Ráðaleysi stjórnvalda er að verða okkur dýrkeypt

Ég skrifaði víst í síðustu færslu minni að ég ætlaði ekki að fjalla um kreppuna, en ég get bara ekki látið hjá líða að taka upp nokkur mál sem verða að fá eðlilega og réttláta umfjöllun og meðferð. Viðskiptaráðherra hefur verið tíðrætt um það allt frá fyrsta degi að "allir muni sitja við sama borð" og "að fyllsta jafnræðis verði gætt" ... Ég gef ekki mikið fyrir þessar þunnu klausur í dag, sem hafa frá upphafi verði sagðar af algjöru ábyrgðarleysi og sennilega fáfræði ráðherrans. Það sem ég verð að benda á nú er eftirfarandi:

1) Peningamarkaðssjóðir Landsbankans, Kaupþings og Glitnis

Þessir sjóðir hafa nú verið greiddir út og fengu t.d. þeir sem áttu í peningamarkaðssjóði Landsbankans greitt út 68,8% af virði sjóðanna eins og það var þegar lokað var fyrir viðskipti með sjóðina. Viðskiptaráðherra hefur margsinnis sagt að nýju ríkisbankarnir hafi keypt upp sjóðina á viðskiptalegum grundvelli. Raunin er hins vegar allt önnur, því af sjóðum Landsbankans stóð ekki eftir nema um 30% af virðinu og ríkið því lagt fram mismuninn við útgreiðslu sjóðanna. Þekki ekki hver hlutföllin voru í sjóðum hinna bankanna, en staðreyndin hér er sú að ríkið hefur lagt fram stórar upphæðir af almannafé til að bæta þessa sjóði til að draga úr tapi þeirra sem þar áttu inni fé. Þetta er svo sem allt í lagi út af fyrir sig en þó fátt sem réttlætir að bæta þetta tap frekar en tap annarra sem átt hafa fé í sjóðum annarra fjármálastofnana, sjá lið 2.

2) Spron, MP-fjárfestingabanki, Byr og Íslensk Verðbréf

eru líka með sambærilega peningamarkaðssjóði sem rýrnað hafa verulega í virði við hrun bankanna þriggja. Ríkið hefur ekkert komið að þessum sjóðum til að bæta þeim sem þar eiga sparnaðinn sinn. Til að fá stærðarsamhengi á þetta þá námu sjóðir Landsbanka, Kaupþings og Glitnis 250 milljörðum króna en samanlagðir sjóðir litlu fjármálafyrirtækjanna fjögurra um 20 milljörðum. Hvar er jafnræði viðskiptaráðherra í þessu máli? Á sama hátt mætti spyrja hvers vegna ríkið ákveður að bæta eignirnar í peningamarkaðssjóðum þrotabankanna þriggja  frekar en að bæta séreignarlífeyrissparnað landsmanna í þessum sömu stofnunum. Jafnræði !? Kannski er eina svarið það að ríkisstjórnin hafi ekki séð aðra leið eftir allar þær yfirlýsingar sem höfðu dunið yfir landsmönnum um að þetta væri ekki tapað fé og yrði tryggt að fullu.

3) Lán einstaklinga og fyrirtækja sem nýju ríkisbankarnir yfirtóku, þá sérstaklega í erlendri mynt

Hér er stórt mál á ferð einnig, því nýju ríkisbankarnir yfirtóku engar erlendar skuldir gömlu bankanna. Ríkisbankarnir keyptu hins vega kröfurnar af gömlu bönkunum og skulda ekkert bak við þessi lán í erlendri mynt. Erlendu lánir halda hins vegar áfram að bólgna út vegna áframhaldandi falls krónunnar og eru nú í mörgum tilfellum að nálgast tvöföldun frá því dansinn byrjaði. Þessu til viðbótar þá munu nýju bankarnir hafa keypt kröfurnar með stórum afföllum.

Því segi ég: í stað þess að vera að kyrkja bæði heimilin í landinu og fyrirtæki þá ætti ríkið réttilega að færa þessi lán yfir í íslenska mynt í samhengi við þær upphæðir sem bankarnir í raun greiddu fyrir kröfurnar. Ég get vel ímyndað mér að eðlilegt gengi væri sem dæmi EUR = 110 en ekki yfir 170 eins og nú og hef ég þá ekki tekið tillit til þess að kröfurnar hafi verið keyptar á niðursettu verði. Hvers vegna ætti svo sem ríkið og nýju bankarnir að græða á að reikna þessi lán áfram á erlendu gengi þar sem allra skuldbindingar að baki eru í íslenskum krónum. Hér þarf svör og aðgerðir strax.

 

Læt þetta duga í kvöld þó ég gæti skrifað langan pistil einnig um ranga stefnu í gengismálum og vaxtastefnu sem er úr öllu samhengi við það sem er að gerast.

Bros í bloggheima :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Góðar og athyglisverðar pælingar

Rúnar Haukur Ingimarsson, 16.11.2008 kl. 23:10

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Frábær pistill Hólmgeir.

Sorry... en ég var svo búin á því í gær að ég nái ekki að kíkja á þetta.

Snilldarpistill.

Heiða B. Heiðars, 19.11.2008 kl. 21:31

3 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Ekki málið Heiða :) .. langaði bara að koma þessu á framfæri við þig, takk.

Takk fyrir kommentið Rúnar :)

Hólmgeir Karlsson, 19.11.2008 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband