Atburðir dagsins - að kunna að umgangast fólk sem FÓLK

Ég ætla ekki að skrifa langan texta um atburði dagsins, umskiptin í borginni. Það eitt vil ég um þetta segja að ég er afar sáttur við niðurstöðuna eftir það sem á undan er gengið.

Um vinnubrögðin og það sem margir hafa sagt í hita leiksins mætti skrifa heila revíu, en svei mér ef forsætisráðherra sjálfur lagðist ekki manna lægst í ummælum sínum um nýjan meirihluta er hann kallaði hann "ömurlegri útgáfu af R-listanum" í sjónvarpsfréttum í kvöld. Svona segja menn einfaldlega ekki í æðstu ábyrgðarstöðum. Slík ummæli skaða engan nema þann er þau mælir.

Sjálfur hef ég verið hlynntur samstarfi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þar sem ég tel þessa flokka bæta hvorn annan vel upp og skapa eðlilegt frelsi í viðskiptum í samfélagi sem gætir jafnræðis og félagshyggju. Nokkuð sem Sjálfstæðisflokknum einum myndi seint auðnast á sinni einkavæðingar- og sjálfhyggjubraut. Í dag varð bláminn einfaldlega of mikill.

En hvað var það sem gerðist í dag? Jú það sem gerðist var einfaldlega það sem gengur frá allri samvinnu og samböndum af hverju tagi. Sterkari aðilinn sagði að allir væru sáttir ef allir gerðu bara eins og hann einn vildi og hefði ákveðið. Þessi yfirgangur fráfarandi borgarstjóra, einfeldni og hroki í garð samstarfsmannsins Björns Inga Hrafnssonar og raunar um leið hluta hans eigin liðsmanna varð honum að falli og það svo skyndilega að hann var sjálfur bara undrandi á atburðarrásinni.

Það er svo annar kafli að fjalla um atburðarrásina gagnvart orkufyrirtækjunum þar sem einkavæðing á almannafé er orðið eitthvað sem menn telja sig geta gert í bakherbergi og komi engum öðrum við, ekki einu sinni þeim sem hafa verið kosnir til að fara með umboð borgaranna.

Það er því ekki ástæða til að vorkenna Vilhjálmi mikið í þessari stöðu.

Um leið og ég óska nýjum borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, allra heilla vil ég segja að maður dagsins er Björn Ingi Hrafnsson, sem lét sannfæringu sína og hag borgarbúa ráða en ekki valdið.
Hef fulla trú á að þessi nýi meirhluti geti betur en hrakspár mæla fyrir um.

Bros í bloggheimana nýja :)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

AlheimsLjós til þín

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 12.10.2007 kl. 21:17

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Við höfum enga tryggingu fyrir því að hrakspárnar reynist ekki réttar.  Þetta eru algerlega fáheyrðar hrókeringar og ég efast um að menn gætu leyft sér þetta í bananalýðveldum án þess að fólkið æmti.  Ég trúi því ekki að fólk ætli bara að láta sér þetta lynda.  Það er of mikið í húfi til þess og of mörg vafaatriði óleyst.

 

Ég vil  kosningar eins og þegar um venjuleg stjórnarslit er að ræða.  Báðir aðilar eru sekir í því klúðri sem var orðið.  Þessi aðgerð minnihlutabrotanna, sem ekki hafa neinn málefnagrunn, er ekki á nokkurn hátt viðleitni til að leysa þá kreppu, sem lá til grundvallar, heldur mun dýpka hana og valda stjórnleysi.  Björn Ingi tók ekki þessa ákvörðun af eigin stjórnkænsku heldur undir þrýstingi óviðkomandi hagsmunaafla og viðurkenndi Alfreð m.a. í útvarpsviðtali í dag að hafa verið með í ráðum.

Þetta er valdarán samviskulausra tækifærissinna, sem hafa gerst uppvísir um að hagræða sannleikanum.  Að vara samstarfsaðila ekki við þessu plotti, sýnir að enginn vilji var til að leysa kreppuna. Aðalatriðið var að þjóna þeirra eigin egói og framagosahætti.

