Hvað eru lífsgæði? - afturhvarf til náttúrunnar er það svarið!?

Já margir spyrja sig efalaust í dag í hverju raunveruleg lífsgæði felist. Er það að vinna allan sólahringinn og stundum við að endurtaka sömu eða sambærilega hluti aftur og aftur, eignast fullt af pening til að eyða svo í að kaupa sér alls konar afþreyingu, tæki og tól sem geta hjálpað okkur að slaka á og skemmta okkur og fullnægja á ofurhraða á þeim skamma tíma sem eftir er í sólahringnum.

Picture 045

Mér datt bara í hug að byrja þessa bloggfærslu á þennan hátt því í þessum orðum felst kannski mikið af hvatanum fyrir því hve mikill áhugi er að verða víða um heim á náttúrulegum uppruna matvæla og annarra þeirra lífsgæða sem við sækjum í til mótvægis við eða hvarfs frá nútíma hraða þjóðfélagi sem er svo upptekið af að láta alla keppast um hylli, færni, tæknistig og hag hvers annars.

Þessi mynd hér er frá litlum Sænskum sveitabæ þar sem búa tvær fjölskyldur sem fluttu af mölinni fyrir nokkrum árum og eiga nú 12 mjólkandi kýr, nokkra hesta og fullt af heilbrigðum börnum. Heima á sveitabænum búa þau til sína eigin osta og selja til veitingahúsa, ferðamanna og annarra sem sækjast í slíka vöru.

Ég var sem sagt að koma úr fyrstu ferð sem tengist samnorræna verkefninu sem ég tek þátt í og ég bloggaði um hér fyrir nokkru "Småskaliga ostproduksjon" http://hk.blog.is/blog/hk/entry/298384/
en verkefnið snýst um að gera slíka framleiðslu öruggari útfrá sjónarmiði um matvælaöryggi. Slík framleiðsla sem á árum áður var mjög venjuleg og hluti af lífi fólks hefur að miklu glatast, en þegar fólk ætlar að taka vinnubrögðin upp á ný þá samræmast þau oft illa þeim kröfum sem nútíma samfélag gerir.

Á tveggja daga fundi í Uppsala í Svíþjóð kom saman um 20 manna hópur frá norðurlöndunum og hófst handa við verkefnið sem hefur sem markmið að gera slíka framleiðslu öruggari, ná saman mikilvægri þekkingu sem hjálpað getur slíkri handverksframleiðslu að ná fótfestu á ný, byggja upp eins konar þekkingarsamfélag milli fólks á norrænum slóðum um slíka framleiðslu og um leið að tryggja varðveislu gamalla aðferða. Hluti hópsins fór einnig í heimsóknir á tvo bóndabæi í Svíþjóð sem eru með eigin ostaframleiðslu. Það fór því lungað úr vikunni í þetta hjá mér og það var svo sem ekkert auðvelt í miðri skólatörninni minni, en allt bjargast þetta þó einhvernvegin :)

Picture 002

Við fórum tvö úr Eyjafirðinum ég og hún Beate Stormo, bóndi og handverkskona í Kristnesi. Ég sem mjólkurfagmaðurinn og Beate sem áhugamaðurinn um slíka framleiðslu, en hún og hennar maður hafa þegar látið til sín taka í ýmsu er tengist gömlu handverki og menningu tengt matargerð.

Fyrir utan smá ævintýri á leiðinni út var ferðin öll hin ánægjulegasta og margt spennandi að sjá og upplifa. Við lögðum upp frá Akureyri á mánudaginn og ætluðum til Uppsala í Svíþjóð um kvöldið. Til að hægt væri að komast alla leið á sama degi flugum við um Kaupmannahöfn og þaðan til Stokkhólms og ætluðum þar í lest til Uppsala og að endingu í rútu á herragarð í nágrenninu þar sem fundurinn átti að vera. Smá seinkun varð á fluginu okkar til Stokkhólms sem varð til þess að þegar við komum á Arlanda voru allar lesta að hætta að ganga og í hátölurunum hljómaði að síðasta lest til Stokkhólms færi eftir 3 mínútur. Hálf ráðvillt hoppuðum við upp í lestina en komumst síðan fljótt að því að Uppsala væri í hina áttina, en hvað um það þetta var síðasta lestin sem var í boði á flugvellinum. Þegar við svo komum til Stokkhólms tók ekki betra við því það var búið að loka lestarstöðinni og ekkert hægt að ferðast meir. Klukkan var farin að ganga tvö og við á röltinu í miðbæ Stokkhólms þar sem ekkert virtist opið nema einn pöbb sem átti að loka kl þrjú. Við tylltum okkur þar um stund og veltum því fyrir okkur hvort við ættum bara að sitja þar og ráfa svo um göturnar þar til lesarnar færu að ganga aftur kl 5 um morguninn. Þó pöbbinn væri ágætur og við í hinu besta ferðaskapi ennþá ákváðum við samt að við yrðum nú líklega frekar rislá daginn eftir ef við gætum ekkert sofið. Því hófst nú leit að hóteli sem á endanum gekk upp og við gátum sofið góða 3 tíma áður en við þustum af stað aftur um morguninn. Það stóð heima við mættum á svæðið á herragarðinum utan við Uppsala 20 mín yfir átta en þar átti dagskráin að hefjast kl hálf níu :) samt svona pínu þreytt ...

Picture 031

Picture 012

Þennan dag heimsóttum við tvo bóndabæi sem framleiða ost úr eigin mjólk. Á fyrri bænum sem við komum til Väddö Gårdsmejeri var framleiddur ostur úr hluta af mjólkinni en sumt fór til "stóra"  mjólkursamlagsins. Nokkrar gerðir af ostum voru í boði og á staðnum var einnig lítil ostabúð.

 

Picture 016

Hér má sjá osta á lagernum.

Picture 027

Kýrnar á bænum voru allar af Sænsku fjallakúakyni "Fjällkor" en þær kýr eru minni en Sænskar ræktunarkýr og mjólka einnig til muna minna. Þetta er gamall náttúrulegur kúastofn sem líkist mjög Íslensku kúnum, fallegar marglitar kýr.

Flestir sem fást við slíka handverksframleiðslu velja fjallakúna þar sem það þykir gefa vörunni sannari uppruna og meiri gæði.

Picture 041

Á seinni bænum hittum við fyrir tvær bóndakonur sem einnig bjuggu með fjallakýr. Þar á bæ var framleiðslan lítil í sniðum, aðeins 10 mjólkurkýr en öll mjólkin notuð til ostagerðar og framleidd um 4 tonn af osti á ári. Stefnan var að fjölga í 12 kýr og láta þar við sitja, því þar á bæ var áherslan lögð á að hafa nógan tíma til að sinna sér og sínum. Herramennirnir á bænum voru líka bara látnir sækja vinnu annað til að fylla í þegar á vantaði.

Picture 034

Mjólkurvinnslan hafði verið innréttuð í endanum á fjósbyggingunni.

 

 

Picture 043

 

Hér má sjá sýnishorn af ostaframleiðslunni á bænum.

 

 

 

Næstu tvo daga tóku svo við fundahöld þar sem tekist var á við að skilgreina verkefnið betur og hefja vinnuna. Mörg sjónarmið komu fram og því augljóst að langt er í land að allir verði sammála um hvað sé nauðsynlegt til að tryggja hreinlæti og rétt vinnubrögð við slíka vinnslu. Í hópnum voru Svíar, Norðmenn, Íslendingar, Hollendingur og Frönsk kona.

Picture 046Picture 047

Ekki á heldur bara að fjalla um slíka ostagerð í smáum stíl á bóndabæjum heldur á einnig að skoða "Fäboden" í Svíþjóð og "Sætre" í Noregi en þar eru skepnur mjólkaðar á sumrin undir berum himni og ostur framleiddur úr mjólkinni.

Eins og gefur að skilja þá á nútíma regluverk erfitt með að samþykkja slíka framleiðslu jafnvel þó hún eigi sér árhundraða sögu og hefð.

Picture 062

 

Það var komið haust í Svíþjóð og skítkalt, en ferðin var samt öll hin skemmtilegasta þrátt fyrir það. Eins og svo oft þá situr mest eftir fólkið sem maður hitti á þessu flakki og tengingarnar sem þegar er búið að mynda til að skiptast á fróðleik.

Hvert þetta verkefni leiðir verður svo bara að fá að koma í ljós.

 

Langaði bara að koma þessu á bloggið mitt áður en ég gleymdi því, en nú verð ég að halda mig við efnið í skólanum mínum sem beið mín með verkefnahrúgu þegar ég kom heim ...

Bros og góðar kveðjur í bloggheima :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég drakk þessa færslu í mig. Skemmtilega uppsett og áhugaverð. Húsið á fyrstu myndinni, þetta rauða sem horft er á út um glugga, minnir á sögur Astrid Lindgren sem eru Þeim Einhverfa svo hugleiknar um þessar mundir.

Mig langar í ost

Takk fyrir að gefa okkur glimt af þér mitt í öllum önnunum. Gangi þér sem allra best með skólaverkefnin.

Jóna Á. Gísladóttir, 28.10.2007 kl. 02:58

2 Smámynd: Margrét Ingibjörg Lindquist

uuummm ...   já mig langar líka í OST... ég fæ vatn í munninn og braðlaukarnir þenjast út... vá hvað  þetta hlítur að hafa verið gaman. 

Gangi þér vel með allt hitt sem er í gangi hjá þér... 

Margrét Ingibjörg Lindquist, 28.10.2007 kl. 21:33

3 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk fyrir innlitið Jóna og Magga, og takk fyrir góðar kveðjur :)

Já Jóna þessi bóndabær var alveg eins og klipptur út sögunum hennar Astrid Lindgren. Myndina tók ég út um glugga á smíðakofanum sem hefði alveg getað verið sá sem Emil var svo oft lokaður inni í.

Ég er frekar lélegur á bloggrúntinum þessa daga en sendi bara hlýjar kveðjur í staðinn  ..

Hólmgeir Karlsson, 28.10.2007 kl. 22:41

4 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

þetta hljómar mjög áhugavert, ég finnl íka fyrir þessum mikla áhuga hérna í dk. það hafa líka komið svo mörg dæmi um sjúskun í matvælum, illa meðferð á þeim dýrum sem er verið að framleiða, og mikið að lyfjum og þess háttar sem í raun er ekki vitað hvaða áhrif hafa á okku í framtíðinni. við erum ásamt nokkrum öðrum með okkar eigin eplaplantekru þar sem allt er að sjálfsögðu lífrænt. við fáum epli fyrir vetruinn, og eplamost, sem er algjörg æði. þetta er bara eitt að því fá sem við hérna í litla kotinu gerum til að fá sem besta fæðu fyrir okkur og börnin okkar. þetta er alveg örugglega framtíðin. ég ætla að senda manninum mínum lík á þetta blogg, hann er sérstaklega áhugasamur og svona mál. kokkur er hann.

takk fyrir þetta.

AlheimsLjós til þín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 29.10.2007 kl. 09:47

5 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Takk fyrir innlitið báðar tvær Steina og Magna :) Alltaf jafn notarleg kommentin ykkar ...

Steina þetta er mér líka mikið hugðarefni, þó gæluverkefni sé, því meðan ég vann við þróun á mjólkurvörum sjálfur hafði ég alltaf að leiðarljósi að varðveita náttúrulegan uppruna mjólkurinnar, lágmarka meðhöndlunina og nýta sem mest það sem hún hafði uppá að bjóða án auka- og gerfiefna sem eru algjörlega ónauðsynleg við slíka framleiðslu, þar með talin gerfisæta og önnur sambærileg efni sem eru einnig mjög umdeild og ekkert hefur í raun samþykkt nema miklir peningahagsmunir sem þar eru að baki. En ég gæti skrifað langar ritgerðir um það, þó ekki væri minnst á allar markaðsblekkingarnar eins og í hollustu á mörgum morgunkornsvörunum sem eru fátt eitt annað en kolvetni og viðbætt vítamín og steinefni svo dæmi sé tekið, en sleppi því nú :)

Takk Magna fyrir skólahvatninguna, ekki veitir af því ég er að drekkja mér í verkefnum þessa dagana, en þetta gengur samt mjög vel og er gaman. Ég er líka alveg að nálgast lokin núna, bara rúm vika eftir ;)

Hólmgeir Karlsson, 29.10.2007 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband