8.2.2007 | 22:09
Ef þið segið engum frá ...
Ef þið segið engum frá, þá skal ég segja ykkur frá ævintýrum mínum í gærkvöldi og seinnipartinn í dag og kvöld. Þið verðið að lofa!? ... annars megið þið ekki lesa meira, því ég gerði mig að svo miklu "fífli"
Þannig er að ég á þrjá hesta, sem er svo sem ekkert í frásögur færandi, nema þá helst fyrir þá sök að ég er eiginn hefðbundinn hestamaður. Ég fer aldrei á bak eða svoleiðis, hjól og bílar og hlaupaskórnir mínir hafa einhvernveginn alltaf hentað mér betur í það að komast milli staða, en hver veit hvað verður. Ég hef hins vegar óskaplega gaman af að hafa skepnur hjá mér og er hinn ágætasti hirðir þó ég segi sjálfur frá.
En ef ég nú manna mig uppí að segja ykkur af hrakförum mínum, þá var það svo að á meðan ég var í vinnu í gær hefur einhver verið svo elskulegur að fara um hlaðið hjá mér og opna hliðið á hestahólfinu, sem er víggirtur rafgirðingarheimur hrossanna minna sem þau hafa nánast ekki komið útfyrir á sinni ævi. Og viti menn þeim datt náttúrulega það snjallræði í hug að fara að skoða heiminn.
Ég frétti af þessu þegar nágranni minn, elskulegur, hringdi í mig seint í gær og sagði að séðst hefði til hrossanna og annar hjálplegur nágranni þegar búinn að fanga tvö þeirra og koma í öruggt skjól á næsta bæ. En einn hestinn vantaði og því var ekki um annað að ræða en hefja leit þegar ég komst heim úr vinnunni. Hestinn fann ég eftir langa göngu í 14°C frosti í sortanum í gærkvöldi, en kall var þá kominn í stórt hrossastóð uppundir fjalli á næsta bæ. Ég gat nálgast hann eins og hann væri heima en þegar ég ætlaði að taka hann og færa heim fannst honum það ekkert sniðugt. Hann var bara vanur því að þessi vinur hanns (ég) gæfi honum að borða, en að svifta hann nýfengnu frelsinu var allt annað mál. Upp gafst ég og fór heim í svarta myrkri þegar ég var næstum búinn að missa alla puttana við að reyna halda í vininn meðan ég kæmi á hann múl.
En nú byrjar ævintýrið fyrir alvöru, því eftir vinnu í dag fór ég aðra ferð og hafði með mér "alvöru" hestamann til að hjálpa mér. Til að gera langa sögu stutta, þá gerðist þetta næstu 4 klukkustundirnar. Ekki var hægt að ná hestinum í þessum stóra hóp svo við tókum á það ráð að ná honum í litlum hluta hópsins frá stóðinu og reka heim á bæ nágrannans. Þetta gekk allt svo vel að ég var ekki í vafa um að guð hefði sent mér marga hjálparsveina til að klára verkið.
Við vorum glaðir og hróðugir þegar við vorum búnir að koma hestunum inní rétt heima á bænum og létt verk framundan að taka hestinn minn úr þessum litla hóp og setja hann inn meðan við skiluðum aftur hópnum til fjalls,...... en nú kemur það sem þetta allt snýst um ,.... hesturinn minn var ekki í hópnum, .. þar var bara einhver sem var "soldið" líkur honum og ekki einusinni neitt sérstaklega líkur honum, var bara allt annar hestur ,.... ÚBS! .. og nú skiljið þið örugglega af hverju ég skrifa svona langan texta um þetta,.. er hreinlega að vona að þið séuð hætt að lesa. "Er hægt að vera meira flón"?.. ég bara spyr.
Síðan skiluðum við náttúrulega hestunum til baka í sitt hólf við fjallið og þar hitti ég aftur vininn minn, sem glotti framan í mig þar sem myrkrið var að skella á og ekkert hægt að aðhafast meira þann daginn. En ég gefst ekkert upp, safna bara nýju liði á morgun og sæki kauða, jebb! ...
Það góða við þetta allt var hinsvegar það að ég labbaði einhvern töluverðan slatta af kílómetrum úti í náttúrunni og mikið hrikalega var það gott, það var bónus dagsins. Þó verkefnið sé allt eftir þá líður mér ótrúlega vel, líkamlega þreyttur en ekki bara andlega úrvinda eins og eftir alla hefðbundnu dagana í amstrinu. Og það sem meira er ég get hlakkað til að endurtaka þetta allt saman aftur:)
En ég viðurkenni samt að mér fannst ég "soldið" mikið fífl þegar ég varð að segja vini mínum sem var að hjálpa mér að þetta væri fallegur hestur, en bara ekki hesturinn minn.
Athugasemdir
Hm, ekki orð - en mikið dj... held ég þetta hefði getað komið fyrir mann sem býr á austurbakkanum! En hann hefur vit á því að eignast ekki hross.
Valdimar Gunnarsson, 8.2.2007 kl. 22:24
.... þakka stuðninginn, mér líður miklu betur núna
Hólmgeir Karlsson, 8.2.2007 kl. 22:30
Ég lofa að segja eingum... Bara á milli okkar... Þetta ert ekki þú heldur er hesturinn svona klókur að koma sér í dulargervi eða undann... líttu á það þannig... Vel uppalinn... Góða skemmtun í lappitúrnum á morgunn...
Margrét Ingibjörg Lindquist, 9.2.2007 kl. 18:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.