Það getur ekki verið samkvæmt lýðræðisreglum, það sem átt hefur sér stað. Við ættum að hefja formlega undirskriftasöfnun, til að knýja á um kosningar. Það væri lýðræðislegt. Þessa gúbba kaus enginn. Í aðdraganda slíkra kosninga ætti líka að vinnast tími til að ræða í hörgul það siðferði, sem gilda skal við viðskiptahrókeringar og einkavinavæðingu á almannaeignum.  Það hefur enginn botn fengist í það enn og þessi aðgerð var bara til að svæfa þá umræðu og kasta ryki í augu kjósenda.

Út með þennan skríl! Lýðræðið lifi.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.10.2007 kl. 21:30

3 Smámynd: Margrét Ingibjörg Lindquist

vá hvað ég vildi að ég skildi allt þetta "sandkassa-skítkast" sem er búið að vera í gangi í samfélaginu þessa dagana... ég skil ekki hvernig fólk getur leift sér að tala svona um samferðafélaga sína í starfi... ég kann ekki að tala illa um fólk og ég fer hjá mér þegar aðrir koma svona fram... Ég vil bara að líðræði og réttlæti ríki hér í landi.. hver getur það veit ég ekki ... sem betur fer er ég erlendur ríkisborgari og þarf ekki að taka ákvörðun á kosninga dag nema í mínu sveitafélagi... því að mér finnst póletík meira eða minna spillt og leiðindar fyrirbrigði sem gerir fólk af valdagráðugu og peningahyggu fólki sem gleymir því að vera til fyrir sig og sína... það gleymir að það er að taka ákvarðanir sem hefur áhrif á alla hina... hver hefur rétt á því að taka endalausra ákvarðanir um peningana mína t.d. einginn nema ég... en það er ekki þannig ... maður fær hvergi að lifa í friði... þá meina ég að fá að lifa í FRIÐI frá samfálgi og álagi sem það setur á mann... 

Vá... úff.. ég ætla ekki að tja mig meira um þetta ... mér verður óglatt...

en Hólmgeir... ritknús...

Margrét Ingibjörg Lindquist, 12.10.2007 kl. 22:24

4 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Já Jón Steinar, það eru örugglega ekki öll kurl komin til grafar í ferli sem er sennilega nánast einsdæmi í því sem við viljum kalla lýðræði. Rétt hjá þér að Alfreð virðist hafa gengið aftur og tosað í spotta ....

Það sem er í raun leiðinlegast við þetta allt er að aðal markmiðið virðist vera að grípa tækifærið til að fella, og til að komast að. Málefnin eru svo sem ekki mikið uppi á borðinu. Ég er þér hjartanlega sammála að eftir slíka ringulreið ættu borgararnir að fá að velja sér forystu á ný alveg eins og þegar boðað er til kosninga til Alþingis við kreppu sem leiðir til stjórnarslita.

Ég væri alveg til í að leifa Sjálfstæðisflokknum að halda um stýrið því sá flokkur er um margt með heildstæða sýn á þjóðfélgaið, en einn hængur er þó þar á sem hefur sýnt sig undan farin ár og það er hvernig fé er deilt út til fárra í gegnum einkavæðingu á ríkisfyrirtækjum. Duldar eignir og styrkur fyrirtækjanna kemur svo fyrst fram þegar búið er að skrá félögin á markað og nokkrir prinsar græða stórt.

Þetta nýjasta mál með orkufyrirtækin toppar þó allt í vitleisunni í mínum huga. Ekki það að ég er mjög hlynntur þessari útrás sem er mikil framsýni og ég tel einnig að það sé rétt að sameina kraftana með samruna útrásarfyrirtækjanna. En það skondnasta í þessu er að það er allt í einu búið að henda inní þetta, bara svona óvart einu af innlenfu orkufyrirtækjunum, og í uppjhafi ferilsins poppar Bjarni Ármannsson upp eins og einhver góðgerðarmaður og fjárfestir fyrir ,5 M eins og ekkert sé sjálfsagðara þó ekkert hafi verið til sölu eða ákvarðanir teknar um einkavæðingu. Hvað gerist svo ??? þegar farið er að vinna með málið frekar og kominn verðmiði á pakkann þá er sami Bjarni allt í einu búinn að hagnast um hálfan milljarð. Next step er svo að meta virði starfsmanna og nokkrir einga að fá að fjárfesta áður en skriðunni verður hleypt af stað. En ubbs þeir ná ekki að græða neitt mikið því það var dregið til baka í stjórnarupplausninni, en fjárfesting Bjarna stendur óhreifð ...

Ég held það sé kominn tími til að menn fari yfir pakkann frá grunni og kanni hvað var löglegt að þessum gjörningum frá upphafi. Ég tel að ráðamenn sem tóku ákvörðun um þá sölu hafi í raun ekki haft neinn rétt til að selja.

En so vat,...  ég styð undirskriftasöfnunarhugmyndina þína.

:) og kveðja

ja og Magga, ef allir hugsuðu eins og þú þá væru bara ekki svona vandamál í gangi :)

Hólmgeir Karlsson, 12.10.2007 kl. 23:23

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Björn Ingi sjálfur fékk kauprétt upp á 3 millur á undirverði.  Hver heldur þú að trúi krókódílatárum hans, sem vita um alla þætti þessa máls?  Ég ætla ekki að draga dám af neinum einum flokk hér, en víst var að hér varð alger trúnaðarbrestur milli leiðtoga borgarinnar og fólksins. Svona á heldur ekki að standa að hlutum, hver sem gerir það.  Allir eru sekir sem syndirn og kosningar ættu að vera næsta skref.  Þeir eru síst með hreinan skjöld, sem eftir sitja.  Lýðræði núna...strax!

Jón Steinar Ragnarsson, 13.10.2007 kl. 01:52

6 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Jæja var það svo Jón Steinar. Ég hef þá verið full fljótur á mér að hæla honum Birni Inga. Þetta er sennilega minn veikleiki að vilja alltaf sjá fyrst það góða í fólki þar til annað kemur í ljós .... hummm.

Nú hentar honum líklega bara gamla vögguljóðið:
Farðu að sofa xxxxxx þitt,
svartur í augum.
Farðu í fúlan pytt,
fullan af xxxxxxx"

x in, æ bara kunni ekki við að skrifa sum orðin, he he :)

Hólmgeir Karlsson, 13.10.2007 kl. 15:12

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hehe.  Leirulækjarfúsi hittir naglann á höfuðið.  Minnir að hann eigi þessa vísu.  Önnur góð barnagæla:

Farðu að sofa blessað barnið smáa.

Brúkaðu ekki nokkur djöfuls þráa.

Haltu kjafti, hlýddu og vertu góður.

Heiðra skaltu föður þinn og móður.

Þessi eftir Fúsa er kannski meira hæfandi tilefninu:

Varast skaltu er vits fær gætt

til vonds að brúka hendur.

Það er gervöll þjófaætt

það sem að þér stendur.

Móðir og faðir furðu hvinn

frændur allir bófar.

Ömmur báðar og afi þinn...

Allt voru þetta þjófar.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.10.2007 kl. 21:59

8 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Hæ Jón :)  Jú ég held hún sé eftir Fúsa,...
and the missing words are "svínið" og "draugum".

Kannast við þessa fyrstu sem þú kemur með, því afi heitinn fór stundum með hana ef honum fanst strákapjakkarnir ekki hafa fylgt ritúalinu með að fara í háttinn :)

Mikið assgoti áttu Spaugstofumenn góða greiningu á ferlinu í kvöld ...

Hólmgeir Karlsson, 13.10.2007 kl. 23:12

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Já, þeir eiga heiður skilinn. Engin hlutdrægni heldur var öllum velt upp úr eigin saur, sem´þeir áttu auðvitað skilið. Vona að fólk láti ekki staðr numið fyrr en öll kurl eru komin til grafar.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.10.2007 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband