RÚV - fyrstu útsendingarnar á Norðurlandi

Ég man það eins og gerst hefði í gær þegar sjónvarpið kom fyrst hér fyrir norðan, nokkrum árum eftir að útsendingar hófust í borginni. Ég var þá 8 ára snáði og spennan var mikil.

IMG_3170

Á þessum árum var ljósmyndaáhugi minn einnig vaknaður og ég hafði eftir nokkurt suð eignast forláta eldgamla myndavél sem ég fékk að sýsla með. Myndavélin var Altissar og notaði 6 x 6 filmu (tréspólu). Vélin virkaði furðu vel eftir að afi heitinn hafði gert við hana handa mér með því að útbúa annað af keflunum, sem filman lék eftir inni í vélinni þegar trekkt var, úr ónýtri pennafyllingu.

Með þessa vél að vopni hóf ég óbilandi ljósmyndaáhuga minn sem hefur fylgt mér allar götur síðan, með nokkrum hléum þó.

En aftur að RÚV og fyrstu útsendingum þess í sveitinni. Pabbi var búinn að festa kaup á forláta Sierra sjónvarpstæki einum tveim mánuðum áður en útsendingarnar hófust. Þetta var svarthvítt sjónvarp í veglegum viðarkassa, sannkölluð mubla í þá daga.

RÚV 1

Nokkrum vikum áður en eiginlegar útsendingar hófust var send út ein mynd á ákveðnum tíma dags svo nýir sjónvarpsáhugamenn gætu nú stillt og prófað tækin sín. Þetta var ljósmynd af húsinu Sigurhæðum á Akureyri.

Þetta var spennandi, já alveg ótrúlega spennandi. Kvöld eftir kvöld var sest niður til að horfa um stund á þessa mynd á skjánum, í þessu undratæki sem greinilega ætlaði að breyta veröld lítils drengs úr venjulegu sveitalífi í framandi nýöld með heiminn inná stofugólfi, og það án þess svo mikið sem að standa uppúr stólnum.

Ég hugsa stundum til þess í dag, ekki eldri en ég er, hvað það var í raun stórkostlegt að hafa fengið að upplifa þetta, fæðast ekki bara inní ofurtæknivædda peningaveröld okkar dags.

Hvað gerði svo ungur ljósmyndaáhugamaður við þessar aðstæður, jú þetta var auðvitað allt fest á filmu. Tilbúinn daginn sem útsendingarnar hófust með myndavélina nýhlaðna af 6 x 6 tréspólufilmu voru fyrstu augnablik í útsendingum Ríkissjónvarpsins í sveitinni fests á filmu. Vélin stillt á ljósop 16 og með lokunarhraða 1/25 sek sem var nógu hægt til að fanga flöktandi myndina á skjánum.

RÚV 2   RÚV 3

Fyrst eru þessar glæsilegu skjámyndir með merki sjónvarpsins og síðan klukkan á Herðubreið. Þetta var alveg yndislegt og litli ljósmyndarinn var sveittur í lófunum og ætlaði ekki að missa af neinu.

RÚV 4

 

Hér má sjá fyrstu þuluna sem birtist á skjánum, glæsileg kona ekki síður en þulurnar sem verma skjáinn í dag.

Söguritun var kannski ekki það sem var efst í huga unga ljósmyndarans á þessum árum og verð ég því að viðurkenna að ég man ekki nafn þulunnar, frekar en nafn prestsins hér á eftir. En ef einhver rekst hér inn á bloggið mitt sem getur fyllt í þær eyður þætti mér vænt um það.

 

 

 

RÚV 5   RÚV 6

Þetta var sannkölluð helgistund. Allir sátu grafkyrrir í stofunni og mændu á skjáinn sem hafði verið komið fyrir uppá stóru kommóðunni hennar mömmu í stofuhorninu.

RÚV 7

 

 

Síðan var að sjálfsögðu barnaefni á dagskránni. Ég vona að ég muni það rétt að þetta sé hún Rannveig.

 

 

 

 

 

Síðan var lesinn kafli úr bókinni "Suður heiðar" eftir Gunnar M. Magnús og teikningar birtar á skjánum meðan á lestirnum stóð. Veröldin gat ekki orðið meiri og betri, þetta var fullkomið.

RÚV 8   RÚV 9

Læt þetta duga af þessari upprifjun úr barnshuganum sem hefur varðveist eins og eitt af mörgum augnablikum sem aldrei gleymast. Ég hef reynt að segja strákunum mínum frá þessu og þeir hlusta af athygli en eiga samt erfitt með að setja sig í spor þessa unga ljósmyndara, sem er þó bara svo örstutt síðan var svona ungur :)

...   síðan kemur bara flóð af spurningum, eins og "Pabbi var þá ekkert til að horfa á áður en þetta þarna svarthvíta kom á kommóðuna hennar ömmu" ...  "Var hægt að tengja eitthvað við sjónvarpið" ....  hvað meiniði? ...  "æ..i pabbi auðvitað Pleystation eða flakkara" ...  "kommmonn varstu þá bara í bíló eða bangsimon leik allan daginn...." ... "Vá maður og kunnir ekki að gúggla neitt eða redda þér á ensku til að dánlóda öllu sem er eitthvað skemmtilegt ..."  Ókey pabbi við skiljum alveg að þú eigir ennþá dúkkuna þína hana Glóbjörtu og bangsann og fallegu órispuðu bílana sem við fáum stundum að leika með þegar við nennum ekki að nota neitt af dótinu okkar og það er ekkert skemmtilegt á neinni sjónvarpsrásinni og tölvan og pleyi ekki alveg að gera sig ...... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Vá Hólmgeir! Flottar myndir og flottur pistill!!

Heiða B. Heiðars, 23.3.2007 kl. 01:43

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Æ, hvað þetta var yndisleg færsla.  Hugurinn fór með mig á flug til fortíðar.  Við áttum Körting sjónvarp og á öllum jólamyndum það árið er fjölskyldumeðlimum stillt upp við hliðina á sjónvarpinu.  Fyrstu vikurnar var stofan full af krökkum að horfa, því við vorum með þeim einu í götunni, sem áttum tæki. Þegar texti birtist þá lásu hann allir upphátt í einum kór. Þetta voru mikil undur.

Fyrsta sjónvarpsþulan var frænka mín (bróðurdóttir pabba) Ása Finnsdóttir, sem gift er Jóhannesi Long ljósmyndara. Maður var nú ansi monntinn með það og er raunar enn.

Mannstu eftir þáttunum um Belfígor? Það voru skelfilegir franskir hryllingsþættir um draugagang á Louvre safninu. Ég losnaði ekki við martraðirnar í mörg ár. 

Takk fyrir þetta ferðalag vinur.  

Jón Steinar Ragnarsson, 23.3.2007 kl. 02:40

3 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk Jón Steinar, já auðvitað er þetta Ása Finnsdóttir. Frænka þín, enn gaman, bloggheimurinn er þá líka litill eins og stóri heimurinn :) ,.....  en já Belfígor ,... veistu það fór hrollur um mig ,. því það eina sem ég man er að mamma var að reyna að hugga mig hágrátandi um miðja nótt eftir einhvern draum sem var svo skelfilegur .......  Það var ekki horft á fleiri þætti af því á þeim bænum.
Ég vil milku frekar minnast Dýrlingsins og Bonansa feðganna, það er hollara fyrir sálina.

Hólmgeir Karlsson, 23.3.2007 kl. 02:47

4 Smámynd: Margrét Ingibjörg Lindquist

Þú ert náttúrulega soddan dúlla... Ef það má kalla karlmann það... mig langar mest að knúsa þig þegar ég les skrifin þín... hehehee já ég er eitthvað meir... hehehee.. það verður að fá að vera þannig stundum...

Guð verndi þig og þína ...  

Margrét Ingibjörg Lindquist, 24.3.2007 kl. 00:26

5 Smámynd: Margrét Ingibjörg Lindquist

já.. ég á eingar svona minningar því á það var ekki sjónvarp á mínu heimili fyrr en ég var um 12 ára gömul... 

Margrét Ingibjörg Lindquist, 24.3.2007 kl. 00:28

6 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Hæ Magga Lind  og takk fyrir hlý orð og "ritknús"...  það má alveg kalla karlmenn dúllur. Allavega hlýnar mér um hjartaræturnar við slíkt frá góðum bloggvin

Hólmgeir Karlsson, 24.3.2007 kl. 16:03

7 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Mig rámar helling í þetta ... og líka það að Kaninn var kominn heima á Akranesi og við áttum sjónvarp. Urðum strax háð Felix the Cat. Í fárviðri á laugardagsmorgni næstum því drápum við pabba með að grenja hann upp á þak til að laga loftnetið. Man ekki hvernig það fór ... með teiknimyndina sko. Dobba, næstum því mágkona mín, sem á barn með bróður mínum, er ein af yngri systrum Ásu Finnsdóttur. Heimur minnkandi fer. Takk fyrir frábæra færslu og skemmtilegar myndir!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.3.2007 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband