Fórnarlömb Byrgisins - hræðileg saga

Ég hélt sjálfur að komið væri nóg af umfjöllun um málefni Byrgisins þar til ég í gærkvöldi las viðtal við Ólöfu Ósk Erlendsdóttur í Vikunni, stúlkuna sem þorði að stíga fram og vitna gegn Guðmundi í Byrginu. Þetta er í einu orði sagt hræðilegt hverning hægt er að misnota fólk sem í góðri trú leitar sér skjóls og hjálpar til að taka á eigin vanda.

VikanÉg hef aldrei verið dómharður maður og ekki viljað nota stór orð um hluti og allra síst þá sem ég er ekki aðili að, en hér hafa hræðilegir og óafsakanlegir hlutir gerst. Sorgleg afleiðing þess að við (samfélagið) erum ekki á vaktinni.

En hvað getum við gert?

Ég hef reyndar lengi verið þeirrar skoðunar að allt starf sem lítur að bæði forvörnum og stuðningi og hjálp við einstaklinga sem lent hafa í ógöngum líkt og skjólstæðingar Byrgisins eigi að vera hluti af okkar heilbrigðiskerfi og á föstum fjárlögum frá ríki. Slíkt starf þarf miklu meiri athygli bæði í formi fjármagns og faglegrar vinnu en nú viðgengst.

Staðir eins og Byrgið ættu einfaldlega ekki að geta verið til. En um leið og ég segi þetta vil ég taka fram að mikið af því sjálfsprottna starfi sem fram fer í samfélaginu er unnið af heilum hug og á alla jákvæða athygli skilið og allra síst að vera sett undir sama hatt og dæmt með Byrginu.

Það sem mestu skiptir hér í mínum huga er að þetta er samfélagslegt mál okkar að taka á og koma í þann farveg að ekki þurfi að óttast að slíkir hlutir geti gerst.

Sú sorglega staðreynd blasir við þessari stúlku að ekki er einungis búið að misnota hana gróflega og brjóta niður hennar viðleitni og ósk um að byggja sig upp til að takast á við lífið, heldur hefur hún einnig misst stóran hluta sinna eigna.

Látum þetta mál okkur varða og höldum umræðunni áfram þannig að eitthvað raunhæft verði gert af stjórnvöldum til að sporna við ógæfu sem þessari.

Óska Ólöfu Ósk alls hins besta og vona að hún finni sína leið til bata eftir þessar hremmingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

ER ekki búinn að lesa vikuna....en þetta mál er hræðilegt og ef að þeir sem valdið hafa standa sig þá á þetta allt ekki að geta gerst...eða hvað. Vonum að slíkt gerist ekki aftur

Júlíus Garðar Júlíusson, 25.1.2007 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband