltaf að óttast að eitthvað geti komið fyrir. Of lítill til að gera þetta, of lítill til að eiga svona hættulegan hlut, eða bara of lítill til að vita hvort hann sé orðinn nógu stór til að geta þetta eða hitt.

Sjálfur eignaðist ég stóran vasahníf, flugbeittan og STÓRHÆTTULEGAN þegar ég var 8 ára að mig minnir. Afi gaf mér hnífinn og sagði að ég yrði að læra að bjarga mér.

VasahnífurinnMeð þessum hníf var hægt að tálga, skera sundur kaðla og já örugglega drepa mann líka,....  en eini munurinn var sá að hnífar voru ekki notaðir til að drepa menn, menn lærðu að notagildið væri allt annað og það átti að umgangast þá með gát. Auðvitað skar maður sig svona smá hér og þar, en maður skar sig bara almennilega í lófann einu sinni, eftir það kunni maður fullkomlega að umgangast hnífinn.

IMG_3241Hnífarnir urðu líka fleiri og myndin af þeim vekur jafnvel hjá mér hroll nú því í dag minna þeir á mynd úr myndasafni lögreglunnar.. "enn eitt glæpagengið gert upptækt". (Ísland í dag).


Stærsta manndómsraunin

Stærsta hjallann fór ég yfir þegar ég var 11 ára, nokkuð sem ég bý að enn þann dag í dag. Pabbi þurfti að skreppa í kaupstað og ég var heima. Hann bað mig að líta eftir einni kúnni sem var að nálgast burð, en ólíklegt að bæri fyrr en daginn eftir. Það gekk hins vegar ekki eftir því þegar ég kom í fjósið var kýrin lögst og komin í burðarstellingar. Ég sat yfir kúnni nokkurn tíma en gerði mér svo fljótt grein fyrir að eitthvað væri að, því ég hafði oft fylgst með slíku áður. Framfæturnir voru komnir í ljós og kýrin rembdist með miklum stunum, en ekkert gekk. Nú voru góð ráð dýr og ekki hægt að ná í pabba til að hjálpa kúnni. Ég varð að gera það sjálfur því kálfurinn myndi aldrei lifa þar til Pabbi kæmi heim.

Ég reyndi fyrst að toga í kálfinn þegar kýrin rembdist en allt var fast. Það var ekki um annað að gera, ég snaraði mér úr peysunni og bolnum sem ég var í og fór með hægri hendina inn til að leita að höfðinu á kálfinum. Hjartað sló hratt þegar ég fann að höfuðið á kálfinum lá afturmeð skrokknum, því ég vissi að svona gæti kýrin aldrei fætt kálfinn. Vá, já ég var pínu einn í heiminum, en nú var að duga eða drepast, ég varð að bjarga kálfinum. Eftir stimpingar við að ýta kálfinum til baka þannig að ég næði í granirnar á honum til að snúa höfðinu, sem að lokum tókst, varð ég að hjálpa kúnni með því að toga kálfinn út ef þetta ætti að takast, því kýrin sjálf var orðin máttfarin.

Ég man að ég tók á öllu sem ég átti, lá flatur fyrir aftan kúna og spyrnti fótunum í flórbrúnina, og togaði allt hvað ég gat þegar kýrin rembdist. Og að lokum hafðist það, kálfurinn kom og ég endaði með hann ofaná mér liggjandi í flórnum hinum megin. Og já eftir smá stund rak hann upp gaul sem var einsog fegursta mússík í eyrum mér á þessu augnabliki.

kýrNú var bara eitt eftir, að koma kálfinum til kýrinnar svo hún gæti karað hann. Ég gat náttúrulega ekki haldið á kálfinum, lítið stærri en hann sjálfur. En ég náði að velta honum uppá strigapoka og draga hann uppí jötuna til kýrinnar.

Það voru fagnaðarfundir og fyrst sleikti kýrin okkur til skiptis mig og kálfinn, enda ekki vanþörf á því við vorum ámóta slímugir báðir og ég of þreyttur til að koma henni í skilning um að hugsa bara um kálfinn. Já ég bý að þessu enn, ekkert verk er of stórt til að reyna minnsta kosti ekki að leysa það áður en maður gefst upp.

 

En hvað er til ráða, hvað eiga börnin að fá að gera í dag?

Ekki sendum við alla í sveit, enda sveitin orðin allt öðruvísi í dag, allt orðið miklu meira tæknivætt og fá störf eftir sem henta börnum og unglingum. Í samfélaginu er ekki val um neitt annað en nokkra klukkutíma á dag í vinnuskóla í einhverjar vikur á sumri. Vinna sem því miður allt of oft fær gagnrýni fyrir að vera agalítil og einnig tilgangslítil. Hangt er yfir að raka einhverja grasflöt sem krakkarnir vita vel að hægt væri að raka með vél á örskotsstund svo eitthvað sé nefnt.


"Þróunarsetur unglinga" og "Í vinnuna með pabba eða mömmu".

Af hverju nýtum við ekki styrkleika krakkanna, sem eru tölvur og tækni. Krakkarnir sem eru að vaxa úr grasi í dag tilheyra fyrstu kynslóðinni sem hefur tileinkað sér tölvutæknina frá barnæsku og hefur mikla færni og án efa miklu meiri færni í slíku en starfsfólk almennt í atvinnulífinu. Hafa lært að umgangast tölvuna sem eðlilegan og sjálfsagðan hlut og takast því á við flókin verkefni óttalaust.

Stofna mætti eins konar þróunarsetur unglinga, sem tæki að sér verkefni fyrir fyrirtæki og einstaklinga yfir sumarmánuðina og þá skipti ekki máli hvort viðkomandi væri 12 ára eða 16 ára. Viðkomandi gætu ráðið sig til að sinna verkefnum sem væru við hæfi hvers og eins.

Önnur leið sem ég held að gæti verið farsæl er að unglingar fengju tækifæri til að fara í vinnu foreldra sinna eða nákominna og taka þar þátt í einhvern ákveðinn tíma. Þetta hefur verið prófað, en bara sem einn dagur. Sæi þetta fyrir mér í sama anda og fæðingarorlofið, sem hluta af rétti launamannsins að taka börnin með til vinnu einhvern ákveðinn tíma.

Efast ekki um að einhver fussi yfir þessu og segi að þetta sé ekki hægt, hvað á t.d. dóttir skurðlæknisins að gera, á hún kannski bara að æfa sig með gamla sveitahnífnum þínum sem þú varst að gorta af hérna áðan :) ... nei ég býst ekki við því, en kannski væri hún bara búin að tryggja sér vinnu á þróunarsetrinu eða hjá bróður skurðlæknisins, hver veit :)

Þetta er ekki mótuð hugmynd af minni hálfu en ég er þess fullviss að það væri af hinu góða að auka möguleika unglinga til hóflegrar þátttöku í atvinnulífinu og okkar daglegu störfum miklu fyrr en nú er. Það hlýtur að vera mögulegt að lögleiða fleira en vændi til að leysa vanda komandi kynslóða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég held að iðjuleysi fari mjög illa með fólk ... það er enginn að tala um vinnuþrælkun á börnum, heldur hafa þau gott af því að fá ekki allt upp í hendurnar! Rosaleg sagan um kálfinn sem þú tókst á móti, flott hjá þér!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 25.3.2007 kl. 23:06

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Yndisleg saga af kálfinum. Ég hef oft sagt að börn geta allt af því að þau vita ekki að þau eiga ekki að geta það.  Við erum oft allt of iðin við að innprenta börnum takmarkanir.  Þú mátt ekki, þú getur ekki, þú skilur ekki og kannt ekki.  Það er hræðilega rangt því að ég held að með slíki verði maður valdur að því að takmarka möguleika þeirra í lífinu.

Ég sé ekki fyrir mér litla skrifstofumenn í jakkafötum að ráðleggja um tölvur, en að sjálfsögðu á að leyfa þeim að njóta kunnáttu sinnar þar. Færni þeirra á því sviði er að sennilega vegna þess að við látum þau alveg eiga sig í að finna út úr þessu, af því að við höfum ekki hundsvit á því sjálf. Engar hömlur og höft.

Ég trúi því að nálægð barna við náttúruna sé þeim afar holl og það að fara í sveit eða í unglingavinnuna, sé upplifun, sem þau búi að án þess að við sjáum þess bein merki í þroska þeirra.  Að leyfa börnum að taka þátt og reyna; að sýna þeim traust og gera hluti með þeim, er það sem ég allavega hugsa til með mestri ánægju á æskudögum mínum. Ég fór á sjáo með pabba á rækju og skak frá 8 ára aldri og alltaf hafði ég hlutverki að sinna og hafði traust og ábyrgð...maður með mönnum.  Það er ég alltaf þakklátur föður mínum fyrir. 

Jón Steinar Ragnarsson, 27.3.2007 kl. 02:16

3 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Bros til ykkar beggja fyrir innlitið:)

Já mergurinn málsins, við þurfum að láta eftir okkur að trúa á börnin okkar, treysta þeim og hvetja til góðra verka. Setningin þín Jón "börn geta allt af því að þau vita ekki að þau eiga ekki að geta það" nær fullkomlega til mín.

Hólmgeir Karlsson, 27.3.2007 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband