Kolefnisjöfnum samviskuna !?

Ég verð að viðurkenna að ég er næstum því búinn að fá grænar bólur af öllu þessu tali og auglýsingum um að vera góður við náttúruna með því að hola niður nokkrum trjáplöntum í hvert sinn sem maður "sullar útúr" einhversstaðar í náttúrunni eða mengar eins og það heitir. Ekki það að ég er umhverfissinni á þann hátt að ég vil að við komum vel fram við náttúruna og nýtum auðlindir hennar af skynsemi. Umgöngumst hana eins og við höfum hana að láni frá afkomendum okkar eins og ágætur fræðimaður hefur orðað það.

trees2

Mér finnst þetta bara einfaldlega ódýr lausn og í henni felst einnig augljós stéttaskipting. Þeir ríku geta fengið að menga og borgað það bara til baka með því að einverjir lálaunamenn (bændur) eru til í að planta fyrir þá til að kvitta fyrir ósómann. Aðal málið er auðvitað að við þurfum að menga minna. Við eigum líka að halda áfram að rækta landið, en ekki bara af því að við kaupum með því syndaaflausn.


TreesÉg fór líka að velta því fyrir mér í hvaða stöðu ég væri sjálfur sem á þónokkurn skóg sem afi minn plantaði að mestu og síðan fleiri og síðast ég. Þetta er skógur sem ekkert hefur verið mengað útá sérstaklega. Má ég þá vera extra sóði ef ég skrái það á skóginn minn?

Svo var ég líka að grisja skóginn minn í dag, fella tré, ubs ... (drepa nokkur lítil kolefnisgrey) og þá fór ég að hugsa .... Ætli ég verði þá ekki bara að labba í vinnuna á morgun?, því ekki kolefnisjafna þau meira.

Þetta markaðsvædda skyndilausnasamfélag okkar er stundum alveg að fara á límingunum og við gleymum því að það er til samhengi í hlutunum. Í þessu tilviki er ekki einu sinni víst að það sé hollt að planta trjám í náttúruna hvar sem er, sumstaðar eru þau einfaldlega lýti á náttúrunni og flokkast þá undir umhverfisspjöll. Við verðum líka, ef við ætlum að kvótasetja náttúruna á þennan hátt, að vera tilbúin að horfast í augu við það að tækifæri til skógræktar er takmörkuð auðlind sem umgangast ber sem slíka og er í samkeppni við annan landbúnað og fæðuöflun víða um heim.

Bara smá hugleiðingar þar sem ég hef svo lítið bloggað og er með eitthvert frelsisæði eftir að ég kláraði skólann minn nú í vikunni ..Wink.. Tounge

Bros í bloggheima


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Velkominn aftur til bloggsamfélagsins og til hamingju með verðskuldað frelsi.

Ég er sammála þér í þessu öllu. Og það er skemmtilegt hvernig þér hefur tekist að finna gott orð yfir þetta. Syndaaflausn.

Jóna Á. Gísladóttir, 1.7.2007 kl. 22:02

2 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk Jóna :)  já frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil ....
En nú er ég orðinn einn í kotinu, strákarnir farnir í sumarfrí til mömmu sinnar í 4 vikur. Eins og lífið liður hratt (sbr. bloggið þitt) þá virðist þetta samt vera óendanlega langur tími þegar maður er vanur að hafa þessa "orma" kringum sig alla daga.

Hólmgeir Karlsson, 2.7.2007 kl. 21:35

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég fæ sömu velgju og þú við að heyra þessar hræsnisfullu auglýsingar. Það er ótúlegt tómahljóð fávisku og sjálfhverfu í þessu.  Nú öndum við frá okkur Co2...verður maður þá ekki að koma sér upp garði til að kolefnisjafna samviskubitið yfir því að vera til?  Kannski er lífræni áburðurinn, sem við skilum af okkur nægileg jöfnun?  Allavega verð ég að finna viðhorf til að lifa með þessari staðreynd að ég lifi og selja mér og öðrum þá réttlætingu eins dýrt og mér er unnt.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.7.2007 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband